Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Flott hjá þér

IMG_1006Góðan daginn kæru hlustendur. Við fjölskylda mín fórum einu sinni til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Smáfólkið fékk líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn á ekki heldur að stjórna atvinnulífi, stofnunum og þmt. fjölmiðlum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Maki þinn þarfnast að þú sjáir hann og bregðist við með jákvæðum hætti. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er dýrmæti og þannig skapað. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og ástæða til. Jesús kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra það líka? Blóm dagsins er hrós.

Bænir…

Guð gefi þér yndislegan dag og gleðiríka helgi.

Morgunorð og morgunbæn RÚV 3. október, 2014.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Ótti og von

Hvaða tilfiningar vakna í þér með dagin framundan? Er þetta dagur tækifæranna og framkvæmda? Eða dagur óttans? Eða dagur vona?

Einu sinni var ég í sænska skerjagarðinum í fríi. Við fjölskyldan sigldum með systur og mági á skútu milli eyjanna. Það var skemmtilegt að setjast við stýrið og venda, vinna með vindi og upplifa krafta náttúrunnar. Við syntum í sjónum og bjuggum vel. Það var dekrað við okkur.

Ég á tvíburastráka og þeir voru sjö ára á þessum tíma. Eitt kvöldið var þeim boðið í kanósiglingu. Veðrið var undursamlegt, sjórinn spegilsléttur, fuglarnir sungu, smáfiskurinn kom upp í yfirborðið og gáraði lítillega speglun himins í vatni.

Kanóbáturinn sveif sem á skýjum í vatninu. Svo hurfu bátsverjar sjónum mínum og ég vissi hvaða leið þeir ætluðu. Og ég treysti skippernum vel til ferðar með drengina mína. Svo leið tíminn og bátsferðin varð lengri en ég hafði átt von á og svo tók að rökkva og ég fór að verða órólegur. Hafði eitthvað komið fyrir, hafði þeim hlekkst á. Óttinn læddist að með húminu og ég gekk á ströndinnni og skimaði eftir þeim. En ég sá engin merki um þá, heyrði ekki til þeirra – það var eins og sjórinn hefði gleypt þá. Og óttinn læddist inn í mig með fullum krafti. Hafði bátnum hvolft? Ég kallaði upp í himininn og bað um hjálp.

Þegar óttinn kemur finnur maður hvað skiptir máli og ástin hamast. Ég mátti ekki til þess hugsa að nokkuð kæmi fyrir þá, að þeir hyrfu í hafið. Þegar drengirnir mínir týndust í sænsku kvöldhúmi í skerjagarðinum fann ég hve ég elskaði drengina mína hamslaust og heitt. Mér til mikils léttis hafði ekkert hættulegt hent þá, bænin hafði verið heyrð. Þeir höfðu breytt um kúrs og lent í ævintýrum. Þeir voru í góðum höndum, vel var fyrir öllu séð, lífið hafði bara breyst á ferðinni. Allt fór vel.

Byrjar þú þennan dag í von eða ótta? Þú mátt vita að þessi dagur verður merkilegur dagur. Og svo er vinur á himnum sem elskar og vill að þú skiljir og vitir að þú ert stórkostlegur eða stórkostleg. Sá vinur heyrir vel, er nærri og allir eiga í honum góðan stuðning fyrir siglingar daganna.

Bæn – Faðir vor

Guð gefi þér óttalausan og góðan dag.

Morgunorð og bæn Rúv 29. september 201

Endurnýjun og hleðsla

endurnýjunKæru hlustendur. Góðan dag og verið velkomin til nýs dags og nýrra möguleika. Hvernig getur þú notað þennan dag, sem þér er gefinn? Hvernig viltu nota hann? Ef þú lætur aðeins stjórnast af áreiti hættir þú að heyra rödd hjartans. Þá blæs viskan hjá og spekin líka. Siglandi skip þarfnast stefnu og menn þarfnast líka stjórnar á sínum lífssjó.

Ég hlustaði einu sinni fyrirlestur um hvernig við getum breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins sem best. Fyrirlesarinn minnti á, að mörg okkar eigum þrískipta æfi. Fyrst koma bernsku- og náms-árin, oft nærri tuttugu og fimm ár. Síðan tekur við starfsæfin, sem er gjarnan fjörutíu til fimmtíu ár. Síðan fylgja eftirlaunaárin og ellin. En hentar öllum þessi þrískipting æfinnar?

Fyrirlesarinn ákvað að dreifa eftirlaunaárunum á alla starfsæfi sína. Fyrsta sinn fór hann á “eftirlaun” þegar hann var liðlega þrítugur og þá í eitt ár. Svo vann hann í sjö ár og þá tók við nýtt náðarár til að gera það, sem hann langði mest til. Hann tók ákvörðun um, að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manns óháð hasar daganna.

Að dreifa hleðslutíma á ævina með þessu móti krefst, að málum sé raðað í forgang. Í stað neyslu verður að spara, nýta fjármuni til andlegrar iðju fremur en kaupa hluta og eigna. Tíminn er ekki bara peningar. Tíminn er ekki heldur aðeins hinn sekúndur og mínútur. Tíminn er lifaður, er persónulegur. Hann getur verið angistarfullur sorgartími, stórkostlegur barneignatími, áhyggjutími eða tími algleymis og hamingju. Við gefum sjálf tímanum merkingu. Við megum líka hugsa nýjar hugsanir. Hin trúarlega nálgun er að leyfa himni og heimi að faðmast og kyssast í okkar eigin lífi.

Kristni er boðskapur um að Guð þorir. Kristin trú er ekki niðurnjörvaður átrúnaður hins læsta kerfis. Guð breytir um stefnu og tekur upp á hinu óvænta. Guð leggur sig í hættu vegna lífsins. Þú ert vissulega vera í heimi tímans, en í þér á frelsið heima. Má bjóða þér hamingjutíma? Þorir þú að lifa vel? Nýr dagur og nýir möguleikar.

Bænir

Guð gangi þér við hlið á þessum degi.

Morgunorð og bænir RÚV 27. september 2014

Geislar lífsins

köllun SÞGóðan dag kæru hlustendur.

Við Landakotskirkju í Reykjavík er skúlptur Steinunnar Þórarinsdóttur. Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá honum og vitjaði móður minnar, sem lá banaleguna á Landakotsspítala. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af þokka hennar, mjúkum línum og þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og óttaleysi.

Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð.

Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð ég fyrir undri. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið magnaði ljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók í sig himinljósið. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar.

Verkið heitir Köllun og við erum öll kölluð til lífs, hins guðlega veruleika. Enginn gengur að undrinu að vild, þegar fólk er í stuði og ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins verður ljóst, í málmi, gifsi og gleri.

Hvernig verður þessi dagur í lífi þínu. Kannski sækja að þér þungir og myrkir þankar. En ljósið skín, dagur er runninn, aftureldin verður. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun þín í dag – köllun til ljóss og lífs. Guð lýsi þig og upplýsi þig á þessum degi og sé þér náðugur. Guð upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Bænir Morgunorð og morgunbæn Rúv. 25 sept. 2014

Hljóðupptaka Rúv er að baki þessari smellu:

http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunbaen-og-ord-dagsins/25092014