Hestur, Eldgjá og undur jarðar og heims

Eldgjá – á mesta hamfarasvæði heims. Þegar ég bjó í Ásum í Skaftártungu á níunda áratug síðustu aldar fór ég og smalaði með sveitungum mínum afréttinn. Þegar Eldgjársvæðið var smalað sat ég á hestbaki nærri Ófærufoss. Hvasst var, hesturinn kvikur og fældist að lokum við gjárbarminn. Við vorum báðir í hættu, hrossið og ég. Mér lánaðist þó að snúa klárinn niður, róa hann og teymdi hann síðan þægan og bljúgan. Atgangurinn rifjaðist upp er ég kom að og í Eldgjá um helgina. Engin rosi þann daginn – né í sál minni – aðeins djúp lotning gagnvart undri jarðar og heims.

New York kjúklingur með kjúklingabaunum

Halli, Ene, Steinar og Salka, danska fjölskyldan okkar á Friðriksbergi, komu frá Kaupmannahöfn og beint í kvöldmat. Við elduðum þennan fína New York kjúklingarétt. Það er gaman að gefa þeim að borða því þau eru bæði vinir og meistarakokkar. Þetta er einfaldur, bragðmikill ofnsteiktur réttur, upprunalega úr kokkhúsi Ottolenghi og þróaður að hætti NYT. Kryddblandan er glimrandi og skvetta af sherry-ediki í lokin styrkir bragð réttarins. Svo eru litirnir til að gleðja augun – sjón skiptir jú líka máli fyrir matargleðina.

(fyrir 4–8 manns)

Hráefni:

8 kjúklingalæri, um 1,5 kg

2 msk ras el hanout-kryddblanda (garam masala eða karríblanda í staðinn)

fínt sjávarsalt og svartur pipar

3 kartöflur, skornar í bita (u.þ.b. 2,5 cm þykka)

1 dós (400 g) kjúklingabaunir, skolaðar

3 meðalstórir plómutómatar, skornir í tvennt á lengdina

4 romano paprikur (þessar löngu og mjóu), skornar í tvennt á lengdina og stönglar fjarlægðir (eða 12 litlar paprikur)

1 hvítlaukur (heill haus), efsti hluti skorin af (um 1,5 cm) til að opna að rifjunum

180 ml extra-virgin ólífuolía

2 msk sherry-edik (má nota rautt vínedik eða balsam-edik í staðinn sem hefur auðvitað áhrif á bragð réttarins)

¼ bolli ferskt kóríander, gróft saxað (en má auðvitað nota steinselju eða álíka). 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Kryddið kjúklinginn með ras el hanout, 2 tsk salti og svörtum pipar. Setjið kjúklinginn á fat (um 33 x 46 cm) eða bökunarplötu og leyfið að marinerast í 10 mínútur. Ef ras el hanout er ekki til í kryddhyllunni má nota garam masala sem gefur sætara og mildara bragð. Karríblanda dugar líka, gefur ekki sömu dýpt og fer auðvitað í austurátt – bragðlega!
  3. Bætið kartöflum, kjúklingabaunum, tómötum, paprikum, hvítlauk, ólífuolíu og 1 msk ediki við. Blandið varlega þannig að allt verði olíubaðað. Dreifið öllu jafnt á plötuna og leggið síðan kjúklinginn ofan á – og með húðina upp.
  4. Bakið í 30 mínútur. Hristið plötuna varlega svo allt falli betur saman og myndi tiltölulega jafnt lag. Bakið áfram í um 35 mínútur – eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og vel brúnaður.
  5. Kreistið hvítlauksrifin úr hýðinu og hendið pappírskenndu hýðinu). Stappið tómata og hvítlauksmaukið með gaffli og hrærið saman við sósuna á plötunni. Stráið kóríander yfir og blandið saman. Skvettið síðustu msk af ediki yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

Meðlæti sem velja má úr ( má líka nota allt ! )

Couscous eða perlubúlgur: Létt og  tekur vel við sósunni og kryddkeimnum. Má bæta við saxaðri steinselju, ristuðum möndlum eða rúsínum fyrir norður-afrískt ívaf.

