Sigur?

IMG_1276Litur dagsins er svartur. Altarisklæðið er svart og stólan dökk. Engin ljós brosa við okkur á altarinu og jafnvel kirkjuklukkurnar þegja á þessum degi. Allt er sorginni markað.
Hin opinbera saga mannkyns hefur löngum verið saga sigurvegara. En hvað er sigur? Þegar litið er yfir tíma og sögu sést að ytri sigrar eru skammvinnir, að glanshúðin er skæni, að margir sigurvegarar umhverfast í böðla. Þegar í ytri sigri er upphaf ósigurs.

Um stóra sigra eru til margar frásagnir en um sigur í ósigri er sagan fáorðari. Ekki vegna þess að slíkir sigrar hafi ekki verið unnir heldur er torveldara að koma auga á þá. Skýrasta sagan um sigur í ósigri er píslarsaga Jesú Krists. Ósigur Jesú virtist alger. Hann var hæddur, hrakinn og hýddur. Undirbúningur krossfestingar var skelfilegur. Í fornum heimildum er þess getið að húðstrýking hafi jafnvel orðið mönnum að aldurtila, svo hrottaleg var hún og gekk nærri mönnum. Það er skýring þess að Jesús var ekki látinn ganga undir krossi sínum allt til aftökustaðar á Golgatahæð. Hann var of máttfara vegna hýðingar.

Á þessum bænadögum hef ég staldrað við afstöðu og æðruleysi Jesú. Konurnar í mannþrönginni grétu yfir lægingu og meðferð hans. Jesús gaf til kynna hvernig hann túlkaði písl sína: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér en grátið yfir sjálfum ykkur og börnum ykkar.” Hann vildi enga vorkunnsemi. Jesús Kristur áleit ekki sjálfan sig sigraðan mann og túlkaði ekki píslarferil sinn sem tap. Hann vissi að ósigur eða læging í hinu ytra skiptir minnstu og engum sköpum heldur sá sigur sem ekkert fær grandað. Og köllun Jesú var ekki sjálfhverf eða sjálfmiðuð. Hann leitaði ekki eftir vinsældum, aðdáun eða frægð. Allur ferill hans og þjónusta var mótuð af innri köllun og tengslum hans við Guð, föður. Jesús gerði sér fullkomlega grein fyrir að það sem virtist vera sigur valdhafa Jersúsalem var alger ósigur þeirra. Það skýrir æðruleysi hans.

Íhugum framvinu píslarsögunnar. Hvergi muntu greina hinn hráða og kúgaða Jesú Krist sem sigraðan mann. Hann féll fram í grasgarðinum og þá var hann barn í bæn til föður. Þaðan í frá var stefnan mótuð og hann kvartaði aldrei heldur birtist í honum eða skein af honum yfirvegun og ró sigurvegarans. Eitt sérstæðasta og merkilegasta einkenni píslarsögnnar er að Jesús tjáir hvergi nokkurn vanstyrk eða bregst við með æsingi sem einkennir þau sem verða fyrir ofbeldi eða lenda í hryllilegum aðstæðum. Hvergi skeikar ró, tign og festu, sem einkennir þann sem á í sér sigur. Frammi fyrir ráðinu og Pílatusi svaraði Jesús með skýrleik og einurð. Orð hans voru stutt og engum orðum ofaukið, ekki smáorði. Hver setning var sem meitluð á stein. Jafnvel þögn hans var yfirveguð og æpandi. Engu hæðnisorði svaraði hann, hver sem í hlut átti.

Einu orðin sem gætu virst tjá uppgjöf eru orð Jesú á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ En þegar grannt er skoðað er þó enginn uppgjöf í þessum orðum. Þau eru tilvitnun í 22. Davíðssálm sem var túlkaður sem spádómur um Messías. Jesús Kristur þekkti efni sálmsins og skildi píslarför sína sem uppfyllingu hans. „…þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur. Ég get talið öll mín bein, þeir horfa á og hafa mig að augnagamni. Þeir skipta með sér klæðum mínum, kasta hlut um kyrtil minn.“

En þrátt fyrir hörmungarlýsingu sálmsins lýkur honum með sigurtjáningu Guðs sem snýr ósigri í sigur, læginu í upphafningu. Þetta skildi Hallgrímur Pétursson rétt. Í 41. Passíusálmi segir:

Enginn skal hugsa, að Herran þá

hafi með efa og bræði

hrópað þannig né horfið frá

heilagri þolinmæði,

syndanna kraft og kvalanna stærð


kynnir hann oss, svo verði hrærð

hjörtun frá hrekkja æði.

Í hinu ytra virtist ósigur Jesú alger. Vinirnir voru flúnir, hann sjálfur smánaður. Hermenn og lýðurinn gerðu hróp að honum. Af hverju hjápar Guð þér ekki? Hvar er Guð nú? Jafnvel annar ræningjanna á krossinum – nærri dauðastundinni – spottaði hann. En það var ekki ásýnd heldur innri veruleiki sem stýrði för Jesú Krists. Jesús lifði og var í algerri samsemd með lífi og veruleika Guðs. Hann var fullkomlega innlifaður að Guð væri með honum, tæki sporin með honum á leiðinni, bæri krossinn og yrði fyrir hæðnisglósunum. Hann væri í föðurnum og faðirinn í honum. Vegna samsemdarinnar brotnaði Jesús ekki hið innra. Þessi líftengsl föður og sonar er lykill skilnings píslarsögunnar og raunar páskanna og hins kristna dóms. Píslarsagan verður ávirk vegna hinnar algeru guðsnándar sem Jesús lifði í og var honum eðlileg og eiginleg.

Páskarnir eru sigurhátíð þegar sigur lífsins á dauðanum opinberast. En föstudagur er dagur píslar og dauða. Í miðri þjáningunni leynist sigurinn. Jafnvel við dauðastund tjáir Jesús manninum sem var honum til hliðar og við megum gjarnan heyra þann boskap „Í dag skaltu vera með mér í paradís.“ Við megum lifa í þeirri guðsnánd og allt lífið þjálfast í þeirri innlifun. Þar eru allir litir lífsins, lífið í fyllingu.

Amen.

Íhugun í Neskirkju föstudaginn langa, 29. mars, 2013.