Ólafur Sigurgeirsson – minningarorð

Hann er ekki í þjóðlendunum eða fjallafönnum, ekki við sprungur með grýlukerti í skeggi eða á hjólabuxum við fjallavatn og með grænt ennisband. Nei, það er hin eilífa hamraborg sem hann er sunginn inn í. Ólafur Sigurgeirsson var jarðsunginn frá Hallgrískirkju 7. maí 2006. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Á fjöllum

Ólafur stökk inn í Slunkaríki. Veðrið æddi utan dyra, það brakaði í húsum, en allir voru komnir fram. Ferðin með Kálfstindum hafði verið slarksöm. Því verra sem veðrið varð þeim mun hressari varð Ólafur. Þá fór að reyna á fyrirhyggju hans, nákvæmni, þekkingu, kraft, þor og dómgreind. Í hann var rifið, en hann stóð keikur, gaf ekkert eftir og auðvitað náði hann og hans menn markinu. Maðurinn í dyrunum á Slunkaríki var kappi, hugumstór foringi með geislandi augu, grýlukerti í skegginu, fögnuð í huga og unninn sigur. Á fjöllum var hann hamingjusamur – og betra ef glíma varð við raunverulegan vanda.

Athvarf og viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og umorkti. Sá lofsöngur varð síðar íslenski þjóðsöngurinn. Í sálmi Davíðs segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Fjöllin lifa, öræfin heilla, Ísland kallar. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” 

Uppruni og ætt

Ólafur Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1948 og lést á heimili sínu 27. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Steinunn Halldórsdóttir og Sigurgeir Guðmundur Guðmundsson. Ólafur missti foreldra sína ungur. Hann var reyndar orðin tvítugur þegar móðir hans dó, en var aðeins tíu ára þegar faðirinn lést. Það hefur aldrei verið gott að missa foreldri sitt ungur, þótt það verði hins vegar oft til að kalla efnismenn til ábyrgðar og átaka. Kjörsystir Ólafs var María Magnúsdóttir. Hún er látin. Hálfsystir hans, Guðfinna Magnúsdóttir, er sömuleiðis látin. Alsystir er  Særún Sigurgeirsdóttir og lifir bróður sinn.  

Ólafur sótti skóla í Reykjavík, var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1976. Þá hóf hann störf sem fulltrúi hjá borgarfógetaembættinu og var þar í tólf ár, bretti upp ermar, var víkingur til vinnu og málin gengu hjá borgarfógeta. Árið 1988 fékk Ólafur réttindi sem héraðsdómslögmaður og var hjá Lögmönnum Skeifunni 17 til 1990. Þá stofnaði hann eigin stofu og varð hæstaréttarlögmaður 1999. Ólafur sinnti alhliða lögmennsku, var fylginn sér í málflutningi, kom sér beint að efni og rökum. Á síðari árum helgaði hann sig því risaverkefni sem þjóðlendumálið er. Ólafur var frá upphafi fulltrúi íslenska ríkisins í þeim gríðarlegu hagsmunamálum. Þekking hans á landi, landsháttum og sögu kom að góðum notum og nýttist vel ríkinu. Jarðeigendur um allt land gátu ekki annað en borið virðingu fyrir þessum Íslandskappa, undruðust þekkingu hans og ef allt um þraut þá bara tók hann í nefið með körlunum – og var tekinn í þeirra hóp, var maður að þeirra skapi.

Heimafólkið

Ólafur var giftur Heiðrúnu Þóru Gunnarsdóttur. Börn þeirra eru Þór og Grettir. Stjúpdóttir Ólafs er Elín Hrönn Sigurjónsdóttir. Ólafur vildi, að ungviðið nyti alls hins besta. “Konan mín vinnur ekki úti” sagði hann einfaldlega. En þau Heiðrún voru hjartanlega sammála um að halda yrði góðu skikki á uppeldi og heimilishaldinu, fylgja strákunum eftir á hliðarlínuna í KR og æpa og sinna öllu því sem gerir heimili gott og gjöfult. Börnin hafa skýrt talað um hvað þessi skipan mála hafi verið þeim öllum til mikils góðs. 

Fyrir hjónaband eignaðist Ólafur soninn Elmar með Sigrúnu Benediktsdóttur. Sambýliskona Ólafs, þegar hann lést, var Guðrún Jóhannsdóttir og reyndist honum vel. Tengdamóðir hans, Fjóla Guðmundsdóttir getur ekki verið við þessa athöfn og ber ykkur kveðju sína. Ólafur var umhyggjusamur gagnvart sínu fólki og sinnti þeim eins og hann kunni best. Minningarnar um lífmikinn og ævintýralegan mann er auður ástvina hans. Þau hafa öll orðið fyrir óvæntum missi, raunar orkutapi í lífinu. Guð gefi þeim sinn mátt.

Máttur og íþróttir

Það fór ekki á milli mála þegar Ólafur kom í hús og mönnum varð starsýnt á heljarmennið. Hugur hans hneigðist til íþrótta og aflrauna frá unga aldri. Fyrst henti hann mönnum á loft í glímu. Árið 1969 varð Ólafur Íslandsmeistari í 3. þyngdarflokki í glímu og með KR-ingum í sveitaglímu á árunum þar á eftir. Hinn kraftalegi glímustíll var bending um stefnuna inn í heim aflrauna. Hann var sterkur og þegar hann var byrjaður að lyfta fyrir alvöru varð hann það sem félagarnir nefndu sterka manninn. Hann var marfaldur Íslandsmeistari í lyftingum og kraftlyftingum, setti fjölda Íslandsmeta og vann til verðlauna á Norðurlandameistarmótum. Bekkpressan var hans aðalgrein. Hann var keppnismaður í besta lagi og gaf ekki eftir fyrr en í fulla hnefa og það var talsvert!  

Ólafur var leiðtogi að upplagi. Félagar hans í puði og svita vissu, að hægt væri að treysta Óla. Hann var kallaður til ábyrgðar, stýrði mörgu af því sem gert var á fyrstu árum og áratugum í félags- og keppnis-málum lyftingamanna og var manna hressastur og líflegastur við að magna stemmingu á mótum. Hann varð brautryðjandi, stjórnaði þingum, aflaði hreyfingunni fé til framkvæmda og keppna, var fararstjóri í keppnisferðum erlendis, ráðgjafi ungu mannanna, hollvinur hinna eldri, dæmdi á mótum heima og erlendis, var tengill við erlend systur- eða eigum við frekar að segja bróður-samtök, alls staðar vel kynntur. Ólafur var formaður Lyftingasambands Íslands frá 1977-80 og formaður Kraftlyftingasambands Íslands frá 1984-86. Það er því ekki  einkennilegt, að sterkustu menn þjóðarinnar gangi í kirkju í dag, heiðri minningu leiðtoga, hollvinar og félaga. Krafturinn rímar vel við orkubolta trúarhefðarinnar, sem þetta hús er kennt við og minnir á.

Náttúrubarnið

Gunnar sneri aftur þegar hann sá land og hlíð. Eyvindar-Halla hljóp í óbyggðir þegar fegurð var á fjöllum. Hálendið togði í Ólaf og átti ítak í sál hans. Hann var fjallamaður, festarmaður Íslands, teygaði fagnandi að sér morgunkæluna í einhverjum mýrarskurðinum, þegar beðið var eftir morgunflugi. Hann ljómaði í morgunbirtu við minni Þórisdals, varð allur að titrandi kviku í kvöldbirtu, reif af sér klæðin á fjöllum, þegar sólin skein, elskaði fangbrögðin í fjallageimi, kunni vel veðravítum og tók stórviðrum eins og elskhugi fjörmiklu ástalífi. Utan malbiksins fannst Ólafi gaman og hann sagði: “Þetta er lífið.” Að una í faðmi náttúrunnar, með sínu fólki og vinum, var honum lífsnautn. Og hann magnaðist í þessum stórfaðmi – varð eiginlega náttúruafl.  

Ferðamaðurinn

Ég man eftir, að honum þótti skemmtilegt, þegar vinirnir hans töluðu um öll tækin hans Óla. Það er auðvitað gott að ferðast með fólki, sem á græjur, sem dugðu í hvaða aðstæðum og veðri sem var. En tækin þeirra Heiðrúnar áttu ekki sjálfstætt líf, heldur voru tól til nota vegna ferða og lífsnautna, rétt eins og lóð og stöng eru tæki lyftingamanna, meðul en ekki markmið. “Græna höllin” var til að komast frá A til B, hjólin, gúmmítuðran og sleðarnir líka.

Ólafur var framúrskarandi ferðamaður. Þótt hann væri hugmaður var hann jafnframt gætinn, enginn dólgur í vötnum, heldur kannaði vel. Hann vissi, að jökulsprungur gleypa algerlega, melta lengi og skila seint. Hann hentist því ekki yfir jökul nema vera viss um leið og aðstæður. Hann kunni vel á leiðsögutækin og hafði tamið sér agaða ferðtækni. Fjallamenn þekkja hvítablindu og það segir alla sögu um kunnáttu og færni Ólafs að hæsta hengja, sem hann fór fram af um dagana, var ekki nema þrír metrar. Ólafur naut átaka en ekki fíflsku. Þegar sleði fór niður úr ís fór hann úr Kraftgallanum og niður í vök á “sveifarhúsinu” einu og lyfti græjunni upp. Hann lét ekki sitt eftir liggja í að miðla upplýsingum og var um tíma ritstjóri Sleðafrétta, tímarits vélsleðamanna.