Nanbrauð: Til að þerra upp sósuna af ofnplötunni! Að smyrja brauðið með hvítlauksolíu bætir!

Jógúrtsósa með myntu og sítrónu: Létt og hressandi mótvægi við djúpt kryddaðan rétt. Hrærið saman grískri jógúrt, smá sítrónusafa, rifnum hvítlauk, salti og fínsaxaðri myntu.

Grillað eða ofnbakað grænmeti: T.d. kúrbítur, eggaldin eða rauðlaukur. Ristað með ólífuolíu og tímían eða kúmmín.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Rimpað á Hornströndum

Hálfrar aldar minning – saumspretta lagfærð fyrir messuferð í Staðarkirkju, Aðalvík á Hornströndum. Viðgerðin heldur enn og kirkjan stendur – en gleraugun farin í eyðingu tímans. Við vorum saman þrír guðfræðinemar og tæknimaður – dásamlegt kombó. Þræddum allar víkur, klifum fjöll, kynntumst kraftmiklu fólki og nutum gestrisni þess, skoðum stríðsminjar, ræddum djúpmálin og fengum að sofa í aðalhorninu hjá vitaverðinum á Horni. Sigldum svo hugsi og sælir undan huliðshjálminum til Ísafjarðar, saumsprettausir. Mannlíf, dýr og undur við Íshafið lifa í minningu. Þegar myndirnar koma úr kafinu finn ég enn lyktina úr lynginu, sé brosandi augu fólksins og alls konar gamlar hugsanir banka upp á. 

Gamli, freki kallinn?

Hvert er hlutverk okkar sem erum á þriðja æviskeiði? Er það að stjórna og láta alla hlýða okkur? Nei. Hlutverk okkar er að miðla því sem við höfum lært, þeim lífsráðum sem við vitum best og höfum jafnvel uppgötvað í baráttu við mestu sorg og áföll. Hlutverk okkar er að miðla visku og lífi en valda ekki ógn og dauða.

En veröldin situr uppi með gamla og freka kalla. Þeir sem ráða örlögum heimsins eru svo aldraðir að þeir eru í slag við þennan með ljáinn. Khameiní í Íran er 86 ára, Trump 79 ára, Netanyahu 75 ára, Modi 74, Pútín og Xi eru báðir 72 ára. Og þeir sprengja og vilja – já krefjast – fleiri vígvéla og heimta öflugri bombur. Trump vill að Nató leggi mun meiri fjármuni í hernaðartól sem merkir auðvitað að evrópsk ríki kaupi miklu meira af amerískum vopnaframleiðendum. Haag-fundur Nató í júní 2025 hlýddi og varð stefnufundur sprengjukallanna. Hið sérkennilega er að ekki var rætt, skoðað og síðan rökstutt hvað þyrfti mikla peninga til að tryggja varnir. Nei, bara miklu meiri peninga – ja, kannski svona 5% af vergri þjóðarframleiðslu. Engin rök, engar skýringar – bara frekjukast. Og auðvitað undirlægjuhlýðni hinna yngri leiðtoga Nató. Látum kallinn fá það – það sem hann vill. Ekki rökleg og heildstæð stefnumótun heldur undirgefni til að Nató liðist ekki í sundur. Mikill sigur? Nei.

Freku kallar öldrunarstjórnarinnar fæddust og nutu uppeldis í skjóli friðar eftirstríðsára tuttugustu aldar. Nú grafa þeir undan friði. Þau stórmál sem heimurinn glímir við eru hnattræn hlýnun, ógn við lífríki jarðarinnar, skelfileg mengun, vatnsskortur og mannréttindavá. Slagur freku kallanna við þann með ljáinn veldur þeim óbærilegri óþreyju og ofsaþrá að beita valdi, láta til sína taka með látum. Heimsendir verður hvort sem er ekki fyrr en eftir þeirra dag.

