Vatn í veröldinni

Dagurinn er 22. mars, dagur vatnsins en líka afmælisdagur móður minnar. Hún þakkaði fyrir og blessaði vatnið og bar djúpa virðingu fyrir fegurð þess og hlutverki. Vatnið er æðakerfi lífsins og mennskunnar. 

Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát, sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn – af slöngubátnum – og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom síðan úr djúpinu og hló við sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppuðu niður brekkurnar og föðmuðu aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá flæddi yfir bakka og allur hinn mikli dalur varð vatnaveröld. Mér þóttu merkileg stíflumannvirkin, sem bændurnir í dalnum höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi.

Í hjarta og sinni

Þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskólaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatnið hefur aldrei farið mér úr sinni en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannski hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt fjölda barna. Ég hef útdeilt víni, sem er mestu leyti vatn, í altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig. Vatn er dýrmæti heimsins og ekkert lifir án vatns. Við erum öll vatnsfólk. Og erum af vatnsfólki komið. Afi minn var vatnspóstur í Reykjavík. „Þetta kemur allt með kalda vatninu,“ var sagt. Og það er mikilvægt og varðar í raun allan heiminn.

Vatnið og sagan

Vatn hefur verið lífgjafi en líka valdur að dauða í sögu okkar Íslendinga. Stórár eru á landi og flóð hafa orðið. Í eldgosum hafa mikil flóð myndast, t.d.  þegar gosið hefur í Mýrdalsjökli og Vatnajökli. Í Kötlugosi getur vatnsflóðið orðið með mestu fljótum heims. Íslendingar hafa sótt sjó og á fyrri öldum létu hlutfallslega fleiri látið lífið á hafi en í styrjöldum annarra þjóða.

Vatn er stórmál í Biblíunni og hvernig má annað vera þar sem þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs voru sífellt að glíma við þurrk og fá nægilegt vatn fyrir sig og búsmala sinn. Vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatn til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.  Og hvað er prestur að skipta sér af vatnsmálum, sem mörgum þykja vera fyrst og fremst spurning um pólitík? Trúin hefur alltaf eitthvað að segja um stóru mál lífsins. Guðfræðin og þmt siðfræðin reyna að skoða mál skipulega og móta ígrundaða stefnu á forsendum kærleika og ástar sem kristnin kennir við Guð.

Við erum vatn

Þegar við fæðumst erum við að þremur fjórðu hlutum vatn – og við erum blaut það sem eftir lifir æfinnar. Ef við ofþornum deyjum við og hið sama gildir um flestar lífverur. Líf allra manna á öllum tímum og alls staðar er háð vatni. Ekkert annað kemur í stað vatns. Vatnið umlykur Jörðina, er í gufuhvolfinu, andrúmsloftinu. Það er regnið, sem bylur á okkur þegar rignir og snjórinn sem hvíttar tilveru okkar í frostatíð. Vatn flæðir í lækjum, ám, vötnum og neðanjarðar. Það er í hafinu, í jöklum á landi og í vötnum. Það gufar upp og dansar upp í andrúmsloftið, myndar ský og þar með hina stórkostlegu hringrás sem íklæðir Jörðina. Vatnið er ekki bara klæði Jarðarinnar, heldur líka undraefnið, blóðið og fjallamjólkin í æðakerfi heimsins sem nærir líf hinnaar bláu plánetu.

Vatn Jarðar 1,4 milljarðar rúmkílómetra

Samtals er vatn Jarðarinnar 1,4 milljarðar km3, í sjó, neðanjarðar, í öllu rennandi vatni heimsins, ís og jöklum og andrúmslofti. Vatnskerfi Jarðarinnar minnkar ekki eða stækkar því andrúmsloftið hindrar að vatn flæði út í geiminn. Nærri 97% vatns er saltvatn í sjó. Ferskvatn er tæplega 3%, um 35 milljón km3.[i]Megnið af ferskvatni er neðanjarðar eða frosið. Innan við 1% vatns jarðarinnar myndar hringrás vatns, um 11 milljón km3 eða nærri 0,77% vatns. Það er því fyrst og fremst rigning og snjókoma sem endurnýja og hreinsa vatnsbirgðir jarðarkúlunnar. Það eru því aðeins 34 þúsund rúmkílómetrar sem nýtast mönnum og lífi sem endurnýjanlegar birgðir vatns. Megnið af nýtanlegu ferskvatni heimsins er svonefnt grunnvatn og er í iðrum jarðar. Það eru grunnhlotin, sem ekki hreyfast mikið vegna þess að berg lokar þetta vatn inni eins og skálar eða poka neðanjarðar. Ofankoma bætist ofan á þessar vatnsbirgðir og yfirflóðið eru gjarnan í lindum. En til eru lokuð vatnskerfi, sem ekki bætist í vegna ofankomu. Þegar farið er að bora niður á þessa grunnvatnsgeyma og dælt upp úr þeim hefur víða verið gengið harkalega á birgðirnar. 

