+Ólafur Jóhann Jónsson+

Hvernig var Ólafur Jóhann Jónsson? Það er mikilvægt fyrir andlegt heilbrigði að dekra við og vinna með minningar um ástvini og fólk sem skiptir okkur máli. Hvernig var myndin af Ólafi? Myndin, sem þjóðin man, er dregin upp í Englum alheimsins, margslungnu og áleitnu verki Einars Más Guðmundssonar. Þar er sagt frá lækninum Brynjólfi, sem kom fram við sjúklinga öðru vísi en aðrir í starfsliði spítalans. Og það er vitað og staðfest að fyrirmynd Brynjólfs var Ólafur. Lýsing læknisins er eftirminnileg í bókinni og skilar sér vel í kvikmynd Friðriks Þórs síðar. Ólafur kom alltaf fram við sjúklinga eins og jafningja. Mannvinsemd hans var svo skýr og mannvirðing hans svo þroskuð. Hann stóð með sjúklingunum, skildi vanda þeirra bæði vitsmunalega og tilfinningalega. Og þessi niðurlúti maður, sem söguhetjur í Englum alheimsins sáu, átti bágt. Já, mikið hlýtur hann að eiga bágt var mat þeirra. Þeir sögðu: „Hann gengur með okkur á herðunum.“ Það er fallegur minnisvarði sem Ólafur reisti sjálfum sér en var svo fagurlega fram settur í Englum Alheimsins.

Og nú Ólafur er farinn. Og þínar minningar kvikna. Hvað var hann, hvernig var hann og hvað getum við lært af honum? Hvernig var hann sem fjöskyldumaður, faðir, eiginmaður og félagi? Hvað stýrði mótun Ólafs í bensku og hvernig vann hann úr? Af hverju var hann svona góður læknir? Var það af því að hann kunni fræðin betur en margir kolleganna? Eða var það af því hann hafði sjálfur horft niður í myrkrið og átti svarta hundinn að félaga á æviskeiðinu? Var það mannúð og ræktuð mannelska sem stýrði geði hans, afstöðu og tengslum?

Bréfið – þú bazt um sárið

Ólafur sagði gjarnan að hann hefði valið erfiða grein læknisfræðinnar því það væri erfiðara að lækna geðsjúkdóma en marga aðra kvilla. Til eru merkilegar umsagnir um lækninn Ólaf og til að veita ykkur nokkra innsýn í færni hans sem læknis les ég bréf frá fyrrum sjúklingi hans sem ég fékk að sjá:  

„Ólafur.

Áraskipti í lífi manna eru sem vörðuskipti hjá ferðalöngum. Hjá vörðum staldra ferðalangar við og líta yfir farinn veg. Vegna þess, að ég hitti þig á leiðinni að þessari vörðu og fékk að nokkru leyti að verða þér samferða að henni, langar mig nú að eiga við þig orð. Þegar þú gekkst fram á mig, lá ég utan vegarins. Ég var vonlaus og treystist ekki til að halda áfram. En ég hitti þig – og þú bazt um sárin. Og þú gerðir meira: Þú studdir mig fyrstu sporin á ný unz ég fékk kraft og gat haldið áfram. – Ég minnist þess einnig, hve gaman var var að tala við þig um veginn og hve hann virtist auðfarnari á eftir. – Fyrir þetta þrái ég að þakka þér.  – Þinn vinur XX “

Þannig hljóðar þetta bréf sem Ólafi var sent á miðjum starfsferli hans. Og það dregur saman með kröftugum hætti hvílíkur andlegur græðari hann var. Í störfum var hann sem lærisveinn læknisins besta, Jesú Krists. Líf manna er vegferð frá einni stiklu til annarrar, hvort sem það eru vörður í landi eða skil í tíma.

Æfistiklur

Ólafur Jóhann Jónsson fæddist í Reykjavík 9. október árið 1928. Foreldrarnir voru Vilhelmína Kristjánsdóttir og Jón Jónsson. Ólafur var fjórði í röð systkinanna. Sigríður og Guðmundur Kristján  voru eldri og sömuleiðis systirin Ólafía Jóhanna en hún dó í frumbernsku og Ólafur þáði nafn hennar. Og nafnið varð honum líka eins og skuggi vegna missis systurinnar. Yngst var Hanna.

Mamman var dugmikil, glögg og blíðlynd og pabbinn kraftmikill bygginga- og athafna-maður. Jón byggði ekki aðeins hús, heldur flutti einnig út fisk. En tíminn var óheppilegur því fjárhagskreppa millistríðsáranna skall á með fullum þunga og tap útgerðarinnar varð stórt. Öll ráð voru dýr en ákveðið var að flytja vestur til Flateyrar árið 1932 til að ná að glíma við skuldahalann. Og þar sem Jón var hamhleypa til vinnu varð honum vel ágengt og vann að byggingum víða um Vestfirði. Og hann fékk meira að segja viðurnefnið „Jón á öllum fjörðunum“ sem tjáir vel dugnað hans.

