Greinasafn fyrir merki: tortillas

Fiski-tacho / besta uppskriftin?

Hráefni – fyrir 4

1 piklaður laukur

1 rauðlaukur og 2 límónur. Laukurinn helmingaður. Ysta lagið skrælt af og síðan er hvor helmingur þverskorinn fínt. Límónur kreistar og vökvinn settur yfir laukinn. Piklað í amk 20 mínútur og ekki verra að leyfa lauknum að vera í vökvanum yfir nótt.

Chili-mayo-sósa

125 gr mayones. 2 tsk chilisósa út í. Hrært vel saman og bragðað til.

Maísblanda með kóríander og chili

200 gr maís.

Hálfur rauður chili fínskorinn.

3 msk fínskorinn kóríander. Blandað saman og smá maldonsalt yfir.  

Fiskur og kryddun

Þrjú til fjögur roðflett þorskflök

1 tsk malað kúmmín (cumin en ekki kúmen)

½ tsk paprikuduft

1 tsk maldonsalt

3 hvítlauksrif, smátt skorin eða pressukramin

3 msk góð ólífuolía

Avocado – í bitum

2 þroskaðir avocado smábitaskorinn

1 límóna, safi.

2 límónuur skornar í rif.

Salat

Salatblöð

2 msk kóríander

Matreiðslan

Stillið bökunarofn á 220 °C. Meðan ofninn er að hitna er meðlætið tekið til. Byrjað á að pikla laukinn. Síðan er chili-mayosósan tekin til sem og maísblandan. Þá er komið að því að gera kryddblöndun á fiskinn. Fiskurinn þverskorinn í þumla og kryddblandan sett yfir og fiskbitunum velt til þar til allur fiskurinn hefur verið kryddaður. Síðan er fisknum komið fyrir í ofninum í hitaþolnu fati og steiktur í 10-12 mínútur eða þar til hann er gegnsteiktur(passa að ofsteikja ekki). Álpappír settur um tortillurnar og pakkinn settur í ofn.

Vökvanum hellt af lauknum og hann settur í skál. Maísblandan í aðra skál og sett á borð. Sem og avocado í einni og chilli-mayo í annarri. Þegar tortillurnar eru orðnar heitar eru þær teknar úr ofni og úr álumbúðum. Ein tortilla sett á hvern disk og síðan er bara að byrja að smyrja með chili-mayo og svo allt hitt sett ofan á. Síðan rúllað upp og auðvitað hægt að setja servéttu utanum svo maturinn leki ekki yfir hendur. Svo eru hnífapör hentug líka. 

Frumuppskriftin er frá Nigellu Lawson.