Brúðgumi, tíu meyjar, forsjálni og fleira

Næstsíðasti sunnudagur kirkjuársins A-röð. Margt spennandi er í guðspjalli næstsíðasta sunnudags kirkjuársins. Hér er innsýn í undirbúning prédikarans. Fyrst eru versaskýringar, síðan er tiplað á álitaefnum og í lokin nefndir nokkrir heimfærslumöguleikar, ýmsir álitlegir.Textar dagsins

Lexían: Sef. 3.14-17

Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem! Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna. Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast! Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng.

Pistillinn: Hebr. 3.12-14

Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði. Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir í dag, til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar. Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.

Guðspjallið: Mt. 25.1-13

Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.

Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.

Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.

Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Guðspjallsskýring

Líkt um himnaríki á við alla söguna en ekki aðeins meyjahópinn!

Meyjar – orðið sem notað er, parthenos, er hið sama og notað er um Maríu í fyrsta kafla guðspjallsins. Ritskýrendur minna á að meyjar séu ekki “brúðar”meyjar, heldur fremur brúðgumameyjar, því þær hafa tilheyrt húsi brúðgumans.

Lampar – Ristkýrandinn J. Jeremias segir lampana vera n.k. kolur, þ.e. kveikljós með skyggni. Aðrir telja, að þetta hafi verið kyndlar og án nokkurrar eldsneytisgeymslu, lampahúss. Þess vegna hafi eldurinn dáið á ljósum þeirra, sem engar eldsneytisbirgðir höfðu.

til móts við brúðgumann – Brúðguminn fór til fundar við forráðamenn brúðarinnar. Þegar samningum um brúðkaup var lokið kom hann til baka frá heimkynnum brúðarinnar. Brúðurin var þá með í för og fór með mannsefni sínu til húss hans eða fjölskyldu hans. Hlutverk meyjanna var að fagna brúðhjónum við komuna. Kallari var gjarnan undanfari til að vara við komu brúgumans.

Fávísu – morai á við óforsjálni þeirra að taka ekki með sér eldsneytisbirgðir, ef karlinn yrði seinn frá kaupskapnum. Seinlæti hans gaf þeim líka möguleika á að bregða við og afla birgða.

á könnum – aggeia sem voru ílát með höldum, sem bendir þá til að meyjarnar hafi farið nokkurn veg fyrst þær þurftu ferðasett.

Nú dvaldist – samningaviðræður gátu tafist ef ekki samdist. Slíkt var ekki óalgengt en ljóst, að brúðguminn hefur tafist umfram hið venjulega. Orðið sem notað, kronitso, er um töfina og er hið sama og notað er í Mt. 24.48.

Tóku til lampa sína – þ.e. laga kveikinn sem og fyllt á lampahúsið (Jeremias).

Farið heldur til kaupmanna – Hinar hyggnu svara skýrt að olían dugi ekki fyrir alla. Því verði þær óforsjálu að fara og afla sér olíu. Reyndar má velta vöngum yfir hversu seint þetta hefur verið og hvort kvöldverslun hefur verið orðin algeng fyrir tvö þúsund árum! Engin ástæða er til að kreista svona sögur. Þetta er ekki unnin allegoría þar sem hvert orð er vendilega valið til að tákna og túlka einhverja ákveðna merkingu.

Brúðkaupi𠖠gamoi, í fleirtölu og á við allt ferlið, þ.m.t. veisluhöld. Í Mt. 22 er líka talað um hóp sem ekki fær notið brúkaupsins. Veisluhaldið gat staðið allt að viku.

ég þekki yður ekki – merkir að brúðguminn vilji ekki hafa neitt með meyjarnar að gera, sbr. orð Péturs í Mt. 26.74. Höfnun meyjanna væri kannski skiljanlegri ef þær væru brúðarmeyjar, en nú heyra þær til “húsi” brúgumans. Þeim er því hafnað af bæði hinum forsjálu, hyggnu, meyjum og einnig brúgumanum! Hér ríkir enginn vægur og alelskur húmanismi heldur er tjáð dauðans alvara. Klár dómur yfir þeim, sem seint koma er t.d. í Lk. 13.25; Mt. 7.22-23.

Efni textans

Sagan leggur augljóslega áherslu á að menn hafi andvara á sér í trúarefnum. Hún er í guðspjallinu í framhaldi og sem skýring á Mt. 24.42 “Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.” Í nærsamhengi Mattheusar var tekist á um merkingu endurkomunnar, hversu endir tímans skyldi skilinn og hvers eðli koma guðsríkisins yrði.

