Jesús í Hallgrímskirkju

Þegar komið er inn í Hallgrímskirkju og horft til hægri blasir við Jesústytta Einars Jónssonar (1874–1954). Hann lauk gerð hennar á afmælisdegi sínum 11. maí árið 1946 og gaf síðan Hallgrímskirkju listaverkið árið 1950. Styttan var fyrstu árin í kapellunni sem var neðri hluti kórs kirkjunnar. Þegar Suðursalurinn var tekinn í notkun sem guðsþjónusturými árið 1974 var styttan flutt þangað og var við hlið altarisins. Kirkjuskipið var tekið í notkun árið 1986 og þá var Kristsstyttan flutt inn í kirkjuna. Mismunandi skoðanir voru meðal safnaðarfólksins hvar hún ætti að vera. Sumir vildu að hún yrði í kórnum og var deilt um hvort hún ætti að vera úr gifsi, marmara eða eir. Aðrir vildu að Kristsstyttan yrði neðan þrepa við kórinn. Að lokum var ákveðið að best færi á að hún yrði í vesturhluta kirkjunnar. Þar myndar hún helgirými, heilsar þeim sem koma í kirkjuna og kveður með kyrrlátri helgi þau sem fara út.

Trú Einars Jónssonar

Eftir efasemdartímabil í æsku varð Einar Jónsson trúmaður á fullorðinsárum. Trúarheimspeki alls konar, dulspeki og guðspeki, hafði mikil áhrif á list hans og hugsun. Í ritum Einars má sjá hve mikils hann mat Jesú Krist og taldi hann farveg fyrir ástaráhrif Guðs. Einar leitaði löngun að inntaki og kjarna birtingarforma lífsins. Í fjölda listaverka leitaðist Einar við að sýna það sem býr að baki ásýnd eða yfirborði. Erindi Einars og listar hans voru að opinbera dýpri sannleika, innri veruleika, kjarna efnis og anda. Einar málaði margar myndir af Jesú Kristi. Í þeim og skúlptúrum Einars er Jesús Kristur fulltrúi hins mesta og besta í veröldinni og þar með Guðs. Ásjónur Jesú eru ásjóna hins upphafna og hreina guðsfulltrúa og þannig er Kristsmynd Hallgrímskirkju. Jesús Kristur stendur með krosslagðar hendur sem er tákn um þjónustu við Guð og köllun til starfa. Því hefur Kristsmyndin verið tengd við skírn Jesú í Jórdan. Svipuð Jesúmynd er í páskaverki Einars sem hann gerði eftir að hann lauk Kristsmynd Hallgrímskirkju (1946-47). Þar er Jesús Kristur með krosslagðar hendur einnig.

Ásjóna og hendur

Hver var fyrirmynd andlits Jesú? Fyrirmyndin var ekki mennsk, en Einar heillaðist af því andlitsfalli sem Tórínó-líkklæðið opinberaði. Það var trú margra að það hefði verið líkblæja Jesú. Klæðið vakti mikla athygli um og eftir aldamótin 1900. Einar var ekki að leita að eftimynd eða ljósmynd af Jesú heldur mat hann gildi hins stíliseraða, handanmenska andlitsfalls klæðisins. En hendurnar eru íslenskar. Þegar Einar var að gera Kriststyttuna árið 1945 var hópur af ungum mönnum að vinna í garðinum hjá honum og Einar bað um að einn unglinganna sæti fyrir. Sá var Guðmundur J. Guðmundsson, síðar verkalýðsleitogi. Hann sagði síðar í dagblaðsviðtali. „Ég var náttúrulega ekki fyrirmyndin að andlitinu en hendurnar, framhandleggirnir og hálsinn eru nákvæmlega eins og á mér. Ekki einu sinni ljósmynd væri líkari,“[i]

Klæði og kletturinn Pétur

Kufl Kristsstyttunnar er líkur stíliseruðum klæðum á öðrum styttum Einars. Styttan er há og hæðin þjónar túlkun ofurmennis sem hægt er horfa upp til. Fingur og fætur eru einnig langir og vekja tilfinningu fyrir ofurstærð. Kristsstyttan stendur á bjargi og Einar meitlaði ekki aðeins kletta, t.d. stuðlaberg, heldur þótti merkilegt að íhuga merkingu kletts og tengslin við Pétur postula Jesú. Undirstaða skipti Einar alltaf miklu máli.

Jesúmyndir

Hallgrímskirkja er Jesúhús. Kveðskapur Hallgríms, Passíusálmarnir, beina sál, hugsun og lífi til Jesú, píslar hans og fyrirmyndar. En Jesúmynd Hallgríms er ekki áberandi í listaverkum eða skreytingu kirkjunnar. Kristsmynd Einars Jónssonar er ekki Jesúmynd Hallgríms. En myndin af Jesú er ekki ein. Engin veit hvernig Jesús leit út en meira er vitað hvað hann var og gerði fyrir menn. Mennirnir trúa – eða trúa ekki – með margvíslegu móti. Jesúmyndirnar eru tengdar afstöðu, skynjun, eigindum og túlkun fólks.

Jesús Kristur guðspjalla Biblíunnar er boðaður í Hallgrímskirkju í orði, söng, fræðslu og list. Einnig Jesús Hallgríms Péturssonar. En þar er líka er Jesúmynd Einars Jónssonar. Íslensk kristni á sér heimili í þjóðarhelgidómi Hallgrímskirkju. Þó myndirnar séu margvíslegar er Jesús Kristur þó einn – og kallar til allra sem koma, líka í kyrru og upphafinni tilbeiðslu Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Myndskeið þessarar íhugunar og kynningar Kristsstyttunnar er að baki þessari smellu. 

11.11.2020

[i] https://timarit.is/page/1525258#page/n11/mode/2up