Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Skot í mark

skot í mark

Sumardagurinn fyrsti, kosningar og messudagur hafa fléttast saman. Í dag er Sara Karítas skírð og svo gifti ég hér í kirkjunni eftir hádegið á fimmtudeginum og allt hefur orðið að fléttu í mínum huga.

Sumardagurinn fyrsti er gjafadagur á mínum heimili. Drengirnir mínir fengu boga í sumargjöf. Boginn er fallegur, leðurbryddaður, úr góðum viði og fer vel í hendi. Drengirnir voru spenntir og fengu úthlutað skotsvæði. Ég hreifst af spenningi þeirra og vildi miðla þeim hvernig á boga er haldið, hvernig líkama er beitt, hvernig ör er haldið við streng og hvernig hún á að liggja. Bogmennska er list. Bogfimi þarfnast þjálfunar, spenna þarf boga hæfilega svo örin fljúgi rétt og í passandi sveig. Þegar skotið er um langan veg þarf að áætla fall örvarinnar miðað við fjarlægð og skotstyrk. Þessi viska bernskunnar rifjaðist upp við að kenna skottæknina.

Á fyrsta skotdegi voru drengirnir þó ekki tilbúnir til mikils náms. Þeir vildu helst bara skjóta og var alveg sama um skotstíl og tækni. Í upphafi var ekki þörf á mikilli kennslu heldur að taka þátt í gleðinni. Þjálfun, ögun og framfarir koma seinna og smátt og smátt. Nú, nokkrum dögum síðar, eru þeir tilbúnir til að læra ný trix og sjá bogmennsku í nýju ljósi. Þeir hafa gert sér grein fyrir takmörkum sínum og bætt skotmennskuna með því að læra og taka leiðbeiningum.

Markhittni verður ekki nema með æfingum, elju og þolinmæði. Bogfimi er líka mál hins innri manns og hvernig þessum tækjum er beitt gagnvart lífi og í umhvefi. Þetta skilja þau sem stundað hafa af kappi einhvera íþrótt eða agaða list. Að skjóta er lítið mál, að skjóta nærri marki er meira mál en að hitta í mark oft og reglulega er mál ögunar og samstillingar anda og líkama. Og þetta er baksvið umræðu um guðspjall og kosningar.

Í kjölfar kosninga
Dagurinn eftir kjördag. Við erum mörg búin fara “í kjósina” – eins og ferð á kjörstað er kölluð á mínu heimili – og skjóta okkar atkvæði í kassann í kjörklefanum. Þar vorum við ein og x-uðum í samræmi við okkar samfélagslestur, mark og mið. Í kjörklefanum vorum við ein en í úrslitum erum við þjóð. Við erum aðilar að vali og leggjum okkar til og skrifum okkar x en síðan er unnið úr samkvæmt lögum og leikreglum hefðarinnar.

Guðspjallstexti dagsins er hnyttinn og við hæfi á sunnudegi eftir kosningar. Í textanum segir: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður.“ Kjósendur hafa útvalið – sett x-ið. Nú eru komin úrslit. Þau ber að virða. Markmið stjórnmála og þar með kosninga er að skipa málum og stjórn í samræmi við réttlæti og hlutverk fulltrúa almennings er að þjóna vilja fólks. Stjórnmálamenn eru þjónar. Aðferðin er að almenningur í landinu velur fulltrúa sína en það eru ekki stjórnmálaöflin sem eiga að velja sér Ísland.

Í guðspjallstexta þessa 4. sunnudags eftir páska er speki og hafdjúp visku sem hentar á tímanum að baki kosningum. Og hentar reyndar alltaf því boðskapurinn er: Elskið hvert annað. Niðurstaða, erindi og boðskapur kirkjunnar á þessum degi er elska, umhyggja og þjónusta. Og Jesús lagði meira segja svo mikla áherslu á ástina að hann minnti á hina algeru þjónustu sína. Hann væri tilbúinn að fórna sér, öllu, – líka lífinu. Lífið sjálft er hið mesta dýrmæti og þegar fólk er tilbúið að fórna lífinu verður ekki sterkar elskað.

