Guð hvað?

IMG_6643Ég er búinn að bjóða fólkinu mínu, konu minni, börnum og tengdasyni til Ísraels á næsta ári. Við förum til Betlehem, Nasaret, að Genesaretvatni, til Masada og einnig til Jeríkó. Við munum skoða liljur vallarins sem verða væntanlega í öllum regnbogans litum í Galíleu og upp á Golanhæðum. Við munum busla í Dauðahafinu og ganga píslarveg – via Dolorosa – Jesú í Jerúsalem. Hluti undirbúnings svona ferðar er að lesa bækur. Eina fékk ég lánaða um daginn í húsi við Hagamel þar sem ég var að skíra, fræga Jerúsalem-matreiðslubók palestínumannsins Tamimi og gyðingsins Ottolenghi. Ég er búinn að kíkja í hana og skoða uppskriftir til að elda í Ísrael. Og þessa dagana er ég upprifinn af bókinni sem ég er að lesa, stórbókinni Jerusalem, one city, three faiths eftir Karen Armstrong. Ein borg – þrenns konar átrúnaður, sem er Gyðingdómur, Islam og kristni. Bókin er um flókinn heim, pólitísk átök og mismunandi trúarhefðir.

Karen Armstrong talar m.a. um að meðal okkar Vesturlandabúa sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn hafi verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, pólitík og hernað. Trúmenn hafi ekki náð gjöfulu sambandi við trúarvíddina heldur komið óorði á Guð. Því hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Hvað merkir það og hverjar eru afleiðingarnar?

Armstrong bendir á að allir menn leiti að reynslu og upplifi eitthvað stórkostlegt í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar – já allir leita að djúpri upplifun, sátt, samhengi, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgtárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla eða skynja sem hið heilaga. A

Maðurinn getur aldrei slitið heilagleikann úr sálinni, strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef Guð í samtíma okkar hefur orðið smærri vegna mannlegrar smæðar brýtur mannsandinn þó af sér fjötra og leitar hins stærsta, mesta, dýpsta og stórkostlega. Hið heilaga er – menn upplifa eitthvað sem er reynsla af hinu heilaga. Armstrong – eins og fleiri úr hennar túlkunarhefð halda þessu fram. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér – hið heilaga er heillandi. Og spurningar sækja að: Er Guðsmynd mín of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum en að opna fyrir allan ofurmátt hins rosalega Guðs sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Hafa efasemdarmenn aldanna haft nokkuð til síns máls? Já, ég held að við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu ólýsanlega. Enginn kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna til að opna fyrir hinum heilaga sjálfum. 

Aðventan

Aðventan byrjar núna. Framundan er ferðin til Betlehem. Við erum eins og María og Jósep á þeirri leið. Hvernig viltu nota tímann framundan? Mörg fyllast aðventukvíða í atinu. En við gætum sett fólk í forgang en ekki hluti, elsku en ekki æsing. Við megum setjast niður í stað þess að hlaupa, íhuga í stað þess að kvíða, tala við hvert annað í stað þess að hamast í þögninni.
Aðventan er eins konar prufa í lífsleikni. Ef þú hefur ekki tíma fyrir það sem mestu máli skiptir á aðventunni hefur þú líklega ekki tíma fyrir lífið. Er eitthvað sem rænir þig jólastemmingu, eitthvað sem þrúgar þig, eitthvað sem sækir að þér úr djúpum?

Leiðarstjörnur

Sýning Húberts Nóa á Torgi Neskirkju er opnuð í dag. Húbert Nói málar og minnir á stjörnur sem mannkyn hefur notað til staðsetningar. Á fyrri öldum gátu sæfarendur greint hvar þeir voru ef sást til stjarna. Á síðustu árum hafa menn síðan búið til eigin tungl til staðsetningar. Gevitunglin eru á sporbaug og sveima umhverfis jörðu. Og símarnir okkar og Garmínur heimsins nota þau tungl til að ná áttum og sjá hvar við erum. Það getur verið hentugt og handhægt – einu sinni var ég villtur í Berlín og síminn minn sýndi mér hvar ég var og ég náði áttum að nýju. Það eru ekki aðeins vitringar á ferð á leið til lausnara, menn sem áttu sér viðmið. Við erum öll á ferð.