 Veiðimaðurinn

Ólafur var skotmaður, naut glímunnar við hreindýrin, puða við að hlaupa úr vindátt, komast að dýrum, og kannski ekki síður að erfiða við koma veiði til byggða. Fjórhjólin hafa að vísu nú tekið nokkuð af þeiri skemmtun. Hann veiddi fisk, en hafði ekki smekk fyrir smáveiðum með fíngerða flugustöng. Nei, betra var að leggja net og ef ekki voru önnur ráð synti hann bara með netið. Svo voru það rjúpur og gæsir, veiðar með vinum og undir íslenskum himni, á íslenskum fjöllum. Í honum bjó bjargráð kynslóða, vilji til að eiga nóg fyrir sig og sína og að allir fengju sinn skammt. Ólafur þjónaði félagsskap skotveiðimanna og var um árabil í hreindýranefnd Skotveiðifélagsins. Ólafur kunni að elda bráð og það er nú aðall veiðimannsins að nýta aflann vel. Svo velktist enginn í vafa um, að Ólafur kunni að borða líka. 

Íslandsbarnið

„…frá kyni til kyns… …fjöllin fæddust og heimurinn… …þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær.” Það fæðist enginn á röngum tíma, en Ólafur hefði allt eins getað verið fornmaður, landnámsmaður, heiðahöfðingi eða kappi. Hann var ástmaður Íslands og gildir einu hvort átt er við sögu landnáms og byggðar á Íslandi, náttúru landsins eða menningarhefðir. Hann var áhugamður um glímu, Herúla, áa og eddur Íslendinga, Hávamál, norræna goðafræði og merkingu þeirra sagna, byggðasögu og svo eru auðvitað allar Hamraborgirnar, háar og fagrar. Ólafur hafði líka áhuga á hetjuferðum Íslendinga, s.s. Vilhjálms Stefánssonar og fornmanna á Grænlandi. Svo vildi hann leggja sitt til að halda merki Íslands á lofti. Hluti þeirrar þjónustu við Ísland og jafngild var, að svitna við landbætur við ferðaskálann við Hagavatn. Enginn bað hann, hann vildi laga þar sem eyðing var. Hetjuhyggja Íslendinga var honum í blóð borin. Orðfæri, afstaða og atferli Ólafs var eins og holdgun Íslendingasögu, sem gæti borið nafnið Ólafs saga sterka. 

Styrkleikinn

Ólafur var ekki allra og hélt mörgum frá sér. Að baki skeggbroddum og kögglum bjó viðkvæm und og fíngerð sál. Hann kom sér upp vörnum eða brynjum til að vernda hið innra. Hann var maður hins meitlaða orðfæris. Snakk og vella var honum fjarri, hvort sem var heima, í dómssal, vinarhjali eða á fundum. En jafnframt var hann manna fundvísastur á skemmtilegtheit. Hann var agaður í vinnu, snyrtimenni og málhagur. Hann forðaðist alla linkind og var þar með aldrei misdægurt. Hann var aldei upp á aðra kominn, vildi vera bjargálna í öllum málum. Svo ræktaði hann með sér stálvilja og kapp. Af hverju? Því verður ekki svarað en óneitanlega læðist að grunur um, að missir föður í bernsku hafi orðið honum þungbært áfall. Síðan hafa aðstæður við uppvöxt sannfært hann um, að hann yrði sjálfur að bera sínar byrðar og eiga til þess nægilegt afl. Skýringar og réttlætingar eru síðan auðfundnar í klassískum bókmenntum þjóðarinnar og rómantískri hetjutúlkun þeirra.  

Viturt hjarta – veröld Guðs

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” – öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi, gosögum, hetjulund. Það er viska að nýta sér gleðiefni fortíðar og skemmta með. Það er viturlegt, að lesa landið og hvíla við brjóst hinnar stóru móður.  

Hvað er viturt hjarta? Jú, það dælir ekki aðeins blóði í urrandi vöðva heldur iðkar hið góða og ræktar hið gjöfula líf. Þú átt þína leið og Óli fór sína. Og við getum lært hvert af öðru í þeirri miklu lífskúnst að iðka lífsgæðin, að lyfta fyrir lífið.

 Í dag er áð á bakka tímans. Í dag hugsum við um styrkleikann og veikleikann. Í dag heyrum við þetta hvísl alls sem sem er: “Hverfið aftur þér mannanna börn – aftur til duftsins.” Hver er máttur mannsins? Óli var sterkur, ógnarsterkur, en þó veikur þegar eyðingaröflin mættu honum með fullum þunga. Allt er sem blómstur segir í sálminum um blómið og við syngjum á eftir. Allt, allt hverfur aftur til dufstins, þú líka, allur þessi söfnuður. Hvað er þá eftir?  

Hvað verður um hann Óla? Hvar er hann? Hann er ekki í þjóðlendunum, eða fjallafönnum, ekki við sprungur með grýlukerti í skeggi, eða á hjólabuxum við fjallavatn og með grænt ennisband. Nei, það er hin eilífa hamraborg sem hann er sunginn inn í, glitrandi undraveröld, sem tekur allri morgunskímu fram og er lyktarbetri en skurður í haustkælu. Þar er engin orkuþurrð, þar er almættið sjálft. Honum er lyft inn í orkubú eilífðar, þetta sem við köllum Guð. Í því er hin mesta viska að lyfta þeim skilningi upp í vitund, að í þessu lífi erum við sem fóstur. Svo fæðumst við til hins nýja, sem er flottara, öflugra og betra en þetta, vegna þess að til er Guð sem er orka og elska. Í því fangi má Ólafur ávallt búa. Þar er lífið.  

Minningarorð flutt við útför Ólafs Sigurgeirssonar í Hallgrímskirkja, 5. maí 2006.

Margrét Vallý Jóhannsdóttir

„Eigum við ekki að velta okkur út á helluna?“ spurði hún. Kaffilyktin fyllti eldhúsið á Kóngsstöðum. Sólin gægðist upp fyrir fjallsbrún og fyllti dalinn birtu. Lamb jarmaði hinum megin ár, jökullinn hló, milljarðar daggardropa léku sér með ljósið. Svo veltu Vallý og Páll sér út á helluna. Dagur í lífi tók þau í fangið og ljósið baðaði þau. Kannski fóru þau svo í göngutúr, skutust upp í Gloppu eða lásu í bók. Svo fóru þau einhvern daginn niður á Dæliseyrar, sviefluðu mjúklátum og sveigfúsum flugustöngum. Svo var á haustdögum rölt upp í Kóngstaðaháls, þetta “desert”land á heimsmælikvarða, berjum mokað í dalla, sest svo vestan við hús og borðað úti meðan kvöldsólar naut. Gaman að geta grillað fisk úr ánni og ekki síðra ef matargestir urðu berjabláir út að eyrum. Það er gott að velta sér á þessa hellu. Kóngsstaðir eru staður fyrir lífið, táknstaður um ljós og birtu lífsins, Skíðadalur er tákn um guðsríkið.

Í Davíðssálmum (121) segir: “Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himns og jarðar.”

Fjölskylda

Margrét Vallý Jóhannsdóttir fæddist á Akureyri 21. september árið 1948 og lést 1. maí síðastliðinn eftir skamma veikindabaráttu. Foreldrar hennar eru Friðrikka Elísabet Óskarsdóttir og Jóhann Björgvin Jónsson. Mamman var frá Kóngsstöðum og lifir dóttur sína, en pabbinn Dalvíkingur og er látinn. Systur Vallýjar eru Þuríður Jóna og Valgerður María. Fyrrri maður Vallýjar var Sigursveinn Friðriksson. Þeim fæddust þrjú börn. Þau eru Hlynur, Elísabet og Bjarki. Maður Elísabetar er Elías Þór Höskuldsson og kona Bjarka er Betina Carstens. Barnabörn Vallýjar eru samtals sex.  

Vallý ólst upp á Dalvík, bjó í Arnarhóli, en fór flest bernskuvorin fram í Kóngsstaði og var á sumrum hjá Snjólaugu, ömmu, og Óskari, afa. Þar framfrá tegndist hún náttúru dalsins, sögu síns fólks og sveitunga. Kannski tengdist hún líka eilífðinni, alla vega lifðu amma og afi lengur en flestir aðrir dauðlegir menn.  

Það hefur lengi verið haft á orði, að heilt þorp þurfi til að ala barn vel upp. Vallý naut uppvaxtar í stórneti þorpsins og gat veitt börnum sínum þorpsgæðin fyrstu árin. Fjölskylda hennar var og er samheldin og Vallý var öflug móðir og síðar amma. Hún var ekki aðeins stöndug fyrirmynd, setti mörk og efldi til þroska, heldur var líka það náin börnum sínum, að hún varð þeim vinur og gat miðlað visku til þeirra.  

