Trump og menningarkrísa BNA

TrumpÉg horfði á kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í nótt. Sorg fyllti hjarta mitt svo dapurlegar voru þær. Mér þykir vænt um BNA og afar margt í bandarískri menningu. Ég stundaði á sínum tíma framhaldsnám í einni bestu guðfræðideild heims og í einum besta háskóla BNA. Þegar ég horfði á Donald Trump frussa úr sér hroðanum, rífa mótframbjóðandann niður í leirveltuna og að Hillary Clinton lyfti sér yfir lágkúruna fór ég að hugsa. Í þessum leðjuslag opinberaðist mér hinn djúpi vandi BNA, samfélagsgerðar og mannskemmandi óréttlæti. Að auðmaður sem höfðar til lágkúrulegustu hvata, ótta, reiði og haturs skuli ná svo langt er allri heimsbyggðinni tákn um að eitthvað er ruglað og rotið í grunni samfélagsgerðarinnar. Og í einföldustu mynd er það að auðmenn stjórna of miklu, stýra of mörgu í bandarísku samfélagi, kaupa áhrif og halda of stórum hópi lægri stéttanna niðri. Stórir hópar eru fastir í gildrum fátæktar og hafa hvorki hvata né möguleika til menntunar. Það er þessi kapítalíska gerð sem viðheldur eða eykur andstæðurnar í samfélaginu og leggur grunn að því að hatursmaður kvenréttinda, mennsku og menntunar gæti komist til valda. Í Donald Trump kristallast hrun hins bandaríska samfélags. Það verður að endurnýjast, minnka andstæðurnar, skera af öfga kapítalismans, sem ekki gengur upp, og er fólki vestra dýrkeypt og heimsbyggðinni hættulegt.

Kappræðurnar skiluðu ekki sigurvegara þó Hillary Clinton væri mun skárri en loddarinn. En þær fleyttu til mín vitund um að það er aðeins aukin menntun og bætt efnahagskerfi sem megna að mæta ótta, hatri, mannfjandskap og flatneskju sem Trump túlkar og höfðar til. Veilurnar eru opinberaðar og nú ættu vinir mínir vestra – með stuðningi og hvatningu okkar hinna – að hefja sókn til meiri samfélagsgæða. Og þar sem forsetavalið í BNA skiptir mannheim allan svo miklu máli legg ég til að heimsbyggðin fá neitunarrétt til að hafna vondu vali. Könum er ekki einum treystandi til að velja!