Greinasafn fyrir merki: stórfjölskylda

Óskar S. Gíslason – minningarorð

Óskar Gíslason2Óskar hafði áhuga á lífinu, studdi lífið sem honum var falið og stuðlaði að lífi. Hann hafði ekki aðeins áhuga á lífi fólks heldur líka lífinu í náttúrunni. Hann bar virðingu fyrir lífsundrinu og gerði það sem hann gat til að það líf sem að honum sneri mætti njóta næringar og verndar.

Útungun og líf

Óskar var líklega sautján ára gamall þegar hann var ábyrgur fyrir útungunarvél á Sólheimum í Grímsnesi. Í vélinni var fjöldi frjóvgaðra eggja sem lágu í ylnum. Lífið var í gerðinni og Óskar fylgdist vel með að hitinn væri jafn. En Óskar þurfti í skreppa til Reykjavíkur og þá bað hann fólk á Sólheimum að passa eggjaflokkinn og útungunarvélina. Svo fór hann, sinnti sínum erindum og kom svo austur aftur og vænti þess að smálífin í eggjunum væru heil innan skurnar. En Óskari til sorgar og skapraunar hafði eitthvað misfarist í vöktuninni. Eggin höfðu kólnað og lífið hafði fjarað út. Þá lauk bernsku Óskars og fullorðinslíf hans hófst. Hann ákvað að flytja frá Sólheimum. Hann fór suður, fór að vinna og leit hans hófst að samhengi, fólkinu hans og lífsláninu. Útungunarvélin og lítil egg voru sem táknmynd um lífssókn Óskars Svan Gíslasonar.

Upphaf og lífsstiklur

Það var heillandi að hlusta á sögur ástvina og sonarins Snorra. Ævi Óskars var aldrei nein sigling í logni. Upphaf hans var flókið, fyrstu árin reyndu á, hann bjó við fjölbreytilegar uppeldisaðstæður, missti tengslin við foreldra ungur og einnig flest systkini sín. En hann hafði döngun í sér og mátt af sjálfum sér að leita fólkið sitt uppi síðar. Svo tengdi hann þau saman, raðaði saman púslum fjöskyldu og eigin sjálfs og lifði merkilegu lífi og er kvaddur af mörgum sem þakka honum fyrir samskipti og stórfjölskyldu.

Það er brot af boðskap himinsins um að það sem var rofið og brotið skuli verða heilt. Óskar var lærisveinn Jesú Krists í því að leiða saman hin aðskildu, gera sitt til að hjálpa fólki að finna samhengi sitt og sátt.

Óskar fæddist að hausti, 22. september árið 1927. Móðir hans var Bjargey Hólmfríður Eyjólfsdóttir (1891-1990) og Gísli Jóhannes Jónsson (1891- 1984)

Systkini Óskars sammæðra eru: Dagný Hansen, Guðrún Soffía Hansen, Sigríður Tómasdóttir, Ásdís Ásgeirsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson og Elín Svanhildur Hólmfríður Jónsdóttir. Systkini Óskars samfeðra eru Kristjana Sigrún Gísladóttir, Steinunn Gísladóttir og Guðmundur Steinsson Gíslason. Þetta er stór hópur – tíu systkin.

Óskar var hjá móður sinni til þriggja ára aldurs. Það var fyrsti hluti bernskuskeiðs Óskars – fyrsti af þremur. Fjölskylda Óskars hafði splundrast, börnin dreifðust og í þessum fjölskylduraunum var Óskar svo lánssamur að fá vist á barnaheimili í Skerjafirði sem var kallað því fallega nafni Vorblómið. Þar réð ríkjum Þuríður Sigurðardóttir sem Óskar tengdist vel og kallaði ömmu sína. Vorblómið varð honum góður uppeldisstaður og þar var hann í skjóli, naut nándar, elsku og kennslu. Þegar hann hafði dvalið ein sjö ár sem ungi og blómstrað í þessu vorhreiðri í Skerjafirðinum urðu skil. Þuríður veiktist og dó síðan frá öllum barnahópnum. Enn á ný urðu skil í lífi Óskars. Hann fór ásamt hópi barna austur í Sólheima og þar tók Sesselja Sigmundsdóttir við þeim.

Þar með hófst þriðja bernskuskeið Óskars – annað sjö ára skeið. Á Sólheimum var meiri fjöldi en í Vorblóminu og Óskar lærði að spjara sig, fara eigin ferðir, bjarga sér sjálfur og móta stefnu sína. Hann lærði að unga út – og svo þegar ungarnir dóu í kassanum vissi Óskar að nú var komið nóg. Bernskunni væri lokið, lífið og velferðin væri á hans eigin ábyrgð. Hann tók sína stefnu. Sagan hans Óskars er eins og í þjóðsögu eða Grimmsævintýri. Óskar tók hann sitt og fór út í heiminn til að freista gæfunnar.

Atvinnusaga Óskars

Fullorðinsárin tóku við og það er merkilegt útungunarskeið í lífi Óskars. Óskar fór suður og síðan fljótlega á sjó. Sjómennskan varð meginatvinna hans síðan. Hann var á fiskibátum og einnig á varðskipum. Svo var Óskar á frökturum hjá Eimskip. Hann var á Selfossi og Dettifossi, sigldi um heiminn og skoðaði veröldina og lærði sín fræði með opnum augum og vökulum huga. Svo tók við þjónusta hjá Víkurskipum.

Óskari þótti sjómennskan góð og gaman á sjó. Og hann var – með vini sínum – jafnvel til í ferja skútuna Franz Terco frá Íslandi til Grænlands fyrir erlendan auðmann. Það varð reyndar mikil ævintýraferð í ágúst 1959 og alls ekki sjálfgefið að allt gengi áfallalaust. En á áfangastað komst fley og heilir farmenn. Óskar taldi sig gæfumann og kunni að þakka. Aðeins einu sinni varð hann fyrir alvarlegu slysi á sjó og féll ofan í tóma lest. Þá slasaðist hann talsvert en leit svo á að hann hafi verið heppinn, því bakið slapp!

