Guðjón Ármann Eyjólfsson +

Í milljónir ára hafa menn starað upp í himininn – og hugsað. Hvað merkir þessi blikandi mergð þarna uppi? Hvað er að baki? Er eitthvað hinum megin? Og þegar mannabörnin hafa legið á bakinu, séð stjörnuhröpin og numið óravíddir alheimsins hafa þau skynjað smæðina en líka vaknað til vitundar um möguleika. Óravíddir og smæð heimsins. Er nema von að sálmaskáldið spyrji í áttunda Davíðssálmi. „Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?“ Eitt er að kunna að sigla um sjó og afreka í lífinu en svo er eilífðarsiglingin. Hver eru stefnumið fyrir þá ferð? Hvaða vitar eru nothæfir? Jesús talaði um sannleikann og kenndi hvaða leið átti að fara. Guðjón Ármann Eyjólfsson var sérfræðingur í siglingum en líka kunnugur eilífðarstefnunni. Hann þekkti Karlsvagninn, Fjósakonurnar og Pólstjörnuna, stjörnumerki sem gefa stefnuna. Hann kenndi börnum sínum að þekkja stjörnuhimininn og sagði þeim nöfnin og sögurnar sem tengdust stjörnumerkjunum. Hann tengdi þau og nemendur sína við fræðin, sem færðu menn frá einni strönd til annarrar, tengdi tímann við fortíðina og himininn. Menn eru alltaf á ferð, ef ekki frá punti A til B, þá á ferð í fræðum eða í huganum til hinna draumkenndu stranda hið innra, eða á vit eilífðarhafnar á himni. Heimaey er ekki aðeins eyja sunnan við meginland Íslands heldur áfangi á himnum, sem við kristnir menn köllum eilífð. Þar er Guð og þar er Guðjón Ármann Eyjólfsson. Hann vissi hvernig átti að stýra og rataði.

Ætt og upphaf

Guðjón Ármann Eyjólfsson kom í heiminn í ársbyrjun, 10. janúar árið 1935. Vestmannaeyjar voru upphaf hans og samhengi allrar æfi hans. Guðjón Ármann var sonur hjónanna Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar. Húsið sem þau byggðu og bjuggu í hét því virðulega nafni Bessastaðir. Eyjólfur, faðir Guðjóns Ármanns, var í fjóra áratugi einn fremsti formaður Eyja. Hann var ekki aðeins mikill aflamaður heldur einnig áhugamaður um sögu Vestmannaeyja. Sonurinn naut þess áhuga og arfs frá föðurnum. Guðjón Ármann sagðist líka njóta getu föðurins til að skrifa. Guðrún, móðirin, var listfeng hannyrðakona. Erlendur var elsti bróðir Guðjóns Ármanns, samfeðra. Sigurlína og Gísli voru alystkin hans, en Sigurlína lést ung. Guðjón Ármann var yngstur í barnahópnum. 

Hann stundaði grunnnám á heimaslóð m.a. í skóla aðventista í Eyjum. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum árið 1951. Þá hóf hann nám í Menntaskólanum á Laugarvatni en leiddist og fór suður og var sáttur og leiðalaus í Menntaskólanum í Reykjavík. Guðjón Ármann var fjölhæfur í námi. Fyrst lauk hann stúdentsprófi í máladeild vorið 1955. En hann vildi auka möguleika sína varðandi náms- og starfs-val. Með honum hafði vaknað löngun að fara til náms í danska Sjóðliðsforingjaskólanum. Skólinn gerði miklar kröfur og máladeildarprófið var ekki nóg. Guðjón Ármann stæltist alltaf við átök og var marksækinn. Hann ákvað því að bæta við öðru stúdentsprófi og lauk því líka stúdentaprófi frá stærðfræðideild ári síðar.

Með tvö stúdentsskírteini sótti Guðjón Ármann um nám Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins. Hann var einn af 130 sem sóttu um en aðeins 30 komust inn. Námið var áháskólastigi og Guðjón Ármann lauk því árið 1960.[i] Þá fór hann til starfa hjá Landhelgisgæslunni og stundaði einnig rekstrarnám. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri frystihúsa í Vestmannaeyjum á árunum 1962-63. Hann var einnig hvatamaður og einn af stofnendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og var skólastjóri hans frá stofnun árið 1964. Útgerðarmennirnir vildu laða unga efnismenn til Eyja og í skólann. Þeir vildu gefa þeim möguleika og menntun, en treystu því líka að stúlkurnar myndu síðan halda þeim í Eyjum, sem tókst vel!

Þegar gosið hófst í Eyjum var skólinn fluttur upp á land og í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík. Guðjón Ármann hélt áfram kennslu í skólanum eftir gos og varð skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1981. Hann gegndi starfi skólameistara til ársins 2003.