Vallý var stolt af uppruna sínum. Hún hélt fast í hefðir sinna sveitunga og flutti þær suður, hvort sem það var nú veisluhald vegna vetrarloka, laufabrauðsgerð eða samskiptahættir. Hún var tengd sínu fólki og sinni mold. Við kveðjum hana hér syðra í dag en svo verður hún lögð til hinstu hvílu í svarfdælska mold. Hún verður jarðsett í Dalvíkurkirkjugarði meðal ættingja í samhengi þorpsins, dalsins, í miðju hins stóra lífhrings.

Mennun og störf

Börn, menntun þeirra og uppeldi heilluðu Vallý. Hún hafði sjálf áhuga á námi og gat sameinað hugðarefnum sínum. Hún fór í húsmæðraskóla, sem skilaði m.a. góðum kokki og mikilli hannyrðakonu. Svo var það Fóstruskóli Sumargjafar. Þaðan lauk hún prófi árið 1969. Með réttindi fór hún svo norður og þrátt fyrir eigin barnaannir hafði Vallý kraft og þor til að stofna eigin leikskóla 1972 og rak til 1975. Í þessu var hún á undan samtíð og samfélagi þar nyrðra. Vallý var líka frumkvöðull varðandi aðbúnað fatlaðra, þjónustu við þá og stuðning við fjölskyldur þeirra.

Atvinnumál Vallýjar voru gjarnan með því móti, að í hana var hóað. Hún var leiðtogi að upplagi, störf hennar og hæfni voru virt svo að til hennar var leitað með vinnu. Vallý var fyrsti fóstrumenntaði Dalvíkingurinn, sem kom heim að námi loknu. Foreldar og samfélag treystu henni til að stofna og stýra fyrsta leikskóla bæjarfélagsins.

Breytingar urðu í einkalífi hennar. Þau Sigursveinn skildu og Vallý tók þá afdrifaríku ákvörðun að fara suður með börnin. Syðra starfaði hún á Geðdeild barnaspítala Hringsins og var þar í tvö ár. Svo var þörf á öflugum stjórnanda á leikaskólanum Hamraborg. Þar var hún frá 1982-86. Samtímis sótti hún nám í Fósturskóla Íslands og bætti við sig í leikskólafræðum og stjórnun. Síðan varð hún stjórnandi á leikskólanum Birkiborg á Borgarspítalanum. Með þennan praxis í veganesti fór Vallý á fagdeild Leikskóla Reykjavíkur og var lengstum deildarstjóri fagdeildar og síðar leikskóladeildar. Frá árinu 2000 og til 2005 var hún forstöðumaður fagsviðs Leikskóla Reykjavíkur.

Leikskólar og stjórnandinn

Vallý kom til starfa við leikskóla í borginni á tíma breytinga. Á henni og hinum stjórnendum leikkólasviðs mæddi. Mikið lá undir, stefnumörkun, nýsköpun og svo bygging fjölda leikskóla. Leikskólarnir breyttust í skólastofnanir, sem störfuðu allan daginn. Með fagmennsku að leiðarljósi studdi hún starfsfólk, tók þátt í hugmyndavinnu á ýmsum stigum, hafði gaman af fjölbreytilegum verkefnum. Hún gerði sér grein fyrir, að henni var sjálfri þörf fyrir símenntun, tók sig upp og fór í framhaldsnám í Osló í stjórnun og handleiðslu.  

Vallý stýrði fagdeildinni vel og samviskusamlega. Í henni bjó tilfinningaleg staðfesta, sem stýrði samskiptum við fólk. Hún hafði í sér jafnvægi og frumtraust, sem gerði henni fært að mæta fjölbreytilegum verkefnum með óttalalausum, glaðsinna huga. Verkefni í vinnunni voru ríkuleg vegna nýrra laga um leikskólastigið, nýrrar námskrár, óska foreldra og mikillar fjölgunar leikskóla. Til að gera sér grein fyrir umfanginu er vert að minna á, að skólarnir í Reykjavík eru nú um áttatíu. Deildin hennar Vallýjar stóð sig vel. Hún tók oft þátt í starfi hönnunarhópa, sem undirbjuggu nýja leikskóla. Sem stjórnandi lagði hún ekki aðeins línur, heldur var góður samstarfsaðili á stórum kvennavinnustað. Hún hélt sínum stíl, talaði sína norðlensku, lagði sig alltaf fram og lagði upp úr að mál væru faglega meðhöndluð. Og hún var vel liðin í vinnunni.

Trúnaðarstörf hennar og félagsstörf voru gjarnan á sviði uppeldismála. Vallý gengdi stjórnunarstörfum í félagi fóstra, var formaður félags leikskólafulltrúa, var í dómnefndum vegna nýrra leikskóla, hún var í ráðgjafahópi á vegum menntamálaráðuneytis vegna reglugerðar um sérkennslu árið 1994.

 Palli minn

Þau Vallý og Páll Magnússon byrjuðu að vinna á Barna- og unglinga-geðdeildinni á sama tíma. Þau komu bæði að “utan,” hann úr frönskum kúltúr og hún úr “öndvegi íslenskra dala.” Í vinnunni var það fyrsta verkið að Páll skyldi uppfræða Vallý um einhverfu. Þau skutust út á lóð, en sátu lengur á sandkassabrúninni en að var stefnt. Þau náðu vel saman og  heilluðust af hvort öðru. Páll komst að því, að Vallý var ekki alveg ein í veröldinni, átti þrjú börn, var hluti af stórfjölskyldu sem var svo náin að þær systur bjuggu helst saman og tóku karlana til sín, inn í fjölskyldufaðminn. Að því dró, að Páll varð að gera upp við sig hvort hann vildi búa með þessari konu eða ekki. Það var talsverð hetjuákvörðun að flytja inn til kommúnunnar í Eskihlíð. En hann var maður til að standa með ákvörðun sinni, gekk börnum Vallýjar í fóstrastað, varð vinur systra hennar og svilanna líka og fjölskyldunnar. Hann lærði að skilja, að Svarfaðardalur er kraftblettur veraldar og  Kóngsstaðir hásæti.

Fyrir tuttugu árum keyptu þau Vallý sér íbúð á Bragagötu, börnin fóru með þangað. Þau gerðu sér fallegt heimili, sem ber fegurðarskini þeirra beggja gott vitni.  

Vallý elskaði Palla sinn. Hann endurgalt elskuna, var henni blíður og umhyggjusamur, studdi hana með góðum ráðum og aðdáun. Augun hans lifnuðu þegar hún skvetti skemmtisögum og gleðiyrðum. Þau áttu skap saman. Það sem hún kunni og unni varð hans gleðiefni. Það sem gladdi hann varð hennar hugðarefni. Þau elduðu fyrir hvort annað, veiddu saman, þau gátu þagað saman, fóru undraferðir innan lands og utan, höfðu lag á að deila tilfinningum og fóstruðu hvort annað með nærfærnum fingrum, blíðu og virðingu. 

Sumar og líf

Þegar Vallý fór að hugsa um þessa kveðjuathöfn vildi hún, að hún yrði í anda vorsins og minnti á sumarið og lífið. Þess vegna er sungið um hríslu og læk, voryl og liðinn sumardag og vonina um nýjan dag. Þess vegna munum við líka syngja um líf lausnarans, sem jafnframt er trúartjáning um líf að þessu loknu. Vallý var umhugað um vöxtinn, lífið og ljósið. Hún beitti sér alla tíð fyrir lífsgæðum síns fólks. Lærði ung að ekkert er sjálfgefið í málum hamingjunnar. Hún tók ákvörðun um, að leggja sínu fólki það gott, sem hún gæti. Hún var flottur stjórnandi, útdeildi bæði ábyrgð og frelsi, en líka hvatningu. Samstarfsfólk hennar naut góðs stjórnanda, börnin nutu góðs atlætis. Samferðamenn hennar nutu góðs fósturs. En hvað svo? Hvað situr eftir þegar þegar þú hugsar til Vallýjar? Dragðu fram ásjónu hennar í hugann, íhugaðu skemmtilegustu viðburðina með henni og festu í huga og gleðstu yfir.  

Hún hugsaði um ljósið og lífið. En getum við hugsað á þeim nótum þegar skuggaskilin eru svo skýr á þessum björtu dögum? Þá er komið að því að við gerum upp afstöðu til lífsloka, skila milli þessa heims og þess sem á eftir kemur. Hvert er Vallý farin? Hvernig er hægt að gera upp við sorgina? Hvað vitum við um eilífðina og hvað getum við ímyndað okkur?

Fósturskynjun og eilífð

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls. Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsuðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina eða Skíðadal, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér og stór flokkur af himinfóstrum tekið við þér. Himnaríki er þar sem leikurinn ríkir.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg njóta ákvörðunar Vallýjar að hugsa um birtuna þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta ljóshús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf, trú og von fólks.

Hún velti sér út á bæjarhellu í Skíðadal til að taka á móti deginum. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Vallý hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem kenndur er við Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, þar sem er meira ljós en morgunljós í norðlenskum dal, þar sem daggir eru sólkerfi, þar sem jökulskallarnir eru himneskir gimsteinar, þar sem sólirnar eru slíkar að hægt er að vera norðan við, austan við, sunnan undir og vestan við samtímis. Það er flottur veltustaður. Þar er gott að vera. Þar er Guð og því er himininn Kóngsstaðir eilífðar.  

