Þórólfur Meyvantsson + líf og gleði

þórólfurÞórólfur og Guðrún kynntust á skólaballi í Mýrarhúsaskólanum á Seltjarnarnesi. Guðrún missti hæl undan öðrum skónum og það er bagalegt á balli. Þá snaraði sér að henni myndarlegur piltur. Þar var kominn Þórólfur Meyvantsson – sagðist vera á vörubíl, með græjur til viðgerða. Hann gæti lagað hælinn ef hún nennti að fara með honum út í bíl. Hún fór og hélt á hæl í hendi. Þórólfur brá sér í hlutverk skóarans, mundaði hamar og festi hæl við skó með myndarlegum nagla.

Þessi upphafskynni þeirra eru sjarmerandi. Og svo er broslegt að ungur piltur fékk lánaðan vörubíl pabbans til að fara á ball. Hvers konar flutninga hafði hann í hyggju? Svo sá hann stúlkuna bæði hællausa og ráðalausa. En Þórólfur kunni á dansandi fólk, öll hans fjölskylda sótti út á gólfið og kannski hafði hann fest hæl áður? Það skal vanda sem lengi skal standa. Best að byrja á grunninum og hælfestan dugði þeim vel því þegar minnst er á annað þeirra hjóna þá kemur hitt í hug. Þau voru vinir og bandið milli þeirra var ást, virðing, vinátta og svo auðvitað kátína og hlátur.

Fjölskylda og samhengi

Þórólfur Meyvantsson fæddist í Reykjavík 23. ágúst 1923. Foreldrar hans voru Björg María Elísabet Jónsdóttir og Meyvant Sigurðsson. Hún var að austan og hann fæddist í Selvoginum. Þórólfur var þriðji yngstur í systkinahópnum. Hin eru Sigurbjörn Frímann; Þórunn Jónína; Magdalena Valdís; Sigríður Rósa; Sverrir Guðmundur; Ríkharður; Elísbet og Meyvant.

Meyvant, faðir Þórólfs, var einn af frumkvöðlum vörubílabílaútgerðar í landinu og Þórólfur ólst upp við bílamenningu og gat því farið á rúnt og ball á vörubíl. Þórólfur ólst upp á Eiði – sem sem stóð ekki langt frá þeim stað sem verslunarmiðstöðin á Eiðistorgi stendur nú. Þar bjuggu foreldrar hans og fjölskylda um árabil og ráku bú með kindum og kúm – svo var þar mannlífsmiðstöð líka.

Mýrarhúsaskóli var ekki aðeins góður til að æfa skósmíðar eða dansa. Þangað sótti Þórólfur skóla. Þegar hann hafði aldur til fór hann á sjó og var um áratugi matráður á skipum. Nærri lokum seinni heimsstyrjaldar var hann munstraður á Ólaf Garðar frá Hafnarfirði og svo síðar Mars. Síðan komu nýsköpunartogararnir sem hann var á líka. Þegar stærri togarar voru keyptir til landsins var Þórólfur líka uppfærður. Hann var m.a. á togurunum Bjarna Benediktssyni og Surprise.

Þórólfur var umhyggjusamur félagi skipverja, hafði metnað í starfi og þótti mikilvægt að hlúa vel að félögum sínum því góður kostur á sjó skiptir miklu og gerir oft gæfumun um móral um borð. Þórólfur stundaði stíft gæðaeftirlit í eigin verkahring og hikaði ekki að skila kjötpoka ef heildsalinn sendi hækla og beinahrúgu. Borðnautar hans áttu ekkert nema það besta skilið. Vinnuveitendur Þórólfs virtu hann, vissu að hann kunni að reikna og stýrði innkaupum svo að mötuneyti hans var rekið með hagkvæmni þótt kosturinn væri afbragð. Þórólfur taldi ekki eftir sér að mæta fyrstur um borð til að elda matarmikla kjötsúpu. Allir fengu vel að borða, gátu hvílt sig á ústíminu og voru tilbúnir í atið þegar út var komið. Þórólfur hafði lagt grunn að árangri áhafnar, eldaði með gæðum og natni og kryddaði með glettni og gamansemi. Þórólfur var metinn vegna kosta og visku og naut jafnrar hylli útgerðaraðila og áhafna. Slíkir voru og eru vandfundnir.

Svo átti kokkurinn jafnvel til að toppa góða máltíð með því að lesa fyrir áhöfnina úr dagblaði valda en stórkostlega frétt sem var svo ágeng og beinskeytt að upplesturinn hafði bein áhrif og breytti jafnvel lífi einhvers þeirra til hins betra. Kokkurinn var þá búinn að umbreyta sér í spunameistara og sagnamann. Þórólfur hafði alltaf gaman af að kanna útmörk tiltrúarinnar og kæta glaðsinna efasemdarmenn. Svona vitundarstækkandi húslestra um stórfréttir í lífi tilheyrenda las hann líka við eldhúsborðið heima – sínu fólki til undrunar og skemmtunar.

