Greinasafn fyrir merki: Teigur garðyrkjustöð

Ingveldur Guðrún Valdimarsdóttir

Inga fæddist 28. september árið 1933. Foreldrar hennar voru Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir og Valdimar Jónsson. Hún úr Svarfaðardal og hann upprunalega úr Hólminum. Eftir barnaskóla fór Inga austur í Lauga í Reykjadal til náms og naut þar Sigurðar, móðurbróður síns, sem þá var komin í Lauga. Hún lauk gagnfræðaprófi árið 1949 og stundaði síðan nám við húsmæðraskóla í Svíþjóð árið 1951 og vann svo um tíma í Skandinavíu. Inga lauk hjúkrunarnámi á Íslandi í mars árið 1958. Síðan starfaði hún næstu ár við hjúkrun víða, á mörgum sjúkrahúsum og stofnunum á landsbyggðinni og í Reykjavík. Hún vann sem hjúkrunarfræðingur – hjúkrunarkona eins og kollegar hennar nefndust þá – á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 1958 – 59. Þar á eftir fór hún á Akranes, til Vestmannaeyja og vann síðan á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og svo á Hvítabandinu frá 1962-64. Svo birtist Ágúst Eiríksson og þau gengu í hjónaband 20. júlí árið 1966. Ágúst var lagður inn á spítala vegna kviðslits. Inga var á næturvakt og Ágúst var þjáður og hún sá aumur á honum, gaf hönum pillu svo hann gæti hvílst og sofið. Ágúst var starsýnt á hjálparengilinn. Þegar hann var upprisinn fór hann í Klúbbinn og þar var engillinn mættur. Hann bauð henni í dans og þau dönsuðu síðan saman. Svefntafla varð upphafið að löngum og ástríkum hjúskap.

Inga var góður fagmaður í hjúkrun ávann sér virðingu samstarfsfólks í starfi. Henni var treyst og gjarnan kölluð til ábyrgðar. Henni var m.a. boðið yfirmannsstarf á  Heilsuverndarstöðinni en Ágúst hafði löngun til að fara austur fyrir fjall. Inga studdi alltaf sinn mann og fór með honum austur. Þau settust að í Biskupstungum. Það var ekki einfalt að kaupa heila garðyrkjustöð. Þau Inga voru stöndug og ábyrg í fjármálum og svo kom móðurbróðir Ingu þeim til hjálpar. Þau Ágúst ráku garðyrkjustöðina Teig í Laugarási í tuttugu og sjö ár, frá 1970-1997.

Inga vann í fyrstu við Heilsugæslustöðina í Laugarási sem þjónaði uppsveitum Árnessýslu. Hún ávann sér traust allra sem til hennar leituðu. Það veit ég af veru minni í Skálholti og ég hitti marga sem höfðu notið alúðar Ingu og umhyggju. Síðari árin vann Inga á sjúkrahúsinu á Selfossi. Þegar Inga bað einhvern um að vinna á næturvakt eða aukavakt var erfitt að neita bón hennar því hún byggtt upp traust í samskiptum. Þegar hún lauk störfum á Selfossi var haldið hóf á sjúkrahúsinu og allt samstarfsfólk hennar mætti.

Þau Inga og Ágúst tóku að sér fóstursoninn Þórhall Jón Jónsson (21. apríl 1967 – 13. apríl 2023) sem lést á síðasta ári. Allir sem kynntust Ingu og Ágústi dáðust að nærgætni og elsku sem þau veittu Þórhalli. Þökk sé þeim. Sonur Ágústs er Elvar Ingi. Guð geymi Ingu í eilífð sinni og styrki Ágúst og alla ástvini.

Útför Ingu var gerð frá Kapellunni í Fossvogi. Minningarorð fluttu m.a. Valdimar Helgason og Ásgeir Helgason. Duftker Ingu verður jarðsett í Gufuneskirkjugarði.