Sumir skýrendur sem hafa talið söguna vera allegóríu. Hún hafi vísast komið frá Jesú en mótast og verið túlkuð síðar í frum-kirkjulegu samhengi og farið að þjóna trúarpólitísku hlutverki. Að tengja Messías við brúðgumalíkinguna var óþekkt í Gt og fáheyrt í gyðinglegu samhengi. En eins og alkunna er varð tengingin í kristninni, og þessi saga var skilin kristsmiðlægt innan fárra ára frá flutningi. Brúðguminn var þá álitinn tákna Jesú Krist og meyjarnar kirkjuna. Hinar fávísu hafi verið sá vængur kirkjunnar, sem ekki taldi heimsslit, endurkomuna, yfirvofandi heldur hélt í hefðbundnari gyðinglegar túlkanir. Hinar vísu hafi þá verið sá hluti kirkjunnar, sem bjóst við endurkomunni fljótt. Ýtrasta túlkunin er and-gyðingleg, að hinar fávísu meyjar merki Ísrael og hinar hyggnu merki heiðin-kristna. Flestir skýrendur hafna þessari útgáfu og margir flestum allegórískum útlistunum. Þær séu of einfaldar og spilli frummerkingu sögunnar þegar Jesús hafi flutt hana.

Um hvað fjallar þessi texti? Hann er ekki bara um meyjarnar og visku eða óforsjálni þeirra. Hann er líka um brúgumann – kannski ekki um kaupskap hans – heldur fremur um endurkomu og hvernig atferli og afstaðan til hans skiptir máli. Lög textans eru því tvö.

Í sögunni er sagt frá sérkennilegum og sjálfsagt fátíðum atburði, sem er íhugunarvirði. Meyjarnar voru lokaðar úti vegna óforsjálni og eru því víti til varnaðar: “Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.” (Mt. 25.13). Um hvað var Jesús að tala í þessari parabólu, líkingasögu? Flestir ritskýrendur telja, að Jesús hafi rætt um brúðgumann á hefðbundinn hebresk-gyðinglegan máta, þ.e. að brúðguminn sé Guð og að ríki Guðs sé yfirvofandi, komi skjótt. En vegna upprisureynslu kirkjunnar hafi síðan bæst við túlkunina, bæði á þessari sögu sem öðrum. Túlkun þeirra breyttist einfaldlega og meining Jesú-orða og -sagna hafi sumpart verið hulin nýjum merkingarlögum sem bætt var við í guðfræðilegum túlkunum frumsafnaðanna. Merkingarvefir hafi orðið til viðbótar frumsögunum og meiningu þeirra.

Mattheusarguðspjall notar mannssonarheitið sem lykil og skilur því brúðgumann í sögunni sem mannssoninn, Jesú Krist. Túlkun líkingasagna er viðkvæmnismál. Eðli brúðgumans stýrir algerlega hvernig sagan er skilinn. Ef Jesús vísaði ekki til sjálfs sín í upprunasögunni er ekki eðlilegt að túlka meyjarnar sem kirkjuna. Það er eðlilegt og skiljanlegt, að frumkirkjan hafi séð í þessari sögu vísan til Jesú þó tilheyrendur Jesú hafi ekki skilið söguna með því móti.

Myndmálið um brúðgumann/Jesú Krist og meyjar/brúður/kirkjuna varð til snemma í sögu kirkjunnar, er þekkt í Nt. Myndmálið var flestum vel skiljanlegt og ofið í menningu þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs varðandi samband guðsins eða guðanna annars vegar og hinna trúuðu eða tilbiðjandi hins vegar. Þegar farið var að túlka brúðgumann sem Jesú fengu meyjarnar aðra merkingu en í hinni upprunalegu Jesúsögu og þá var hægt að túlka í ýmsar áttir og benda t.d. á að öll þau sem settu sig á móti eskatólogískum/apokapytískum skilningi væru á móti eða höfnuðu Jesú sem Kristi.

Ég fæ ekki betur séð af textanum og samhenginu en, að Mattheus hafi átt í brasi með slíka menn, þau sem settu sig á móti endurkomuguðfræði og hafi séð sig tilneyddan að bera fram þessar sögur Jesú og viljað benda á mikilvægi forsjálninnar gagnvart komu mannssonarins, sem hann efaðist ekki um að væri Jesús Kristur.