Síðustu árin á sjó var Þórólfur á björgunarskipinu Goðanum og kom svo í land alkominn árið1990. Hann varð síðan vaktmaður í birgðastöð Pósts og síma og síðan öflugur sendiherra Morgunblaðsins.

Þórólfur hafði lagað hælinn á skó Guðrúnar Eyjólfsdóttur en svo fóru þau í sitt hvora áttina, en gleymdu þó ekki hvoru öðru. Einu sinni þegar Guðrún hafði verið í fjallgöngu með unga fólkinu af Grímsstaðaholti kom Þórólfur í heimsókn heim til hennar. Henni þóttu þær fréttir góðar og Guðrún rataði til Þórólfs. Kannski hélt hællinn og Guðrún sá í Þórólfi andlega getu, ljúflyndi og gleði og hann í henni uppfyllingu drauma sinna. Þau gengu í hjónaband á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí 1949. Þau hófu búskapinn á Eiði og eignuðust þar fyrstu börnin og bjuggu þar í góðu nábýli við nágranna svo íbúunum þykir að þau hafi verið fyrsta kommúnan á Íslandi. Eftir 15 Eiðisár fluttu þau á Dunhaga og eftir það festu þau kaup á húsi foreldra Guðrúnar á Grímsstaðaholtinu, sem var Smyrilsvegur 2 en er nú númer 28 – fallega húsið norðan við Björnsbakarí við Fálkagötu. Meðan þau Þórólfur voru á Dunhaganum bjuggu þau yfir Pétursbókabúð sem þau keyptu og Dúna rak sem Bókabúð Vesturbæjar – og fluttu verslunina svo síðar á Víðimel og ráku til 1986. Árið 1989 keyptu þau Þórólfur og Guðrún íbúð á Aflagranda 40. Þegar hann gat ekki lengur verið heima vegna heilsubrests varð Grund honum athvarf síðustu árin. Guðrún kom til hans alla daga, hressti hann og gladdi. Þórólfur naut góðs atlætis og umönnunar starfsfólks á Grund sem fjölskylda hans metur mikils og þakkar fyrir.

Guðrún var einu sinni í tímaritsviðtali spurð um hvernig þeim Þórólfi hafi tekist að halda sjó í hjónabandinu. Guðrún svaraði skýrt: „Það er ekki velmegun að þakka eða því að við höfum alltaf siglt lygnan sjó í tómri sælu. Síður en svo. Ég orða það stundum við ungt fólk að það sé ekki alltaf rjómagrautur á borðum heldur líka hafragrautur. En ég held að það sé væntumþykja og æðruleysi sem hafi gert útslagið hjá okkur. Það er líka mikilvægt að leysa ágreiningsmálin í staðinn fyrir að hlaupa í burtu frá þeim… …Við erum búin að þekkjast í rúmlega sjötíu ár og vera í hjónabandi í á sjöunda áratug. Það er sterkur strengurinn á milli okkar.“

Þessa þroskuðu visku ástalífsins megum við gjarnan taka til okkar og læra af. Ástarsaga Dúnu og Tóta er hrífandi. Við megum elska mikið og þá getum við kvatt – vissulega með tárum en þó ríkulegu þakklæti eins og Dúna minnti mig á í gær.

Þau Guðrún og Þórólfur eignuðust fimm börn og fjölda afkomenda. Elst var dóttir sem fæddist í maí 1947 en komst ekki til lífs. Gunnar fæddist árið 1949. Kona hans er Jóhanna Friðgeirsdóttir. Þau eiga þrjú börn, níu barnabörn og fjögur barnabarnabörn; Elísabet fæddist árið 1950. Hún á tvö börn og fjögur barnabörn. Meyvant fæddist árið 1951. Kona hans er Rósa Guðbjartsdóttir og þeirra börn eru tvö og fjögur barnabörn. Fimmti og yngstur er Bjarni Þór sem fæddist 1968. Kona hans er Hrefna Sigríður Briem. Þau eiga þrjú börn.

Fyrir átti Guðrún soninn Brynjólf Ásgeir Guðbjörnsson sem fæddist árið 1943. Kona hans er Sigríður Halldórsdóttir og eignuðust þau fjögur börn, átta barnabörn og sjö barnabarnabörn.

Þetta er stór ættbogi og lánlegur. Ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðjur frá Madison í Wisconsin, frá þeim Ívari, Emmu og börnum – og einnig frá Stokkhólmi, frá Brynjólfi og Valgerði.

Minningarnar

Hvernig var Þórólfur? Hvað kemur í hugann? Þórólfur var félagslyndur, glaðsinna, glettinn, mildur, nærgætinn og skipulagður. Í honum bjó mikil stærðfræðigeta. Hann hafði gaman af stærðfræðiþrautum eins og mörg ykkar munið. Hvað er bílnúmerið SG fjórðungur af níu hundruð? Og gátuglettnin hljóp í Þórólf og hann horfði niður og beið meðan viðmælendur brutu heilann, stundum með árangri en alltaf með ávinningi, sem jafnvel hjálpaði fólkinu hans í prófum.

