Hörður Áskelsson, organisti og kantor Hallgrímskirkju

Sem organisti hef ég margsinnis tekið þátt í helgihaldi með séra Sigurði Árna Þórðarsyni, bæði við messur og aðrar athafnir. Það er mér ljúft að segja frá því hve ánægjulegt það samstarf hefur verið í hvívetna. Sigurður Árni er jákvæður, opinn og hvetjandi í öllu samstarfi, hann er næmur á hið listræna, hefur góðan skilning á gildi og hlutverki  tónlistarinnar. Hann er einlægur stemningsmaður og gefur mikið af sér til að helgihaldið nái að grípa þátttakendur, eitthvað sem leggur grunn að skapandi og góðu samstarfi prests og organista. Í  prédikuninni tekst honum að blanda saman fræðandi útleggingu á Ritningunni og grípandi skírskotun til samtímans, sem höfðar sterkt til áheyrandans. Í prestsþjónustu sinni við skírnir, hjónavígslur og jarðarfarir er Sigurður til fyrirmyndar. Hann leggur sig fram um að setja sig vel inn í aðstæður fólksins sem í hlut á, er ósérhlífinn og gefur öllum þann tíma, sem þeir framast þurfa.

Það sem ég met mest í fari Sigurðar er sá hvetjandi áhugi sem hann sýnir samstarfsfólki sínu og skjólstæðingum, hve hann er góður hlustandi, hreinskilinn og hreinskiptinn í öllum samskiptum.

Sigurður starfaði sem prestur við Hallgrímskirkju haustið 2003. Áður hafði hann starfað sem söngvari í Mótettukór Hallgrímskirkju undir minni stjórn. Í preststíð sinni við Hallgrímskirkju tók hann virkan þátt í listastarfi Listvinafélags Hallgrímskirkju með hugmyndaríkum tillögum á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar.

Ég tel séra Sigurð Árna Þórðarson hafa þá hæfileika, menntun, reynslu og mannkosti sem nauðsynleg eru til að gegna embætti Biskups Íslands. Hann mun í því starfi njóta ýmissa eðliskosta sinna sem eru m.a.: Trúarsannfæring, hæfni í mannlegum samskiptum, skipulagsgáfur, leiðtogahæfileikar, traust til samstarfsaðila (kann að treysta öðrum fyrir verkefnum), hreinskilni, hreinskiptni, myndugleiki, kímnigáfa, verkgleði, hrósgleði og mikil útgeislun í helgiþjónustu. Með séra Sigurði myndi þjóðkirkjan fá góðan biskup.