Guðjón Ármann helgaði starfsævi sína menntun íslenskra sjómanna. Hann var árið 1993 sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Öryggis- og björgunarmál sjómanna voru honum hugleikin og var hann um árabil gjaldkeri Björgunarsjóðs Stýrimannaskólans í Reykjavík – Þyrlusjóðs.

Eftir Guðjón Ármann liggur mikið ritasafn. Hann skrifaði um sjómennsku, siglingasögu, siglingafræði og kennsluefni skipstjórnarmanna. Hann þýddi Alþjóðlegar siglingareglur og uppfærði þegar breytingar urðu (1972 og 1989). Hann skrifaði bókina Stjórn og sigling skipa, siglingareglur, sem gefin var þrisvar út í endurskoðuðum útgáfum (1982, 1989, 2006). Þá ritaði hann bækurnar Leiðastjórnun (2009) og Siglingafræði (2013). Þetta eru mikil rit og glæsilegar ritsmíðar.

En útgáfa rita um skipstjórnun og siglingafræði var ekki það eina sem Guðjón Ármann skrifaði. Eins og þegar er sagt var faðir hans mikill áhugamaður um sögu og mannlíf Vestmannaeyja. Um þau efni skrifaði Guðjón Ármann einnig mikið. Haustið 1973 kom út hin merkilega bók Vestmannaeyjar – byggð og eldgos, sem er heimild um mannlíf í Eyjum, horfna byggð og flótta íbúanna hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973. Þá skrifaði Guðjón Ármann um Vestmannaeyjar í ritið Landið þitt sem kom út árið 1984. Honum var síðar falið að skrifa Árbók Ferðafélags Íslands um Vestmannaeyjar sem kom út árið 2009 og var bókin að verðleikum tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Þessi Vestmannaeyjabók Guðjóns Ármanns er yfirgripsmesta ritið um Vestmannaeyjar. Auk annarra starfa var Guðjón Ármann ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja á árunum 1965-1975. Í því er á annað hundrað greina hans um mannlíf og sögu Eyjanna.

Guðjón Ármann var eftirsóttur félagsmálamaður enda glaður, áhugasamur um fólk, jákvæður og eflandi. Hann var virkur í Akóges um árabil og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Þá var hann dugmikill tungumálamaður og áhugamaður um rómönsk tungumál. Þegar hann var barn fékk hann fyrstu frönsku orðabókina og drakk í sig frönsk áhrif. Guðjón Ármann var meðlimur í Alliance Française og sat í stjórn félagsins og skrifaði m.a. um rithöfundinn Guy de Maupassant. Þá þýddi hann smásögu úr frönsku eftir hann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.

Anika og börnin

Svo er það fjölskyldan og Anika. Guðjón Ármann gerði sér alltaf grein fyrir gæðum og styrk. Anika Jóna Ragnarsdóttir, Arnfirðingurinn frá Lokinhömrum, vann á sjúkrahúsinu Sankt Josepí Kaupmannahöfn. Þau sáu hvort annað í Gullfossi við bryggju í Kaupmannahöfn. Svo hittustþau á Rauðu nellikunni, sem var vinsæll Íslendingastaður í Höfn. En Guðjón Ármann, sem var orðinn almælandi á dönsku þóttist vera Dani. En Anika sá gullið í gegnum þykistuna og dátabúninginn og hann sá gullið í henni. Nálgunaraðferð Guðjóns Ármanns var frumleg. Hann kom til Aniku og bað hana um að merkja fötin sín. Og hún gerði sér grein fyrir að hann var nákvæmur og kom úr formlegu vinnusamhengi sjóðhersins danska. Hún merkti vel og hann þakkaði vel fyrir sig. Þau gengu í hjónaband föstudaginn 30. desember árið 1960. Þau voru vinir og báru virðingu fyrir hvoru öðru. Þau stóðu saman, hrósuðu hvoru öðru og voru hinu styrkur. Guðjón Ármann hafði á hreinu alla tíð að góður eiginmaður ræktaði samband við konu sína og börn og þjónaði heimili sínu.