Elska og þjónusta
Skiptir afstaða fólks í þjónustustörfum máli? Fólk getur gegnt opinberum störfum og lokið ýmsum verkum þó það hafi í sér litla umhyggju og sé jafnvel í nöp við þá sem það starfar fyrir. Fólk getur líka misskilið hlutverk sitt eða reynt að umbreyta því í annað en það er.

Stjórnmálastarf er þjónustustarf en ekki starf yfirráða. Það er starf í þágu samfélags og réttlætis þess. Embættisstörf eru störf í þágu annarra en ekki störf sem veita heimild til að stjórna stjórnunar vegna. Markmið ráðuneyta og opinberra stofnana er ekki að stýra málum eða til að veita embættismönnum möguleika til að láta ljós, snilli, og visku sína skína sem skærast. Hlutverk hins opinbera er stuðla að réttlæti, fara að lögum og hlýta vilja almennings í landinu og ganga erinda hans. Og það er ekki aðeins í skotæfingum ungsveina sem marks er misst. Svo er einnig í pólitík, í störfum hins opinbera, já hvarvetna þar sem fólk er – að skotið er fram hjá marki.

Því er ábending Jesú svo mikilvæg – boðið um elsku. Þjónustan verður ekki alger nema elskan stýri og móti. Elskan, kærleikurinn, þjónustuviljinn gerir kraftaverk í þjónustustarfi. Í nýjum stjórnarsáttmála ætti að vera elskuákvæði. Ráðherrar eiga að elska fólk í landinu en líta ekki á það sem stjórnviðfang. Stjórnvöld eiga að beita sér fyrir að samfélagi séð þjónað með kærleika og réttlæti að leiðarljósi. Ég óska eftir að næsta ríkisstjórn verði elskuleg stjórn – ástarstjórnin 2013-17.

Ungt fólk gekk fyrir altarið á fimmtudag og sagði já og svo kysstust þau hjartanlega. Þau eiga ástina í hjarta og sambandið blómstrar. Sara Karítas var borin að skírnarlauginni áðan og Guð segir sitt stjóra elskujá. Hún er elskuð og velkomin. Og það skiptir máli hvernig líf þessa fólks er og hverngi það lifir og fer með líf sitt.

Skotmennskan
Þegar ég fór að aðstoða skotmennina ungu og skoða bogfimi þeirra kom í ljós að þeir vildu vel, reyndu að skjóta vel. En þeir kunnu ekki bogfimi. Þeir gerðu mistök og uppgötvuðu að þeir gætu lært af öðrum sér til eflingar. Drengirnir verða kannski ekki jafnokar Kyoto-bogmanna, meistara bogfiminnar. En mér er í mun að mínir karlar læri að skjóta eins vel og þeim er fært, læri að samstilla hug og hönd, læri siðfræði bogmennskunnar og þar með gæti að því að meiða aldrei og særa aðra með ógætilegum skotum. Bogmennskan er ögunarmál. Svo er einnig um pólitíkina og samfélagsmál. Það verður ekki sátt í landinu ef stjórnvöld starfa ekki í anda umhyggju og réttlætis. Stjórnvöld eiga að hitta í rétt mark. Ef ekki – fer illa, eins og dæmin sanna í pólitík og samfélagsrekstri áratuganna.

Missa marks eða hitta
Gríska orðið að syndga, drýgja synd, er hamartía, άμαρτία. Það orð kemur upprunalega úr máli íþróttanna en rataði í heimspekirit t.d. Aristótelesar og einnig í Nýja testamentið. Hamartía merkir að skjóta fram hjá. Að syndga er að hitta ekki og vera misheppnaður. Þegar menn gera mistök í lífinu brenna menn af. Í einkalífinu, í vinnu og í samfélagi klúðrum við stundum málum og skorum ekki. Þá daprast lífslán og lífsgæði skerðast. Í pólitík er hægt að skjóta illa fram hjá, þá verður óréttlæti og hrun. Í stjórnsýslu er hægt að skjóta fram hjá þegar þjónustan verður ekki í samræmi við lög og réttlæti og tapar ástinni. Í einkalífinu getur þú syndgað þegar þú bregst þér eða öðrum, gerir rangt eða aðhefst ekki þegar þér er skylt. Í huganum missir þú marks, syndgar, þegar þér tekur rangar ákvarðanir.

