Fyrirgefðu

IMG_3763_8970363903_lHverjum á að fyrirgefa og hverjum á ekki að fyrirgefa? Það getur reynst mikil þraut að sætta okkur við það sem okkur hefur verið gert illt. Spurningin verður oft ekki: Á ég að fyrirgefa heldur: Get ég fyrirgefið? Get ég fyrirgefið þeim sem hefur farið illa með mig?

Strákur í Eyjum

Það var einu sinni strákur í Vestmannaeyjum, sem svindlaði á prófi. Mamman komst að glæpnum. Strákur varð skömmustulegur og sagði við hana. „Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” „Já, það er ljómandi,” sagði mamma. „En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrunin verður að hríslast út í lífið og lífshættina.

Við kennum börnum okkar að biðjast afsökunar á brotum af einhverju tagi, t.d. þegar þau meiða, taka það sem þeim er bannað eða brjóta eitthvað sem þeim er óheimilt. Ákveðin viðmið eru grundvallandi og brotin eru frávik frá viðmiðinu. Við kennum síðan fólki að horfast í augu við brot og biðjast afsökunar á þeim.

Mínir strákar

Ég á stráka á níunda ári og hef fylgst grannt með mótun siðvits. Þegar þeir voru á fjórða ári var ljóst að jafnvel svo snemma á æfinni var prettavit þeirra orðið mikið og líka færnin til að greina hvað mátt og hvað ekki. Þeir lærðu þá að ljúka málum með fyrirgefðu. En stundum kreistu þeir jafnvel upp “fyrirgefðu” til að losna við frekari vandræði.

Fyrirgefningarbeiðni er oftast beiðni einstaklings gagvart öðrum eintaklingi. Á milli þeirra er vefur merkingar sem stýrir og leiðbeinir þeim um hvað má og hvað má ekki, hvað er gilt og hvað ógilt, hvað er rétt og hvað rangt. Til að fyrirgefningarferlið gangi upp verður þetta kerfi að virka sem á milli er. Hvað á svo að gera með þá fyrirgefningu þegar menn vilja ekki biðjast fyrirgefningar, sjá ekki að þeir hafi gert rangt?

Iðrun – hvað er það?

Í gamla daga var talað um iðrun, það að úthverfa iðrunum – þessu sem er innan í okkur. Við getum talað um viðsnúning og sá getur verið samfélagslegur þegar samfélagið allt fer að skoða gildi og meginmál. Viðsnúningur verður líka í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti. Þegar við erum vanheil þurfum við að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – varðar ákveðna þætti lífsins og ekiki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Við gerum öll eitthvað rangt, eitthvað sem meiðir og hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað ógætilegt sem særir og jafnvel grætir. Við flissum stundum á óheppilegum tíma, hittum viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki. Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið. Eða er það forsenda fyrirgefningar að viðkomandi fari á hnén og iðrist?

Bergmann og heiftin
Fyrir nokkrum árum sá ég margar kvikmyndir sænska leikstjórans Ingmar Bergman. Á einum DVD-disknum var ítarefni, og þar á meðal viðtal við Bergman. Hann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði farið ómjúklega með verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða samskiptin og sagði frá með mikilli ástríðu, sagði hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með hann, hvernig honum hefði liðið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu á illgjörnum dómum.

Bergmann lýsti manninum sem vondum manni. En maðurinn sem gagnrýndur var hafði enga möguleika til varnar því hann var dáinn. Mér brá og varð illt af að heyra Bergman tala svona um látinn mann. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman.

Svipaðar tilfinningar hrærast gagnvart svikurum. Eg hef hitt fólk í mínu starfi sem er ekki bara reitt heldur fullt af hatri, illsku vegna einhvers missis sem það persónugerir.

Illgerðarmenn

Sum illvirki fremur fólk með ráðnum huga og einbeittum brotavilja. Aðrir valda miklum skaða vegna einhverra aðstæðna og mistaka. Fólk gerir veigamikil mistök og brýtur af sér í umferðinni. Fólk fer illa með aðra í skóla, tekur þátt í stríði og einelti. Skólastofnanir sem ekki eru þroskaðar vinna ekki með vanda og standa ekki með líðendum. Á vinnustöðum er víða ofbeldi sem fólk verður samdauna og tekur þátt í, ef ekki með rænuleysi þá í meðvirkni og ótta við þau sem valdið hafa.