Guð geymi Margréti Vallý Jóhannsdóttur og varðveiti um alla eilífð. Guð geymi ykkur og líkni.

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 9. maí, 2006.

Þorkell Stefánsson – minningarorð

Í hverju er útrásin þá fólgin? Þá opnast stærra og meira land en Blesugróf eða Elliðaárdalur, markaður í Evrópu eða fjármálaengi veraldar. Þorkell Stefánsson var jarðsungin 4. apríl 2006. Minningarorðin eru hér á eftir.

Strákaher kom aðvífandi með sverð og vígbúnað alls konar. Þeir voru greinilega að koma úr styrjöld, vopnin voru löskuð, þeir upprifnir, töluðu hátt og hlógu. Þessi orrusta hafði greinilega farið vel. Fyrir hópnum var höfðingi í glæsilegri skykkju, með fellingum og bryddingum. Á höfði hans var þessi fíni, silfraði hjálmur. Skjöldurinn var samlitur og í honum djúp átakaför. Sverðið í stíl, góð smíði og með hjöltum.

Þetta var her í smáíbúðahverfinu. Stríð geisuðu milli landsnámsbarnanna á svæðinu. Farnar voru herferðir upp í Blesugróf. Foringja var þörf. En þegar glæsimennið Þorkell var kominn í hlébarðaskikkjuna, sem móðir hans María saumaði, var engin samkeppni um konungstignina möguleg. Herinn eignaðist svo herbúðir í kjallara fjölskyldunnar á Sogavegi 202. Þar var hásæti smíðað. Í því sat svo Þorkell, dæmdi í málum þegna sinna, eins og vísra konunga er lagið, og fundaði með leyndarráðinu hvernig skipa skyldi næstu sókn upp í Blesugróf, eða hverjir stæðu á verði og sinntu njósnum. Alltaf til í aksjón, ávallt reiðubúinn þegar skylda kallaði eða einhverjir möguleikar opnuðust.

Hásæti lífsins

Í Opinberunarbók Jóhannesar, þeirri litríku bók framtíðarinnar, sem líka er síðasta bók Biblíunnar, segir: “Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans” (Op. Jóh. 3.21).

Enginn hefur lofað okkur, að lífið yrði átakalaust og samfelld sólarganga. Smástríð bernskunnar opinbera að veröldin er flókin og krefst stælts hugar og vilja. Við lærum snemma að gæta okkar og sjá á færi vandkvæði. Þau, sem dýpst hafa kafað, sjá líka að máttur okkar megnar ekki allt, við getum ekki í eigin krafti bjargað okkur úr öllum vanda, við erum háð fólki, ástvinum, vinum – þegar dýpst er skoðað þeim mætti, sem heldur á okkur þegar við erum búin með allt okkar. Sá æðri máttur er Guð.

Það er hægt að leysa verkefni daganna, hægt að sigra á velli viðskiptanna, hægt að ávinna flest verðlaun lífsins, en þó blundar í okkur grunur um, að eitthvað meira og stærra sé til. Þannig hvíslar Guð í djúpum tilverunnar. Við viljum svo vel, reynum að gera okkar besta en gerðir hrökkva skammt, brestirnir í okkur hindra að við klifrum sjálf á topp elskunnar og inn í himininn. Þess vegna kemur kóngur himins til manna. Þegar máttur manna getur ekki meira er Guð elskunnar nærri, bjargar og leiðir síðan að hásæti sínu, býður fólki að njóta gleðinnar, sem aldrei endar og enginn fer frá með sorg í hjarta.

Æviágrip

Þorkell Stefánsson fæddist í Reykjavík 7. október 1948. Hann lést á heimili sínu, Aflagranda 26, laugardaginn 25. mars. Foreldrar hans eru hjónin Stefán Ágúst Júlíusson og María Helgadóttir. Systkini Þorkels eru þau Stefán, Ragnheiður og Anna Guðfinna. Systkinin lifa öll bróður sinn og María, móðir Þorkels, lifir son sinn einnig.

Fyrri kona Þorkels var Berit Holthe og bjuggu þau í Noregi og á Íslandi. Synir þeirra eru Andrés og Ágúst. Fyrir hjónaband átti Þorkell Steinunni með Ásu Þórunni Matthíasdóttur. Barnabörn Þorkels eru fjögur: Ása Hrund, Tristan Snær, Charlotte og Noah.

Í júní 1991 kvæntist Þorkell eftirlifandi eiginkonu sinni, Kolbrúnu Önnu Jónsdóttur. Börn þeirra eru Nína Hjördís, Fríða og Jara Birna.

Nám og störf

Þorkell byrjaði snemma að vinna. Hann varð ungur þingsveinn, eignaðist svo skellinöðru, sem ekki var bara fyrir gamanið, heldur notuð í atvinnuskyni líka fyrir þingið. Á Alþingi náði Þorkell að falla fyrir sjarma Ólafs Thors. Sjálfur varð hann svo einn helsti sjarmör hverfisins þegar hann afgreiddi í sjoppunni. “Keli sæti í sjoppunni” var svo hrífandi, að það þurfti stóran kassa undir ástabréfin, sem voru send til hans á þessum árum! Þorkell fór í Gagnfræðaskóla verknáms, síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Svo fór hann í Tækniskólann.

Í Þorkeli bjó sú tegund af útrásarmanni, sem þorir í víking í verkum og viðskiptum. Hann fór í nám í Noregi, bæði Þrándheimi og Kongsber. Svo starfaði Þorkell hjá Texaco-olíufélaginu. Hann fór víða, sigldi um heimshöfin og sá margt og aflaði sér reynslu og innsæis, sem nýttist honum vel síðar í viðskiptum.

Þegar hann kom heim hóf hann störf hjá Bræðrunum Ormsson og var þar yfirmaður tæknideildar í mörg ár. Með öðrum störfum kenndi Þorkell nokkra vetur í Ármúlaskóla. Þau Kolbrún sáu auglýst fyrirtæki í rafmagnsgeiranum. Þá var teningunum kastað og þau Þorkell keyptu sig inn í Raftækjaverslun Íslands hf. árið 1986. Hún var síðan rekin með glæsibrag í nær tvo áratugi, þar til heilsan bilaði og skynsamlegt að selja.

Þorkell stofnaði líka fyrirtækið Saga í Ungverjalandi, umboðsfyrirtæki sérhæft í háspennutækni. Þá keyptu Þorkell og Kolbrún húsgagnaverslunina Míru í Kópavogi og ráku um fjögurra ára skeið. Vegna veikinda Þorkels seldu þau síðan.

Viðskiptamaðurinn Þorkell var ábyrgur. Á þennslutímum er auðvelt að hrasa, versla framhjá og stytta sér leið í peningamálum. Það hugnaðist Þorkeli ekki. Hann hafði engan áhuga á falskri velgengni heldur stundaði bisniss heilindanna. Hann ávann sér því virðingu meðal viðskiptafélaga sinna. Það er gott að reisa sjálfum sér slíkan bautastein traustsins.

Umhverfi

Smáíbúðahverfið í uppbyggingu var dásamlegt fyrir ungviði. Húsin voru á byggingarstigi, mömmurnar heima með öryggi, mat og líka saumavélar til að búa til herklæði. Setuliðið hafði skilið eftir ókjör af byggingaefni í kastala, hús og víggirðingar. Ár og lækir, holt og móar, alls konar fólk og skemmtilegheit. Frelsi til athafna var mikið og stíll samfélagsins, sem var þarna, var dálítið villtur. Þorkell óx upp í landnemabyggð, varð foringi á frontinum, tamdi sér að sjá tækifærin og nýta þau, stilla upp kostum og velja, standa með ákvörðun sinni og fylgja henni til enda, hyggja á útrás og sækja fram. Þetta voru eigindir og hæfni, sem hann naut allt lífið.

Fagurkerinn

Þorkell ólst upp við þau kjör, að verða að bjarga sér sjálfur – skapa sér eigin tilveru. Hann var fagurkeri og varð þegar í bernsku heillaður af fallegum tækjum og tólum. Skellinaðran var eitt. Svo komu vængjuðu stórkaggarnir, sem þurfti oft að gera við eftir bara einn rúnt niður í bæ. En þeir voru alltaf bónaðir og stroknir og svo kom báturinn.  

Þorkell var flottur í tauinu. Nágrannamömmurnar í hverfinu dáðust að því, að hann var alltaf hreinn í miðju atinu þegar börnin þeirra komu mórauð heim. Þá andvörpuðu þær og öfunduðu Maríu svolítið. Þau mægðinin voru samhent í fatamálum og mamman var alltaf til í sauma á hann föt, hvort sem það var nú indversk skykkja og túrban fyrir grímuball eða bara að stytta fyrir hann nýjar buxur fyrir föstudagsrúnt eða ball. Svo varð Þorkell töffari, vildi vera fínn og gleymdi ekki að pússa skóna. Hann var maður gjörninganna, verðandi og stemmingar og hafði því í sér víddir, sem hefðu allt eins getað nýst í leikhúsi eins og á því sviði sem hann einbeitti sér, leiksviði viðskipta.

