Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

New York kjúklingur með kjúklingabaunum

Halli, Ene, Steinar og Salka, danska fjölskyldan okkar á Friðriksbergi, komu frá Kaupmannahöfn og beint í kvöldmat. Við elduðum þennan fína New York kjúklingarétt. Það er gaman að gefa þeim að borða því þau eru bæði vinir og meistarakokkar. Þetta er einfaldur, bragðmikill ofnsteiktur réttur, upprunalega úr kokkhúsi Ottolenghi og þróaður að hætti NYT. Kryddblandan er glimrandi og skvetta af sherry-ediki í lokin styrkir bragð réttarins. Svo eru litirnir til að gleðja augun – sjón skiptir jú líka máli fyrir matargleðina.

(fyrir 4–8 manns)

Hráefni:

8 kjúklingalæri, um 1,5 kg

2 msk ras el hanout-kryddblanda (garam masala eða karríblanda í staðinn)

fínt sjávarsalt og svartur pipar

3 kartöflur, skornar í bita (u.þ.b. 2,5 cm þykka)

1 dós (400 g) kjúklingabaunir, skolaðar

3 meðalstórir plómutómatar, skornir í tvennt á lengdina

4 romano paprikur (þessar löngu og mjóu), skornar í tvennt á lengdina og stönglar fjarlægðir (eða 12 litlar paprikur)

1 hvítlaukur (heill haus), efsti hluti skorin af (um 1,5 cm) til að opna að rifjunum

180 ml extra-virgin ólífuolía

2 msk sherry-edik (má nota rautt vínedik eða balsam-edik í staðinn sem hefur auðvitað áhrif á bragð réttarins)

¼ bolli ferskt kóríander, gróft saxað (en má auðvitað nota steinselju eða álíka). 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Kryddið kjúklinginn með ras el hanout, 2 tsk salti og svörtum pipar. Setjið kjúklinginn á fat (um 33 x 46 cm) eða bökunarplötu og leyfið að marinerast í 10 mínútur. Ef ras el hanout er ekki til í kryddhyllunni má nota garam masala sem gefur sætara og mildara bragð. Karríblanda dugar líka, gefur ekki sömu dýpt og fer auðvitað í austurátt – bragðlega!
  3. Bætið kartöflum, kjúklingabaunum, tómötum, paprikum, hvítlauk, ólífuolíu og 1 msk ediki við. Blandið varlega þannig að allt verði olíubaðað. Dreifið öllu jafnt á plötuna og leggið síðan kjúklinginn ofan á – og með húðina upp.
  4. Bakið í 30 mínútur. Hristið plötuna varlega svo allt falli betur saman og myndi tiltölulega jafnt lag. Bakið áfram í um 35 mínútur – eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og vel brúnaður.
  5. Kreistið hvítlauksrifin úr hýðinu og hendið pappírskenndu hýðinu). Stappið tómata og hvítlauksmaukið með gaffli og hrærið saman við sósuna á plötunni. Stráið kóríander yfir og blandið saman. Skvettið síðustu msk af ediki yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

Meðlæti sem velja má úr ( má líka nota allt ! )

Couscous eða perlubúlgur: Létt og  tekur vel við sósunni og kryddkeimnum. Má bæta við saxaðri steinselju, ristuðum möndlum eða rúsínum fyrir norður-afrískt ívaf.

Nanbrauð: Til að þerra upp sósuna af ofnplötunni! Að smyrja brauðið með hvítlauksolíu bætir!

Jógúrtsósa með myntu og sítrónu: Létt og hressandi mótvægi við djúpt kryddaðan rétt. Hrærið saman grískri jógúrt, smá sítrónusafa, rifnum hvítlauk, salti og fínsaxaðri myntu.

Grillað eða ofnbakað grænmeti: T.d. kúrbítur, eggaldin eða rauðlaukur. Ristað með ólífuolíu og tímían eða kúmmín.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Blómkál með jógúrtsósu

Ég átti blómkál í kælinum og ákvað að nota það sem munngælu kvöldmatarins. Mamma gufusauð gjarnan blómkál síðsumars, baðaði það síðan í kryddaðri smjörsósu, bætti við smáskornu hangikjöti eða steiktu beikonsmælki, þakti síðan með osti og steikti í ofni. Bernskuminningin kviknaði er ég stóð með blómkálið milli handanna. Mér fannst ég finna bragðið þrátt fyrir sextíu ára tímahaf. Ég ákvað að nota mömmuaðferðina en krydda að eigin hætti, enda mun meira úrval af kryddi en þegar hún gerði kraftaverkin í eldhúsinu á Tómasarhaga. Ég bjó svo til kryddsósu með og grillaði líka kjúkling til að allir munnar yrðu glaðir og magar líka. Svona máltið er til fagnaðar. Lífið lagsmaður – það er nú undursamlegt. 

