Greinasafn fyrir merki: Smári Guðlaugsson

Smári Guðlaugsson – minningarorð

„Að hlæja hefir sinn tíma, að harma hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma… “ segir Prédikarinn sem er viskubók í Gamla testamentinu og bætir við: „Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma.“ Já, við erum samverkamenn skaparans í gerningum lífsins. Trú í Biblíunni er nátengd lífi og því sem eflir. Helgirit Biblíunnar eru mettuð áherslu á fögnuð. Verið glöð er hvatning í bréfi gleðinnar, Fiippíbréfinu. „Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. … Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“

Smári Guðlaugsson er kvaddur í dag. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður sem var afar margt gefið til orðs og æðis, anda og handa. Hann notaði hæfni sína og gáfur í þágu fólksins síns, fjölskyldu og samfélags. Lof sé honum og þökk.

Upphaf og uppvöxtur

Smári var svo sannarlega Rangæingur en fæddist samt í Reykjavík. Hann var vormaður, fæddist bjartan júnídag – 8. júní – árið 1925 í þakherbergi í húsinu við Hverfisgötu 80. Foreldrarnir voru hjónin Guðlaugur Bjarnason (1889-1984) og Láretta Sigríður Sigurjónsdóttir (1894-1978).

Bernskuhús fjölskyldu Smára við Hverfisgötuna sneri að Vitatorgi og fjölskyldan bjó á efstu hæðinni. Í húsinu var margmenni og líklega var Karl O. Runólfsson, tónskáld og tónlistarfrömuður, sá kunnasti. En húsið er farið í hít tímans, það brann aldarfjórðungi eftir fæðingu Smára. Á lóðinni er síðan bílastæði og hægt að ganga frá Hverfisgötu inn í Kjörgarð og til Kormáks og Skjaldar.

Tveimur árum eftir að Smári kom í heiminn, árið 1927, flutti fjölskyldan austur í Hvolhrepp og að Giljum. Þar ráku þau, Guðlaugur og Lára og með börnum sínum, bú í liðlega hálfa öld. Samhliða búrekstri þjónaði heimilisfaðirinn fólki sem póstur í héraði. Hann fór í upphafi um á hestum en varð síðar bílstjóri. Guðlaugur var á ferð og flugi, sagði fréttir, flutti tíðindi og Giljaheimilið var sem í þjóðbraut. Þetta var samhengi og menningarstaða Smára.

Giljaheimilið var fjörmikið og fjölmennt. Smári var þriðji í röð átta systkina. Sigmar var elstur og fæddist 1922 (d. 1990). Þá kom Björgvin ári síðar þ.e. árið 1923 (d. 1998) og Bjarni 1926  (d. 2016) svo skammt var á milli. Á eftir Bjarna fæddust tveir drengir sitt hvort árið 1927 og 1928. En báðir dóu þeir samdægurs. Ég staldra alltaf við  fjölskylduyfirlit með láti ungbarna. Dauðsföll barna á fyrri tíð voru jafn mikið sorgarefni og lát ungbarna í dag. Hvernig og hvaða skuggar lögðust yfir heimilið þessa sorgardaga vitum við ekki en lífið hélt áfram. Svo kom Guðrún Fjóla í heiminn á Alþingisárinu 1930 (d. 2020). Síðastur var Guðmundur Kristvin og fæddist 1933. Nú er allur þessi fríði hópur kominn á lendur Gilna himinsins.

Smári var dugmikill, námfús og mikill efnismaður. Hann sótti skóla í heimabyggð og var hæstur. Hann var góður námsmaður, snöggur, skilvirkur og skynugur í námi sem öllu öðru.

Anna og Smári

Af myndum að dæma hefur Smári verið í útliti eins og Hollywood-stjarna. Anna Þorsteinsdóttir í Götu í Ásahreppi sá sjarmörinn, gæfumanninn, og heillaðist. Smári var líka búinn taka eftir Önnu. Þau höfðu jú hist í Reykjavík. Svo tóku sveitungarnir í Ásahreppi eftir að vegirnir í hreppnum voru að batna, voru afar vel heflaðir enda var Smári á vegheflinum. Hann gerði sér ferðir um Ásahreppsvegina til að fara til fundar heimasætunnar í Götu og gleðja hana. Það tókst og sveitungarnir þökkuðu fyrir tækin á vegum ástarinnar. Fyrir okkur sem munum vegheflana gömlu er það dásamlegt og kætandi að hugsa um þennan Clark Gable Vegagerðarinnar fara heflandi á stefnumót við Önnu í Götu. Mér finnst það rómantískt. Alla tíð síðan kunnu þau að hefla niður ágreining og slétta úr misfellum lífsins, leyfa ástinni að dafna og kyssast hrifin hvort af öðru.