Valdamiklir aðilar hafa tækifæri til að auðgast eða auka völd sín og áhrif sem notuð eru og geta valdið spjöllum. Þau sem ullu bankahruninu hafa valdið tugþúsundum íslendinga miklu tjóni og vanlíðan. Þau voru kannski ekki vondar manneskjur en ollu mikilli þjáningu. Mistök verða í stjórnum og ráðum þjóðarinnar, í fyrirækjum og félögum. Hver er ábyrgð stofnana og þar með sök ef stofnanir sem eiga að sinna ráðgjafar- eða eftirlits-hlutverki en bregðast? Eru þau kreppudólgar, sem tóku þátt í þöggun þeirra sem gagnrýndu og bentu á hættur? Eru þeir stjórnmálamenn sekir, sem tóku þátt í reisa valta fjármálarkerfi og vörðu síðan þegar gagnrýnar spurningar voru settar fram? Og svo eru öll mistökin sem gerð hafa verið og gerð eru í heilbrigðiskerfinu, þegar ekki er greint rétt, þegar mistök eru gerð í aðgerðum og fólk verður fyrir heilsufarstjóni og missir ástvini eða ástvinir missa svo mikið og stórlega að margir líða. Á að fyrirgefa þessu fólki?

Hvað er fyrirgefning?

O þá er komið að fyrirgefningunni: Fyrir hvern er fyrigefningin? Er hún fyrir þann sem hefur unnið eitthvað illt verk – hefur gert manni mein. Léttir hún sök af viðkomandi? Eða er fyrirgefning kannski jafnvel fremur fyrir mann sjálfan. Er mikilvægt að forsenda fyrirgefningar sé iðrun – eða er kanski iðrunin eitthvað sem er ekki alltaf nauðsynlegt forsenda?

Við kennum börnunum okkar að iðrast og læra af mistökum og reynslu og biðjast fyrirgefningar þegar þau hafa brotið gegn öðrum. Það er fullgilt og mikilvægt. En iðrun og andleg heilsurækt er eitt en fyrigefning annað – og við ættum kannski ekki að blanda þeim þáttum saman þegar við reynum að vinna með fyrirgefninu og þau andlegu átök sem fyrirgefningu fylgja oft. Ég tel að iðrunar sé ekki þörf til að fyrirgefa. Fyrirgefing er ekki bara vegna þeirra sem hafa brotið af sér – fyrirgefningin er ekki síst vegna manns sjálfs. Að fyrirgefa er að losna undan fjötrum þess sem gert hefur manni illt, losna úr álögum hins illa og þess sem meitt hefur mann. Fyrirgefning er fyrir mann sjálfan.

Að fyrirgefa er að losna úr fangelsi sem aðrir hafa skapað manni. En það erum við sjálf sem erum fangaverðir okkar. Aðrir byggja fangelsið, steypa okkur í dyflissu, hefta okkur og kefla. En það erum við sem ákveðum hvort við viljum dvelja þar lengi, hvort við ætlum að losna. Lykill þess er fyrirgefningin. Og illgerðarmennirnir kunna kannski ekki að iðrast, en við getum losað þá og við getum losað okkur. Illgerðirnar eiga ekki að vera síðasta orðið.

Klassískur skilningur

Hvað er fyrirgefning? Við túlkum hana gjarnan í samhengi einstaklingsins. En ég vek athygli á að í klassísku trúarsamhengi var fyrirgefning ekki skilin sem sjálfhverft tilfinningamál – eins og oft hefur verið í seinni tíð – heldur samfélagsmál.

Að vera fyrirgefið í “biblíulegu” samhengi var ekki eðeins spurning um hug heldur aðgerð – að lagfæra og endurbæta stöðu – að viðkomandi endurheimti stöðu sína, æru og helgi. Í hinu kristna trúarsamhengi er fyrirgefning Guðs þá ekki fólgin í að Guð hætti að vera særður eða fúll yfir brotum manna – heldur að Guð veiti manninum uppreisn æru, veiti manninum stöðu sem guðsbarn að nýju, taki við honum eða henni í guðsríkið þrátt fyrir að viðkomandi hafi brotið af sér og sé því sekur.

