Guðrún Kristjánsdóttir – tákn og fyrirmynd

Guðrún Kristjánsdóttir 3Rúna var tákn í lífinu – tákn hins góða. Hvernig fólk hefur talað um hana er samhljóða. Ástvinir og samferðafólk minnast góðrar og elskuríkar konu sem var umhugað um aðra, líðan fólks og velferð: „Rúna var góð – hún stóð sig alltaf svo vel – hún var alveg pottþétt.”

Við undirúning útfarar íhuga prestar gjarnan hvernig lífsþættir ríma við biblíustef. Fólkið hennar Rúnu hugsaði stundarkorn þegar presturinn spurði um biblíutenginu. Og svo kom skýrt svar við þeirri spurningu eins og öðrum. Rúnu var annt um upphafsversin í 121. Davíðssálmi:

Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Sjón til hæða, upp til fjalla. Hjálp sem kemur úr veruleika hins háleita, góða og fagra. Enginn er alger aðeins af sjálfum sér – við erum tengd, inn á við, til dýpta, við fólk, við djúp og hæðir – og erum kölluð til starfa á þeim reit sem nýtir hæfni. Okkur er falið að annast ungviði og vera í tengslum við ásvini. Hvað verður til lífs, hvaða gildi duga, hvaða lífsafstaða verður til góðs? Og hvað gerum við í erfiðleikum, þegar máttur dvín, minnið daprast og tengingar við veruleikann slitna og hverfa?

Ástvinir Rúnu vissu að hún átti í sér frumvitund trúar, frumtraust til lífsins og Guðs. Hún átti sér athvarf og samhengi. Svo var hún líka sjálf trausts verð í samskiptum. Hún var rún – tákn og fyrirmynd.

Æfi og störf

Guðrún Kristjánsdóttir fæddist 18. október árið 1939 í Reykjavík. Hún var elsta barn hjónanna Emmu Guðmundsdóttur og Kristjáns Gunnarssonar. Pabbinn var á sjó, stýrði skipi en mamman var konan í brúnni heima. Kristján lést árið 1969 en Emma lifir enn – á tíræðisaldri.

Systkini Guðrúnar eru fjögur. Næstelst er Karítas sem fæddist árið 1941. Hún er hjúkrunarfræðingur og búsett í Bandaríkjunum. Gunnar, prestur og fræðimaður, fæddist í ársbyrjun 1945. Ágúst kom svo í heiminn þremur árum síðar – eða árið 1948. Hann lést árið 1989. María Vigdís er yngst. Hún fæddist árið 1954 og starfar við kennslu og þýðingar.

Rúna fæddist við upphaf seinni heimstyrjaldar. Faðir hennar var á sjó öll stríðsárin og Emma, Rúna, Karítas og Gunnar bjuggu við ógn stríðsins. Hver áhrifin urðu á sálarlíf þeirra er enginn til frásagnar um en stríð eru engum lífsbót. Vegna vinnu fjölskylduföðurins bjó fjölskylda Rúnu um tíma á Seyðisfirði og þar sá hún El Grillo fara niður. Svo settist fjölskyldan að í Laugarneshverfi í Reykjavík og Rúna fór í þann metnaðarríka Laugarnesskóla og lauk síðan gagnfræðaprófi frá Austurbæjarskóla árið 1956.

Á sumrin var Rúna send í sveit. Hún var á Akureyjum á Breiðafirði, austur í Mýrdal og best þótti henni að vera hjá ættingjum sínum á Hala í Djúpárhreppi. Þar naut hún sín, fékk laun fyrir vinnusemi, lærði að lesa náttúru og njóta frelsis sveitarinnar, undurs hestamennsku og horfa til fjallanna. Og á Suðurlandi er himininn stór og faðmar fjöll og fólk.

Þegar Rúna hafði aldur til fór hún í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk þaðan námi í mars 1963. Hún starfaði um tíma við Sjúkrahúsið á Akranesi og Sjúkrahúsið í Eyjum og síðan á Landspítalanum í Reykjavík. Síðan fór hún til starfa í Kaupmannahöfn sem veitti henni faglegt veganesti. Hún var á barnadeild Köbenhavns Amts Sygehus í Gentofte og síðan á lyflækningadeild Sönderbro Sygehus. Rúna fékk því bæði innsýn og útsýn í heimi hjúkrunar og spítala ytra.

