Pílagrímagangan á Selfossi

Það var heillandi að koma að Selfosskirkju í morgun. Hálftíma fyrir athöfn var hópur fólks þegar komin í kirkjuna. Prestarnir, Ninna Sif Svavarsdóttir og Óskar Hafsteinn Óskarsson, stóðu í forkirkjunni. Þau tóku á móti öllum með brosi og útdeildu messuskrá og steinum. Það var óvænt, en allir báru með sér grjót í kirkju! Af hverju? Það var upplýst að þetta væri fjallræðuathöfn. Spennandi og vakti eftirvæntingu.

Svo fórum við Elín Sigrún, kona mín inn, inn í kirkjuna. Enn voru tíu mínútur í að athöfnin byrjaði, en barnakórinn stóð þegar í kórtröppum og söng. Litlu börnin vögguðu fram og til baka kirkjuganginum. Svo spiluðu tvær unglingsstúlkur á klarinett. Fólk dreif að og það var stemming í kirkjunni.

Svo hófst athöfnin og allur söfnuðurinn söng um Jesú, okkar besta bróður. Bænir stigu upp í himininn. Prestarnir stýrðu athöfninni með öryggi, hreyfisöngvum með sveiflu og fræddu söfnuðinn af kunnáttu. Svo söng barnakórinn að nýju. Gesturinn var kynntur og sagði sögu um lífið, öryggið, okkur manneskjur og Guð.

Steinarnir voru teknir fram og hlutverk þeirra skýrt. Grjótið úr forkirkjunni væru bænasteinar – okkar hlutverk væri að ganga fyrir altarið, leggja þá í vörðu, sem væri eins og bænafjall. Frammi fyrir Guði ættu tilfinningar okkar heima, sorgir og gleði, allt okkar líf. Ganga okkar safnaðarins, stefnan að altarinu, var eins og pílagrímsför mannsins fram fyrir Guð. Þetta var heillandi athöfn sem hafði sterk áhrif á mig. Þegar vel er unnið með börnum og unglingum er kirkjan á réttri leið.

Bjartsýni á pílagrímsför kirkjunnar

Eftir súpu í hádeginu byrjaði svo fundur kjörmanna. Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson bættist í hópinn og nokkrir kjörmenn úr héraði sem og sóknarnefndarfólk af Selfossi. Margt var rætt um biskupskjör, álitamál kirkjunnar, starf og þróun þjóðkirkjunnar og að hverju yrði að huga. Samtalið er mikilvægt í undirbúningi biskupskjörs, allir leggja í þann sjóð líka, biskupsefnum til ábendingar, kjörmönnum til styrktar en kirkjunni til framtíðar.

Þennan sunnudag á Selfossi voru bænir bornar fram í guðsþjónustu og hugmyndir lagðar fram til uppbyggingar. Ég fór frá Selfossi bjartsýnn á pílagrímsför þjóðkirkjunnar. Takk fyrir Selfyssingar, takk fyrir Sunnlendingar – og takk Guð.