Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Lifrarkæfa – lifrarpaté

Lifrarkæfu búum við til fyrir Þorláksmessupartí og jól. Lifrarkæfan er dásamleg sem smágjöf fyrir jólin og mörgum þykir gott að eiga hana fyrir jólamorgun eða dásemdarstundir jóladaganna. Melabúðin og góðar kjötvinnsluyr hafa hakkaða svínalifur og svínaspekk í hálfs kílós pakningum sem léttir kæfugerðina. Verði ykkur að góðu

1 kg svínalifur

½ kg svínaspik

3-4 laukar – handsaxað

1 hvítlaukur – smáskorinn

3 tsk krydd, tímían, rósmarín, oreganó og chili – hlutföll að smekk

2 tsk pipar

2 msk gróft sjávarsalt

120 gr smjör

200 gr hveiti

3 dl mjólk

4 stk egg

Bakað upp með smjöri og hveiti og þynnt með mjólkinni. Eggin sett út í eitt og eitt í senn og hrærð sama við. Ekki látið sjóða. Kryddið, laukur og hvítlaukur sett saman við. Síðan kælt aðeins. Hakkinu blandað saman við. Ofn á 160 °C. Allt sett í form.

Síðan eru formin sett á plötu með vatni – þ.e. vatnsbað og soðið í ofninum ca. 1 klukkustund.

Augngælur eru ekki síður mikivægar en bragðgælur. Kæfan gleður augu ef rennt er ribsgeli yfir kæfuna þegar fulleldað er og skreytt með t.d. rósmaríngrein – eða berjum – eða bara fallegu kryddi. Rósapipar er nýtanlegur líka. 

Verði ykkur að góðu – og vert að þakka skapara alls sem er fyrir lífsgæðin. 🙂

Kjúklingur, karrý og mango-chutney

Þessi kjúkingaréttur er fljóteldaður og bragðgóður. Í gærkvöldi komu allir heim svangir úr puði dagsins. Hvað er í matinn? Hvenær? Mmmmm. Það var sem sé einlæg matarsókn við kvöldverðarborðið. Samfélagsgleði, kátínan var smitandi og maturinn hjálpaði til. Allir nutu, borðuðu vel og þökkuðu hjartanlega og þá er kokksi kátur.  Þorvaldur Karl, vinur minn, gaf mér uppskriftina fyrir aldarfjórðungi og ég eldaði hana oft eftir aldamót. Svo datt hún út en ég fann hana fyrir nokkrum dögum og ákvað að endurnýta. Myndin er slæm  – maturinn er betri.

Fyrir 4.

Hráefni

  • 800 g kjúklingakjöt, t.d. bringur, og skorið í bita eða strimpla
  • 3 dl mangó chutney
  • 300 ml rjómi
  • 1 msk tímían
  • 1,5 msk karrý
  • 1 tsk sítrónupipar
  • kjúklingateningur
  • Salt og pipar að smekk

Matseld

Skerið kjúklingakjötið í bita og kryddið með karrý, salti og pipar. Hitið olíu á pönnu. Steikið kjúklingakjötið á pönnunni þar til bitarnir hafa brúnast vel. Leggið kjötið síðan í eldfast mót.

Sósan: Hellið rjóma og mangó chutney á pönnuna sem kjötið var steikt í (eða í pott). Hitið við vægan hita, kryddið með tímían, karrý, sítrónupipar, kjúklingakrafti, salti og pipar. Hrærið vel í. Þegar sósan er nærri suðu hellið þið henni yfir kjúklinginn í eldfasta fatinu og setjið síðan inn í ofn og steikið við 180°C í 35 mínútur.

Meðan kjúklingurinn er í ofninum er ljómandi sjóða hrísgrjón og rista grófar kókosflögur (eða kókosmjöl) á þurri pönnu til að setja yfir hrísgrjónin þegar maturinn er borinn fram.

Bananar, skornir í bita, passa þessum rétti vel sem og ferskt salat. Svo er hægt að leika sér með eitthvað litríkt úr ísskápnm til að auka litríkið á diskinum.

