Sigríður Steinunn Lúðvígsdóttir – minningarorð

Sigga Steina valdi alltaf lífið og elskaði skilyrðislaust. Mér þótti hrífandi að hlusta á ástvini hennar lýsa hve fast hún hélt í allt sem gladdi og blessaði.

Sögurnar sem þau sögðu um hana voru í mínum eyrum páskasögur – að lífið lifir – sögur um að lífið er sterkari en dauðinn. Sigríður Steinunn var lífs megin og fer inn í líf himinsins.

 

Páskar

Biblíutextarnir, sem lesnir eru í kirkjum heimsins á páskum, segja frá sorgbitnum konum. Þær höfðu ekki aðeins misst vin í blóma lífsins, heldur líka málstað. Konurnar á leið til grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf. Á þeirri sorgargöngu voru þær fulltrúar alls mannkyns. Við missum, veikjumst, óttumst og lendum í ógöngum. Í lífi allra manna verða áföll – við erum öll föstudagsfólk.

Að baki löngum föstudegi er sunnudagur og páskar. Þegar harmþrungnar konurnar komu í garðinn var steinninn frá og gröfin tóm. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan hefur verið sögð og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Gröfin sleppti feng sínum og lífið lifir. Páskaboðskapinn breytir veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi tilveru til dauða. Ekkert er svo slæmt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki að koma þar að með hjálp sína og gleði. Við megum vera sunnudagsfólk, páskafólk, lifa í því ljósi og deyja til þess bjarta og góða lífs. Sigga Steina fer inn í ljósið.

Upphaf og ætt

Sigríður Steinnunn fæddist 18. ágúst árið 1933. Hún átti sama afmælisdag og Reykjavíkurborg og þótti ljómandi gott að flaggað var í Reykjavík á þeim degi, henni til heiðurs – en borginni einnig.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Hallgrímsdóttir (1899-1992) og Lúðvíg Guðmundsson (1897-1966). Sigga Steina var yngsta barn þeirra. Eldri voru Hallgrímur sem fæddist árið 1927. Ingveldur Gröndal fæddist árið 1929 og Guðmundur Áki fæddist árið 1931. Ingveldur og Guðmundur lifa systkini sín.

Lúðvíg var fjölmenntaður maður, lærði m.a. náttúrufræði, læknisfræði, heimspeki og guðfræði og var vel að sér í þýsku og þýskum bókmenntum og menningu. Hann var einn af kröftugstu skólamönnum þjóðarinnar um miðbik tuttugustu aldar. Hann starfaði við kennslu og skólastjórn – á Ísafirði, við Hvítárbakkaskóla í Borgarfirði og síðast í Reykjavík.

Móðir Sigríðar Steinunnar hafði lært tónlist í Danmörk og var hinum dugmikla Lúðvíg, manni sínum, jafnoki. Þau bjuggu á Ísafirði þegar Sigríður Steinunn fæddist. Hallgrímur, elsta barn þeirra, veiktist alvarlega í æsku og foreldrarnir leituðu honum lækninga erlendis. Það varð til þess að börnunum var komið um tíma fyrir hjá ættingjum. Sigga Steina fór til Soffíu, móðursystur í Borgarnesi. Hún var aðeins fjögurra ára þegar hún fór af heimili sínu fyrir vestan og fólkið hennar í Borgarnesi var henni gott. Henni þótti afar vænt um það alla tíð síðan.

Í Reykjavík

Þegar Sigríður kom aftur heim til Íslands með Hallgrím sameinaðist fjölskyldan að nýju og þá í Reykjavík. Það var þeim öllum mikill fagnaðartími. Árið 1939 stofnaði Lúðvíg Handíða- og myndlistaskólann sem síðar var nafnbreyttur í samræmi við breyttar áherslur og varð Myndlista- og handíðaskólinn. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Reykjavík en frá árinu 1942 var skólinn til húsa á Grundarstíg 2a. Á efstu hæð hússins bjó stórfjölskylda skólastjórans, naut aðstöðunnar en varð líka að sinna kröfum skólans utan hefðbundins vinnutíma.

Tíminn á Grundarstígnum var “gloríus” sagði afkomandi Siggu Steinu. Mannlífið í húsinu var mjög fjölbreytilegt og fjölskyldan öll sprelllifandi og lífsglöð. Margt skemmtilegt fólk sótti skólann og andríkið og menningarlífið liðaðist um allt húsið. Þekking og viska læddist inn í börnin ekki síður en gesti. Rætt var um samfélagsmál, tilraunir voru gerðar í listum og menntum og skólastjórahjónin vöktu yfir velferð barna sinna en einnig fjölda annarra, nemenda og ástvina.