Tónlistin

Þorkell tók fagnandi tónlist sinnar kynslóðar, hvort sem það var nú músík Bítla, Rollinga, Deep Purple, Led Zeppelin eða diskósins. Af þessu öllu hafði hann gaman, varðveitti plöturnar vel og dætur hans njóta þeirra nú. Þegar stórpoppararnir fóru að fara um heiminn að nýju í tónleikaferðalög bauð hann sínu fólki. Lou Reed var góður og svo ætlaði hann sér á Ian Anderson og Pink Floyd tónleikana sem eru framundan. Þess gamans mun hann ekki njóta. Músíksmekkurinn var alhliða, fjölskyldan átti líka áskriftarmiða á synfó í Háskólabíó. Tónlistin umlykur lífið og gott að leyfa sem mestu og bestu að baða okkur. En kannski var rokkarinn dýpstur í honum. Þegar hann var orðin mikið veikur, og vildi ekki kvarta fannst honum gott að fá spilara með ómenguðu rokki uppí rúm. Þá hallaði hann sér aftur, gaf í botn og leið auðvitað strax miklu betur.

Fótboltinn

Áhugaefnin voru mörg. Þorkell byrjaði snemma í fótbolta, var afar efnilegur. Þvert á strauminn fór hann ekki í Víkingsliðið heldur valdi pabbaliðið Fram. Hann var fljótur, fimur og mikið efni og hætti eiginlega of snemma. En fótboltaáhuginn hélst. Hann gat jafnvel leyft KR að njóta vafans og stóð með sínu Vesturbæjarfólki. En það er nú dásemd fótboltans að maður getur haldið með mörgum liðum samtímis. Það eru engin svik að meta þá sem gera vel, gleðjast yfir snilld einstaklinga og liða.

Verklægni

Þorkell var afar handlaginn og fáir voru nákvæmari í höndum. Hann smíðaði vel, gerði vel við skellinöðruna og bílana. Þorkell var góður í viðgerðum. Að baki handlagni bjó útsjónarsemi, nákvæmni og líka fegurðarskyn. Bernskuverkin efla. Strákarnir gerðu sprengjur, flugelda og blys, blönduðu saltpétri og málmum og allt varð að vanda og fara varlega með svo ekki yrðu meiðingar og slys.

Gamnið

Þorkell var húmoristi, skemmti sér konunglega með góðu og glaðsinna fólki. Hann var hnittinn og hafði lag á að breyta heldur nöturlegum aðstæðum og kæta dapurt fólk. Slasaðir ættingjar Kela minnast þess hvernig biðstofan á Slysavarðstofunni varð allt í einu gleðistaður þegar hann hafði bent á eitthvað kostulegt. Þorkell hafði þessa fínu næmi á hið kostulega í alvarlegum aðstæðum, frávíkin í hversdagsleikanum og hið stórkostlega í grámósku daganna. Og svo sagði hann glitrandi og litríkar sögur, sem tóku oft raunveruleikanum langt fram. Það er mikil blessun og Guðsgjöf að temja sér slíkt lífsdekur og deila með sínu fólki.

Heimilið

Þorkell var heimilismaður. Hann naut ástríkis og barnríkis. Honum var umhugað um velferð sinna og gerði það sem hann gat til að sinna vel sínu fólki. Um tíma var Þorkell einstæður faðir, einn með Andrés. Allir voru sammála um, að hann hafi staðið sig vel í því hlutverki. Hann var mikilvægur systkinum sínum, með augun galopin ef þau þörfnuðust hans, voru veik eða þurftu stuðning. Ef einhver var sjúkur þá var Þorkell kominn, ef einhverju leið illa þá var hann mættur með ráð og plan. Þorkell var eins og slingur uppalandi, hjálpaði sínu fólki til vinnu og réð þau gjarnan til fyrstu launavinnunnar. Ef hann hafði ekki annað þá bara réð hann ungviðið til að greiða sér eða nudda á sér höfuð eða fætur! En þá voru þau komin á bragðið með sjálfshjálp og hann hafði sjálfur upplifað og notið gamansins.

Kolbrún og börnin

Kolbrún sá Þorkel fyrst þegar hann gekk niður Bankastrætið með strákana sína, varð starsýnt á hann. Kannski kviknaði eitthvað? Svo hittust þau í Hollywood og ástin kviknaði undir diskókúlunni. Þau héldust í hendur og bjuggu saman þaðan í frá. Þau hafa staðið saman í gegnum þykkt og þunnt. Þau leyfðu litríki elskunnar að lifa í sambandinu. Hjónabandið var litað með rósabúntum og auðvitað gaf Þorkell Kollu líka kóngaliljur.

Oft sigldu þau djarft og háskalega. En alltaf stóðu þau sem eitt, púluðu, ræddu saman og hlógu, nutu þess að flétta saman ólíkar eigindir, voru bæði sterk og öflug, full af orku og áhuga, viðurkenndu engin smámörk heldur tóku á og höfðu metnaðinn óbugaðan. Að þau skyldu þola álagið með lítil börn í þennan tíma segir  best söguna um gæði og hæfni beggja. Hjúskapur og ástríki verður ekki til nema bæði leggi til og leggi saman á borð heimilisins. Þau Kolbrún voru vinir, uxu á dýptina saman, héldu í hvort annað, þegar erfiðleikar dundu yfir, og slepptu aldrei.

Þorkell naut þess að vera með börnum sínum, ferðast með þeim um heiminn, fylgjast með þeim í námi og störfum, styðja og hvetja. Hann var natinn pabbi og vildi gefa þeim allt það besta sem hann gat. Þau hafa misst mikið. Guð blessi þau í sorg þeirra, bæði eldri og yngri. Heiðrið minningu Þorkels með því að styðja þau áfram, vera þeim hollir ástvinir og vinir. Þau þarfnast ykkar nú og áfram.

Hásæti himinsins

Þorkell naut þess að ljúka málum með stæl. Hann kunni ekki við barlóm eða nöldur. Hann var sjálfum sér samkvæmur í veikindum og dauðastríði. Það er gömul íslensk dyggð að æðrast ekki og kvarta ekki. Þegar á reynir kemur í ljós hver við erum. Foringinn Þorkell kveinkaði sér ekki og hvarf inn í dauðann án möglunar. En foreldri, sem horfir á ung börn, grætur innan í sér yfir að tíminn er fullnaður.

Hvað er þá eftir? Þá kemur að því að viðurkenna mörk sín, iðka æðruleysi, sætta sig við það, sem ekki verður breytt, kjark til að horfast í augu við það sem útaf stendur. Í hverju er þá vitið til greiningar og vonin til framtíðar – þegar öll sund virðast lokuð, vopnin kvödd, skildirnir í lífinu fallnir og engin vopn bíta lengur?

Í hverju er útrásin þá fólgin? Þá opnast stærra og meira land en Blesugróf eða Elliðaárdalur, markaður í Evrópu eða fjármálaengi veraldar.

Handan dauðans er það, sem við köllum himnaríki. “Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.” Þar er hásæti – ekki í kjallara – heldur í miðju tilverunnar. Þar má Þorkell vera, þar má hann búa. Tilveran er svo gerð, svo flott og glæsileg, að Guð, kóngur himins, býður til fagnaðar. Þú mátt trúa því, að hann býður Þorkeli til fagnaðar með sér, til setu með sér í öndvegi. Slepptu og trúðu.

Magnús Heimir Gíslason

 Hann gerði sér grein fyrir takmörkunum mannsins og að allt er forgengilegt. En tónlist, frumform, litundur í náttúrunni og þrá í sálardjúpum er hvísl um lífið, sem er handan þessa. Minningarathöfn um Magnús H. Gíslason var gerð frá Neskirkju 15. mars 2006.

Bíldudalskrossinn

Lítill kútur vestur á Bíldudal sá kross á kirkjunni, spurði mömmu sína um tilgang krossa og líka hlutverk kirkju. Svo fór hann til pabba, sem gat allt og bað: „Pabbi viltu gera fyrir mig kross eins og á kirkjunni?” Smákarlinn hafði hugmynd um formið, pabbinn lét undan og krossinn var smíðaður. En stubbur var ekki ánægður með smíðisgripinn, hafði ýmislegt við krossinn að athuga og pabbinn tók sig til og bætti um betur. Svo fóru feðgarnir að kirkjunni, krosseigandinn smái brá upp smíðinni og bar saman við fyrirmyndina yfir skrautlegum turninum, með gluggafjöldina, upsir og kúlu. Þá var allt orðið eins og það átti að vera, hlutföllin voru komin í lag og allt var gott! Í þessari krossvinnslu komu ýmsar eigindir og hneigðir Magnúsar Heimis Gíslasonar fram – listfengi, formskynjun, húsaáhugi, leit í trúarvíddir og tákn og teiknigeta. Hann brá upp krossi og varð að bera sína krossa í lífinu. Svo er hann krossaður hér í þessu guðshúsi fyrir ferðina miklu inn í eilífð himinsins. Lífið byrjaði með Bíldudalskrossi og lýkur undir krossi Krists.