Bæn

Þökkum Drottni, því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Jerúsalem shashuka

Við Ísak vorum í puði og útréttingum fyrri hluta dags og komum svangir heim. Shaskuka í Jerúsalem leitaði á huga minn. Til voru egg, laukur og paprikur í ísskápnum og flest sem þarf í shashuka. Við áttum líka alvöru grískan feta og dill. Eftir hálftíma vorum við farnir að borða þennan litríka undramat, ekki síðri en við Jaffahliðið í Zíon. Hér er uppskriftin

Fyrir 4

Hráefni:

  • 2–3 msk ólífuolía
  • 1 meðalstór laukur saxaður
  • 2 paprikur (rauð eða gul), skornar í ræmur
  • 3 hvítlauksrif fínt söxuð
  • 1 tsk kúmen mulið
  • 1 tsk paprikuduft (reykt ef til er)
  • ¼ tsk cayennepipar (eða eftir smekk)
  • 1 dós (400 g) saxaðir tómatar
  • 1 msk tómatþykkni
  • Salt og nýmalaður svartur pipar
  • 4–6 egg
  • Handfylli af dilli, kóríander eða steinselju

Matseld:

  1. Hitið olíu í stórri pönnu á miðlungshita. Steikið laukinn í 5–6 mínútur, þar til hann verður mjúkur.
  2. Bætið papriku og hvítlauk út í og steikið áfram í um 8 mínútur, þar til paprikan er orðin mjúk.
  3. Kryddið: Kúmen, paprikuduft og cayenne. Hrærið í 1–2 mínútur til að kryddið opnist í olíunni.
  4. Bætið tómötum og tómatþykkni út í. Látið malla í 10–15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og ilmsterk. Smakkið til með salti og pipar.
  5. Gerið holur í sósuna og brjótið eggin varlega ofan í. Ýtið við hvítunni yfir í rautt umhverfið svo eggjahvítan steikist og hvítni alveg. Hyljið pönnuna og eldið á lágum hita í 7–10 mínútur, þar til eggjahvítan hefur stífnað en rauðan er enn mjúk.
  6. Stráið ferskum jurtum og muldum fetaosti yfir áður en borið er fram.

Ljómandi að nota snittubrauð til að skófla upp sósu – þetta sem Ítalir kalla scarpeda. Það er líka hægt að nota jógurt eða labneh í stað fetaostsins. Matreiðslan og hráefnanotkunin er opin og kallar á hugvit og spuna.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 

Jeríkókjúklingur með lauk, döðlum og granatepli

Sæta döðlunnar, mildur blaðlaukur og safaríkt granatepli kyssast í rétti sem minnir á Jeríkó.

Í 4Mós 11.5 segir frá hve ákaft Ísraelsmenn söknuðu lauks, hvítlauks og blaðlauk sem þeir nutu í Egyptalandi. Döðlur voru gjarnan kallaðar „brauð eyðimerkurinnar“ og voru helsti orkugjafi á ferðalögum (2Sam 6.19). Granatepli voru tákn lífs, frjósemi og blessunar (5Mós 8.8; 2Mós 28.33–34). Hér sameinast þessi þrjú hráefni í rétti með áhugaverðar bragðvíddir. Í unaðsborginni Jeríkó var hægt að elda svona mat og halda veislu.

Hráefni (fyrir 5 manns)

  • 15 kjúklingaleggir (Gallus gallus)
  • 2 rauðlaukar (Allium cepa), grófsaxaðir
  • 2 blaðlaukar (Allium porrum), þverskornir í þunnar sneiðar
  • 1 heill hvítlaukur (Allium sativum), klofinn í geira en óafhýddur
  • 2 stilkar sellerí (Apium graveolens) þverskornir í ca 1 cm búta
  • 2 msk ólífuolía (Olea europaea)
  • 4 lárviðarlauf (Laurus nobilis)
  • 1 msk fersk salvía (Salvia fruticosa) eða þurrkuð
  • 1 msk ferskt rósmarín (Salvia rosmarinus)
  • 1 tsk kúmmín (Cuminum cyminum)
  • ½ tsk kanill (Cinnamomum verum)
  • 6 döðlur (Phoenix dactylifera), saxaðar smátt eða maukaðar í soði
  • Safi og fræ úr 1 granatepli (Punica granatum)
  • ½ glas vatn + grænmetissoð (bygg- eða linsukraftur)
  • Maldonsalt eða gróft sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar

