Greinasafn fyrir merki: við-þið

Nýfrjálshyggjan uggandi

Ég vaknaði með ugg í brjósti í morgun, hitaði mér kaffi í Bialetti-könnunni minni og settist niður hugsi með ilminn í nefinu.

Ég ólst upp í skugga braggahverfis hernámsáranna á Grímsstaðaholti og Kanar voru nágrannar. Þróun eftistríðsáranna vestra var eiginlega í golu bernskunnar. Ég valdi að sækja nám í Suðurríkjunum frekar en að vera í skólunum á Austurströndinni. Ég vildi kynnast þykku menningunni. Ég bjó í nokkur góð og merkileg mótunarár í Nashville. Þegar ég fór að ræða við félaga mína í skólanum vestra fullyrtu þeir að eftir óreiðu og hrylling seinni heimsstyrjaldar hefði margt verið gert til að þetta raðir og græða sárin. Ég sannfærðist um að mikill meirihluti Bandaríkjamanna styddi sígandi lukku, vildi góðan og eðlilegan hagvöxt, styddi félagslegt öryggi, vildi lina kynþáttahyggju og búa til samfélag sem nyti stöðugleika og þokkalegs jafnvægis. Vöxtur þarfnast jú fyrirsjáanlegrar festu. En svo tók nýfrjálshyggan við vestra.

Eftir 1970 fór efnahagslegt ójafnvægi að aukast í bandarísku samfélagi. Þar með gliðnuðu menningargjárnar að nýju, þessar sem reynt hafði verið að brúa. Og miklu máli skipti að áherslur stjórnmálanna breyttust. Heildarhyggjan linaðist og kannski brotnaði. Velsæld markaðarins varð aðalmál og áhugamál pólitíkusanna fremur en velsæld samfélagsheildarinnar. Hlutsýn kom í stað heildarsýnar. Starsýni í stað víðsýni. Vaxandi skuldsetning hélt uppi neyslunni. Fjölmiðlar breyttust, mörkuðu sér sérstöðu og áherslur einhæfðust. Þeir bjuggu svo til búblur, eigin málheima og gildaheima sem lokuðu fólk og hópa af frá öðrum og heildinni. Þessar búblur urðu gámar, aðgreindir frá öðrum pólitískum gámum. Samfélagslegar andstæður skerptust. Ég sá vel að fátæklingarnir voru fátækir og hve hin ríku voru ofurrík í Nashville. Og ég varð vitni að menningarátökum. Málsvarar hópa æfðu sig í ópum og deilum á skólalóðinni í Vanderbilt. Þau lærðu að vera hópur gegn öðrum hópum, hrópa slagorð yfir mörkin. Við-þið hugsunin skar í samfélagsvefinn og sleit þræði samheldninnar. Síðan hefur reiðin vaxið – stöðugt – og orðið mein samfélagsins, opnað leiðir fyrir lukkuriddarana og nýja gerð alræðissóknar í Bandaríkjunum. Og svo hrópa menn ekki bara milli gáma, heldur skjóta því byssueignin er ekki skilyrt, þ.e. bundin við andlegt heilbrigði.

Í MAGA-Trumphyggjunni er sannleikurinn neysluvara en ekki alvöru gildi. Á markaði má öllu breyta og “sannleikurinn” er því síbreytilegur. Gyðingar voru blórabögglar nasistanna en innflytjendur, hommar og trans hjá MAGA-liðunum. “Þau” eru ekki hluti af “okkur” – við ákveðum hvað verður um “þau” sem merkir að mennska þeirra er önnur en “okkar.” Á þeim má pönkast að vild. Manngildi er því ekki grunngildi skv. þessari nálgun. Í samfélagi nýfrjálshyggjunnar skapa markaðir, sundraðir fjölmiðlar og vaxandi ójöfnuður nýja gerð alræðisstefnu. Það er vond pólitík og hvorki góð til innflutnings né útflutnings – óháð tollum.

Stundum þarf maður bara að koma ugg í orð. Og kaffið hressir líka.