Systkinin notuðu skólahúsið til leikja og menningariðju. Margt var brallað og gleðin fann sér farveg. Meira að segja beinagrindin sem notuð var fyrir teiknikennsluna kom að gagni í leikjum barnanna.

Sigríður Steinunn naut borgarlífsins. Hún sótti skóla fyrst í Miðbæjarskólanum og fór svo eins og systkini hennar í Menntaskólann í Reykjavík. Hún eignaðist góðan og tryggan félagahóp í Miðbæjarskólanum og síðan annan í MR. Tengslin við þessa hópa ræktaði Sigríður Steinunn alla tíð og vinirnir voru henni afar mikilvægir. Jafnvel sárlasin fór hún til funda við vinahópana. Lífið á menntaskólaárunum var henni mikill gleðitími. Og eins og margra menntskælinga er háttur stundaði hún kaffihúsin, ekki til að eyða þar stórfé heldur til að tala, gleðjast og þroskast.

Sigríður-Steinunn-Lúðvígsdóttir_ungSigríður Steinunn lauk stúdentsprófi árið 1953. Hún var flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands á árunum 1952-54. Sigga Steina var vön því að fólk kom til föður hennar til að fá fyrirgreiðslu með nám erlendis og því var henni næsta eðlilegt að fara utan líka. Hún tók stefnuna á Vín og Lúðvíg hafði mikil og góð sambönd í hinum þýskumælandi heimi. Sigríður Steinunn stundaði svo þýsku- og bókmenntanám í Vín 1954-55. Og þar sem Sigga Steina var vön lista-sellunum og spírunum á Íslandi var henni ekkert sjálfsagðara en að umgangast listamenn heimsins í Vín. Og þó stóra herbergið hennar Sigríðar í Vín hafi verið kalt var listalífið fjölbreytlegt og háskólalífið hvetjandi. Vínarárið var hlýr tími í minningum Siggu Steinu.

Einar, börn og afkomendur

Og svo kom Einar Árnason, lögfræðingur, sem vann lengstum hjá Vinnuveitendasambandinu. Þau höfðu kynnst heima og Einar kom til Vínar, bað hennar og þau Sigga Steina féllu í faðma og gengu í hjónaband. Og sumarið 1955 fóru þau Einar og Sigríður Steinunn í mikla brúðkaupsreisu um Evrópu, m.a. til Ítalíu. Þau kunnu ekki ítölsku en í ljós kom að skólalatínan kom að góðum notum. Piazza á Ítalíu er latnesk, þar lifa fornar tungur og sagan er þykk.

Um tíma bjuggu þau Sigga Steina og Einar í London þar sem hann stundaði framhaldsnám og þar fæddist Berljót Sigríður vorið 1956. Þrenningin flutti heim í maímánuði það ár. Árið 1959 fæddist Páll Lúðvík og fjölskyldan leigði í Eskihlíð og við Ægisíðu. Þau festu svo kaup á íbúð í Grænuhlíð og þar fæddist Svanbjörg Hróðný árið 1964. Í Grænuhlíðinni bjó fjölskyldan árum saman.

Vinir barna Siggu Steinu minnast þess að heimili hennar var opið heimili og alltaf tókst henni að töfra fram nægan mat handa hálfu Hlíðahverfinu. Allir voru velkomnir. Við alla talaði hún með hlýju. Svo virtist Sigga Steina alltaf eiga nógan mat. Gjöful og elskuleg í samskiptum og smitaði frá sér mannvirðingu. Ekki einkennilegt að Sigga Steina var ekki aðeins mikils metin af vinum og jafnöldrum heldur urðu vinir barna hennar vinir hennar einnig.

Þau Einar og Sigríður Steinunn skildu árið 1972 og hann lést árið 1992.

Bergljót eignaðist tvíburana Hákon og Steinunni Soffíu árið 1983 með Tore Skjenstad, fyrri manni sínum. Eiginmaður Bergljótar er Magnús Guðmundsson. Bergljót er arkitekt.

Páll er matvælafræðingur og bókasafnsfræðingur.