Uppvöxtur fyrir vestan

Flateyrarárin urðu Ólafi mikil hamingjuár. Hann eignaðist vini, lærði að skilja hjartslátt og sálargáfur Vestfirðinga. Hann lærði að meta lífið í dreifbýlinu. Hann stóð sig afar vel í skóla. Var svo sendur í sveit í Tungu í Valþjófsdal og var falið að sitja yfir sauðfé. Ólafur talaði seinna um að hann hafi verið einna síðastur smala á Íslandi. Hann lærði að treysta sjálfum sér, lærði að vera einn í víðáttu fjallanna, varð að stæla hug gegn allri vá veðra og dulmagna heimsins og lærði að axla ábyrgð. Svo var lak breitt á þak bæjarins þegar hann átti að koma með búsmalann heim til mjalta. Ólafur lærði því ekki aðeins að vinna heldur aga sig. Vegna veikinda um tíma átti Ólafur erfitt með gang. En honum til happs las hann grein í tímariti um að menn gætu þjálfað sig til heilsu. Hann tók því til óspilltra mála og agaði sig og æfði og tókst að ná styrk að nýju. Alla tíð mátti merkja afleiðingar veikinda í göngulagi Ólafs en hindraði þó ekki hinn viljasterka æfingamann að hlaupa langhlaup síðar á æfinni. Fáum hefði dottið í hug að lömunarveiki drengurinn ætti eftir að vera elsti langhlauparinn í hálfmaraþoni áratugum síðar.

Skólanám Ólafs á Flateyri og á Núpi tókst vel og hann byrjaði að læra á píanó, sem varð honum hugfró. Glíman við nótur, hljómborð og tónlist varð honum farvegur tilfinninga æ síðan og til sálarbóta.

Suður

Jóni „á öllum fjörðunum“ og Vilhelmínu gekk flest að sólu og efnin bötnuðu. Þá fóru þau að huga að suðurferð. Þau fluttu til baka til Reykjavíkur á miðju stríðinu, eða árið 1942, eftir gæfuríkan áratug fyrir vestan. Pabbinn byggði hús við Ránargötu og þangað flutti fjölskyldan. Ólafur fór í Menntaskólann í Reykjavík og sóttist nám vel. Svo tóku við háskólaárin. En Ólafur glímdi ekki aðeins við efnafræði læknadeildar heldur efnaskipti eigin heila, dapran hug og þunglyndi. Eins og við lömunarveikina gerði hann sitt besta, agaði sig og tók það til bragðs sem gat eflt hann. Og allar götur síðan vissi hann um gildi þess að vilja bregðast við meinum sínum. Þegar hann sem læknir merkti vilja í sjúklingum sínum að vinna með vanda sinn þá hvatti Ólafur og studdi eins og hann mátti. Ólafur lauk hluta læknisnámsins við Háskóla Íslands og fór svo til Düsseldorf í Þýskalandi og þar lauk hann námi.

Hjúskapur, börn og ástvinir

Á milli nátta voru dagar. Og þau Ingibjörg Þórðardóttir fundu hvort annað á dansleik og dönsuðu sig til hjúskapar. Þau gengu í hjónaband 19. janúar árið 1952 og bjuggu nokkur ár í kjallara á Víðimel 44. Ingibjörg Þóra (1947) kom með móður sinni og Ólafur ættleiddi hana. Þóra starfaði sem skrifstofumaður. Börn hennar eru Ragnar Sigurbjörnsson og Dabjört Edda Barðadóttir. Gylfi fæddist árið 1955. Hann er verkfræðingur og býr í Bandaríkjunum. Hann á með Ingibjörgu Sigrúnu Einisdóttur, konu sinni, þrjú börn; Jóhann Inga, Þorbjörn og Guðrúnu Björgu. Vala fæddist árið 1962. Hún er myndlistarmaður og býr í Bandaríkjunum. Kristján Ívar fæddist árið 1964. Han er nuddfræingur og hans kona er Heba Helgadóttir og þau eiga synina Stefni Húna og Dag Fróða. Jón Ívar, einkaþjálfari, er yngstur systkinanna, fæddur í ársbyrjun árið 1970. Kona hans er Ingunn Ásta Sigmundsdóttir og þau eiga börnin Ívar Inga, Anítu Kristínu og Sylvíu Kristínu.

Nám og störf

Ólafur fór utan á undan fjölskyldunni til náms í Þýskalandi. Veran á Rínarbökkum varð honum mikil reynsla. Hann var agaður í fræðunum, teygaði í sig tónlistina og opnaði veru sína fyrir menningunni, sem var um margt í molum eftir hrylling stríðsins. Ólafur varð fyrir sporvagni og hryggbrotnaði. Hann varð að endurþjálfa sig líkamlega og svarti hundurinn, eins og Churchill kallaði þunglyndið, var aldrei langt undan. Þau Ingibjörg urðu að halda vel á öllu, bregðast við flóknum aðstæðum og það varð ekki þrautalaust að geta klárað námið. Það tókst þó fyrir harðfylgi þeirra beggja. Þau voru reynslunni ríkari þegar þau fóru svo heim til Íslands. En Ólafur vildi gjarnan bæta við sig í námi. Það varð að ráði að þau fóru til Silkeborgar og Óðinsvéa og Ólafur stundaði m.a. lyflækninganám þar á árunum 1964 – 68. Danmerkurárin voru góður birtutími allri fjölskyldunni.

