Nýr tími Bandaríkja Norður Ameríku

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Tímaskil urðu í heiminum 20. janúar. Tímabili lyganna lauk og nú er runninn upp tími til að segja satt um menn og málefni. Tímabil sundrungar, aðgreiningar og sérhyggju er að baki og mikilvægt að gott fólk taki til hendi og sameinist um að leggja góðu lið.

Hvað tekur við er óljóst. Nýs forseta í Bandaríkjunum bíða mörg menningarleg og pólitísk lækningaverekfni. Mér sýnist Jo Biden vera það sem drengirnir mínir kalla “góður maður.” Hann nýtur þroska þungbærrar lífsreynslu og visku sem er hert í eldi ára og átaka. Hann hefur ekki tapað hugsjónum heldur hafa þær hreinsast í eldi tímanna. Biden leggur áherslu á menningarlega brúarsmíði, frið, samvinnu hópa og stuðning við þau sem eru útundan og jaðarsett. Og rætur varaforsetans Kamala Harris kvíslast um heimsbyggðina og næra sýn hennar og köllun. Bandaríkin eru sviðin en eftir eld getur gróskutími hafist.

Innsetningarathöfnin við þinghúsið var einföld en heillandi. Mikil tímamót að kona er varaforseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Glerþakið var tjakkað upp. Lady Gaga söng þjóðsönginn með stæl. Ekki skemmdi kjóllinn hennar og friðardúfan sem minnti á dúfu Picasso. Amy Klobucher smitaði gleði yfir að eldurinn væri slökktur og nýr tími fæddur. Vettlingar og föðurland Bernie Sanders vermdu og skemmtu. Ræða Jo Bidens sannfærði mig um að stefna hans er skýr og að stjórnsýslan verður skilvís en ekki lemstruð af bræðisköstum síðustu ára.

Þetta var ekki bara byrjun heldur líka útfararathöfn. Af öllu sem sagt var og gert á þessari innsetningarhátíð var ljóðið sem Amanda Gorman samdi og flutti það sem sannfærði mig um opnun. Hún nefndi vanda og verkefni, litaði og færði til, lokaði og opnaði. Í frelsi skáldsins hreif hún, úðaði þori. Það er frjálst fólk sem yrkir og gengur svo vasklega inn í nýjan tíma. Ljóð Gorman sem er að baki þessari smellu. Fíkjutré Biblíunnar hafa skotið nýjum rótum.

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Til hamingju Bandaríki með Kamala Harris og Jo Biden. Myndin var tekin um kl. 16 þegar innsetningarathöfnin í Washington var að hefjast.