Athygli

Ég hlustaði á vitra konu, sem líka er prestur, tala um kirkjuna. Hún talaði með næmleik um vanda dreifbýlis og þéttbýlis og stöðu og hlutverk kirkjunnar. Svo sagði hún, að sárasti vandi kirkjunnar í dreifbýlinu væri kannski að fólk nyti ekki athygli.

Ég staldraði við þessa hugsun. Getur verið að þetta sé mein, sem mörg kannast við. Er kannski brestur eða skortur á athygli einn meginvandi okkar kirkju? Það er dyggð að sjá fólk, í gleði þess og sorg, í vanda þess og vegsemd. Engin manneskja verður til nema vera séð. Þau, sem njóta ekki að vera séð og metin, tærast upp – verða ill eða deyja. Móður- og föðuraugu sjá mennsku í barni sínu. Þau tillit verða til að laða fram andlega auðlegð þess og þroska. Guð sér okkur menn og þess vegna verður lífið gott og gjöfult.

Við megum gjarnan læra að sjá betur, heyra betur og finna meira til með öðrum. Og við þurfum að stunda stífar hrósæfingar, segja fólki þegar það gerir gott. Auðvitað eigum við ekki að leggja af gagnrýni, heldur fylgja henni eftir með H-vítamíninu – hrósi. Við prestar megum gjarnan vera góð fyrirmynd í að veita fólki næma athygli. Kirkjulegir starfsmenn mega veita fólkinu í samfélaginu og kirkjunni athygli. Allir þarfnast þess að vera séðir.

Kristinn maður sem veitir athygli er bróðir og systir og eflir aðra. Kirkjan er athyglissamfélag Guðs og manna, með öðrum orðum samfélag kærleika. Að vera biskup er að vera episkopos, sá eða sú sem sér, horfir til, iðkar tilsjón. Að vera biskup er að veita athygli – næma athygli.