Öld okkar er öld vaxandi vatnsvanda. Hún er “tuttugasta og þyrsta” öldin. Fyrr á árinu var ég í Róm og skoðaði m.a. hinar stórkostlegu vatnsveitur Rómverja. Í gær og fyrradag gekk ég um fjöllin á Madeira og dáðist að vatnsveitum og hugviti íbúa við að veita vatni að ræktunarsvæðum og til þorpa. Í morgun las ég svo sögur um vaxandi vatnsvanda heims.
Indland er dæmi um vanda í vexti. Þar í landi búa um 18% íbúa heimsins, 1400 milljónir manna. Þetta fólk hefur þörf fyrir hreint vatn. En þessi 18% íbúa hafa aðgang að 4% af vatnsauðlindum veraldar.
Í Delhi, Chennai og Hyderabad er drykkjarvatn skammtað. En fjársterk og kröfuhörð fyritæki á sviði tölvutækni og gervigreindar þurfa mikið vatn til kælingar kerfanna. Gagnaverin í Indlandi þurfa hundruð milljarða lítra af vatni á ári. Þau eru orðin nauðsynleg innviðir fyrir stafræna framtíð og hálaunaatvinnu en ógna vatnsöryggi.
Samkvæmt mati Alþjóðabankans eru vatnsauðlindir Indlands þegar undir miklu álagi. Spár gera ráð fyrir að vatnsnotkun gagnavera muni tvöfaldist á næstu fimm árum, úr 150 í 358 milljarða lítra. Það myndi hafa áhrif á samfélög, landbúnað og ógna heilsu milljóna manna.
Valið er eins og í grískum harmleiknum, kostirnir eru bara vondir. Stjórnvöld velja milli atvinnu eða heilsu, hvort laða eigi að fjárfesta í hátækniiðnaði eða vernda vatnsauðlindina fyrir mannfólkið og lífríkið.
Vatn er orðin aðalkreppa Indlands. 18% mannkyns hefur bara aðgang 4% vatns veraldar og ljóst að ákvörðun stjórnvalda um vatn varðar meira en tækni og hagvöxt.
Er í lagi að fórna heilsu og lífi þúsunda og milljóna fólks til að kosta atvinnu, uppgang og vöxt? Vatn er ekki forréttindamál heldur mannréttindamál.