Já eða Nei

IMG_4760Englandsmegin við landamærin eru m.a. nokkrir Skotar á fjölmennum fundi Porvoo-kirknasambandsins. Á morgun verður kosið í Skotlandi en þessi Skotar hafa þegar kosið því þau eru á fundi í York og vissu fyrir löngu að þau yrðu að heiman á kosningadegi. Það er gaman að tala við þetta fólk um kosninguna. Ég spyr þau öll um hvaða afstöðu þau hafa hvort meiri hluti Skota segi já eða nei á morgun. Þau hafa öll sterkar skoðanir og styðja afstöðu sína rökum. En þau eru ekki viss í hvor hópurinn mun vinna.

Munu Skotar kjósa aðskilnað eða ekki? Í kvöld er það óljóst. En augljós ávinningur Skota er að þeir hafa virkjað lýðræði að nýju. Fólk sem ekki hefur haft áhuga á pólitík eða séð tilgang í að taka þátt í þjóðmálum hefur skráð sig og tekur þátt í umræðum – og kýs. Líklega munu um 80% Skota kjósa, sem gleður öll sem unna lýðræði. Hvernig sem fer hafa Skotar grætt, lært gildi opinberrar umræðu og samtali um stjórn og stefnu.

Mér hefur þótt ískyggilegt, eiginlega óhuggulegt að sjá hótanir Westminster-stjórnmálamanna, Nei-manna. Þeir hafa líklega tapað hvernig sem fer. En fólkið á götunni unnið – hvernig sem fer. Og það er íhugunar virði og merkilegt. Hver á að stjórna og hversu stórar heildir virka í samfélagi nútímans?

Málefni Skota eru ekki bara mál norðurhluta Bretlands heldur að einhverju leyti einnig hvernig samfélög geta endurskilgreint stjórnmál, gildi, samloðun og jafnvel trú. Þungur undirstraumur í Evrópu hafnar hinum stóru og kannski ópersónulegu stjórnunarheildum og þráir að finna til eigin ábyrgðar og möguleika til beinnar stjórnunar eigin samfélags. Kannski kallar fólk í æ ríkari mæli á nærstjórnun – að það lúti ekki einhverri fjarstjórn, að samfélag þess lúti gildum og ákvörðunum “okkar” en ekki einhverra “þeirra.”

Hvað svo sem Skotar kjósa á morgun hefur skoska ferlið mikil áhrif til breytingar, ekki aðeins á Bretlandseyjum heldur í V- og N-Evrópu. Ég tek mark á Skotum og hrífst af viljanum til mótunar eigin lífs.

Einn af félögum mínum á kirkjufundi Porvoo-kirknasamfélagsins býr í Aberdeen, öflugur greinandi, vitur biskup með hlýtt hjarta og kaldan heila. Verkefni hans er m.a. að skrifa greinar fyrir skosku pressuna næstu daga. Ritstjóri eins stærsta dagblaðs í Skotlandi bað hann að undirbúa greinar um sátt og hvernig væri hægt að græða, tengja og byggja upp eftir já eða nei-valið. Heillandi ekki satt að í kjölfar kosningabaráttu og deilna komi kirkjan að græðslunni? Rétt og gott? Já – þannig á kirkja að vera.   Já eða nei og svo þarf að rétta hendur fram í kjölfarið, sætta fólk sem hefur sigrað og tapað – svo samfélagið fái notið og það sjálft einnig. Öflug kirkja getur orðið til að tengja það sem hefur rofnað og efla það sem hefur veiklast. Já og nei í samfélagi er hluti af pólitískri baráttu en svo er þörf á að vinna með framtíð.

(Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir framan Minster of York í dag. Kosningabaráttan í Skotlandi varð svört-hvít en vert að minna á að tilveran er í lit!)