Þau byrjuðu búskapinn í Hátúni 4. Þegar Guðjóni Ármanni var boðin staða í Vestmannaeyjum var Anika til í að fara út með honum. Þau bjuggu í Eyjum í áratug, en fóru svo upp á land í gosbyrjun. Það tók tíma að koma sér fyrir í nýju samhengi eftir eld. Fjölskyldan bjó í Vesturbænum um tíma en eignuðust síðar sælureit í Fossvoginum þar sem Anika býr enn. Guðjón Ármann sagði, að hann hefði lært í danska flotanum að góður yfirmaður hugsaði vel um skip sitt og áhöfn og eiginkonu sína. Svo sagði hann við konu sína: „Þú hefur það eins og þú vilt, Anika mín.“

Börn Ármanns og Aniku eru fjögur. Ragnheiður er elst. Hún er MA í alþjóðasamskiptum og leiðsögumaður. Maður hennar er Leifur Björnsson. Synir þeirra eru Ármann og Björn. Ragnar er annar í röðinni. Hann er svæfingalæknir. Kona hans er Kristín Axelsdóttir og þau eiga synina Þórólf, Höskuld, Grím og Brand. Eyjólfur er sá þriðji. Hann er lögmaður. Kristín Rósa er svo yngst. Hún er hjúkrunarfræðingur og MA í lýðheilsuvísindum. Maður hennar er Jón Heiðar Ólafsson og þau eiga Ólaf Heiðar, Guðjón Ármann og Aniku Jónu.

Hvernig var Guðjón Ármann?

Hvernig manstu Guðjón Ármann Eyjólfsson? Byrjum á öguðu snyrtimenninu. Hann fékk ákveðið uppeldi heima um hvað væri gott og hvað ekki. Svo slípuðu Danir hann í öflugri regluhefð danska hersins. Guðjón Ármann var agaður sjálfur og sagði nemendum sínum, að það væru ekki öflugir yfirmenn, sem gætu ekki klárað skúringar eða hreinsað salernin. Hann var smekkmaður, gætti að klæðaburði sínum og miðlaði innri sem ytri ögun til nemanna í Stýrimannaskólanum. Þeir lærðu fljótt, að það þýddi ekki að koma vankaður eða illa verkaður í skólann. Þeir lærðu líka að taka á móti kennara með stæl í stofu. Þegar stýrimannaskólinn flutti upp á land í gosinu gerðu nemendur Reykjavíkurskólans sér grein fyrir að Eyjanemendurnir voru á allt öðru og æðra plani hvað fatnað og aga varðaði. Þegar horft er til baka tala nemendur Guðjóns Ármanns um hve aginn sem hann kenndi þeim hefði skilað þeim miklu í störfum og stjórnun. Hatturinn hans Guðjóns Ármanns og fatnaður voru ekki sýndarmál skartmennis heldur ásýnd hins þroskaða manns. Hann var formlegur í lífi og tengslum. Og hann heilsaði með handabandi.

Guðjón Ármann var alltaf að læra. Hann var opinn, hæfileikaríkur og námsfús. Hélt áfram að þjálfa sig í tungumálum og menningu. Hann íhugaði hverju hann gæti miðlað og þar með bætt stöðu stéttar sinnar. Hann var gjarnan með bók í hendi. Hann var heillaður af dýpt franskrar menningar. Hann sótti inn á söfn, skoðaði allt vel, íhugaði og gleymdi stund og stað. Þar var hann að læra og lærði mikið. En börnum hans fannst stundum að safnaferðirnar mættu vera hraðari og styttri.

Guðjón Ármann var af kynslóð kraftaverkamanna, sem byggðu upp nútímasamfélagÍslendinga. Hann var frjálslyndur og – eins og margir af hans kynslóð – opinn gagnvart öllum gagnlegum nýungum og því sem nýta mætti í þágu íslenskrar þjóðar. Hann gekk til þjónustu við nútímasamfélaið og beitti sér af fullum þunga, ekki í eigin þágu heldur heildarinnar. Í æsku gerði hann sér grein fyrir mikilvægi útfærslu landhelginnar og mikilvægi sjómælinga. Guðjón Ármann miðlaði hugsjónum sínum til nemenda sinna og minnti þá á að góður yfirmaður lætur sér annt um velferð og hag allra um borð. Og hann minnti þá á að góður yfirmaður á sjó væri líka góður eiginmaður í landi. Mannrækt var honum mikilvæg, styrkur og fágun hið innra sem ytra. Hann mat hæfni fólks og hæfileika óháð stöðu eða stétt. Hann varumtalsfrómur mannvinur. Það er ástæða fyrir að sonur hans las áðan kærleiksóð Páls postula.

Guðjón Ármann var marksækinn og einbeittur í lífi og vinnu. Þegar hann hafði sett sér stefnu sótti hann ákveðið fram. Hann hafði að orðatiltæki „Vedligehold af målsætning.“ Hann notaði vel tímann en gekk jafnvel nærri sér vegna einbeitninnar. „Gutta cavat lapidem.“ Dropinn holar steininn – minnti hann á – og svo vissi hann og kenndi: „sed saepe legendo“ „ … ekki með afli heldur með því að falla jafnt og þétt; þannig verður maðurinn lærður, ekki með afli heldur stöðugum lestri.“ Guðjón Ármann var afkastamikill eljumaður. Hann kunni ekki vel – frekar en aðrir af hans kynslóð – að slappa af. Þegar tómstundir gáfust opnaði hann bók eða skrifaði. Hann miðlaði lífsafstöðu mennta, skynsemdar og ráðdeildar til barna sinnar. Þegar krakkarnir vildu fara í bíó eða þurftu peninga til tómstunda eða bara til að fara í sjoppuna lágu þeir ekki á lausu. En ef þau ætluðu að kaupa sér bók var afstaða pabbans mun opnari. Peningar voru ekki markmið heldur tæki til góðs og til menntunar. Og hann var áhugasamur um menntun barna sinna og studdi þau.