Eiginmaður Svanbjargar er Kristinn Örn Jóhannesson og þau eiga þrjár dætur, Ólöfu Sigríði (2003) og tvíburana Bergljótu Júlíönu og Laufeyju Steinunni (2005). Svanbjörg er fjölmiðlafræðingur og leiðsögumaður.

Atvinna og frelsi

Þegar börnin voru komin í skóla fór Sigríður Steinunn að vinna utan heimilis að nýju. Hún vann um tíma í Háaleitisapóteki, fannst vinnan skemmtileg og velti vöngum yfir að skella sér í nám í greininni. En hún færði sig svo yfir í bankaheiminn. Um tíma vann hún í Útvegsbankanum og síðan hjá Íslandsbanka og gegndi ýmsum störfum innan bankans. Sigga Steina fór á eftirlaun þegar hún var 66 ára gömul og eftir það fór allt á verri veg í bankaheiminum en hún bar enga ábyrð á þeim málum.

Sigga Steina nýtti aukið frelsi vel. Hún ferðaðist innan lands sem utan, sótti sýningar og tók þátt í viðburðum samfélagsins. Hún var með fastamiða í leihúsinu, sótti námskeið og fylgdist afar vel með listalífinu. Í því naut hún menntunar og mótunar á bernskuheimili sínu og alla tíð hafði Sigríður Steinunn vakandi áhuga á því sem efst var á baugi í menningu þjóðarinnar. Svo hafði hún mikla gleði af fólkinu sínu, gladdist og skemmti sér með börnum sínum, barnabörnum, ásvinum og vinum. Og þjónaði sínu fólki með natni.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju Bergljótar Sveinsdóttur sem er utan lands. Sömuleiðis biðja fyrir kveðju: Þorvaldur H. Gröndal, Lára Sveinsdóttir og Þórunn Þ. Gröndal sem eru einnig erlendis og koma því ekki til þessarar athafnar. Systurnar Katrín Lilja Ólafsdóttir sem er búsett í London og Inga Lára Ólafsdóttir, sem eignaðist dreng í fyrradag, senda kveðjur og þakka frænku þeirra fyrir samfylgdina.

Litríkar minningarnar

Hvaða minningar áttu um Siggu Steinu? Manstu hve glæsileg hún var? Ég mun ávallt muna augnatillit hennar og íhugul en glettnisleg augun.

Manstu eftir Sigríði Steinunni á fjöllum, á hálendinu?

Manstu eftir lífsgleði hennar – að hún var gleðigjafi? Að hún var fólki svo elskuleg og glöð að allir hrifust og löðuðust að henni.

Manstu hve natin hún var, skilningsrík og umburðarlynd?

Manstu eftir henni í jafnréttisbaráttu og hve viljug hún var að beita sér í þágu réttláts þjóðfélags? Jafnvel lífshættulega veik fór hún á fjöldafund til að standa með mikilvægum málstað og samfélagslegri sanngirni.

Manstu eftir seiglu Sigríðar Steinunnar? Að hún hélt áfram og lét ekki bugast?

Manstu göngukonuna sem var á ferð um bæinn, setti svip á bæinn sjálf og naut ferðanna um borgina?

Manstu eftir konunni með espressókaffið í litlum bolla og kökubita á kaffihúsum borgarinnar?

Manstu eftir ömunni sem hlustaði í andakt á barnabörnin spila á tónleikum í barnamúsíkskólum og skólalúðrahljómsveitartónleikum?

Manstu eftir henni hoppandi og hrópandi „áfram Valur, áfram Valur“ á fótboltaleikjum ömmustelpna sinna?

Manstu kímni Sigríðar Steinunnar? Hve laginn og jákvæð hún var og gat sett saman hnyttnar setningar sem rímuðu fullkomlega við aðstæður, vilja hennar en særðu þó engan?

Manstu eftir sumarbústaðafrúnni í Hvammi á Grímsstöðum? Hve vel henni leið og hve hún blómstraði á yndisreit hennar í sveitinni?

Nú er hún farin. Þú færð ekki fleiri símtöl frá Siggu Steinu. Hún gefur þér ekki gott að borða eða kaffi í litlum bolla á fallegu heimili. Hún heldur ekki út í gönguferð dagsins. Hún fer ekki á fleiri sýningar í leikhúsinu. Hún er farin inn í ljósheim Guðs, sem elskar takmarkalaust og skilyrðislaust.

Guð geymi Sigríði Steinunni Lúðvígsdóttur. Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð 9. apríl, 2015. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. Bálför og jarðsett síðar í Fossvogskirkjugarði.