Æviágrip

Magnús Heimir Gíslason fæddist á Bíldudal 17. apríl 1941 en lést 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Súrsson Magnússon frá Bíldudal (1912-2001) og Laufey Sæbjörg Guðjónsdóttir fædd á Siglufirði (1917). Bróðir Magnúsar er Guðjón Már. Magnús eignaðist soninn Gísla Þór með þáverandi sambýliskonu sinni, Rósu Sigvaldadóttur. Kona Gísla er Guðrún Dóra Harðardóttir. Börn þeirra eru Urður Helga og Hákon Orri. Árið 1974 kvæntist Magnús Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur. Þau skildu eftir sautján ára samveru. Dóttir Magnúsar og Lilju er Sif Eir. Börn hennar og Snorra Otto Vidal eru Alexander Leonard og Mikael Máni. (Núverandi sambýlismaður Sifjar er Gylfi Már Logason – nb aðskilin síðar).

Nám og störf

Magnús flutti með foreldrum sínum frá Bíldudal til Reykjavíkur árið 1944 og sótti skóla hér í Vesturbænum, Melaskóla og Gaggó Vest. Eftir landspróf fór hann í MR og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Þar útskrifaðist hann sem húsasmíðameistari, 1963, og dúxaði. Magnús átti létt með nám og var öllum samnemendum sínum hærri við útskrift í Iðnskólanum. Hann hafði sett kúrsinn og fór til Kaupmannahafnar og nam byggingafræði og útskrifaðist árið 1967 sem byggingafræðingur og byggingameistari eftir fjögurra vetra nám ytra.

Heimkominn frá námi starfaði Magnús hjá Húsameistara ríkisins og á ýmsum kunnum teiknistofum, teiknaði íbúðarhús, kirkjur og jafnvel innréttingar í Seðlabanka. Síðan kenndi hann fag- og iðnteikningu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í níu ár en síðar tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík. Hann varð svo starfsmaður Olíufélagsins og síðustu árin starfaði Magnús hjá Olíudreifingu.

Teikningin og listfengi

Hvað hugsar meistari þegar hann skapar tilveru, umgjörð fyrir fólk, hús fyrir lífið? Autt blað getur kallað til verka. En það getur líka hrætt þann, sem gengur með ófullburða hugmynd, með hugdettu sem ekki er alveg tilbúin. Penninn getur rissað fram og til baka, en svo gengur verkið ekki. En ef hugmyndin er flott, er tilbúin að fæðast, gengur dæmið upp, allt fellur á sinn stað, myndin eða teikningin sprettur fram með samruna hugmyndar, tilfinningar, handverks, þjálfunar og andagiftar.

Hvað hugsaði Guð þegar tilveran var auð og tóm? Var það hönnunargleði, sem kviknaði, löngun til að móta, útbúa kerfi, skipa málum, hanna heita reiti hér og kalda þar, smella rauða litnum á þessa plánetu hér og bláum þar? Aðgreina ljós og myrkur, dag og nótt, hanna umhverfi, útbúa veruleika fyrir fólk. Síðan hefur ævintýrið haldið áfram í fjölbreytileika lífríkis, í mannkyni, menningu, birst í musterum, sem við getum gengið inn í og dáð og líka í stórvirkjum andans hvort sem er í tónlist, trúarbrögðum og öðrum rismiklum afurðum menningar. Magnús gekk inn í þessa miklu sköpunarverðandi, heillaðist af henni og speglaði í lífi sínu margt af þeim gæðum, sem höfða til tilfinninga, kitla fegurðarskynið og vekja fögnuð. Hann var næmur á sköpunarsnilld.

Myndlistin

Magnús var þegar í bernsku hæglátur, naut sín vel við handverk og iðju og varð snemma afar drátthagur. Skólabækurnar í Melaskóla myndskreytti hann fallega og var ljóst hvert og hvernig krókurinn beygðist. Magnús hafði næmt sjónskyn, greip snögglega hvernig hluturinn var formaður. Það nýttist síðar vel í byggingafræðinni. Í foreldrahúsum var fyrir honum haft og líka innrætt mikilvægi vandvirkni í verkum. Það skal vanda sem lengi skal standa. Hann lærði, að hús skyldu haglega gerð, skip og mannvirki yrði að gera sem best til að þau þjónuðu ekki bara skammtímahlutverkum heldur dygðu lengi og væru til yndis að auki. Með þetta veganesti og góðar námsgáfur gekk Magnúsi námið vel og hann naut sín við teikniborðið. Þar hafði hann næði til að móta, fullvinna rými svo það bæði nýttist vel og væri fallegt. Og hann þurfti tíma fyrir verk sín, til að fullvinna, til að tryggja að húsin yrðu góð.

Teikni- og formskynjunin nýttist líka í tómstundum hans. Magnús hafði menntast í teikningu í bygginganámi sínu en í málverki var hann sjálfmenntaður og varð frábær vatnslitamálari. Þessar tómstundir urðu meira en prívatmál. Lilja aðstoðaði hann og kom á sýningum í Ásmundarsal og líka í Heilsuhælinu í Hveragerði. Magnús hafði um tíma talsverðar tekjur af myndlist sinni, sem fleyttu honum yfir tímabil þegar hann var ekki í fastri vinnu. Og Gallerí List seldi um tíma myndir hans. Magnús málaði landslagsmyndir, en gerði líka myndir af byggingum og tækjum. Tússmyndir hans af kirkjum voru birtar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann málaði vantslitamyndir af öllum skipum Eimskips, sem hengu uppi í aðalstöðvum félagsins. Og B&L keypti líka af honum myndaröð.

Magnús var ekki aðeins áhugamður um sköpunarverkið og húsasmíði manna og þar með nýjustu gerð þakglugga, heldur hafði víðtækan tækniáhuga. Hann hafði áhuga á gerð skipa og hlutföllum þeirra, smíðaði stóran sjómælingabát úr balsaviði og vitaskuld í réttum hlutföllum. Hann tók ástfóstri við katla og gufuvélar og vildi helst gerþekkja hönnun þeirra og notkun.

Músíkin

Listrænan í honum spannaði líka tónlist. Hann hélt upp á sígilda tónlist, var mikill Wagneraðdáandi og kunni vel að meta orgel-Bach og líka léttleikandi Mozart. Svo var hann áhugasamur um rússnesku tónskáldin, Borodin, Mussorsky og Rimskij-Korsakoff. Óperutónlist kunni hann vel að meta, hélt upp á Verdi, kunni Oþelló utan að og sat með nóturnar og fylgdist með. Svo las hann textana upphátt eða þýddi fyrir tilheyrendur og varð vinum sínum og kunningjum bæði tónlistarkennari og hvati til tónlistarupplifunar. Magnús lék á bæði orgel og píanó. Hann gekk ekki í tónlistarskóla, var sjálfmenntaður. Hann m.a.s. las tónfræðibækur sér til skemmtunar og samdi eigin tónverk, sem hann fór þó leynt með.

Maðurinn að baki

Hvernig maður var Magnús? Jú, þegar hefur verið nefnd listfengi. Hann var nákvæmur í verkum, vildi hafa umhverfi sitt í röð og reglu. Hann var bókelskur og hafði sértækan bókasmekk. Hann las líka stærðfræðibækur sér til skemmtunar og lagði sig eftir ritum um andleg fræði og hafði áhuga á trúmálum. Hann var meðlimur í Guðspekifélaginu, kynnti sér trúarbrögð og hafði áhuga á trúarheimspeki. Hann var stiltur, hógvær og hafði ríka næðisþörf. Smátt og smátt hjúpaði hann sig og hleypti ekki fólki að sér. Hvað hugsaði hann og hvað var hann? Við sjáum eigindirnar, en þekkjum ekki allt liftróf tilfinninga hans. En við getum verið viss um að maður með hans sálargerð þráir meira, leitar lengra, vill stærra en fengið er. Farðu yfir hugðarefnin og rifjaðu upp í huga þér hvað hann var. Var ekki alltaf ófullnægð þrá, einhver opnun, einhver glufa sem vísaði áfram til þess sem var stærra, meira, dýpra, sterkara en hann náði að tjá eða vera í lífinu? Við getum ekki lengur spurt hann eða grennslast eftir. Við getum aðeins ráðið í rúnir lífs hans og íhugað. Kannski getur vitaáhugi hans lokið upp leyndarmálum og lýst fram á veginn.

Viti og kross

Magnús hafði gaman af ferðalögum um landið og ekki síst að vitja þessara ljósvirkja á ströndum. Hann tók myndir af vitunum og dáðist að þeim. Vitabyggingarnar eru skýrar að forminu til, eiga sér líka samhengi í línum lands en eru tákn um hættur, áminning um sker og boða í sjó. Vitar hafa áhrif á hvernig umhverfi þeirra er upplifað og hafa verið mikilvægir við að vernda líf, að sæfarendur hafa komist heilir heim. Með sinni hljóðlátu og mikilvægu ljósgjöf hafa þeir vísað veg, varnað slysum og bent til vegar, gefið áttaviltum og áttlausum vitneskju, sem dugði til lífsbjargar. Þar er áleitið táknmál fyrir lífið. Vitar eru flottir, þeir eru til varnar lífi og benda til vegar. Þannig eru kirkjur, þannig er trúin, þannig er allt lífið þegar grannt er skoðað. En viljum við sjá form, liti og burðarkerfi lífsins? Magnús hafði séð þetta allt, gert sér grein fyrir takmörkunum mannsins, brestum og að allt er forgengilegt. En tónlistin, frumformin, litundrin í náttúrunni og þráin í sálardjúpum er hvísl um lífið, sem er handan þessa.

