Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, stjórnmálafræðingur

Þegar ég kynntist Sigurði Árna fyrst var hann mannsefni Elínar vinkonu minnar. Síðan þá hef ég notið þess að fylgjast með þeim feta veginn saman og fann fljótlega vin í Sigurði Árna. Óhjákvæmilega sækja ýmsar spurningar á hugann þegar vinur manns tekur þá ákvörðun að bjóða sig fram til krefjandi þjónustu við almenning. Mikilvægustu spurningarnar snúa að því hvort sú ákvörðun sé til heilla fyrir hann sjálfan og þá hvort hún sé til heilla fyrir þjóðina. Báðum spurningum þarf að svara játandi til að geta með góðri samvisku óskað þess að vinurinn sé kallaður til þjónustunnar. Nú þegar Sigurður Árni hefur líst sig reiðubúinn til biskupsþjónustu hef ég spurt mig þessarra spurninga og svarað þeim játandi. Ég sé hann ekki einungis vel reiðubúinn heldur líka vel nestaðan af hæfileikum, þroska og reynslu sem gerir hann kjörinn til forystu innan þjóðkirkjunnar. En ákvörðun Sigurðar Árna hefur líka fengið mig til að íhuga hvers ég vænti af biskupi Íslands og hvernig ég sjái vininn uppfylla þær væntingar. Eftirfarandi eru þau atriði sem ég kýs að draga sérstaklega fram varðandi þær væntingar:

  • Þjónustulund og gestrisni eru mikilvægar eigindir þess sem þjónar og dýrmætar þeim sem af þiggur. Sigurður Árni býr yfir þeim eigindum í ríkum mæli.
  • Biskup þarf að finna sterkt til samhygðar með fólki. Hann þarf að hafa innsýn í þau innri átök sem fólk þarf að glíma við hvort sem er á vettvangi vinnustaða, heimila eða hins opinbera. Lífsreynsla og prestsþjónusta Sigurðar Árna hefur skilað honum nauðsynlegri hluttekningu með fólki.
  • Biskup þarf að eiga hreinskiptið og innihaldsríkt samtal við þjóð sína. Sigurður Árni er vel lesinn, fylgist vel með samfélagsmálum og á auðvelt með að tjá hugsanir sínar bæði í ræðu og riti. Prédikanir hans sem hann notar oft til að spegla málefni líðandi stundar, eru bæði lifandi og áhugaverðar.
  • Biskup þarf að get óhikað rætt málefni sem tekist er á um í samfélaginu. Sigurður Árni býr yfir slíkri áræðni eins og sést m.a. í því hvernig hann hefur á undanförnum árum tjáð stuðning sinn við samkynhneigða og þolendur kynferðisofbeldis. Þá hefur hann einnig talað skýrt fyrir jafnrétti kynjanna.
  • Síðast en ekki síst á þjónusta biskups að vera fólgin í því að blása mönnum í brjóst bjartsýni og trú á lífið. Sigurður Árni býr yfir þeirri blöndu af hrifnæmi og einlægni sem til þarf. Hann á auðvelt með að sjá fegurðina í lífinu og umhverfinu. Þar eru töluð orð og skrifuð ekki einungis kölluð til vitnis, heldur ljósmyndir hans sem ná að fanga augnablikin – stað og stund – á listrænan og fallegan hátt.

Eftir íhugun veitist mér létt að óska íslensku þjóðinni þess að hún fái notið biskupsþjónustu Sigurðar Árna Þórðarsonar.