Með uppreisn og falli musterisins árið 70 urðu átök og rót í Gyðingdómnum. Í kjölfar hinna skelfilegu atburða var hart brugðist við öllum sem lögðu upp úr og voru málsvarar heimsslitahugsunar og rabbínisminn varð til. Meðan frumkirkjan var sem gyðinglegur trúarhópur deildi hún menningarlegum kjörum með hinu gyðinglega samfélagi. Heimsendamenn urðu sem hryðjuverkamenn, uppreisnarseggir og því hættulegir. Mattheus hefur líklega átt í höggi við hina varkáru (og að áliti þorra Gyðinga) “forsjálu” og “hyggnu” menn, sem vildu róa samfélagið, þagga niður hávaðamenn, “öfgamenn” af öllu tagi. Ef þetta er aðstaða Mattheusar fær sagan um meyjarnar dýpt og spennu sem er frjósöm til túlkunar.

Heimfærsla

Guðspjallstextinn gefur marga túlkunar- og heimfærslu-möguleika. Heimspólitík okkar samtíðar, t.d. hverjir eru haukar og hverjir friðflytjendur og ljósmæður friðarins? Hvað er koma sannleika og blessunar í samfélaginu? Hverjir eru vitrir og forsjálir? Hverjir eru heimskir og brenna ljósin sín áður en til kasta kemur í myrkri nóttinni? Eins og menn vita litar trúarafstaða mjög stefnu þeirra sem næst eru átakasvæðum í alþjóðamálum. Það skiptir svo sannarlega máli að ígrunda trúarlífið þegar átrúnaður er notaður með svo ákveðnu og ídeólógísku móti eins og við sjáum í Austurlöndum nær. Helsta gagnrýnisefni varðandi íslenska banka á liðnum misserum var að stjórn og starf þeirra hafi skort forsjálni. Hagstjórn og samfélagsstjórn í stöndugu lýðræðisríki þarf að vera gegnsýrð forsjálni.

Síðan er auðvitað hægt að fara á hefðbundnar heimfærsluslóðir og ræða um kirkjuna, eðli vöku hennar og í hverju heimska og hyggindi eru fólgin í samtíðinni. Þetta er verðugt viðfangsefni fyrir öfluga kirkjuhirða, sem ekki titra af hlutleysi. En vel væri, að menn gerðu sér grein fyrir og segðu líka frá að slík nálgun sé í anda hinnar allegórísku túlkunar. Athugið að í sögu Jesú var olían örugglega ekki skilin sem Heilagur Andi. Þeir sem fara stíft í túlkun ættu að gæta að því hvort þeir njóta andans eða nota hann (sem oftast er misnotkun?).

Forsjálni, fyrirhyggja – viska er meginstef guðspjallstextans og má túlka inn í samhengi einstaklinganna sem eru í kirkju. Forsjálni er auðvitað marslungin dyggð, ekki bara í hinu víða samfélagssamhengi, heldur í lífi okkar sem einstaklinga. Meyjarnar eru skemmtilegt umfjöllunarefni til að íhuga hvað við teljum vera forsjálni í eigin lífi. Trú og trúariðkun kemur auðvitað þar við sögu. Ávallt reiðubúinn er áhersla okkar skátanna.

Í sögunni er það brúðguminn sem kemur seint. Samfélagið var karlmiðlægt. Í okkar samhengi er athyglin fremur á brúðinni, sem lætur alla bíða, telur það jafnvel rétt sinn að gera mannsefnið og viðstadda stressaða. Flest okkar höfum lent í brúðarbið, sem verður jafnan ansi pínleg. En það má jafnvel skemmta um hið óskemmtilega, nota erfiða reynslu til upplýsingar í prédikun!

Í heimfærslu textans er vel við hæfi að ræða um brúðgumann. Túlkunin á brúðgumanum í sögunni getur átt sér margar víddir og er hliðstæða hvernig við hugsum um Jesú. Textinn gefur ljómandi tilefni til að ræða Kristsmyndir, ekki síst þegar við nálgumst aðventu og veltum vöngum yfir hvaða Kristskomu við undirbúum hið innra og í kirkjulífi okkar. Er það koma barnsins í heiminn, allra barna, allrar mennsku, eða er hún hin eiginlega, þ.e. koma Guðs í heim manna. Umræðuefnið gæti þá orðið hin ávirka spurning: Hvaða mynd af Jesú Kristi berð þú, eða við í huga og hjarta? Á móti hverjum viltu taka? Á móti hverjum muntu taka?

Bestu kveðjur, Sigurður Árni