Litli drengurinn vestur á Bíldudal vildi ekki fyrsta krossinn og pabbi gerði nýjan. Sá var betri hinum fyrri og nógu góður. Lífið er til að læra af því, Magnús fékk sínar lexíur, bar sinn kross. En svo er til nýr og betri kross, sem er tákn um nýjan himin, nýtt hús í heimi eilífðarinnar. Sá kross er kenndur við Krist og er kross hinn meiri sem hæfir mönnum og líka Magnúsi. Þar er sköpunin alger, þar er allt gott því húsameistari þess ríkis getur og kann allt, þar eru allar teikningar frábærar og umbreyast í draumahús og hallir fyrir lífið.

Guð varpi yfir Magnús Heimi Gíslason ljóskrossi elskunnar og geymi hann alla eilífð.

Minningarorð flutt við útför í Neskirkju 15. mars 2006.

Æviágrip

Magnús Heimir Gíslason fæddist á Bíldudal 17. apríl 1941. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu Granaskjóli 80 í Reykjavík föstudaginn 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Súrsson Magnússon, f. 10. desember 1912 á Bíldudal, d. 25. mars 2001 og Laufey Sæbjörg Guðjónsdóttir, f. 3. september 1917 á Siglufirði. Bróðir Magnúsar er Guðjón Már Gíslason, f. 8. nóvember 1950. Sambýliskona Magnúsar var Rósa Sigvaldadóttir, f. 11. janúar 1947 í Hofsárkoti í Svarfaðardal. Þau slitu samvistum. Foreldrar hennar voru hjónin Sigvaldi Gunnlaugsson, f. 8. nóvember 1909, d. 6. júlí 1996 og Margrét Kristín Jóhannesdóttir, f. 30. október 1913, d. 21. september 1998. Sonur Magnúsar og Rósu er Gísli Þór Magnússon, f. 11. október 1969. Sambýliskona hans er Guðrún Dóra Harðardóttir f. 8. apríl 1970. Börn þeirra eru Urður Helga, f. 15. júní 1999 og Hákon Orri, f. 27. febrúar 2003. Hinn 9. ágúst 1974 kvæntist Magnús Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur, f. 24. mars 1945 í Halakoti á Vatnsleysuströnd. Þau skildu. Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Ágústsson, f. 7. mars 1910, d. 28. ágúst 1992 og Eyþóra Þórðardóttir, f. 5. apríl 1922, d. 25. febrúar 1987. Dóttir Magnúsar og Lilju er Sif Eir Magnúsdóttir, f. 5. nóvember 1971, var gift Snorra Otto Vidal, f. 3. júní 1973, þau skildu. Börn þeirra eru Alexander Leonard, f. 10. október 1997 og Mikael Máni, f. 26. júní 2000. Sambýlismaður Sifjar er Gylfi Már Logason, f. 11. maí 1972. Magnús flutti með foreldrum sínum frá Bíldudal til Reykjavíkur 1944. Eftir landspróf hóf hann nám við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem húsasmíðameistari árið 1963. Hann nam byggingafræði í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan sem byggingafræðingur og byggingameistari árið 1967. Að námi loknu starfaði Magnús hjá Húsameistara ríkisins, teiknistofum, kenndi fag- og iðnteikningu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík. Síðustu árin starfaði Magnús hjá Olíudreifingu ehf.

 

Jón R. Árnason – minningarorð

Næmur læknir og opinn listamaður hugsaði um hvað lífið er og til hvers. „Orka eyðist ekki við dauða,“ sagði Jón R. Árnason og viðurkenndi mörk fræða sinna og skilnings, þorði að íhuga hvernig mætti túlka hið dýpsta samhengi lífsins. Með slíkt ratljós er hægt að fljúga áfram í heima fræða, lista og trúar. Útför Jóns var gerð frá Neskirkju 18. janúar 2006 og minningarorðin fara hér á eftir.

„Komdu að fljúga – það er svo gott veður.“ Í augum Jóns var gáski, kátína á vörum og flugsókn í hjarta. Ákefðin í röddinni smitaði og svo var viðmælandinn til í að koma. Rokið af stað út á flugvöll, vélin græjuð, sest upp og hreyflarnir fóru að snúast. Flugturn gaf leyfi, út á braut. Lokatékk, svo bensín í botn, líkaminn þrýstist aftur í sæti í hröðuninni, hjólin slepptu og svo var klifrað – mót himni, upp í góðviðrið, upp í frelsið, útsýn, yfirsýn, stórsýn. Mannheimar verða smáir undir hvelfingunni, sjórinn mikill og fjöllin glæsileg.

Upphaf

Jón R. Árnason fæddist í Reykjavík 19. apríl 1926 og lést 9. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Árni Pétursson (1899-1953), læknir, og Katrín Ólafsdóttir (1904-88). Systur Jóns eru Þórunn og Hólmfríður og uppeldissystir Svala Eyjólfsdóttir. Fjölskylda Jóns bjó um tíma á upphafsreit Reykjavíkur, í Uppsölum gegnt Herkastalanum, þar sem nú er búið að byggja hótel við eða yfir landnámsbæ. Á þeim reykvíska núllpunkti réðu ríkjum Þórunn, stóra amma, og Hólmfríður, litla amma, stjúpur Katrínar. Þegar Jón var ungur bjó fjölskyldan um tíma á Fjólugötu og síðar í Skála við Kaplaskjólsveg. Árni og Katrín byggðu síðar hús við sjávarsíðuna í Faxaskjóli 10.

Skólaganga

Jón sótti skóla í Reykjavík, en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1947 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1955. Síðan tók við framhaldsnám og læknisstörf í Svíþjóð næstu ár eða til 1962. Jón var yfirlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað 1962-1964, rak læknastofu í Reykjavík frá 1964 – 1974, var síðan yfirlæknir á skurðdeild Sjúkrahúss Vestmannaeyja 1974 – 75. Heilsugæslulæknir við heilsugæsluna Sólvangi í Hafnarfirði var hann síðan frá árinu 1975 og þar til hann lét af störfum sökum aldurs.

Marlies

Einn sumardag árið 1950 sat Jón við píanóið og seiddi fram unaðshljóma úr hljóðfærinu en líka að sér þýska stúlku Marlies Wilke, sem eiginlega var bara í millistoppi á leið til Ameríku. En hún fór ekki lengra, tónlistin seiddi, hún sá þennan glaðsinna svein, sem sat við hljóðfærið og var starsýnt á mokkaskóna sem dönsuðu á pedölunum. Svo töluðu þau um djass, uppgötvuðu að þau voru bæði á móti honum. Sú andstaða braut ísinn svo þau töluðu, hrifningin óx og hitinn í augunum líka. Þetta gat ekki endað nema á einn veg. Þau Marlies gengu í hjónaband hjá fógeta 7. júlí 1951 og bjuggu fyrst á Ránargötu, auralaus og sæl. Svo enduðu þau för sína í Sörlaskjólinu, áður en Jón fór á Eir vegna heilsubrests. Þar var hann síðustu árin og naut einstakrar umhyggju, sem hér skal þökkuð.

„Já, við elskuðum hvort annað,” sagði Marlies með blik í auga, svipurinn hennar varð mildur og það var eins og strokur og blíða áratuganna færi um hana alla. Þau fóru um heiminn saman, fóru víða vegna vinnu Jóns og alltaf fór Marlies með, studdi mann sinn með þeim ráðum og dáð sem hún átti.

Börnin, tengdabörn og afkomendur

Börnin þeirra Jóns og Marliesar urðu fimm. Þau eru:

Árni Erwin, kvæntur Guðrúnu Hjörleifsdóttur.

Katrín Hildegard, gift Jóni Magnúsi Ívarssyni.

Gunnar Pétur, kvæntur Ernu Valgeirsdóttur.

Þórarinn Axel, unnusta hans er Natali Ginzhul

og Þórunn Hólmfríður, hennar sambýlismaður er Haraldur Axel Gunnarsson.

Samtals eru afkomendurnir sextán og voru afa ömmu gleðigjafar. Af þeim getur Tinna Karen ekki verið við þessa athöfn en ber til ykkar kveðju sína.

Heimilislífið

Jón var góður heimilismaður, vann þau störf og útréttaði í samræmi við það, sem þeim Marlies talaðist til um. Hann lagði sitt til uppeldis og menntunar barnanna, ræddi við þau, gantaðist og hleypti upp fjörinu. Hann bullaði með þeim og sagði við þau goddi, goddi, sem er elskuyrði og eiginlega útleggst sem guðsbarn. Hann hafði augu og elsku til að nema og skapa gæsku.

Krakkarnir vissu alveg hvað pabbi vildi og hvað ekki. Hann hafði meiri áhuga á píanómúsík en dynjandi húðaslætti í einhverju trommusóló. Hann hafði unun af synfónískri tónlist en enga af poppi eða villtum spunajazz. Þrátt fyrir mikla vinnu og annir var hann fólkinu sínu náinn og natinn. Eins og húsmæður hennar kynslóðar var Marlies alltaf heima. “Hún er kjarninn,” sagði Jón og skilgreindi þar með eðli hjúskapar og samvinnu þeirra. Hann hafði því frelsi til að sinna vinnu og gat líka leyft sér að þjóta af stað ef þörfin vaknaði og flugið kallaði hið innra.

