Greinasafn fyrir merki: Sigurður Bjarnason.

+ Sigurður Bjarnason +

Á Lúthersdögum kveðjum við einn af öldungum Hallgrímssafnaðar. Sigurður Bjarnason kom í kirkju hvenær sem hann gat og sótti flesta viðburði. Útför Sigurðar er gerð frá kirkjunni á hátíðartíma þegar minnst er vígslu hannar, einnig 343. ártíðar Hallgríms Péturssonar og 500 ára afmælis siðbótarinnar. Sigurður Bjarnason var maður siðbótar, Lúthers og Hallgríms. Þökk og lof sé honum fyrir líf og störf. Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu á útfarardegi er hér að neðan:

Kirkja er ekki aðeins hús heldur fremur fólk. Kirkja er lifandi söfnuður einstaklinga, sem eiga samfélag um trú, helgihald, mikilvæg gildi og opna framtíð. Sigurður Bjarnason, húsasmiður, var í þeirri miklu fylkingu gleðinæmrar Guðstrúar. Hallgrímskirkja var honum sem heimili í marga áratugi. Hann átti sitt fasta sæti í kirkjunni, en kom ekki aðeins í kirkju á sunnudögum heldur oft í viku og til ólíkra athafna, tónleika og funda. Og hann var einn af stórum hópi sjálfboðaliða. Oft stóð hann í eldhúsinu í suðurvæng helgidómsins, þvoði upp eða gekk frá eftir samverur og veislur. Hann ók fólki til og frá kirkju. Þá lagði hann Hjálparstarfi kirkjunnar öflugt lið. Ása Guðjónsdóttur, kona Sigurðar, hefur lengi verið í forystu kvenfélags kirkjunnar og hann studdi starf hennar og félagsins með margvíslegum hætti. Alla tíð voru þau sem eitt og byggðu upp söfnuð. Sigurður naut trúnaðar samferðafólks og var valinn til setu í sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Þegar hann lést hafði hann verið í stjórn kirkjunnar í nær þrjátíu ár. Sigurður Bjarnason lagði alltaf gott til, var yfirvegaður og hlýr og því mikils metinn. Starfsfólk Hallgrímskirkju hefur notið samstöðu og umhyggju hans í áratugi. Við sjáum á bak traustum samverkamanni, sem við þökkum. Guð geymi Sigurð Bjarnason í eilífð sinni og blessi ástvini hans.

F.h. sóknarnefndar og starfsfólks Hallgrímskirkju, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson

Útför Sigurðar Bjarnasonar í Hallgrímskirkju 30. október, 2017, kl. 11. 

Myndin hér að ofan er af Sigurði Bjarnasyni og Ásu Guðjónsdóttur, konu hans. Myndina tók ég í Suðursal Hallgrímskirkju og við prófastsinnsetningu sr. Birgis Ásgeirssonar, 22. september 2011. Greina má sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson að baki þeim hjónum.