Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri HÍ

Við Sigurður Árni kynntumst í Mótettukórnum fyrir allmörgum árum en kórinn og allt það góða fólk sem þar hefur sungið, undir stjórn Harðar Áskelssonar, hefur lengi verið stór hluti af mínu lífi. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, Margréti Láru, fyrir rúmum sex árum kom því ekki annað til greina en að fá Sigurð Árna til að skíra. Hann var þá orðinn prestur í Neskirkju, kirkjunni okkar hér í Vesturbænum. Ég vildi skíra heima og Sigurður Árni tók að sjálfsögðu vel í það, enda alltaf boðinn og til þjónustu reiðubúinn. Athöfnin var afslöppuð og falleg undir hans handleiðslu með undirleik og söng fyrrum kórfélaga.

Ég kynntist svo Sigurði Árna enn betur fyrir nokkrum árum þegar ég leitaði til hans eftir erfið veikindi sem nú eru að baki. Hann var mér ekki bara sálusorgari, heldur traustur og sannur vinur. Hann var alltaf til staðar þegar ég þurfti á honum að halda, tók mér svo sannarlega opnum örmum og gerir enn. Hann hlustaði með athygli og áhuga – og leiddi mig með umhyggju sinni og hlýju í gegnum óttann og sársaukann. Og takið eftir – hann hlustaði – og það er afar dýrmætur kostur fyrir mann í hans stöðu! Það sem mér þótti líka afar vænt um var hvernig hann fylgdist með mér úr fjarlægð  og þannig kom svo augljóslega í ljós einlægur áhugi hans á öðru fólki – honum  er ekki sama um náungann.

Fyrir rétt tæpum mánuði skírði Sigurður Árni yngri dóttur mína, Þórunni Helenu. Athöfnin fór sem fyrr fram hér heima – alveg dásamleg sem og þegar frumburðurinn var skírður enda á Sigurður Árni  auðvelt með að láta fólki líða vel í kringum sig. Hann er afslappaður, yfirvegaður, hlýr, glaðlegur og glettinn. Útgeislun hans og kímnigáfa fær fólk, jafnt trúaða sem ótrúaða, til að hrífast með svo ég tali nú ekki um ánægju hans af og þátttöku í flutningi fallegrar tónlistar. Þrátt fyrir að Sigurður Árni væri ekki búinn að bjóða sig fram til biskups voru langömmurnar, aldursforsetarnir í skírnarveislunni, vissar um eitt: Þessi ljúfi, röggsami og brosmildi prestur ætti að verða biskup!

Sigurður Árni er maður trúarinnar en hann er jafnframt maður efans – og það gerir hann svo skilningsríkan og umburðarlyndan gagnvart skoðunum, hugmyndum og pælingum annarra um lífsins fílósófí.  Í spjalli okkar um allt milli himins og jarðar, svo ekki sé talað um tilveru og tilvist mannsins, tilfinningar hans og samskipti, fann ég hversu fordómalaus hann er og  tilbúinn að skilja og virða afstöðu annarra. Sá eiginleiki nýtist vel í biskupsþjónustu.
Sigurður Árni er líka að vissu leyti róttækur eins og sjá má í pistlum hans í Fréttablaðinu. Hann nálgast menn og málefni á heimspekilegan hátt og telur kirkjuna langt í frá yfir  gagnrýni hafna. Það er án vafa góður eiginleiki og þannig sjónarmið skipta sköpum fyrir framtíð kirkjunnar hér á landi, svo ekki sé talað um embætti biskups.

Þjóðkirkjan stendur á tímamótum og samfélagið krefst breytinga. Framtíðarkirkjan er Sigurði Árna efst í huga og hann vill beita sér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Það þarf að endurnýja hugmyndafræði og áherslur kirkjunnar í samræmi við nútímasamfélag. Ef kirkjan ætlar að halda velli þarf að styrkja tengslin við þjóðina og í forystu þarf að vera maður, eins og Sigurður Árni, sem er tilbúinn og þorir að horfast í augu við gagnrýni og hlusta á gagnrýnisraddir undanfarinna ára og  áratuga með opnu hugarfari.

Sigurður Árni er  lipur og hæfur í mannlegum samskiptum. Það ásamt menntun hans, reynslu og síðast en ekki síst fordómaleysi og kímnigáfu, er gott veganesti í embættisstól biskups Íslands. Hver veit nema langömmurnar hafi haft rétt fyrir sér í skírninni á fögrum sunnudegi þann 15. janúar síðastliðinn – allavega á Sigurður Árni erindi í embætti biskups Íslands. Þar tel ég að yrði svo sannarlega réttur maður á réttum stað!