Húbert Nói minnir okkur á viðmiðin, staðsetningu og jólaferðalagið. Svo er ferðalag Jesú sem texti dagsins minnir á. Hann var á leið til Jerúsalem. Og flestir samtíðarmenn hans höfu umbreytt boðskapnum um Guð í eigið kerfi, eigin kreddur sem þjónuðu þeirra eigin þörfum. Og Guð hafði minnkað í þeirra meðförum og varð þeirra eiginn Guð. Það var því aðeins lítill hópur sem greindi í ferð Jesú hið heilaga – hinir heyrðu og sáu ekkert annað en guðlastara.

Í hvaða sporum erum við? Höfum við skapað Guð í eigin mynd? Höfum við smættað Guð í þágu eigin draumsýnar um okkur sjálf? Höfum við umbreytt kenningunni eftir eigin duttlungum og þörfum? Og er Guð eða guðleysi þitt sú mynd sem þú hefur af þér? Hefur þú tilhneygingu til að varpa upp á himininn eigin vonum og þrám og búið til þína eigin guðsmynd og eigin átrúnað?

Hið heilaga Guðs

Nú er nýtt kirkjuár, nýtt upphaf, nýr möguleiki. Jafnvel stólræður prestsins í kirkjunni munu breytast. Í prédikunum mínum næsta árið mun ég hugsa nýjar hugsanir, leita að hinu heilaga að baki hinu yfirborðslega. Það merkir að ég mun hugsa upphátt með þeim sem vilja breytast og þora að opna gagnvart veru og kalli Guðs.

Næstu ár verða væntanlega tími mikilla breytinga í samfélagi Íslendinga. Átök munu magnast, andstæður aukast og friður ótryggur. Og kirkjan er líka kölluð til ferðalags og burt frá örygginu. Við guðfræðingarnir erum kölluð til að vitja fremur heilagleikans en hins hefðbundna. Og þú ert kölluð og kallaður til gangast við eigin sjálfi, þér, lífi þínu og veruleika. Er það ekki spennandi?

Aðventan er ferðalag okkar allra til Jerúsalem. Á þeirri för getur þú upplifað hið heilaga, hver svo sem kennileiti þín á himni eru eða verða. Þú getur líka valið að lifa í afneitun, lifa í eigin heimi, afneita hinu mesta og stærsta – hinu heilaga. Þú getur líka neitað að heyra kall mennskunnar innan í þér eða fólks nærri þér sem kallar til þín. En þú hættir aldrei að vera meðan þú lifir. Meðan þú andar er lífsmátturinn í þér, Guð sem hefur gaman af stjörnum, kallar vitringa til farar, eflir þig til göngu og hvíslar ástarorð til þín í vindi, sendir strauma ljóss um augu, dáist að pensilförum listamannsins og hlær þegar ástvinir faðmast og kyssast.

Hefur þú opnað algerlega fyrir hinu heilaga? Ertu sáttur eða sátt? Eru hugmyndir og lífshættir þínir í samræmi við þrá þína og veru? Þarftu kannski að fella hugmynd þína um Guð til að hið heilaga komi til þín? Þarftu að leggja af fordóma þína, smásálarskap þinn? Jesús var á ferð og kom til að opinbera hinn heilaga. Hið heilaga er Guð en ekki hugmyndir okkar um Guð. Jesús þorði að breytast og breyta. Hvað var hrópað þegar hann settist á asnann? Þorir þú í ferðina?

Amen.

Íhugun í upphafi aðventu, fullveldisdaginn 1. desember, 2013, 1.sd. í aðventu.

Textaröð: A

Lexía: Jes 62.10-12


Gangið út, já, gangið út um hliðin,
 greiðið götu þjóðarinnar.
 Leggið, leggið braut,
 ryðjið grjótinu burt,
 reisið merki fyrir þjóðirnar.
 Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar :
„Segið dótturinni Síon,
 sjá, hjálpræði þitt kemur. 
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum. “
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
 og þú kölluð Hin eftirsótta, 
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Róm 13.11-14


Gerið þetta því heldur sem þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.

Guðspjall: Matt 21.1-9


Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn
þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau. “
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:
 Segið dótturinni Síon:
 Konungur þinn kemur til þín, 
hógvær er hann og ríður asna, 
fola undan áburðargrip. 
Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“