Í lok tuttugugustu aldar var Vigdís Finnbogadóttir meðstofnandi Heimsráðs kvenleiðtoga sem síðan fléttaðist inn í Madrídarhópinn. Þau voru öldungahópur leiðtoga sem þjónuðu lýðræði og mannréttindum. Nelson Mandela stofnaði síðan ráðgjafahópinn The Elders árið 2007. Öldungarnir voru leiðtogar og þjóðhöfðingjar sem höfðu látið af störfum, s.s. Kofi Annan, Jimmy Carter, Desmond Tutu, Mary Robinson og fl. Verkefni þeirra var að stuðla að friði, mannréttindum og sjálfbærri þróun samfélaga. Í starfi þeirra birtist viska og einurð sem aldur getur fært fólki – þegar unnið er með lífsreynslu í auðmýkt og af ábyrgð. Á hvorum hópi öldunga hefur heimsbyggðin meiri þörf nú – öldungunum sem blessa og stuðla að lífi eða gömlu bombuköllunum, þessum freku?

Vandinn er ekki aldurinn sjálfur, heldur hvernig ævinni hefur verið varið og til hvers. Heim okkar skortir ekki valdasækna öldunga, heldur þjónandi leiðtoga – konur og karla – sem skilja að lífsgildi felast ekki í völdum og vopnaglamri  – heldur í því hvernig fólk skilar af sér garði sínum, samfélagi og veröld. Nú er ráð að fara að skoða sögu Jesú Krists um ráðsmanninn í sextánda kafla Lúkasarguðspjalls. 

Morguníhugun 1. ágúst, 2025. 

Myndirnar veiddi ég úr heimi gervigreindar. 

Blómkál með jógúrtsósu

Ég átti blómkál í kælinum og ákvað að nota það sem munngælu kvöldmatarins. Mamma gufusauð gjarnan blómkál síðsumars, baðaði það síðan í kryddaðri smjörsósu, bætti við smáskornu hangikjöti eða steiktu beikonsmælki, þakti síðan með osti og steikti í ofni. Bernskuminningin kviknaði er ég stóð með blómkálið milli handanna. Mér fannst ég finna bragðið þrátt fyrir sextíu ára tímahaf. Ég ákvað að nota mömmuaðferðina en krydda að eigin hætti, enda mun meira úrval af kryddi en þegar hún gerði kraftaverkin í eldhúsinu á Tómasarhaga. Ég bjó svo til kryddsósu með og grillaði líka kjúkling til að allir munnar yrðu glaðir og magar líka. Svona máltið er til fagnaðar. Lífið lagsmaður – það er nú undursamlegt. 

Hráefni:

1 blómkálshöfuð

200 gr. smjör

2 msk ólífuolía

1 tsk kúmen

1 tsk kóríanderduft

1 tsk túrmerik

3 hvítlauksgeirar smátt skornir

1 tsk salt

½ tsk svartur pipar

1 msk sítrónusafi

1 msk granateplasæta (mólassi má sleppa)

100 gr af smáskornu steiktu beikoni, chorizo eða skinku

200 gr mozarella eða annar bragðgóður ostur

Matreiðsla

Fyrst skar ég blómin af kjarna blómkálsins og gufusauð þau í 10 mínútur. Á meðan hrærði ég saman hitt hráefnið og notaði chorizo og dásamlega Parmaskinku sem við áttum í kæliskápnum. Skar smátt. Þegar blómkálið var soðið dreifði ég úr því á ofnþolið fat, hellti volgri smjörkryddblöndunni yfir, dreifði vel úr kjötflísunum og setti ostinn yfir, bakaði síðan í 20 mínútur.

Jógúrtsósa

200 ml grísk jógúrt

1 hvítlauksgeiri smáskorinn

1 msk fínsöxuð mynta

1 msk fínsöxuð kóríander

rifinn börkur af ½ lífrænni sítrónu (má sleppa)

smá salt

Verði ykkur að góðu og:  

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Málningardagurinn fór í matargerð. Góð skipti? 31. júlí 2025.