Hráefni:

1 blómkálshöfuð

200 gr. smjör

2 msk ólífuolía

1 tsk kúmen

1 tsk kóríanderduft

1 tsk túrmerik

3 hvítlauksgeirar smátt skornir

1 tsk salt

½ tsk svartur pipar

1 msk sítrónusafi

1 msk granateplasæta (mólassi má sleppa)

100 gr af smáskornu steiktu beikoni, chorizo eða skinku

200 gr mozarella eða annar bragðgóður ostur

Matreiðsla

Fyrst skar ég blómin af kjarna blómkálsins og gufusauð þau í 10 mínútur. Á meðan hrærði ég saman hitt hráefnið og notaði chorizo og dásamlega Parmaskinku sem við áttum í kæliskápnum. Skar smátt. Þegar blómkálið var soðið dreifði ég úr því á ofnþolið fat, hellti volgri smjörkryddblöndunni yfir, dreifði vel úr kjötflísunum og setti ostinn yfir, bakaði síðan í 20 mínútur.

Jógúrtsósa

200 ml grísk jógúrt

1 hvítlauksgeiri smáskorinn

1 msk fínsöxuð mynta

1 msk fínsöxuð kóríander

rifinn börkur af ½ lífrænni sítrónu (má sleppa)

smá salt

Verði ykkur að góðu og:  

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Málningardagurinn fór í matargerð. Góð skipti? 31. júlí 2025. 

Hoisin og hvítlauks-núðlur

Ég er búinn að elda kjötmáltíðir undanfarið því yngri karlarnir á heimilinu hafa unnið erfiðisvinnu og eru svangir og þreyttir þegar þeir koma heim. Svo kom ég auga á þessa bragðkitlandi uppskrift sem mér sýndist að gæti verið mótvægi við kjötflóðið. Og maður lifandi – hún heillaði mitt fólk. 

Fyrir 4

Innihald:

Salt og pipar

400 g þurrar hveiti- eða eggjanúðlur

60 ml hoisinsósa

2 msk sojasósa

1 msk sesamolía

2 tsk hlynsíróp eða hunang

jurtaolía til steikingar

6 hvítlauksrif, fínsöxuð

6 vorlaukar – saxið en greinið að hvítu og grænu hlutana

4 msk ristuð hvít sesamfræ

Aðferð:

  1. Sjóðið núðlurnar

Stór pottur með söltu vatni fyrir suðuna. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum þar til þær eru “al dente”. Hellið vatninu af og skolið undir köldu vatni þar til þær eru orðnar kaldar.

  1. Útbúið sósuna

Setjið í skál hoisinsósu, sojasósu, sesamolíu og hlynsíróp eða hunang. Hrærið saman og leggið svo til hliðar.

  1. Steikið hvítlauk og vorlauk

Hitið stóra pönnu (30 cm) á meðalháum hita í 2 mínútur. Bætið við 1–2 msk af jurtaolíu og setjið hvítlaukinn og hvíta hlutann af vorlauknum út í. Hrærið í u.þ.b. 30 sekúndur, þar til ilmar (en passið að hvítlaukurinn brenni ekki!).

  1. Bætið við núðlum og sósu

Hellið sósunni út á pönnuna og bætið svo núðlunum við. Hrærið vel svo þær þekjist jafnt með sósunni.

  1. Látið núðlurnar taka sig

Steikið núðlurnar í 2–3 mínútur, svo þær nái að stökkna aðeins – og verða létt karmellíseraðar. Smakkið og bætið við salti ef þarf – og svörtum pipar eftir smekk.

Skiptið í skálar og skreytið með ristuðum sesamfræjum og græna hluta vorlauksins. Fyrir þau sem vilja meira bragð má nota chiliolíu.

Meðlæti – frjálst val!

  1. Gufusoðið grænmeti með sesam

Brokkolí, blómkál eða pak choy gufusoðið og bragðaukið með sesamolíu, sojasósu og sesamfræjum.

  1. Ristaðir tofuteningar eða steikt egg

Skorin tofu (pressuð og marinéruð) eða egg með stökkum botni veita prótein og byggja réttinn upp sem aðalrétt.

  1. Agúrkusalat með hrísgrjónaediki

Ferskt, stökkt salat með þunnum agúrkuskífum, hrísgrjónaediki, sesamolíu og chili-flögum – dregur úr feiti og lyftir máltíðinni.

Bæn

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Ég fann þessa uppskrift Hetty Lui McKinnon á NYT. https://www.nytimes.com/2025/04/28/dining/fast-noodles-dinner-recipe.html

Flórens-kjúklingur með rjómasósu og spínati

Einföld pönnuuppskrift. Safaríkar kjúklingabringu í smjörkenndri hvítvíns-rjómasósu með spínati og rjómaosti. Rjómaosturinn gefur sósunni mýkt og fyllingu. Í stað spínats má nota sólþurrkaða tómata, steikta sveppi eða niðursoðin þistilhjörtu – eða bæta þeim við. Borið fram með stöppuðum eða ofnbökuðum kartöflum – en brauð er nauðsyn til að þerra síðustu sósudropana! Það er uppskófla eða scarpeda í ítölskunni. 

Hráefni:

60 ml hveiti (ca. ¼ bolli)

60 ml rifinn parmesanostur (ca. ¼ bolli), auk þess sem stráð er yfir í lokin fyrir áferð – lúkkið. 