Þórólfur hafði þjálfað með sér frásagnarhæfni og lagði gleði við. Hann skemmti sér konunglega þegar tilheyrendur vildu trúa en voru þó ekki viss um hvort hann var að þylja staðreyndir eða krítaði með svo ískyggilega trúverðugu móti að allt gat verið satt en þó líka allt uppspuni. Þórólfur var meistari á þessu Eiði raunheima, kátheima og hvergilands.

Svo var hann talnaglöggur með afbrigðum og stálminnugur. Hann brilleraði í meðferð talna. Og hafði að auki bæði skilning og tilfinningu fyrir flæði og ferlum. Verkefnastjórn hans var því öflug í mötuneytisrekstri og matseld í þágu fjölmennra áhafna. Hann hefði orðið framúrskarandi á öllum sviðum sem þörfnuðust skapandi talnavinnu og lausnaleitar. Og stóra bikarasafnið vegna bridssigra ber þessari samþættingu margra hæfnisþátta vitni. Hann gat beitt skerpu, minni, útreikningum, ferlavitnd, flæði – en líka innsæi í fólk og svo var hann leiftursnöggur að greina sundur og tengja rétt saman. Þetta er það sem heitir greind á venjulegri íslensku.

Þórólfur hafði áhuga á mannlífinu og náði auðveldlega og fljótt að tengjast fólki hvar sem hann fór. Hann var viðkvæmur og hlýr, frómur og þótti miður þegar menn óðu á súðum um menn og málefni. Og hann var nægilega stór til að kunna að þjóna fólki og mikilvægum málum. Hann átti í sér heimafengna lotningu fyrir lífinu, að það er brothætt en fagurt og það sé þess virði að þjóna því. Og hann var svo hreinlyndur gagnvart sjálfum sér og öðrum að hann viðurkenndi eigin víddir og bar virðingu fyrir öðrum og ekki síst Dúnu sinni. Hún svaraði vel og því var hann hamingjumaður. Hann átti ríkidæmi í fólkinu sínu og þau áttu bandamann sinn og lífsins í honum.

Ekki má gleyma pólitíkinni – hún var á hreinu. Þórólfur hefði verið sáttur við að Sjálfstæðismenn halda að nýju um stjórnartauma á Íslandi. Og það skal upplýst að áður en þau Guðrún og Þórólfur gengu í hjónaband hafði hann þegar skráð hana í Sjálfstæðisflokkinn! Þetta var að smella pólitíska hælnum á hana svo göngulagið væri rétt.

Til lífs

Og nú eru skil. Ég minni á að erfidrykkjur eru góður vettvangur til að segja sögur, sem vakna upp í andrúmi kveðjustundar. Segðu sögu af Þórólfi, kynnum við hann, minningu sem gleður og er þess virði að segja frá. Hann vann vel með líf sitt, gerði upp fæðingararf sinn, vann úr lífsefnum sínum, umvafði Dúnu sína, gaf af sér, hleypti gleði að fólkinu sínu, spann og spurði, setti upp gátuglottið, galopnaði faðm og heimili og var í mun að allir nytu gæða sem hann og Dúna gætu veitt.

Nú er hann farinn en minning hans lifir. Og þú mátt trúa að hann lifir í ríki sem við köllum himinn. Þórólfur spurði: Hvað kemst maður langt inn í skóg? Og við getum skipt út og spurt hvað maður komist langt inn í himininn? Sama svarið fyrir skóg og eilífð. Inn í miðju, haldi maður lengra er maður á leiðinni út. Þórólfur leggur ekki lengur fyrir þig gátur. En það er gott að nota svolítið af lífskúnst Þórólfs um himininn. Guð kann spilagaldur lífsins – Guð hefur minni, kunnáttu, útsjónarsemi og ferlavitund bridsspilarans – já í ofurstíl – hefur gaman af slemmum og stórum sögnum. Og ég trúi að Þórólfur geti fengið að krydda hina himnesku kjötsúpu á útstími eilífðar. Þar sé grín, gátuglott, mannúð og friður. Þórólfur rúntar kannski ekki lengur um á vörubíl til að skemmta ástvinum sínum og afkomendum en hin jákvæða bjartsýni kristninnar rímar algerlega við Þórólfslífið. Allt frá Eiði upphafsins var hann blessaður. Og nú má hann búa á hinu himneska Eiði – þar er hann meðal vina. Þar er gott og allir hafa hælana í lagi. Ef ekki þá eru laghentir til reiðu.

Guð geymi hann ávallt og ævinlega og Guð geymi þig, leggi þér til lífsvernd og blessun.

Amen