Í pólitík og menningarmálum taldi Guðjón Ármann mikilvægt að fjármunir væru ekki á fárra höndum, heldur ættu auðlindir að nýtast heildinni. Um skeið var hann virkur í bæjarpólitíkinni í Eyjum en taldi tíma sínum best varið við að mennta, fræða og tryggja velferð stéttar sinnar. Guðjón Ármann var gagnrýnin á þær stefnur og stjórnsýslu sem ekki tryggði velferð heildarinnar. Hann var t.d. gagnrýninn á kvótakerfið sem hann taldi of lokað og útilokandi.

Guðjón Ármann var afar hæfur félagslega. Hann hafði t.d. gaman af að tala við félaga barna sinna. Hann bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann fylgdist með þeim og gladdist yfir velferð þeirra og árangri. Alltaf jákvæður og glaður. Svo héldu nemendur hans góðu sambandi við hann. Hann hélt gjarnan ræður á mannamótum, inntaksríkar, vinsamlegar og jákvæðar tölur. Hann starfaði að margvíslegum félagsmálum, sótti samkomur á vegum Eyjamanna og ræktaði vini sína, innlenda sem erlenda.

Eldurinn í Heimaey hafði djúptæk áhrif á Guðjón Ármann eins og aðra Eyjamenn. Hann skrifaði: „Það var mér stórkostleg og ólýsanleg sjón, er ég sá þessa firnakrafta að verki stundarfjórðungi eftir að þeir leystust úr læðingi. Í sömu andrá varð maður fullur furðu, skelfingar og lotningar gagvart því sem gerzt hafði.“ Minningin um eldinn lifði í honum síðan. Þegar fólk lendir í áföllum eru kostir einkum tveir, að bogna undan vandanum eða bregðast við. Guðjón Ármann fór upp á land – og öll fjölskyldan – og hann settist niður við skriftir. Hannskrifaði sig í gegnum gosskelfinguna. Þegar á gosárinu gaf hann út bók um Vestmannaeyjar. Hann setti allt hið mikilvægasta um Eyjarnar á blað, vildi tryggja að sem flest yrði varðveitt og sem minst yrði eldi gleymskunnar að bráð. Framlag Guðjóns Ármanns um sjómennsku, skip og farmennsku er veigamikið en einnig það, sem hann skrifaði um Vestmannaeyjar. Lof sé honum og þökk.

Guðjón Ármann Eyjólfsson er farinn inn í himininn. Hann hefur sett hattinn upp í síðasta sinn og bindið líka. Hann brýnir ekki framar fyrir nemum sínum mikilvægi skapandi reglu í vinnu og lífi. Fjölskylda Guðjóns Ármanns sér á eftir ljúfum, kærleiksríkum og menntandi fjölskylduföður. Þau eiga allar minningarnar, bækurnar og sverðið hans. Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans? Guð gleymir ekki. Stefnumiðin voru skýr. Guðjón Ármann þekkti stefnuvitana og kunni að sigla. Hann er kominn til Heimaeyjar hið efra. Guð geymi Guðjón Ármann Eyjólfsson og gæti þín. Amen.

Kveðjur hafa borist frá Sigrúnu Ragnarsdóttur, Lilju Ragnarsdóttur og fjölskyldu og Jónasi Ragnarsyni og fjölskyldu sem eru búsett á Akureyri.

Ása Ingibergsdóttir biður fyrir kveðju, fyrir hönd skólasystkina Guðjóns Ármanns úr árgöngunum 1934 og 1935 úr barnaskólanum í Vestmanneyjum.

Þá barst kveðja frá Sveini Valgeirssyni, sem skrifaði: „Við, nemendur skólaárgangs 1972 til 1974, vottum eiginkonu og afkomendum Guðjóns Ármans okkar dýpstu virðingu og samúðarkveðjur með þökk fyrir góðar stundir í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja.“

Jarðsett í Sóllandi, Fossvogi. Erfidrykkja í Hörpu, Norðurbryggja, 1. hæð. Ritningarlestrar, Sálm 8; 1. Kor. 13; Jóh. 14. Hallgrímskirkju, 23. júní, 2020 kl. 15.