Kosningar veita tilefni til ígrundunar um þjóðarkúltur og lífshætti. Þegar menn hitta ekki í afstöðu og samskiptum við aðra menn fer illa. Það er hamartía, skortur á fagmennsku og klúður. Verst er þegar menn halda fram hjá sjálfum sér og tapa þar með tengslum við Guð og lífið.

Í lífi og samfélagi gerum við oft mistök, tökum rangar ákvarðanir og pönkumst í röngum málum. Við gerum tilraunir sem mistakast og skjótum jafnvel langt frá markinu. Hvað er til ráða: Elskið, elskið, elskið. Þar er hin sanna pólitík, sanna bogmennska, samfélagssalvi og til blessunar. Ástin lifi – því hún er frá Guði. Skot og mark.

Amen

28. apríl, 2013 – 4. sunnudagur eftir páska.

Fjórði sunnudagur eftir páska (Cantate)

Textaröð: B

Lexía: 5Mós 1.29-33
Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill: 1Jóh 4.10-16
Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall: Jóh 15.12-17
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.

EXIT

Við útgang þessar kirkju er grænt flóttaleiðarmerki. Á því er mannvera á hlaupum – þar er líka ör fyrir stefnu og ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru í í flugvélum, skipum og öllum opinberum stofnunum. Þau eru græn á Íslandi og í fjölmörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. EXIT stendur á mörgum þeirra. Þessum stefnuvitum er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Exitmerkin eru vegvísar. Það er við hæfi að íhuga exit, útleið á gleðidögum eftir páska.

Skottlok

Ég var sjö ára gamall og var að leik með nokkrum börnum á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna og við létum tilleiðast. Spennandi ævintýraleiðangur hafinn. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og sögðu mér að ég ætti að klifra upp í skottið – sem ég gerði. Þá skelltu þeir aftur skottlokinu. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út.“ En strákarnir hlógu og svo heyrði ég að þeir fóru, skelltu bískúrshúrðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran, áður hafði ég verið úti, undir berum himni frelsis og gleði. Þarna var ég strand í myrkrinu og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki var í myrkrinu, engin leið og ógerlegt að opna læsinguna á skottlokinu og ekki tókst að spyrna því upp. Þunga þanka setti að mér, dauðahræðslu. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt. Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina, sem ég gerði reyndar.

Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom strákur sem opnaði skottið skömmustulegur og hljóp svo í burtu. Ég brölti úr fangelsinu og út í frelsið. Og mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamlegt og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun.

Innlokun

Mörg ykkar hafið upplifað eitthvað hliðstætt og þekkið hve skelfing innlokunar getur orðið mikil. Sonur minn, sjö ára, læstist inni í ljósritunarherbergi kirkjunnar í fyrra, skreið út um glugga og bjargaði sér. Hann varð hræddur en svo var hann svo óheppinn að læsast inni á klósetti í skólanum nokkrum dögum síðar. Síðan hefur hann verið smeykur við lása, lokur og flóttaleiðalaus rými.

Innilokun er óþægileg, getur verið hræðileg og valdið fólki djúptækum sálarskaða. Amerískur prédikari spurði einu sinni: „Hvað er það hræðilegasta við helvíti?“ Og svo þagði hann stundarkorn en svaraði sjálfum sér: „Þar er engin flóttaleið, engin útleið, ekkert exit.“ Já, það er hnyttin lýsing á hinu djöfullega – að það sé lokaður veruleiki (ég minni á leikrit Sartre um það stef). Innlokun er andstæða lífsins.

Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni – en hann var ekki einn. Hann var fulltrúi allra manna. Hann var hinn annar Adam. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Það er víddarhugsun trúartúlkunarinnar.

Hvað um þínar lokur?

Og nú máttu gjarnan huga að þínu lífi. Hvað hefur dregið þig niður og orðið þér til tjóns? Hver eru óttaefni þín, efasemdir? Hvað hræðistu mest og hvað fyllir þig vanmætti eða vonleysi? Það getur verið vinnuharka líka eða ástarsorg, ofbeldi eða dauð hringlandi daganna. Þetta eru þínar grafir.