Hún fór svo til starfa á Barnaspítala Hringsins árið 1965 og starfaði þar til 1967. Rúna var afburðanemandi, hafði í sér fræðslufærni og var ráðinn til að kenna við Hjúkrunarskóla Íslands á árunum 1967 til 1968 og var nemendum sínum eftirminnilegur kennari. Síðar starfaði hún á Heilsuverndarstöðinni í nokkur ár og þaðan fór hún til starfa í Melaskólanum – hinum megin Neshagans. Margir Vesturbæingar muna eftir henni sem natinni, viðmótshlýrri skólahjúkrunarkonu. Öllum tók hún með ljúfmennsku og það var ekki óttaefni að fara til Rúnu í skoðun heldur var hún traustsins verð. Síðustu starfsárin helgaði Rúna sig hjúkrun aldraðra. Hún vann á öldrunardeild á Landakotsspítala um tíma. Á meðan börn hennar voru ung tók hún gjarnan nætur- og helgarvaktir til að hámarka samvistatíma með ástvinum heima. Lengst starfaði hún samfellt á Hrafnistu í Reykjavík. Árið 1998 var hún ráðin til Borgarspítala í Fossvogi og vann þar á gjörgæsludeild þar til sumarið 2000 er hún lét af störfum sökum eigin sjúkdóms.

Hjúskapur og fjölskylda

Eggert Sigfússon varð sálufélagi og eiginmaður Rúnu. Þau voru nánast jafngömul – á milli þeirra var aðeins vika og hann yngri en hún. Eggert missti föður sinn ungur og fjölskylda hans flutti frá Hvolsvelli í bæinn. Hann lenti í sama bekk og Rúna. Henni varð á þessum árum starsýnna á hann en honum á hana. Svo skildu leiðir. En þegar Eggert var við lyfjafræðinám í Höfn átti handboltalandslið Íslands erindi til Danmerkur til að keppa við landslið þarlendra. Íslendingar fjölmenntu á leikinn og Eggert var meðal þeirra. Volkswagenrúgbrauð var leigt og einn farþeganna var Rúna, falleg íslensk stúlka sem Eggert hafði auga fyrir. Þá sá hann hana! Svo hittust þau aftur á myndakvöldi til að rifja upp landsleiksviðburðinn. Og þá sáu þau hvort annað enn betur. Ástin kviknaði og þroskaðist og þau fóru að fara út saman. Þau rugluðu reitum og bjuggu hér í Vesturbænum. Svo höfðu þau samband við prest í Neskirkju og gengu fyrir altari þessarar kirkju til að segja sín hjúskaparjá á jóladegi 1967. Þá hófst hamingjuferð þeirra Rúnu og Eggerts og mikið eiga þau íslenskum handbolta að þakka! En sundið varð þó fjölskyldusportið og börnin þeirra sundkappar.

Þau Eggert eignuðust þrjú börn. Sigríður Anna fæddist í október árið 1968. Hún býr í Noregi og er arkitekt. Maður hennar er arkitektinn og jóladrengurinn Eirik Rönning-Andersen. Þau eiga Ylvu og Frey.

Karítas fædddist svo í mars 1971. Hún er tækniteiknari. Maður hennar er Heiðar Einarsson verkfræðingur. Karítas á þrjú börn. Elstur er Hlynur Sigurðarson og síðan eru Rakel og Einar Atli – Heiðarsbörn.

Rúna og Eggert eignuðust Kristján í ágúst 1973. Hann er arkitekt. Kona hans er Theresa Himmer myndlistarmaður og arkitekt.

Það hefur verð hrífandi að hlusta á fjölskylduna tala um Rúnu, finna fyrir virðingunni sem ástvinirnir tjá vel í hennar garð. Hún ól önn fyrir þeim öllum, var þeim traust og gjöful, glöð og stöndug – og skilaði þeim til lífs og hamingju. Ástvinum og söfnuði senda hollsystur samúðarkveðjur. Þær eru útskriftarárgangur Rúnu. Hega Ólafsdóttir vinkona Rúnu biður um að í útfararræðu sé minnst á að sérstakar samúðarkveðjur séu frá þeim hollsystrum sem búsettar eru erlendis (útskriftarárgangurinn úr Hjúkrunarskólanum).

Minningar um Rúnu

Hvernig manstu Rúnu? Mörg ykkar vitið að alzheimer-sjúkdómurinn herjaði á Rúnu síðustu árin sem sleit tengingar hennar við tilveruna. Það nístir að sjá ástvin sinn tærast upp innan frá, styrka konu veiklast og hverfa svo inn í veröld handan tjáningar og tengsla. Hvernig er hægt að vinna úr þeirri upplifun?