[i] Nám Guðjóns Ármanns kom við sögu Alþingis ári síðar. Í ræðu Jóns Árnasonar, sem er að baki þessari smellu,  kemur fram að hann hafi meiri menntun en þá sem nemendur í íslenskum stýrimannaskóla hefðu getað veitt honum. https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=81&rnr=1441

Vatnaskáldið Pétur M. Jónasson

Pétur M. Jónasson er eitt hundrað ára í dag. Pétur er einhver áhugaverðasti vísindamaður Íslendinga síðustu áratugina. Ég kynntist Pétri vel þegar ég bjó og starfaði á Þingvöllum. Pétur hefur í marga áratugi vakað yfir velferð Þingvallavatns, stýrði stórkostlegum rannsóknum, sem fjöldi fræðimanna stundaði á vatninu. Svo hafði hann góð og gefandi tengsl við Þingvellinga, fólkið í sveitinni. Ég fór margar ferðir með Pétri og hann hafði alltaf stund til að fræða, kynna, örva og hvetja. Og þar sem ég hef alla tíð haft áhuga á vatni og hafði á menntaskólaárum ákveðið að verða vatnalíffræðingur var stutt á milli okkar. Mér fannst Pétur hugaður og marksækinn, skapandi hugsjónamaður, hugmyndaríkur og ég hreifst af sveitahúmor hans og manngæsku.

Einhvern tíma sagði ég að Pétur væri vatnaskáld. Sú nefning var síðan notuð sem heiti á heimildamynd um Pétur. Mér þótti vænt um að hafa náð að gefa honum þessa einkunn sem tjáir víddir hans, að hann var ekki bara niðurlútur fræðingur heldur upplitsdjarfur leiðtogi og veitull höfðingi. Myndin af okkur Pétri er tekin 8. ágúst 1993. Skemmtilegt viðtal við Hilmar J. Malmqvist um Pétur á vef RÚV https://www.ruv.is/…/…/thingvallavatnsrit-tileinkad-dr-petri Svo er hér að baki þessari smellu kynning á nýju Þingvallariti sem gefið er út til heiðurs Pétri. 

Ég þakka fyrir samfylgd með Pétri M. Jónassyni, þakka hvernig hann tók á móti samverkamanni þegar ég kom til Hilleröd, þakka fyrir hönd fræða og náttúru Íslands. 

Pétur lést í október 2020. Yfirlit um líf, fræði og störf sjá dánarkynningu í mbl https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/13/andlat_dr_petur_m_jonasson/

Auður eða áhrifavaldur?

Hvað er að vera ríkur? Hvenær hefur maður nóg? Finnst ríkum hann eða hún einhvern tíma hafa nóg? Og svo er það spurningin um hvað eru alvöru auðæfi og hvað ekki? Saga Jesú um ríka manninn og Lasarus er merkileg og marglaga saga. Getur verið að hún sé bara um peninga og að ríkidæmið leiði menn beint til heljar? Eða er eitthvað dýpra, sem Jesús var með hugann við?

En áður en við skoðum söguna langar mig að minna á ömmu Álfgríms í sögu Halldórs Laxnes um Brekkukotsfólkið. Amman miðlaði þeirri speki, að auðæfi séu það, sem aðrir geta ekki náð frá manni. Hvað er það? Hvað er ekki hægt að taka frá manni, stela frá manni eða maður missir? Það eru hin óefnislegu vermæti, þessi sem eru innan í okkur. Þetta persónulega og andlega. Við getum tapað bílum okkar, hlutunum og húsum okkar. Við týnum mörgu á ævinni, en lifum þó áfram og jafnvel betur en áður. Við getum líka misst tennur, hár og nýra. Við getum tapað vinnunni og ástvinir okkar eru slitnir úr örmum okkar. Er þessi Bakkakotsspeki rétt? Eru auðæfin hið innra hið raunverulega ríkidæmi? Viktor Frankl var á þeirri skoðun og margir vitringar heimsins.

Hvað er mikilvægast?

Þá er það er saga dagsins, sem er að finna í Lúkasarguðspjalli. Jesús var, eins og þið vitið, mikill sagnameistari. Hann var sagnasnillingur. Og hann sagði sögur í þeim ákveðna tilgangi að opna huga fólks, fá tilheyrendur til að hlusta og gera rétt og gott. Aðferð Jesú í sögugerðinni var gjarnan að setja upp andstæður, sem voru svo kraftmiklar að þær sprengdu hið venjulega, reyndu þanþol venjuhugsunar og kröfðust þess að fólk bryti heilann og opnaði fyrir nýjar hugsanir. Sögur Jesú eru eiginlega aha-sögur og áhrifavaldar.