Stundum líður fólki eins og í þeim séu engar flóttaleiðir, engin útleið, – öll sund lokuð og stór skriða fyrir hellismunnanum. Myrkrið sest að í sál og lífi og lífið byrjar að veiklast og fjara út.

Opnist þú

En páskar eru nýtt upphaf. Undrið varð, hellisloku var velt frá, loftið streymdi inn, ljósið líka. Það sem var lífleysa varð fæðingarstaður lífsins. Það sem var án útleiðar var allt í einu komið í tengsl og samband. Jesús Kristur braut leið úr lífleysu og opnaði öllum leið úr hafti hellisins. Það er víddarhugsun trúarinnar – allt er opnað.

Grænu flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð – þegar áföll verða og ógnir dynja yfir. Það á að vera hægt að fylgja þeim og finna leið út úr ógninni. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg?

Kirkjan og trúin benda á Jesú Krist sem veginn út úr vanda. Hann er leið möguleikanna. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn, ekkert vinnupuð er honum framandi og ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er þér við hlið í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar, í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi þér þegar þú dettur, tekur á móti þér þegar þú hrasar og lyftir þér upp í birtuna þegar þig vantar mátt.

Vegvísir til lífs

Og það er eiginlega krossinn sem er græna merki lífsins. Leið krossins er ekki aðeins leið dauðans og þjáningar heldur leið til lífs. Jesús Kristur var í lokaðri gröf og myrkri dauðans en sprengdi sér leið út og til birtunnar. Hann hefur opnað leið og dyr. Krossinn er leið lífsins. Í þessari kirkju er græna flóttamerkið öðrum megin og krossinn á móti. Bæði merkin mikilvæg og við hæfi.

Jesús Kristur opnar og vísar veg og er fyrirmynd um hvernig við getum lifað í hans anda og með hann sem fyrirmynd. Við megum vera öðrum förunautar frá vonleysi til vonar, frá myrkri til ljóss, frá sorg til lífsgleði. Hlutverk okkar er að standa með fólki og lífi, staðið með þeim sem standa tæpt, varið þau sem órétti eru beitt og gengið erindi verndar náttúru og góðra samfélagshátta.

útGrænu merkin í opinberu rými eru stefnuvitar fyrir fólk í hættu og út úr vanda þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Krossinn bendir á leið þótt allt sé í rúst. Þegar þér líður illa og að þér sé þrengt er þó von því Jesús sprengdi klungur dauðans, leysti fjötra og opnaði leið. Leið lífsins er betri en dauðans. Þá er hægt að syngja með fullri einurð og djúpri merkingu: Ég á líf.

Nú eru gleðidagar, í guðsríkinu er grillað á strönd vatnsins. Og meistarinn er hér, við erum laus úr skottinu, allar heftandi lífslokur mega falla. Nú eru nýir möguleikar, gleðidagar.

Amen.

Hugvekja í Neskirkju, 1. sunnudag eftir páska, 7. apríl, 2013.

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Sigur?

IMG_1276Litur dagsins er svartur. Altarisklæðið er svart og stólan dökk. Engin ljós brosa við okkur á altarinu og jafnvel kirkjuklukkurnar þegja á þessum degi. Allt er sorginni markað.
Hin opinbera saga mannkyns hefur löngum verið saga sigurvegara. En hvað er sigur? Þegar litið er yfir tíma og sögu sést að ytri sigrar eru skammvinnir, að glanshúðin er skæni, að margir sigurvegarar umhverfast í böðla. Þegar í ytri sigri er upphaf ósigurs.

Um stóra sigra eru til margar frásagnir en um sigur í ósigri er sagan fáorðari. Ekki vegna þess að slíkir sigrar hafi ekki verið unnir heldur er torveldara að koma auga á þá. Skýrasta sagan um sigur í ósigri er píslarsaga Jesú Krists. Ósigur Jesú virtist alger. Hann var hæddur, hrakinn og hýddur. Undirbúningur krossfestingar var skelfilegur. Í fornum heimildum er þess getið að húðstrýking hafi jafnvel orðið mönnum að aldurtila, svo hrottaleg var hún og gekk nærri mönnum. Það er skýring þess að Jesús var ekki látinn ganga undir krossi sínum allt til aftökustaðar á Golgatahæð. Hann var of máttfara vegna hýðingar.

