Kirkja boðberi réttlætis

Þjóðin glímir við óvissu og öryggisleysi á sviði siðferðis og trúarlífs – ekki síst eftir hrunið. Það er mikilvægt að ganga í gegum það sorgar- og reiðiferli sem fyrir uppgjöri við áfall hrunsins. Þá er ekki síður mikilvægt að draga lærdóm af því sem miður fór og líta í eigin barm. Lærdómurinn skiptir miklu máli. Skeytingarleysi um hag náungans er mein sem ekki má grafa um sig í samfélaginu. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki boðbera réttlætis og mannúðar í samfélagi okkar.

Kirkjan er kölluð til að vera salt og ljós í heiminum. Í því felst m.a. að lýsa upp skúmaskot sálar og sársauka sem kreppa okkur innvortis og gera okkur hörð og ónæm fyrir þjáningu annarra. Í boðun sinni á kirkjan að skerpa á þeim viðmiðum og gildum sem gera okkur að Íslendingum og tala kjark og von í þjóðina á tímum þegar bölmóður og neikvæðni fær svo mikið rými. Kristin trú setur frelsi og ást í brennipunkt og mótar manneskjuna til þess konar lífs. Þess vegna lætur kirkjan sig varða hvernig samfélag við byggjum og hvernig manneskjunni reiðir af.