Provence – kalkúnn

Þakkargerðarmáltíð á fimmtudegi – að amerískum hætti – gekk ekki upp á mínum bæ. En ég lærði á námstíma vestra að meta ameríska þakkarhátíð og langaði til elda kalkún í ár. Og þar sem við heilsteikjum kalkún á jólum fór ég að íhuga aðrar útgáfur og ákvað að elda franskt og með Coq au Vin-vídd. „Fimm stjörnur“ sagði mín káta kona eftir matinn – með stjörnur í augum – og „mundu að skrásetja sósuna líka!“

Hráefnið

Fyrir 4-6 eftir stærð bringunnar

Kalkúnabringa

Provencekrydd 2 msk (ég blandaði saman rósmarín, basiliku, oreganó og tímían)

4 lárviðarlaufblöð

1,5 msk ferskt rósmarín

1 msk Dijonsinnep – má vera hunagsblandað líka

salt og pipar

2 msk ólífuolía

3 hvítlauksrif pressuð

1 heill hvítlaukur – rifin flysjuð en ekki skorin eða marin

6 gulrætur

3 rauðlaukar – skornar í bita

2 litlar rauðrófur – skornar í bita

1 sæt kartafla

15 smálaukar hvítir og rauðir

1 bolli grænmetiskraftur

1 bolli þurrt hvítvín – Riesling er t.d. ljómandi

I sósu

2 msk smjör

2 skalottulaukar

2 rauðlaukar

kókosmjólk eða léttrjómi – ég nota orðið mun meira kókosmjólk en rjómann – mæli með því.

1. Blanda saman öllu kryddinu, þurru sem fersku, sinnepi, salti pipar, olíu og hvítlauk. Blanda saman með höndum og smyrja helmingi þykknisins báðum megin á kalkúnabringuna. Steikja báðum megin á pönnu til að loka kjötinu.

2. Skera grænmetið í fingurstóra bita og flysja laukinn og skera í hæfilega bita.

3. Setja kjötið í fat sem hægt er að loka og smyra afganginum af kryddinu ofan á. Koma grænmetinu fyrir við hlið og kringum kjötið.

4. Grænmetiskraftur og vín hellt við hlið kjötsins.

5. Lokið á og steikt við 200° 1,5 klst

6. Steikja smáskorinn lauk í smjöri í 5 mín. og hella síðan kókosmjólk eða rjóma og slettu af rauðvíni og sjóða niður.

7. Svo er bara að bera fram, njóta og þakka.

Bæn:

Allt sem í dag er borið borði

blessaðu nú með þínu orði,

eilífi Drottinn; þelið þitt

þvoi og lýsi’ upp hjarta mitt.

 

Þökk fyrir matinn, Guð minn góður.

Gefðu að hverri systur, bróður,

sem að hér gengur út og inn

ávallt hann bendi’ á kærleik þinn.

 

Borðbæn Siglufjarðarprestsins og vinar míns, sr. Sigurðar Ægissonar.