Þegar Óskar kom svo í land varð hann vaktmaður og húsvörður í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og lauk vinnuferli sínum þar. En hann hafði síðan tíma fyrir fjölskyldu og vini.

Útungunarmeistari stórfjölskyldunnar

Þegar útungunarmeistarinn á Sólheimum fór suður sautján ára hafði hann misst af foreldrum og systkinum. Hann sótti ekki aðeins sjóinn heldur hóf aðra sókn einnig. Hann hafði ákveðið að leita að fólkinu sínu í mannhafinu, systkinum sem dreifst höfðu í ýmsar áttir. Og Óskar var fundvís og smátt og smátt fann hann allan hópinn. Jafnvel systurina, sem hafði farið ung til Noregs, sá hann einu sinni á götu, þekkti svip hennar og gaf sig fram. Og Óskar lét sér ekki nægja finna fólkið sitt heldur tengdi hann þau líka. Og það var eins og Óskari væri lagið að unga út nýju og nýju systkini inn í fjölskylduhópinn á hverju ári!

Það var heillandi að sitja og hlusta á kraftaverkasöguna um hvernig fjölskylda verður til úr ótengdum einstaklingum. Fólk sem ekki þekktist – en voru þó alsystkini eða hálfsystkini – voru leidd saman, tengd og ræktuð með hægð og lægni. Óskar hafði vakandi áhuga á fólki sínu, velferð þess, hugsunum og aðstæðum. Hann heimsótti þetta fólk, hélt þeim við efnið en án nokkurs eftirgangs.

Afkomendur

Óskar kynntist Guðlaugu Vigfúsdóttur og þau bjuggu saman í nær áratug. Þau eignuðust soninn Snorra. Áður hafði Guðlaug eignast Sonju Ósk Jónsdóttur. Þau Óskar og Guðlaug skildu.

Snorri á tvö börn. Með Mariu Luisu Uribe eignaðist hann Christian Snorra sem er hagfræðinemi í Svíþjóð. Guðlaug Alexandra er yngra barn Snorra. Móðir hennar er Blanca Estella Cruz G. Óskarson. Guðlaug Alexandra var síðasta mannveran sem Óskar sá í þessum heimi. Hann hafði sótt hana í Ísaksskóla og fór með hana heim og svo lauk lífi hans. En þessi unga sonardóttir hans gerði sér grein fyrir að eitthvað hafði komið fyrir afa hennar. Þrátt fyrir ungan aldur kunni hún númerið 112, fór í símann og tilkynnti lögreglunni um afa sinn. Dugnaður hennar er aðdáunarverður. En hún hefur misst mikið í nærfærnum afa. Guð geymi hana, bróður hennar, föður, alla ástvini og vini.

Eigindir

Hvernig manstu Óskar? Hvernig var hann og hvað getur þú lært af honum?

Manstu hve hve vinfastur hann var? Hve áhugasamur og ræktarsamur hann var við ástvini og aðra vini sína? Manstu að hann hringdi og talaði stutt og án óþarfra málalenginga? Svo kom hann gjarnan. Manstu hve félagslyndur hann var?

Manstu vinnusemi hans? Manstu lífsást hans? Hve Óskar var ötull ræktunarmaður, plantaði ungtrjám í mold og efndi til skógræktar til framtíðar? Hann hafði áhuga á lífinu í mannheimum og náttúru.

Manstu skákáhuga Óskars?

Manstu hve umtalsfrómur Óskar var, hvað hann talaði vel um allt og alla, hvernig góðmennskan skein úr augum og orðin báru vitni góðum ásetningi hans?

Manstu hve fróður hann var og hve vel hann nýtti sér þekkinguna til að móta eigin lífsvisku?

Hvort þótti Óskari betra að gefa eða þiggja? Óskari hentaði að vera veitull í lífinu.

Manstu eftir orðfæri Óskars? Manstu hve vanvirkur hann var og gætti orða sinna? Og hann ragnaði ekki eða bölvaði – hann var svo trúaður var skýring ástvinanna.

Manstu snyrtimennið Óskar og getuna til eldamennsku? Fékkstu einhvern tíma soðningu hjá honum?

Inn í eilífðina

En nú eru orðin skil. Óskar hafði trú á lífinu, þjónaði fólkinu sínu og nú fer hann inn í líf himinsins. Í bernsku var honum stefnt inn í flókin heim. Hann tapaði tengslum við fólkið sitt, fann það aftur, tengdi saman og ræktaði síðan eins vel og hann gat.

Nú er Óskari stefnt inn í þá veröld þar sem engin tengsl tapast, allt er bundið festum kærleikans og gleðinnar.

Hver var Jesús Kristur? Hann kom inn í heim til að tengja saman brotna stórfjölskyldu manna, færa fólk saman, sætta, næra kærleika og búa til frið í splundruðum heimi. Jesús Kristur var útungunarmeistari himinsins. Óskar var hans maður og nú kallar lausnarinn mikli á útungunarmeistaran á Sólheimum til starfa í Sólheimum himinsins. Þar kólna engar vélar og ekkert líf fer forgörðum.

Leyfðu Óskari að fara. Leyfðu minningunni um hann að lifa. Hann mun lifa glaður og tengdur í eilífð himsins.

Guð geymi þig og Guð geymi Óskar S. Gíslason um alla eilífð.

Amen.

Minningarorð við útför í Grafarvogskirkju föstudaginn 6. mars, kl. 15. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Grafarvogskirkju.