Svo heim til Íslands að nýju á hippaárinu 1968. Þá settust þau að í reisulega fjölskylduhúsinu Bræðraborgarstíg 19 sem faðir Ólafs hafði reist handa börnum sínum. Ólafur setti á stofn lækningastofu í Garðastræti og Ingibjörg vann með honum. En reynslan af víddum sálarmeina dró Ólaf æ meir að geðlækningum og hann söðlaði um. Hann fór að vinna á Kleppi og var deildarlæknir þar í mörg ár. Síðar starfaði hann svo á Landspítalanum til starfsloka.

Þau Ingibjörg og fjölskyldan bjuggu um tíma í Bólstaðarhlíð en fluttu svo á Kvisthaga þar til þau hjón skildu árið 1985. Þá keypti Ólafur sér húsnæði við Eiríksgötu í nágrenni Landspítalans og þessar kirkju.

Hugðarefnin

Þegar Ólafur lét af störfum hafði hann meira næði til að sinna hugðarefnum sínum. Hann las sögu af miklum ákafa, hikaði ekki við að kafa í nýjustu kenningar í mannfræði og var vel að sér. Hann tók stundum að sér afleysingastörf út á landi og vakti umtal fyrir getu á skíðum norður í Ólafsfirði þegar hann lét ekki fannfergi hindra læknisvitjun. Og svo hljóp Ólafur. Mörg okkar munum hann og hlaupastíl hans. Og hann vakti aðdáun margra fyrir öll hálfmaraþonin sem hann hljóp. Og síðast – er hann hljóp – var hann á níræðisaldri.

Svo var það öll tónlistin sem umvafði sál hans og líf. Hann var fær píanisti. Þýska tónlistin rann honum í blóð rétt sem Rín og þýsk menning. Schuman, Beethoven og Brahms voru vinir hans. Og svo var Chopin í uppáhaldi. Tregafull næturtónlistin umlauk sálarbylgjur Ólafs og hann fékk útrás fyrir toppana með því að veita þeim um huga, hendur og inn í dýrðarheim hljómanna. Tónlistin sefaði og veitti lífi í það sem vildi daprast og stirðna. Ólafur spilaði sig eiginlega inn í himininn. Og þegar hann gat ekki lengur haldið heimili á Eiríksötunni fór píanóið með honum og endaði á Skjóli. Þegar sjónin fór á undan honum til Guðs gat hann þó sest við hljóðfærið og orðið sér og öllum vistmönnum gleðigjafi því honum var gefið að spila með tilfinningu.  

Minningarnar

Og nú eru skil. Og nú mega minningar flæða. Manstu dökku augun hans? Manstu hvernig hann stóð alltaf með sjúklingum? Manstu mannvinsemd, mannvirðingu og mannelsku Ólafs? Manstu hve vel hann hvatti og kom mörgum á fætur og til ferðar í lífinu? Manstu skíðamanninn Ólaf eða hlaupamanninn? Manstu kröfulausa gjafmildina? Naustu þess einhvern tíma að hlusta á hann spila og hve veitull hann var í tónlist sinni? Manstu næmni Ólafs, greiningargetu og athyglisgáfu? Saknaðir þú einhvern tíma að hafa ekki verið honum nærri? Manstu hvernig hann agaði sjálfan sig og strammaði sig af þegar hann þurfti að gæta sín? Manstu hvernig hann breyttist þegar hann eltist og hvernig hann opnaði sig gagnvart barnabörnum og framvindu kynslóðanna. Og manstu líka getu hans til að vera einn? Naust vináttu hans? Varstu vitni að orgelleik Ólafs í kirkjum Íslands? Varstu vitni að eldmessu hans í Hofskirkju í Öræfum? Manstu andstæðurnar í Ólafi? Manstu hve hann passaði upp á grömmin og eigin þunga? Naust þess einhver tíma að halda í hendi hans, finna hlýjuna streyma frá þeim og slá á einsemd eða vanlíðan. Manstu hve natinn hann var við ættmenni og fjölskyldufólk sitt þegar hann hafði kraft til?

Himininn

Ólafur er farin inn í hina miklu tónstöð himins. Þar eru næturljóð en líka dagljóð – öll besta músíkin. Hann leikur ekki lengur fyrir þig. En tónlistin hans lifir. Hann sem var svo mikill náttúrumaður gengur ekki á nein fjöll framar eða hleypur. En minningin er svo sterk af honum í faðmi stórbrotinnar náttúru Íslands að hann kemur til okkar þar og minningarnar flæða.

Guð geymi Ólaf Jóhann Jónsson – og Guð geymi þig.

Minningarorð 1. nóvember, 2017. Hallgrímskirkja. Erfidrykkja i Hallgrímskirkju eftir útför. Jarðsett samdægurs í Garðakirkjugarði, Álftanesi.