Börn, unga fólkið og þjóðkirkjan

Í þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað í æskulýðsstarfi er meira í húfi en það fé sem sparast hefur. Ég mun sem biskup beita mér fyrir því að hvergi verði slegið af faglegum kröfum í æskulýðsstarfi og að þjónusta við börn og unglinga verði skilgreind sem grunnþjónusta kirkjunnar. Söfnuðir landsins standa frammi fyrir erfiðu verkefni við ráðstöfun fjármuna, en æskulýðsstarf á að vera forgangsverkefni.

Ég mun beita mér fyrir því að söfnuðir vinni saman að því að tryggja faglegt umhverfi fyrir barna- og æskulýðsstarf og að samsetning safnaða ráði forgangsröðun verkefna. Í sóknum þar sem barnafjölskyldur eru í meirihluta er óeðlilegt að minnihluti sóknargjaldi sé varið í þjónustu við þær. Á landsbyggðinni sinna sóknarprestar barna- og unglingastarfi og það er hlutverk biskups að tryggja þeim aðgang að kennsluefni og faglegu baklandi til að sinna unga fólkinu.

ÆSKÞ gegnir mikilvægu hlutverki sem málsvari æskulýðsstarfs og landssamtök æskulýðsfélaga. Ég hef fylgst með uppbyggingu ÆSKÞ undanfarin ár og mun fagnandi þiggja boð um að sækja Landsmót æskulýðsfélaga í október næstkomandi. Þjóðkirkjan á að setja starf í þágu unga fólksins í forgang. Og það er nútíðarverkefni. Framtíð kirkjunnar verður til með þjónustu við unga fólkið. Við sáum til framtíðar með því að gera æskulýðsstarf að flaggskipi íslensku þjóðkirkjunnar.