Vatnsskortur

Íslendingar búa yfirleitt ekki við vatnsskort en hins vegar getur komið fyrir, vegna sérstakra aðstæðna eða áfalla, að vatn spillist.[ii]En vansskortur er verulegur og ógnvænlegur víða um heim. Þegar hver maður fær til nota minna en eitt þúsund rúmmetra á ári er um vatnsskort að ræða.[iii]Vatnsstreita ríkir á þeim svæðum þar sem vatnsnotkun er umfram 25% hinna endurnýjanlegu vatnsbirgða.[iv]Veigamikil ástæða vatnskreppu er mannfjölgun. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 80 milljónir. Vatnsnotkun jókst alla tuttugustu öldina tvöfalt á við fjölgun fólks. Ástæðan var stóraukin iðnaður, orkuöflun og óhófleg vatnsnotkun og jafnvel sóun í hinum ríku hlutum jarðarkringlunnar. Á næstu áratugum má búast við, að mannfjölgun verði mest í suð-austur Asíu og Aríku sunnan Sahara. Mannfjöldinn leitar í borgirnar og þær munu jafnvel tvöfaldast frá 2020 til 2030.[v]Þessi mikla mannföldaaukning mun ganga á vatnsbirgðir og ef heldur svo fram sem horfir verður gengið freklega á grunnvatnsbirgðir sem ekki ná að endurnýjast. Ef vatn þverr mun fólk deyja eða halda út í óvissuna og gríðarlegir mannflutningar verða inn á vatnsríkari svæði veraldar,t.d. Evrópu og Ameríku. Um 2 milljarðar fólks býr við vatnsskort eða um fjórðungur mannkyns. Í Norður Afríku og Vestur Asíu býr um 60% íbúa við vatnsskort og búast má við miklum áföllum og fjöldadauða á þessum svæðum þegar að sverfur.[vi]Með loftslagsbreytingum hefur ástand vatnsmála sums staðar versnað mjög. Sjúkdómar hafa breiðst út og barnadauði hefur aukist. Fráveitumál eru víða í ólestri og menga vatnsból, ár og læki um víða veröld.

Grunnvatn

Megnið af ferskvatnsbirgðum heimsins er grunnvatn, sem er um sextíu sinnum meira en yfirborðsvatn.[vii]Grunnvatn rennur um jarðveg og gljúpt berg og myndar gjarnan risastór stöðuvötn og yfirborðsvatn rennur í og fyllir upp ef grunnvatn rennur einhvers staðar úr. Þessi stóru vatnsgímöld eru kölluð grunnvatnshlot. Sum þeirra eru lokuð af neðanjarðar og njóta engrar eða lítillar aðveitu að ofan. Grunnvatn er oftast ósýnilegt en yfirborðsvatn sést. Ef grunnvatn flæðir er það á hægri hreyfingu en yfirborðsvatn flæðir hratt. Um helmingur ofankomu fer í læki, ár og fljót, en helmingur ofankomu gufar upp á jörðinni. Þegar grunnvatnsgeymar fyllast flæðir vatn út í lindum, uppsprettum. En þegar dælt er úr grunnvatni er hætta á að dælt sé meira en sem nemur áfyllingu ofankomu. Hættan er að vatnstakan breyti því jafnvægi sem náttúra á viðkomandi svæði hefur skapað og lifríkið skaddist. Plöntur og lífverur sem sem aðlagast hafa eða þarfnast flóðanna geta orðið fyrir skaða af flóðaleysinu.

[i]Ef vatn Jarðarinnar væri rétthrndur ferningur myndi hver hlið vera um 1120 km á lengd.

[ii]Samanber vandi vatnsveitu Ísafjarðar 2017 og gerlamengun í vatni Gvendarbrunna 2018 og 2017.

[iii]Shiva 2002.

[iv]Palanappian and Gleick 2009, 1) og heimasíða Sameinuðu þjóðanna.

[v]UNESCO Water Newsletter NO249 2011.

[vi]https://sustainabledevelopment.un.org/sdg6

[vii]Barlow og Clarke 2002.