Gréta Björgvinsdóttir

Þegar nafn Sigurðar Árna Þórðarsonar var nefnt í sambandi við biskupskjör hugsaði ég með mér; “ Já, hann hefur svo sannarlega það sem til þarf  í það embætti: sanngjarn, heiðarlegur og fylginn sér. Svo er hann mjög nærgætinn og hjartahlýr“.

Það er svolítið sérstakt hvernig okkar kynni komu til og ég trúi ekki á tilviljanir.  Fyrir um 8 árum missti ég pabba minn. Stuttu síðar skruppum við hjónin í vetrarsólina á Kanaríeyjum. Í sömu ferð voru þau Sigurður og Elín, í sama tilgangi, sorgarúrvinnslu eftir móðurmissi beggja. Mér er það minnisstætt þegar við settumst saman í matsalnum á hótelinu, þreytt og tætt eftir flugið og fórum að spjalla saman. Þannig hófst okkar vinskapur.

Sigurður Árni er þolinmóður maður og hlustar vel.  Það fékk ég að reyna þegar ég þurfti nauðsynlega á hjálp að halda með erfið mál sem ég hafði glímt við allt of lengi.  Þá kynntist ég prestinum og sálgæsluhæfni vinar míns.  Þetta var fyrir nokkrum árum og ég er honum svo innilega þakklát fyrir þá hjálp sem hann veitti mér þarna.  Það var ekki skyndilausn heldur varanleg niðurstaða.

Það er tæpast hægt að tala um Sigurð án þess nefna Elínu. Þau eru samrýnd hjón, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það vita þeir sem þau þekkja. Þau eiga fallegt hjónaband og styðja hvort annað. Með eindæmum hláturmild og gott að vera í kring um þau.  Svo má ég til með að nefna það hér að mér finnst alltaf svo ljúft þegar menn tala fallega um móður sína og eiginkonu. Ég kann að meta það.