Barnalán og fjölskyldan

Ástríkið bar ávexti. Þegar fyrsta barnið þeirra Önnu og Smára var komið í heiminn fóru foreldrarnir að huga að nafngjöf og skírn. Þau höfðu sam band við prestinn, sr. Arngrím Jónsson, sem þá var í Odda. Hann benti á og sannfærði þau um að best væri að þau byrjuðu á að ganga í hjónaband og skírðu svo – og það væri hægt að gera í sömu ferðinni. Smári fékk lánaðan nýlegan Willis jeppa (1946) föður síns fyrir ferðina til Odda.  Þau gengu í hjónaband þann 14. október 1950 og drengurinn var svo eftir að hafa sagt tvöfalt já við spurningum prests. Ómar Bjarki er því skilgetinn í kirkjubókinni – eins og klerkur vildi að hann yrði.

Börn Önnu og Smára eru þrjú. Auk Ómars Bjarka áttu þau Eddu Sjöfn árið 1955 og Guðrúnu Hrönn árið 1961. Fyrir átti Smári Rúnar árið 1947 með Helgu Runólfsdóttur, sem hann trúlofaðist árið 1946. Rúnar lést árið 2012.

Ómar Bjarki er jarðfræðingur og rekur eigið ráðgjafafyrirtæki. Kona hans er Katrina Downs-Rose (1958). Börn þeirra eru Anna Veronika (1986), sambýlismaður Patrik McKiernan (1983), Elvar Karl (1988), maki Natsha Bo Nandabhiwat (1986)  og Bríet Dögg (1992) unnusti Sigurgeir Ólafsson (1993).

Edda Sjöfn er sjúkraliði að mennt. Maður hennar er Erlendur Árni Hjálmarsson. Börn þeirra eru Björk (1974), Atli (1981) og Elfa (1992).

Guðrún Hrönn er menntaður leikskólakennari. Maður hennar var Hörður Þór Harðarson en hann lést árið 2018. Börn þeirra eru Andri, Sigrún Sif og Ívar.

Börn Rúnars eru: Marta Sigurlilja (1969), Einar Geir (1973) og Eygló (1987).

Barnabörnum Smára fjölgar mjög þessi árin og ættboginn stækkar ört. Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin 8. Börn Bjarkar og Karls Hólm (1968) eru Agnes Lára (1995) og Daníel Freyr  (1998) – og Atla og Evu Rósar (1984) eru Arnar Kári (2008), Sóley Kría (2010) og Vaka Rut (2016). Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er svo Eydís Þula (2021) sem fæddist þeim Elfu og Ólafi Hersi (1990) um miðjan október. Marta og Úlfur Ingi Jónsson (1969) eiga Ragnhildi Mörtu Lólítu (2010) og Einar Geir og Marzena Burkot eiga soninn Emil (2018).

Hjúskapurinn og fjölskyldumaðurinn

Hjúskapur Önnu og Smára varð liðlega sjö áratugir. Þau hófu búskap hjá systur og mági Smára á Hvolsvelli. Þegar þau höfðu byggt með miklum dugnaði húsið að Hvolsvegi 12 fluttu þau í það rétt fyrir jól árið 1953 – eða 20. desember. Þau jólin hafa verið gleðileg – á nýjum stað. Smári og Anna voru meðal frumbýlinga á Hvolsvelli. Aldarfjórðungi síðar, árið 1978, fluttu þau í Öldugerði 10. Þar bjuggu þau er þau fluttu fyrir ellefu árum í glænýja Mörkina, Suðurlandsbraut 58 í Reykjavík.

Ævivegur þeirra Önnu og Smára var góður. Anna var drottningin á heimilinu og þau Smári voru samhent. Smári sinnti sínum málum í bílskúrnum og svo fékk hann áhuga á trjárækt í garðinum en Anna sá um blómin og bæði um garðræktina. Það er vermandi að í kransinum á kistunni hans Smára er teinungur sem er kominn frá ösp sem Smári bjó líf á sínum tíma – reyndar afleggjari sem var kominn í Grafarvoginn. Það er fagurt að vefa þá grein í minningakransinn.