Íhugunarsaga dagsins er um tvo menn – annar var auðugur en hinn fátækur. Hinn ríki bjó við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavara þess tíma. Efnið var úr eðalbómull af Nílarbökkum og litarefnið var líklega unnið úr krabbadýrum, jafnvel með lit Campari. Sem sé topptíska tímans. Karlinn var ríkur. Fyrir dyrum hans var svo Lasarus þurfamaður. Reyndar er sá ríki ónefndur en sá fátæki eini maðurinn, sem ber nafn, í öllum Jesúsögunum, sem guðspjallamaðurinn Lúkas hefur eftir meistara sínum. Nafnið merkir “Guð er hjálp mín.” Að nefna manninn var því örugglega meðvitað.  

Sá ríki sinnti hinum fátæka ekki og gegndi því ekki ábyrgð sinni að liðsinna þeim sem þarfnast. Það gerðu hins vegar hundarnir, sem sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Svo kom dauðinn að óvörum og báðir létust. Lasarus féll í eilífðarfaðm Abrahams, sem merkir að hann fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki leið kvalir handan grafar.

Í sögunni eru þessir menn eins og í sama hverfi eða verustað í eilífðinni. Það er svo stutt á milli þeirra, að hinn ríki sér til Lasarusar, sér að vel er fyrir honum séð og að hann nýtur sælu. Ríki maðurinn biður um, að Lasarus færi honum vökva til að slökkva brunasviðann og lina þjáningu. En honum er bent á, að enginn samgangur sé milli og enginn möguleiki á bót. Þá biður hann um, að bræður hans verði varaðir við. En hrokagikkir láta ekki af villu sinni þó þeir sjái upprisinn mann. Og ábending Jesú um, að menn breyti ekki skoðun sinni þó uppvakningur komi til þeirra er áhugaverð og vísir um vitund hans um eigið hlutverk. Þessi endir er mikilvægur túlkunarlykill sögunnar þó margir taki ekki eftir honum. Þó lífið lifi lúta menn þó dauða.

Inntak

Um aldir hafa menn skilið þessa dramatísku Lasarusarsögu nokkuð bókstaflega og búið til kenningar um himin og helvíti. En það er ekki aðalatriði í sögum Jesú, sem alltaf á að lesa á dýptina en ekki bókstaflega. Sögur hans eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Líkingasögur – sem oft eru nefndar dæmisögur – eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, ekki um atburði, heldur um hamingju, ábyrgð, elskusemi, tilgang og hin dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings, hvatar til trúar og góðra verka.

Og hvað er það þá, sem Jesús vill segja okkur? Sagan er ekki um, að ríkir séu vondir og fátækir góðir. Jesús var enginn einfaldur klisjukarl. Hann prédikaði ekki gegn kapítalinu eins og kreddubundinn kommúnisti. Jesús hafði ekkert á móti auði heldur misnotkun hans. Hann var ekki á móti því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður sem lífsnautnamaður og að hann legði lag sitt við þau lífsglöðu. En Jesús var ósáttur við ef menn yrðu þrælar einhvers og hugsuðu bara um sjálfa sig. Í því ljósi dró hann upp andstæður af andlegu frelsi og þrældómi við efnisleg gæði. Auður væri ekki markmið heldur tæki til að bæta lífið. Jesús spurði fólk alltaf og skipulega að því hvað það setti í forgang, hver væru markmiðin og aðalgildin. „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera“ sagði hann (Matt. 6.21). Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? Ertu frjáls eða þræll? Ertu á hamingjuvegi eða fangaslóð? Hrokagikkurinn er kengboginn í sjálfan sig og mun ekki taka neinum sönsum. Hinn sjálfhverfi er glataður í eigin helvíti.

Erindi við okkur

 Á saga dagsins erindi við okkur? Já. Sagan er innleg í pólitík heimsins, efnahagsmál, menningarpólitík og líka umhverfispólitík. Lasarus er meðal allra þjóða, Lasarus er í náttúrunni. Lasarus er nærri okkur í fólki.

Sagan um ríka manninn varðar lífsstefnu. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir? Hefur þú tíma til að næra þinn innri mann? Hefur þú tíma og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Það er gömul speki líka, að ríkidæmi er ekki að eiga mikið, heldur fremur að þurfa lítið. Og fjármunir eru til að gera gott. Ef við notum ekki fjármuni og eignir til góðs verðum við þrælar þeirra, en ekki húsbændur.