Minningar er hægt að orða, færa í tal og segja frá. Til að sefa sorg er gott að segja sögur. Í því er undur fólgið að gæla við nöfn fólks og segja frá minningu í framhaldinu. Nefndu nafnið hennar og segðu sögu.

Þegar fólk verður fyrir áföllum og sorg leitum við í hæðir. Hvaða kemur þér hjálp? Hvað verður til að styktar þegar við líðum. Orð eru mikilvægur farvegur tilfinninga. Ég legg til að þú notir erfirdrykkjuna hér á eftir til að segja sögu um Rúnu. Hvernig kynntistu henni? Gerði hún þér einhvern tíma gott? Að hverju dáðistu í lífi hennar? Mannstu hvað vel hún hjúkraði bróður sínum? Hún var eins og fjölskyldulæknir, greindi vel, var heima í mörgum hjúkrunar- og lækningagreinum og gat því bent til vegar ef áhyggjufull ættmenn vissu ekki hvað gera skyldi.

Mannstu eftir ferðaflugunni Rúnu – hve mikla gleði hún hafði að fræðast og skoða veröldina. Hún fór meira að segja allan heimshringinn með systurinni Karítas. Og hún sótti til fjalla, ekki aðeins í andlegum skilningi heldur til að njóta, tína ber, draga í sig liti og upplifanir – næra sálina. Og þar sem hún hafði góðan skilning á heilsufæði náði hún í fjallagrös fyrir seyði. Og svo bar hún hollustuna á borð og líka heimatilbúna jógurt sem var misvinsæl. Með heilsuræktaráherslu og fæðuvitund var Rúna var tákn um nýjan tíma, á undan sinni samtíð og hefði notið lífrænu vakningar nútímans. Hún var sem rún heilsuræktar.

Manstu eftir ást hennar á dýrum – einkum hestum? Eða dansáhuganum? Rúna naut hreyfingar, fjörs, gleði og fótfimi. Eggert var kannski ekki tangómeistari en það var gaman að sjá blikið og fögnuðinn í augum hans þegar hann talaði um Rúnu dansara.

Hún las mikið, var sólgin í þekkingu og fylgdist vel með. Hún var sá afburðanemandi að hún hefði orðið framúrskarandi í þeim greinum sem hún hefði ákveðið að stunda, fræðilegum sem verklegum. Rúna var handlægin, listfeng og skapaði með höndum ef hún hélt ekki á bók.

Manstu hve umhyggjusöm hún var? Hún var elsta barnið í systkinahóp og gekkst við ábyrgð sinni. Þegar bróðir hennar veiktist á unglingsaldri var hún reiðubúin að þjóna honum og létta undir með móður og ástvinum. Á þessum tímamótum er vert að þakka óeigingjarna þjónustu hennar á sama tíma og börnin hennar voru ung og hún hafði í mörgu að snúast. Henni var ekki aðeins fagmennska eðlileg heldur knúði mannelska, mannúð og umhyggja hana í störfum. Hún var fyrirmyndar hjúkrunarfræðingur og fyrirmynd í hvernig samskipti fólks eiga að vera og hvers ber að gæta. Rúna var umtalsfróm og bar hag fólks fyrir brjósti, á vinnustað, í fjölskyldu og meðal ástvina. Áttu sögu að segja um það efni?

Manstu hvað hún gerði miklar kröfur til sjálfra sín og hve vel hún reis undir þeim? Hún setti markið hátt í flestum efnum og kröfur hennar gerði hún fyrst til sjálfrar sín. Hún var fyrirmynd í því einnig.

Hef augu til fjalla

Svo horfði hún til hæða. Hún þáði í arf jákvæða lífssýn og lífstrú. Guðstrú á heimili Rúnu var eðlileg og því gat fólkið hennar horft á eftir henni inni óminnið og síðan eilífðina því sálin hennar lifir.

Nú eru skil – Rúna er horfin inn í himin handan fjalls. Og svo máttu trúa að hjálpin kemur frá skapara himins og jarðar. Rúna var tákn um allt hið góða sem Guð gefur. Rúna var fyrirmynd um elskusemi, mannúð og fegurð. Í þeim og hennar anda máttu lifa. 121. sálmur endar með stóru faðmlagi: Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Góður Guð varðveiti Rúnu að eilífu. Guð varðveiti þig – Amen.

Minningarorð við útför i Neskirkju 15. maí, 2013.