Leitin að lífsgildum

“Hvert get ég farið?” spurði skáld fyrir meira en þrjú þúsund árum. Það er spurning allra förumanna í vísindum, listum og lífinu. Í Davíðssálminum er minnt á ýmsa möguleika: Upp í himininn, í undirheima og í dýptir viskunnar. Niðurstaðan er, að alls staðar sé Guð, sem leggur hönd á bak og brjóst. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er þessi forna lýsing manns á veruleika Guðs – eða kannski návist Guðs. Er ekki mannlífið mikið ferðalag, sókn í gæði, í gildi, fræði, för hamingjuleitar? “Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans,” segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig.

Hvað og hvernig var hann Jón? Hver er myndin þín sem þú dregur upp í huga? Kannski var líf hans ferðir í mörgum heimum. Hann var Reykvíkingur, sem fór norður til að verða stúdent. Hann hefði alveg getað hugsað sér verkfræði, en fór í læknisfræði. Hann stundaði nám og störf víða í Svíþjóð. Hann starfaði austur á landi og í Vestmannaeyjum auk Reykjavíkur. Hann var rammíslenskur í menntunarmótun, en kvæntist þýskri konu. Hann var eitt, en gat orðið annað. Hann hafði skoðanir, en var opin og þorði að færa sig um set.

Læknirinn góði

Jón var að sögn góður læknir. Hann menntaði sig í skurðlækningum ytra, hafði gaman af kírúrgíunni, en starfsævinni helgaði hann heimilislækningum. Hann hafði áhuga á fólki, sinnti þörfum þess og tók sér tíma, þegar sjúklingarnir höfðu aðrar þarfir en að láta skera vörtu eða líta á fingur – þó það væri yfirvarpið. Hann skynjaði þegar tilfinningar og innri vandi leitaði á fólk og var sá mannvinur, að hann tók sér góðan tíma til að hjálpa beygðu fólki að rétta úr sér og tala. Hann bar þá virðingu fyrir mennsku skjólstæðinga sinna, að skýra vel fyrir þeim í hverju sjúkdómur þeirra væri fólginn, hvað væri til ráða og hverjar horfur væru. Hann var drátthagur og teiknaði oft skýringarmyndir, sem stundum hjálpuðu óttaslegnum sjúklingum.

Hugðarefnin

Áhugamálin voru mörg. Hann spilaði handknattleik á æskuárum, átti sverð og stundaði skylmingar og boxaði líka um tíma! En mörg hugðarefnin gáfu Jóni möguleika á innra eða ytra ferðalagi, ekki verra ef þau gáfu honum vængi til að fljúga með. Hann var alinn upp í músík. Foreldrarnir voru báðir músíkalskir, pabbinn söng og mamman hafði lært á fiðlu. Hljóðfærði Jóns var píanóið, en fiðlunám stundaði hann um tíma og þótti ekki öllum heimilismönnum æfingatíminn skemmtilegur. Nú híma hljóðfærin hans hnípin, fallegi Berlínarflygillinn hans kann ekki lengur að stemma í samhljóm og bíður sinnar upprisu.

Jón var klassískur í músíkmennt sinni og hans menn segja talsverða sögu um persónu og lyndiseinkunn. Maður, sem heillast af Chopin hefur í sér tærleika og fíngerða næmi. Bach og Beethovern kunnu að stafla músíkbunkum með fimi byggingameistarans. Það kunni Jón að meta og snilli ýmissa annarra klassískra meistara. Í bókastofunni hans Jóns er stór skápur með nótum, vitnisburður um spilafærni og gleðistundir. Frá upphafi leyfði hann Marlies að njóta, og svo vildi hann gjarnan að hún hætti aðeins í húsverkunum, staldraði við og deildi með honum gleði yfir einhverri snillinni, hvort sem það var nú Goldbergvariasjónir í flutningi Gould eða glitrandi næturljóð Chopin.

Menning – bækur

Jón var alinn upp í málrækt og menningu þess fólks, sem skapaði lýðveldið Ísland. Hann var handgenginn klassískum sögum kenndar við Íslendinga, bæði þekkti og mat mikils íslenskan skáldskap nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar, hvort sem það var nú hin hrifnæmi og stundum stórkallalegi kveðskapur Matthías Jochumssonar, lipurð Jónasar eða djúphygli Einars Benediktssonar. Þegar Jón hafði misst heilsu og var ekki upplitsdjarfur átti Hólmfríður systir til að spyrja um ljóð. Þá kom líf í augun, orð á varir og ljóðið kom heilt og gleðin með í hugann. Jón var alhliða bókamaður. Hann hafði gaman af skáldsögum, las höfunda bæði austan Atlantsála sem vestan, hvort sem það nú voru Stephan Zweig eða Mark Twain. Bækur máttu líka vera til mannbóta með beinum hætti. Hann gaf börnum sínum mannræktarbók eftir Dale Carnegie.

Söguríkir staðir heilluðu hann og hann vildi gjarnan fræðast um slíka og helst skoða allan heiminn. Sagnfræðin átti greiða leið að honum og Jón lagði sig eftir ólíkum greinum, sem gætu orðið honum til aukins skilnings. Jafnvel bækur um réttarhöldin í Nürnberg eru til í bókahillu hans. Af því Jón var málamaður eru þessir bókaskápar eins og útibú frá háskólabókasafni. Þar eru bækur á mörgum tungum. Jón naut þess að lesa upphátt fyrir fólkið sitt og vildi gjarnan einnig deila þeim gæðum með Marlies sinni.

Tækni- og flugmaður

Jón var ekki aðeins hrifnæmur á listasviðinu heldur dáðist að tækni og fegurð hennar. Alla tíð hreifst hann af nýjungum, sem gátu flutt menn og mannkyn til, inn í nýja heima, nýja reynslu, nýja möguleika eða nýja þekkingu. Popular Mechanics var hans gleðilesning og færði honum þekkingu og skilning langt út fyrir eigið fræðasvið. Hann praktíseraði líka að hagnýta tæknina, þurfi að prufa sjálfur, eignaðist mótorhjól ungur og hentist eftir rykugum Kaplaskjólsveginum. Síðar vildi hann eiga góða bíla og auðvitað var þýska bílundrið, Mercedes Benz, honum gleðigjafi. Í Svíþjóð átti hann bát um tíma.

Á vængjum morgunroðans… Fólkið hans Jóns ferðaðist mikið. Foreldrarnir á ferð og flugi, en það var Jón einn sem raunverulega flaug. Hann var áhugamaður um flugvélar og varð sem ungur maður vitni að þróun flugsins. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni var auðvitað staðurinn sem flugáhugamenn nutu. Svo lærði Jón að fljúga og átti um tíma hlut í flugvél. Flugið sameinaði margar víddir, eigindir og hugðarefni Jóns. Hann gat leikið sér með og notið tækninnar, lifað fegurð hálofta og notið útsýnis, grandskoðað landið frá nýjum sjónarhól, átakalaust og með hraði flogið aftur og aftur yfir það, sem hann vildi skyggna vel, gefið vinum sínum færi á að fara annað en þeir höfðu áður getað – og hann var frjáls til að vera, fara langt og víða.

Guðsorkan

Leitandi fræðimaður, opinn listamaður, næmur læknir hugsar um hvað lífið er og til hvers. Jón var óhræddur, að viðurkenna mörk fræða sinna og skilnings og þorði að íhuga hvernig mætti túlka hið dýpsta samhengi lífsins. Orkan, jú við erum borin áfram af orku. Og “sú orka eyðist ekki við dauða,” sagði Jón. Með slíkt ratljós er hægt að fljúga áfram inn í heima fræða, lista og trúar.

Hvað er Guð? Hvernig má lýsa hinu dýpsta í veröld með fátæklegum orðum? Hvernig getur hið takmarkaða og endanlega orðið brú vitsmuna og skynjunar inn í ofurveröld? Orkubúskapur mannslíkamans er vegvísir, stefnuviti um eigindir veraldar og kannski líka um Guð. Allt er háð því, að hið mikla veitukerfi gangi og virki. Hið smæsta ódeili er hluti orkunets, hin stærstu kerfi sem mannsvitið greinir í geimnum eru líka kraftknippi. Maðurinn getur leyft sér að skynja og upplifa Guð í því samhengi og skilningsljósið getur kviknað.

Uppsalir eilífðar

“Hvert get ég farið?” spurði skáldið forðum. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Jón hefur lifað vel, lifað sínu lífi og af honum megum við læra. Líf hans er okkur vegvísir og hvati til að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni, sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Jón hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er engin pína, ekkert bakfall, engin höfuðkvöl heldur leiftrandi léttleiki. Þar er alltaf veður til að fljúga inn í ljósið, gæskuna, á vængjum sem aldrei missir kraft. Þar eru Uppsalir eilífðar og músík morgunroðans. Guð geymi Jón R. Árnason í sínu fangi um alla eilífð.

Neskirkja, 18. janúar 2006