Á þessum bænadögum hef ég staldrað við afstöðu og æðruleysi Jesú. Konurnar í mannþrönginni grétu yfir lægingu og meðferð hans. Jesús gaf til kynna hvernig hann túlkaði písl sína: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér en grátið yfir sjálfum ykkur og börnum ykkar.” Hann vildi enga vorkunnsemi. Jesús Kristur áleit ekki sjálfan sig sigraðan mann og túlkaði ekki píslarferil sinn sem tap. Hann vissi að ósigur eða læging í hinu ytra skiptir minnstu og engum sköpum heldur sá sigur sem ekkert fær grandað. Og köllun Jesú var ekki sjálfhverf eða sjálfmiðuð. Hann leitaði ekki eftir vinsældum, aðdáun eða frægð. Allur ferill hans og þjónusta var mótuð af innri köllun og tengslum hans við Guð, föður. Jesús gerði sér fullkomlega grein fyrir að það sem virtist vera sigur valdhafa Jersúsalem var alger ósigur þeirra. Það skýrir æðruleysi hans.

Íhugum framvinu píslarsögunnar. Hvergi muntu greina hinn hráða og kúgaða Jesú Krist sem sigraðan mann. Hann féll fram í grasgarðinum og þá var hann barn í bæn til föður. Þaðan í frá var stefnan mótuð og hann kvartaði aldrei heldur birtist í honum eða skein af honum yfirvegun og ró sigurvegarans. Eitt sérstæðasta og merkilegasta einkenni píslarsögnnar er að Jesús tjáir hvergi nokkurn vanstyrk eða bregst við með æsingi sem einkennir þau sem verða fyrir ofbeldi eða lenda í hryllilegum aðstæðum. Hvergi skeikar ró, tign og festu, sem einkennir þann sem á í sér sigur. Frammi fyrir ráðinu og Pílatusi svaraði Jesús með skýrleik og einurð. Orð hans voru stutt og engum orðum ofaukið, ekki smáorði. Hver setning var sem meitluð á stein. Jafnvel þögn hans var yfirveguð og æpandi. Engu hæðnisorði svaraði hann, hver sem í hlut átti.

Einu orðin sem gætu virst tjá uppgjöf eru orð Jesú á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ En þegar grannt er skoðað er þó enginn uppgjöf í þessum orðum. Þau eru tilvitnun í 22. Davíðssálm sem var túlkaður sem spádómur um Messías. Jesús Kristur þekkti efni sálmsins og skildi píslarför sína sem uppfyllingu hans. „…þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur. Ég get talið öll mín bein, þeir horfa á og hafa mig að augnagamni. Þeir skipta með sér klæðum mínum, kasta hlut um kyrtil minn.“

En þrátt fyrir hörmungarlýsingu sálmsins lýkur honum með sigurtjáningu Guðs sem snýr ósigri í sigur, læginu í upphafningu. Þetta skildi Hallgrímur Pétursson rétt. Í 41. Passíusálmi segir:

Enginn skal hugsa, að Herran þá

hafi með efa og bræði

hrópað þannig né horfið frá

heilagri þolinmæði,

syndanna kraft og kvalanna stærð


kynnir hann oss, svo verði hrærð

hjörtun frá hrekkja æði.

Í hinu ytra virtist ósigur Jesú alger. Vinirnir voru flúnir, hann sjálfur smánaður. Hermenn og lýðurinn gerðu hróp að honum. Af hverju hjápar Guð þér ekki? Hvar er Guð nú? Jafnvel annar ræningjanna á krossinum – nærri dauðastundinni – spottaði hann. En það var ekki ásýnd heldur innri veruleiki sem stýrði för Jesú Krists. Jesús lifði og var í algerri samsemd með lífi og veruleika Guðs. Hann var fullkomlega innlifaður að Guð væri með honum, tæki sporin með honum á leiðinni, bæri krossinn og yrði fyrir hæðnisglósunum. Hann væri í föðurnum og faðirinn í honum. Vegna samsemdarinnar brotnaði Jesús ekki hið innra. Þessi líftengsl föður og sonar er lykill skilnings píslarsögunnar og raunar páskanna og hins kristna dóms. Píslarsagan verður ávirk vegna hinnar algeru guðsnándar sem Jesús lifði í og var honum eðlileg og eiginleg.