Og slík fyrirgefning er alltaf að valdameiri aðili fyrigefur hinum valdaminni. En ekki öfugt. Sá sem brotið var á er ekki beðinn um að fyrirgefa því sá sem er valdaminni getur ekki sett hlutina í rétt samhengi. Fyrirgefning í slíku samhengi er ekki eitthvað huglægt mál heldur verklegt – framkvæmdarmál – og varðar endurheimt stöðu og gildis.

Í hinu trúarlega samhengi er fyrirgefning ekki þröngt fyrirbæri heldur varðar samfélagsgerð og þroska þjóðfélagsins. Fyrirgefningarmál er ferli sem varðar ekki aðeins hið innra og einstaklingstilfinningar heldur einnig – hið ytra, hvernig breyta á öllu – líka félagskerfinu og forsendum menningar – svo menn séu teknir í sátt og mál gerð upp með viðunandi hætti, orðspor sé lagað og menning styrkt. Margir munu ekki vilja gera upp sín mál – en samfélaginu ber skylda til að gera málin upp hvort sem menn vilja eða ekki.

Fyrirgefning eða sátt?

Einstaklingar í samfélaginu geta tekið ákvörðun um að fyrirgefa öðrum einstaklingum, sem hafa gert rangt eða talið er að hafi drýgt eitthvað vont. Hópar geta t.d. eftir umræður tekið ákvörðun að fyrirgefa einstaklingum eða jafnvel stofnunum. En dugar þetta til að vinna með kerfisbrot, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða bankakerfinu?

Það er vissulega mikilvægt að einstaklingar vinni með sinn innri mann, þ.m.t. reiði sína. Það er okkur persónulega mikilvægt að fyrirgefa. Ef við fyrirgefum ekki sem einstaklingar verður til skrímslagarður innan í okkur. Það er áhersla margra hinna miklu leiðtoga t.d. Martin Luther King og Nelson Mandela að vinna að fyrirgefningu hið innra til að geta beitt sér í hinu ytra. Þetta er vel en er það nóg?

Mér sýnist að sökudólgar í samfélagi okkar séu ekki aðeins einstaklingar heldur líka stofnanir, menningarþættir og jafnvel veigamiklir þættir menningar okkar. Því eigi fyrirgefningarferlið ekki við nema hluta uppgjörsins. Þegar mistök verða þarf leiðréttingarferlið sem hefst í kjölfarið fremur að vera sáttaferli en fyrirgefningarferli.

Fyrirgefningarhugtakið er of þröngt til að passa við samfélagslegar og heildrænar kreppuaðstæður. Fyrirgefning er ekki andstæða sáttar. Þvert á móti getur fyrirgefning verið markmið sáttaferlis en þarf ekki að vera það.

Sáttahugtakið væri hagkvæmara að því leyti að það tjáir betur ferlið sem við værum í. Sem einstaklingar þyrftum við að vinna með aðstæður okkar, viðhorf, tilfinningar, fjármál, vinnuhlutverk, pólitískar skoðanir okkar og leita sáttar hið innra og vinna úr málum okkar í samræmi við það.

En það er hugsanlega ófyrirgefanlegt ef við hlaupum undan ábyrgð og leggjum ekki okkar til sáttaferlis samfélagsins. Við gætum orðið verstu dólgarnir ef við göngumst ekki við köllun okkar.

Ófyrirgefanlegt?

Ég vil bæta við að krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf nema í einstökum málum. Margt verður og fellur utan við alla mannlega fyrirgefningu, engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar milljónir voru að berjast við að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir hinni eilífu sekt. Horkheimir og Adorno, minntu á að Guð væri “nauðsynlegur”eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr og upphefja glæpi nasismans.

Guð – sem fyrirgefur

Það er nokkuð til í, að þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is – GSM: 8622312.

(Þessi pistill varð til sem ávarp í félagsskap sem bað um innlegg um fyrirgefningu – ég hlustaði svo á merkilega umræðu sem spratt af innlögninni)