Salt og nýmalaður pipar

4 þynntar, beinlausar kjúklingabringur – án húðar (um 450 g)

1 msk ólífuolía

4 msk smjör

1 meðalstór skalottulaukur, smátt saxaður – nú eða graslaukur/vorlaukur

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

120 ml þurrt hvítvín (½ bolli)

120 ml kjúklingasoð (½ bolli)

1 tsk þurrkuð basilíka (eða 1 msk ferskt, saxað)

1 tsk þurrkuð óreganó (eða 1 tsk ferskt, saxað)

120 ml rjómi (½ bolli)

60 g rjómaostur (við stofuhita)

2 bollar spínat (um 85 g)

Aðferð:

  1. Blandað saman hveiti, parmesan, 1 tsk salti og 1 tsk pipar á disk. Kjúklingabringunum velt upp úr blöndunni þar til þær eru vel þaktar báðum megin.
  2. Stór panna hituð á meðalhita. Setjið ólífuolíu og 2 msk af smjöri á pönnuna og bræðið saman. Steikið kjúklinginn í um það bil 4 mínútur á hvorri hlið, þar til hann er orðinn gullinbrúnn (en þó ekki eldaður í gegn). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.
  3. Bætið afganginum af smjörinu (2 msk) á pönnuna. Setjið skarlottulauk, hvítlauk og smávegis salt saman við. Hrærið í 2 mínútur eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og hvítlaukurinn ilmar.
  4. Hellið hvítvíni og soði út á pönnuna. Bætið við basilíku og óreganó. Hrærið og skafið upp karamelliseruðu bitana af botninum. Látið sjóða niður í um helming (3–4 mínútur). Bætið þá við rjómanum og rjómaostinum. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað og sósan þykknar (um 6 mínútur).
  5. Bætið spínatinu við og hrærið þar til það hefur linast og blandast vel við sósuna (um 1 mínúta).
  6. Leggið kjúklinginn aftur á pönnuna og látið malla þar til hann er fulleldaður (4–5 mínútur). Takið af hitanum og berið strax fram með ferskum parmesanosti yfir.

Ljómandi að skreyta með ætum blómum á sumartímanum. 

Meðlæti við  hæfi – sem velja má úr 🙂

Stappaðar kartöflur með hvítlauk, salti og smjöri. Mjúkar og rjómakenndar kartöflur eru fullkomnar og þær draga í sig rjómasósuna. Bætið rifnum parmesan eða örlitlu múskati við til að ná fram ítölskum blæ.

Ofnbakaðar litlar kartöflur eða sætar kartöflur, kryddaðar með ólífuolíu, rósmarín og sjávarsalti.

Grillaðar eða gufusoðnar grænmetisspírur.

Grænmeti eins og brokkolí, blómkál, grænar baunir eða aspargus.

Bagettebrauð – til að þerra upp sósuna! Getur verið súrdeigsbrauð, focaccia eða einfaldlega brauð með hvítlauksolíu og kryddi.

Ferskt salat, t.d. rúkkola og kirsuberjatómatar með sítrónu-ólífuolíudressingu og parmesanflögum.

Grunnuppskriftina fann. ég í NYT.

Borðbæn

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

vor Drottinn Guð, af þínum auð.

Vort líf og eign og bústað blessa

og blessa nú oss máltíð þessa.

En gef vér aldrei gleymum þér

er gjafa þinna njótum vér.

V.B.

Vinaigrette-sósan frá Via Carota

Þessi dásamlega vinaigrette-sósa er frá veitingastaðnum Via Carota í West Village í NY. Volga vatnið í uppskriftinni kann að koma á óvart, en því er bætt við til að mýkja edikið. Salatsósa á að vera svo góð að fólk geti borðað hana eða jafnvel svolgrað hana! Hægt er að nota þessa sósu á salat, aspargus og jafnvel líka með nautasteik, fisk eða steiktan kjúkling. 

Innihald – nóg fyrir ca. 360 ml.

  • 1 stór skalottulaukur, mjög smátt saxaður
  • 2 msk gott sherry-edik
  • 1 msk volgt vatn
  • 1 bolli góð extra virgin ólífuolía
  • 1½ tsk hunang
  • 1½ tsk Dijon sinnep
  • 1½ tsk gróft sinnep (heilkorns)
  • 2 greinar tímían ca. ½ tsk eða þurrkað 1 tsk.
  • 1 hvítlauksrif, fínt rifið
  • 1 tsk gróft sjávarsalt – eða meira eftir smekk
  • ½ tsk nýmalaður svartur pipar

Aðferð:

  1. Skalottulauku og edik í skál og látin standa í um 5 mínútur – sem mýkir laukinn.
  2. Bætt við volgu vatni, ólífuolíu, hunangi, sinnepinu, tímían, hvítlauk, salti og pipar.
  3. Hráefnið þeytt þar til sósan verður mjúk, gullin og vel blönduð. Smakkað til og bætt meira ediki við sem og salti skv. smekk.

Svo er allt í lagi að nota fallegar skálar fyrir salatið – t.d. Ittala-djásnin.