Orð lífsins

litBiblían er ekki úrelt heldur lifir í veröldinni því hún fæst við stóru mál mannanna, hvernig lífið getur snúist frá myrkri til ljóss, sorg til gleði, dauða til lífs. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að hún hverfi í mistur tímans, því hún er klassík. Hún er – auk þess að vera trúarrit kristinna – líka sígildar bókmenntir. Hugmyndaheimur Biblíunnar hefur haft svo víðtæk mótunaráhrif, að ekki hægt að skilja menningarsögu heimsins, nema með því að vita talsvert um efni þessa mikla bókasafns. Það er illa menntaður maður sem ekki kann einhver skil á Biblíunni.

Menn kunna jafnan meira en þeir skilja. Skilningur er mikilvægari en staðreyndaskil. Aðalatriði í Biblíulestri er ekki að geta þulið staðreyndir frá Palestínu, vita hvaða ár hebrar voru herleiddir, hvar Hinnomsdalur var, hvenær síðasti hluti Jesajabókarinnar, trító-jesaja var skrifaður. Skólinn sér um eða á að sjá um staðreyndir og fræðslu þeirra, en hlutverk kirkjunnar er að miðla skilningi, visku og trú.

Inntak hennar Biblíunnar er mikilvægast en ekki fræði hennar. Þegar menn rata í háska og voða er hægt að eiga samleið með Job í kröminni, eiga í orðum hans túlkunarhjálp og samlíðun. Þegar mönnum blöskrar vitleysa og óréttlæti þjóðfélagsins er vert að leita til spámanna Gamla testamentisins og leyfa þeim að túlka réttlæti í samfélaginu, rétt þolenda, ekkjunnar, útlendingsins og annrra líðenda gerða samfélagsdólga.

Þegar við lendum í stórmálum lífs okkar getum við fundið samfellur í upplifunum og átakasögum hinnar helgu bókar. Þegar andi okkar er sundurknosaður eru engin rit veraldar næmari og nákvæmari túlkar tilfinninga og lífsreynslu en Davíðssálmar. Þeir fanga allar tilfinningar manna á öllum öldum. Þegar orða er vant eru Orðskviðirnir heillandi fjársjóðir til að ganga í. Og logandi ást manna? Tilfinningar og unaður er tjáður í Ljóðaljóðum.

Biblían er um líf, mennsku og vonarmál. Þegar unnið er með krísur er að finna gullnámu í bréfum Nýja testamentisins. Og heimsslitabókmenntir, heimsslitakvikmyndir líka, eru litaðar af Opinberunarbok Jóhannesar. Guðspjöllin eru klassík, sígildi sem varða tíma og eilífð, sið og ósið, trú og trúleysi, merkingu og merkingarleysi. Þegar glíma þarf við stærstu mál tíma og eilífðar verður ekki fram hjá guðspjöllunum gengið. Þar er Jesús Kristur, þessi sem er á öllum krossgötum allra manna á öllum tímum. Biblían er lind túlkunar fyrir lífsmöguleika og endurnýjun.

Sjá nánar Klassík: http://tru.is/postilla/2011/02/klassik