Peningaafstaða Nóbelskáldins Gabriel Garcia Marquez er eftirtektarverð. Hann sagði: „Ég er ekki ríkur. Ég er fátækur maður sem á peninga – en það er ekki sama.“

Jesús sagði sögur til að efla fólk. Hann samdi glæsilegar sögur til að lækna skynfærin, hreinsa hjörtu og bæta virkni heilans í fólki. Saga dagsins varðar hvað okkur, fólki, mannkyni og jarðarkúlunni er mikilvægast. Þegar við missum heilsuna skýrist hver auðæfin eru. Þegar við missum eigur og ásýndargæði kemur birtist hið djúpa. Fangar í dauðabúðum nasista voru sviptir öllu nema möguleikanum til að stjórna sínum innri manni. Það eina, sem þau áttu eftir, var hið andlega. Kúgarar geta náð öllu af fólki og niðurlægt en geta þó ekki stjórnað innra lífi fólks, nema fólk sé brotið eða lamað hið innra. Það hefur Viktor Frankl, sem var fangi í útrýmingabúðum nasista túlkað vel í bók sinni Leitin að tilgangi lífsins. Innri auðæfi eru okkar dýrmæti, sem erfiðast er að stela, það sem mestu skiptir.

Hver er auður þinn? Hefur þú ræktað sambandið við þau sem mestu máli skipta, sambandið við höfund lífsins, sem stöðugt nærir þig og úthellir lífinu inn í þig og skapar raunar allt hið ytra einnig?

Hvernig er með ömmuspekina í Brekkukoti? Ertu auðæfin það sem aðrir ná ekki af manni? Og hvað er það þá, sem skiptir þig mestu máli? Hinn hrokafulli er fastur í eigin víti en sá sem skilur Jesú og trúir honum leitast við að gera gott. Ríkidæmi í huga Jesú er alltaf útleitandi og tenglsamyndandi.

Hvar er Lasarus?

Hallgrímskirkja, 14. júní, 2020.

Lexían er skráð í 5 Mósebók

Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir. Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Pistillinn er úr fyrra Jóhannesarbréfi

Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.

Guðspjall: Lúk 16.19-31

Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga. Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“

Guð hjálpi Trump – og okkur öllum

Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.

George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?

Kirkja sem leiktjöld

Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um  háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan. 

Hver er heilagur?

Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar.  Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það. 

Samfélag og Ísland

Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.

Valdið styrkst en vitið veikst

En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.

Að  friða en sundra ekki

Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“

Við erum Trump

Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum.  Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags.  Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu.  Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.

(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)

Tveir metrar – minna eða meira?

Hvað megum við hleypa fólki nærri okkur á þessu COVID-tíma? Hversu mikil má nándin vera? Þessa dagana ríkir óvissa um hvernig fólk á að heilsast og kveðja. En við erum flest hætt að rjúka á fólk til að faðma og kyssa. Og við reynum að halda tveggja metra fjarlægð. En svo er fjarlægðarreglan að linast. Margir stökkva óhikað í kösina í heitu pottunum. En þrátt fyrir þennan slaka gildir fjarlægðarreglan þó enn þar sem líf liggur við, t.d. í lyfjabúðum og lífshúsum kirkjunnar. Við Hallgrímskirkjufólk reynum að tryggja að þau geti komið til kirkju sem vilja og líka verið viss um að geta haldið sig í tryggri fjarlægð frá öðrum.

En hin menska tveggja metra regla er eitt, en svo er nánd Guðs allt annað. Guð er ekki háður reglum almannavarna. Guð er ekki langt í burtu heldur innan tveggja metranna, innan við skinnið á okkur, líka innan við líffæri, hugsanir og tilfinningar. Guð er innar en innræti okkar, nær okkur en bæði meðvitund og undirmeðvitund. Guð er hin eiginlega nánd. Guð smitar ekki heldur er uppspretta lífsins.

Sannleiksandinn og huggarinn

Textar dagsins er um náin tengsl Guðs og manna. Til að skýra merkingu nándar talar Jesús um Anda Guðs. En hvers konar andi er það? Jesús kallar hann sannleiksanda og segist senda hann. Hann bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra? Væru þeir eitt? Já, en hvað merkir það?

Jesús kallar Andann líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki er parakletos(παράκλητος). Það þýðir m.a. verjandi, sbr. lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos líka merkt leiðtoga, slíkan aðila sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandann, kallar til fylgis og árangurs. Andinn er því bæði í sókn og vörn – og alltaf til sigurs fyrir líf og fólk.

Fólk segir stundum: „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna.“ Vissulega eru hugmyndir aldanna um þrenninguna flóknar. Og stundum hefur þrenningarkenningin verið svo nördalega túlkuð, að fólki hefur þótt kenningarnar bara flækjast fyrir aðalmálinu, guðsnándinnni, trúnni. Þegar mest hefur gengið á hafa sprottið fram hreyfingar í kristninni vegna mismunandi túlkunar guðseigindanna. Sumir hafa jafnvel talið, að Jesús talaði um Heilagan anda sem Jesú nr 2, sem myndi koma á eftir númer 1. Og slíkar túlkanir teygja sig yfir í Islam. Múslimar kenna t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning

En kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði guðsbirtingur, avatar, einn af mörgum guðsfulltrúum, né heldur að nýir frelsarar kæmu, nýir Jesúsar. Í kristninni er ekki trúarlegur glundroði varðandi Jesú. Hann er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra væru best túlkuð sem eining.