Smári var tilfinningamaður og viðkvæmur en bar ekki tilfinningar sínar á torg. Á síðari árum opnaði hann þó ýmsa glugga og börnin hans náðu að skyggnast lengra en áður og skilja föður sinn betur. Það er þakkarvert þegar svo fer. Smári var af gamla skólanum og hrósaði ekki óhóflega en á síðari árum tjáði hann skýrar hrifningu sína á börnum sínum, hve fjölskyldan væri honum dýrmæt og hve stoltur hann væri af þeim öllum. Smári var natinn við ungviðið, skemmti barnabörnunum og afkomendum, bygði með þeim snjóhús og kofa, kenndi þeim garðyrkju og hafði traktor til leikja í bílskúrnum. Smári vildi allt fyrir sitt fólk gera.

Dugmikill völundur

Vinnusaga Smára var litrík. Á unglingsárum vann Smári almenn sveitastörf og m.a. heima á Giljum að byggingu útihúsa. Hann var handlaginn, hafði verksvit og gekk í öll störf. Smári fékk svo starf í alls konar vegavinnu, m.a. við mokstur í vegagerð og snjómokstur með skóflu að vetri og jafnvel eldamennsku þegar ráðskonan forfallaðist! Hann fékk svo vinnu við smíðar hjá Ísleifi Sveinssyni. Svo fór hann útúr og til Reykjavíkur og var þrjú mikilvæg mótunarár að störfum hjá Ræsi við Skúlagötuna í Reykjavík, kynntist H. Ben.-fjölskyldunni og vann á verkstæðinu við réttingar og bílamálun. Smári varð þátttakandi í bíla-og vélavæðingu Íslands. Hann fór svo austur með mikilvæga þekkingu og reynslu. Hann orðaði það síðar að hann hefði séð hvernig verkin voru unnin við bílana og því vafðist aldrei fyrir honum síðar að taka vélar úr bílum, gera við þær og koma þeim fyrir að nýju. Fyrir austan starfaði Smári á bílaverkstæði Kaupfélags Rangæinga og síðar á varahlutalagernum. Þar var hann aðalmaðurinn lengi, alltaf á vaktinni og einu gilti hvort það var að nóttu eða degi, á venjulegum dögum eða frídögum. Smári var bóngóður, fór og fann til varahluti og bjargaði mörgum bændunum sem voru með biluð tól og tæki sem þurfti að laga strax. Svo var hann umhyggjusamur og þolinmóður yfirmaður og var því mikils metin af samverkamönnum og undirmönnum.

Bíla- og ferðamaðurinn

Hvernig manstu Smára? Manstu kátínu hans? Manstu hvað hann sagði og hve hæfur hann var að gleðja fólk með jákvæðni og gleðimálum? Manstu alla bílana hans sem hann ók? Hann fékk auðvitað að keyra bílana sem faðir hans réð yfir og notaði. Svo var hann svo klókur að gera samning við Guðmund Pálsson, eiganda Moskovits 1956, sem hann fékk að nota en gerði við í staðinn. En Smári gerði sér grein fyrir að það væri betra að kaupa bílskrjóð en gera gera við mót láni. Hann eignaðist á æfinni marga bíla, framan af Willysa, bæði stutta og station, og svo Bronco, tvær Cortinur, Volvo, Subaru og að síðustu Pajero sem hann ók liðlega 100.000 km á 20 árum. Hér hafa verið taldir upp þeir bílar sem talist gátu „heimilisbílar“, en þá eru ótaldir Dodge Weapon hertrukkar sem Smári keypti á uppboði hjá Sölunefnd Varnarliðseigna en á tímabili voru þrír slíkir á lóðinni við Hvolsveg 12. Þar tók sér bólfestu læða sem fannst einn daginn með þrjá dásamlega og vel olíusmurða kettlinga sem dvöldu á heimilinu í nokkrar vikur – öllum til mikillar ánægju. Þeirra var sárt saknað þegar þeir voru gefnir öðrum.

Smári tók þá ákvörðun í upphafi þessa árs að endurnýja ekki ökuskírteinið, en þegar líða tók á árið saknaði hann þess að hafa ekki lengur bílpróf.

Smári og Anna voru dugmiklir ferðamenn, fóru með börnin víða um land og Smári var kunnáttusamur vatnamaður, fór í bússurnar og óð svo vöðin með staf eða járnkarl og vissi svo hvernig mátti keyra. Það voru mörg vötnin sem hann krossaði og sum illfær. En Smári vissi hvaða vegi og leiðir hann gat farið.