Aðferð

  1. Marínering: Kryddið kjúklinginn með salti, kúmmín, kanil og ólífuolíu. Látið liggja í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.
  2. Grunnurinn: Steikið rauðlauk, blaðlauk og sellerí á pönnu þar til allt mýkist. Bætið hvítlauk og lárviðarlaufi út í.
  3. Steiking kjúklings: Brúnið kjúklingaleggina á heitri pönnu þar til húðin er gullin. Hellið grunninum yfir kjúklinginn. Og steikið áfram.
  4. Sósan: Maukið döðlur í vatni. Hellið öllu yfir kjúklinginn á pönnunni. Stráið salvíu og rósmaríni yfir. Notið þurrkað krydd ef ferskt er ekki til.
  5. Steiking: Látið réttinn malla á meðalhita á pönnunni í 45 mínútur. Gætið þess að vökvinn á pönnunni þorni ekki upp. Bætið vatni við ef þarf.

Berið fram á pönnunni: Dreifið granateplum yfir og skreytið með ferskri steinselju. Rétturinn er bestur með soðnu byggi og ósýrðu brauði sem dregur í sig ríkulegan sósukeim.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Rómverskur kjúklingur með kartöflum – allt á pönnu

Í þessari ofnuppskrift eru kartöflur og kjúklingurinn fær bragð af góðri og ilmsterkri rósmarínsósu með kapers og ansjósum. Í staðinn fyrir tómata sem oft eru notaðir í pottrétti, er sýrubragðið fengið úr hvítvíni og ediki. Kjúklingurinn er lagður á kalda pönnu og síðan steiktur – til að ná stökkri húð og nota fituna sem grunn fyrir kartöflurnar. Grunnur uppskriftarinnar er frá Cybelle Tondu.

Fyrir 4

Hráefni:

900 g kjúklingalæri eð leggir (með beini og húð)

2 tsk gróft sjávarsalt

3 msk ólífuolía

500 gr kartöflur

1 msk ferskt rósmarín (nálarnar saxaðar)

4 ansjósur

2 hvítlauksrif

2 msk kapers

180 ml þurrt hvítvín

2 msk hvítvínsedik (eða rauðvínsedik)

2 msk fersk steinselja (söxuð)

Matseld:

  1. Ofninn stilltur á 220°C. Kjúklingurinn þerraður með pappírsþurrku og saltaður – 2 tsk salt.
  2. Hitið stóran pott eða djúpa pönnu (með loki eða án) og hellið 1 msk af olíu í. Leggið húðhlið kjúklingsins í kalda pönnuna og hitið síðan yfir meðalhita. Steikið án þess að hræra í um 15 mínútur, eða þar til húðin er orðin gullinbrún og losnar auðveldlega frá pönnunni.
  3. Á meðan kjúklingurinn steikist: Skerið kartöflurnar í bita um 2,5 cm að þykkt. Setjið í skál og bætið við rósmarín, söxuðum ansjósum, mörðum hvítlauk, kapers, 2 msk olíu og ½ tsk salti. Blandið öllu saman.
  4. Snúið kjúklingnum við og bætið kartöflublöndunni á pönnuna – komið fyrir yfir og undir kjúklingnum. Hellið hvítvíninu yfir. Setjið pönnuna í ofninn og steikið án loks í um það bil 25 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og kartöflurnar mjúkar.
  5. Takið pönnuna af hitanum og veiðið kjúklinginn úr pönnunni og setjið til hliðar. Bætið ediki og 2 msk vatns á pönnuna og látið malla á meðalhita. Hrærið öðru hvoru, þar til kartöflurnar eru þaktar þykkri, gljáandi sósu (um 5 mínútur eða lengur ef þarf). Ef sósan er of þykk eða feit, bætið við vatni, 1 msk í einu, til að ná réttri áferð. Smakkið til og bætið við salti og ediki ef þörf verður á.
  6. Setjið kjúklinginn aftur á pönnuna og stráið saxaðri steinselju yfir.

Tillögur að meðlæti:

Brauð

Rúgbrauð, focasía eða súrdeigsbrauð – til að dýfa í sósuna. Grillað brauð með hvítlauksolíu við bragðvídd.

Grænt salat

Létt rúkkola- og spínatsalat með sítrónusafa og ólífuolíu.

Má bæta við parmesanflögum eða kirsuberjatómötum.

Sítrónu- eða edikgljáð grænmeti

Grillaður aspargus eða grillaðar gulrætur með örlitlu balsamik-ediki.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður – og miskunn hans varir að eilífu. Amen.