Páskarnir eru sigurhátíð þegar sigur lífsins á dauðanum opinberast. En föstudagur er dagur píslar og dauða. Í miðri þjáningunni leynist sigurinn. Jafnvel við dauðastund tjáir Jesús manninum sem var honum til hliðar og við megum gjarnan heyra þann boskap „Í dag skaltu vera með mér í paradís.“ Við megum lifa í þeirri guðsnánd og allt lífið þjálfast í þeirri innlifun. Þar eru allir litir lífsins, lífið í fyllingu.

Amen.

Íhugun í Neskirkju föstudaginn langa, 29. mars, 2013.

Lífið mætir dauðanum

Emil NoldeFyrr í kvöld var stór hópur af fólki í safnaðarheimilinu og naut skírdagsmáltíðar. Það var vel lyktandi, bragðgóð fjölréttamáltíð sem bar með hráefnum sínum og samhengi vitni um skírdagsmáltíðir aldanna. Jesús Kristur bauð til borðs og máltíðar þegar hann bjóst við dauða sínum. Gagnvart dauða koma kristnir menn saman til samfélags, veislu. Lífið mætir dauðanum.

Og svo er líka máltíð í kirkjunni. Jesús er við borðið, er sjálfur lífið. Á aðfangadegi dauðadags njótum við samfélags, veislu – og lífið mætir dauðanum.

Útburður og nakið borð

Í lok þessarar athafnar berum við út úr kirkjunni alla gripi, ljósastjaka, biblíu, handbók, sálmabók, bikara,  brauðhús, dúk, þerrur – allt það sem er á altarinu. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Af altarinu verður allt tekið, myrkur tæmingar leggst að. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Það er of einfeldningslegt að túlka píslarsöguna aðeins sem réttarmorð í fornöld. Píslarsaga Jesú Krists er lykilsaga og varðar allt líf og alla menn. Hún varðar sköpun Guðs og þar með menn. Hvers konar óréttlæti er þáttur píslarsögunnar, hernaður gegn náttúrunni er líka af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Þegar við leyfum hinu illrætta að vera þá er lífi spillt.

Píslarsagan er ekki aðeins saga um vonda menn fyrir nær tveimur árþúsundum, sem voru illir í garð eins manns. Hún er fremur saga um okkur öll, líka möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum, eigum að vera og erum kölluð til. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka í hermönnum, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði orð lífsins. Við erum ekki aðeins Íslendingar heldur líka Gyðingar, við erum öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs – en samt líka lærisveinar sem er boðið til lífs í heilagleika. Júdas býr í okkur öllum – en líka Jesús Kristur.

Bæði og…

Þegar við berum allt af altarinu viðurkennum við, að í okkur býr möguleiki sem í ákveðnum aðstæðum er hægt að beita og misnota. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða. Þegar við menn viðurkennum stöðu okkar og hið eiginlega ríkisfang er Adam nálægur og ábyrgur.

Heilagur…

Í messulok verða fimm afskornar rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn sára Jesú en líka meina heims og manna. Gróa sárin – verða páskar? Kemur lausnin heims og þín? Páskarnir eru að baki písl, líf eftir dauða.

Þegar okkur er boðið til borðs Jesú hljómar boðskapur hans um að hann sé brauð og bikar lífsins. Þegar við göngum til borðs Jesú viðurkennum við að hann gefur líf, talar orð lífsins, er lífið sjálft. Við játum að heimurinn er góður og í góðum höndum, að vonin er sterkari en hið vonda, að lífið er sterkara en myrkrið. Við borðið mætir lífið dauðanum.

Guð geymi þig þessa bænadaga, varðveiti þig og veiti þér líf gegn dauða.

Amen

Íhugun í skírdagsmessu í Neskirkju 28. mars, 2013.