Jafnvel mjólkin pólitísk

Í viðtali við Sunnlenska fréttablaðið sagði Smári að pólitíkin hefði náð inn í fjósin í sýslunni. Eins og í nágrannasýslunum var hart barist um hylli kjósenda, stefnu og atvinnumál. Um tíma var mjólkin jafnvel orðin pólitískt lituð. Sjálfstæðismenn sendu sína mjólk alla leið út í Hveragerði en framsóknarmennirnir út á Selfoss. Smári varð vitni að þessum stjórnmálalegu þrengingum og leið fyrir eins og aðrir. Hann þorði að hugsa gagnrýnið og forðaðist pólitíska nærsýni. Hann sýndi launafólki samstöðu og vildi hag allra sem bestan. Í Smára sáu sumir samferðamenn hans verkalýðsleiðtoga því hann benti á hið mikilvæga og réttláta –  „að verður er verkamaðurinn launa sinna“. Hann þorði að skoða málin og taldi sig ekki bundinn af óskrifuðum reglum eða pólitískum línum samfélagsins. Hann hafði jafnvel gaman af þegar barst út að hann ásamt „rafvirkjanum“ keypti Þjóðviljann sem þótti nánast guðlast í pólitískum búblum Hvolhrepps. En tilveran var Smára stærri en þröngir hagsmunir og hann stóð með réttlætinu.

Fróðleiksbrunnur og sagnamaðurinn

Smári fylgdist vel með þjóðmálum og aflaði sér margvíslegs fróðleiks. Hann varð því sagnabrunnur og mikilvægur heimildamaður um þróun byggða og sögu. Smári var öflugur ferðamaður og þekkti landið vel, örnefni, sögu byggðanna á Suðurlandi, tengsl fólks, hver var hvurs og hvað væri í frásögur færandi. Smári hafði auga fyrir hinu kímilega. Sérstakt áhugamál hans var rannsókn hálendisins. Hann fór með fjölskyldu sína og stundum með vöskum fjallamönnum í skoðunar- og rannsóknarferðir. Árbækur Ferðafélagsins og svo héraðsritið Goðasteinn skipuðu heiðurssess á heimili þeirra Smára og Önnu. Og svo má ekki gleyma að minna á að Smári var slyngur veiðimaður og dró björg í bú úr ám landsins, þó einkum Rangá og Fiská. Hafði sérstakt dálæti á þeirri síðarnefndu þar sem læðast þurfti þar að fiskum í hyljunum.

Mörkin – samhengi og lok

Vegir lífsins eru oft hringleiðir. Smári hóf upphaf sitt á Hverfisgötunni og hann lauk æfi sinni í Reykjavík. Þau Anna fluttu suður 2010 og í Mörk við Suðurlandsbraut. Þau höfðu alla búskapartíð unnað Mörkinni – Þórsmörk. En Mörkin syðra var þeim mikilvæg og góð um svo margt. Þar nutu þau nándar við börn og stórfjölskyldu og góðs stuðnings þeirra. Starfsfólki Markar er þakkað fyrir þeirra störf, einnig fjölþjóðlegu starfsfólki Vífilsstaða þar sem hann dvaldi um fimm mánaða skeið í bið eftir Mörkinni. Smári tiltók sérstaklega tvo „Rússa“ sem honum lynnti vel við. Og tungumál vöfðust aldrei fyrir Smára, því þó hann lærði ekki nema undirstöðu í dönsku og ensku í skóla, þá hafði hann einstakt lag á að gera sig skiljanlegan og skilja aðra, hvaða tunga sem töluð var. Smári hafði gaman af fjölmenninu, naut sín í samskiptum, var fljótur að tengja við fólk og var sem höfðingi í stórum hópi heimilisfólks. Smári lést 28. október síðastliðinn.

Inn í ljósheiminn

Og nú er hann farinn inn í Giljur eilífðar. Hann heflar ekki lengur vegi ástarinnar eða dregur út bökunarplöturnar úr ofninum fyrir Önnu sína. Hann reddar ekki neinum varahlut lengur eða laumar skemmtisögu að grönnum sínum. Hann syngur ekki Blueberry Hill eða Tondeleyó af innlifun framar, eða kennir barnabörnum sínum Þórsmerkurljóð eða les á mæla Vegagerðarinnar. Gleðilegar minningar lifa og gleðin lifir í tímalausum eilífðarfögnuði og söng. Guð geymi Smára og Guð efli ykkur á vegum lífsástarinnar. Nú er vormaðurinn horfinn inn í birtuna. Og hann er kominn til hennar Önnu sinnar, eins og hann lofaði henni látinni að myndi gera fljótlega, enda orðheldinn alla tíð!

Útför frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 18. nóv. Kl. 14. Undirleikari Antonía Hevesi. Söngur Guðmundur Karl Eiríksson og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir. Einkennismyndin er af Smára við veghefilinn góða sem búið er að gera upp.