Auðvitað vöknuðu spurningar um röðun, mikilvægi, jöfnuð eða valdskiptingu vídda Guðs. Til að skýra innri tengsl guðdóms kristninnar var notað leikhúsmál. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, setti upp mismunandi grímur sbr. það sem gert var í leikhúsum til forna. Í þeim leikhúsheimi táknuðu grímur persónur, enda var heitið persona notað um þessar andlitsskýlur. Og vitundin um eitthvað framan í fólki skerpist svo sannarlega á þessum tíma þegar andlitsgrímur eru að verða staðalbúnaður. Á miðöldum þurfti að þýða þessa grímu-persónu-túlkun úr grísku og latínu vestrænnar kristni og yfir á þjóðtungur. Þá var t.d. orðið persona þýtt á íslensku með orðinu grein. Þess vegna segir um guðdóminn í helgikvæðinu Lilju: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum. Guð væri eining en kæmi fram í mismunandi birtingarmyndum.

Mismunandi tíðir og þarfir hafa sem sé leitt fram mismunandi túlkanir. En guðshugtak kristninnar er breitt, hátt og djúpt. Hið ríkulega guðshugtak kristninnar er ekki til óþurftar, heldur hefur það merkingarplúsa, dýptir sem hafa komið til móts við þarfir hvers tíma. Guð er alltaf meira en það sem skerðingar manna benda til.

Í langan tíma hafa nýjar þarfir og áherslur verið að þroskast í heimsbyggðinni. Einhæfingar fjölmiðlunar og yfirborðsleg auglýsingamennska nútímasamfélaga þjóna ekki vel djúpþörfum fólks. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist og tilfinningu fyrir tilgangi og merkingardýpt, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Og íslenskur almenningur er opinn fyrir að túlka reynslu í náttúrunni sem merkingarbæra, trúarlega reynslu. Fólk segir stundum við okkur prestana að það hafi farið í náttúrukirkjuna. Fundið fyrir Guði í grjóti og titrandi, tárvotum smáblómum háfjallanna. Sem sé Guð sé í gaddavírnum og klettakirkjum rétt eins og í kirkjuhúsunum.

Það er mikilvægt að opna fyrir, að Andi Guðs sé alls staðar. Heilagur andi tengist ekki aðeins tilfinningum, reynslu í helgihaldi eða hrifningu einstaklinga á listviðburðum, heldur er Andinn nærri þegar við verðum fyrir sterkri reynslu í samskiptum við fólk eða hefjum augu til fjalla, jökla, fossa eða skynjum leik birtu. Andi Guðs er öko-andi. Jesús er parakletos allrar náttúruverndar. Andinn vekur reynslu og eflir fólk til að græða sár náttúrunnar. Margir kristnir eru ekki aðeins sannfærðir um að náttúran sé heilög, heldur sé best að tala um hina sköpuðu veröld sem líkama Guðs. Sem sé, heilags-anda-guðfræði varði ekki bara persónulíf okkar hið innra, heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf – af því allt er í Guði.

Breytingarskeið

Erindi kirkju og guðfræði er að mæta djúpþörfunum og túlka nánd Guðs í splundruðum og ráðvilltum heimi. Áföll í samfélögum manna, náttúrumengun og aukin vitund um getuleysi ráðakerfa heimsins er að ala af sér nýtt skeið í menningu veraldar. Á breytingatíð megum við að þora að stækka alla okkar trúaríhugun. Kirkjulíf heimsins er að breytast og guðfræði er þróast. Stóru kirjudeildirnar sem leggja áherslu á form hafa veiklast og eru að tæmast. Kall fólks varðar inntak, merkingu og nánd. Kirkjan, guðfræði og prédikun sem og starfshættir eiga að svara raunverulegum þörfum fólks sem og málum menningar og náttúru. Þegar fjarlægð vex á milli fólks, tortryggni vex í menningu og samskiptum vex skynjunin um Guð sem hina hreinu nánd.

Merkir þetta, að við þurfum að breyta kirkjustarfi okkar til að svara kalli tímans og líka svara kalli Anda Guðs? Já. Boðskapur og erindi dagsins er að Jesús Kristur sendir huggarann, anda sannleikans, nánd Guðs. Guð er í sókn og vörn. Við þurfum að gæta að metrum og heilbrigði, en Guð er komin lengra og kallar okkur til starfa í lífsvinsamlegu guðsríki.

Amen.

Prédikun á 6. sunnudegi eftir páska, 24. maí, 2020

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill:  1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.