Greinasafn fyrir merki: rússneskar bókmenntir

Bjartar nætur – þroskasaga Dostojevskí

„Pabbi, ég mæli með að þú lesir Bjartar nætur eftir Dostojevskí,“ sagði Ísak, sonur minn. Hann hafði verið að lesa bókina á kvöldin eftir göngudaga þeirra bræðra hátt í svissnesku Ölpunum – og hreifst. Það eru forréttindi að börnin manns rétta manni bækur til samtals. Ég var áður búinn að puða í Karamazov-bræðrunum sem er þroskaverk Dostojevskís og varð forvitinn um þetta æskuverk sem hann gaf út aðeins 27 ára.

Mér þótti margt forvitnilegt við Bjartar nætur, m.a. sögusvið Pétursborgar. Nærri hálf milljón manna bjó í borginni þegar sagan gerðist fyrir miðja 19. öld. Dostojevskí lýsir m.a. hvernig borgarbragurinn breyttist þegar fjöldi fólks fór í sumarhallirnar og sveitasetrin – dacha. Mér kom á óvart hve stór yfirstéttin var og að sumarfjörið hefði færst út í sveitirnar í kraganum umhverfis borgina. Mér þótti líka áhugavert að lesa um hvernig næmur og ungur maður glímdi við samskiptareglur og hvernig siðferðismótun ungra kvenna gat orðið í rússneskri borg í vexti. Bókin varð mér marglaga fræðslurit.

Sagan er þroskasaga og tímaramminn er aðeins fjórir sólarhringar. Söguhetjan er ungur maður sem glímir við einsemd, tengslaleysi en dreymir um djúptengsl. Hann gengur fram á snökktandi konu og síðan er sagt frá samskiptum þeirra og samtölum. Samfundirnir flétta saman strengi og þræði merkingar. Í sögunni er heimspekileg dýpt, guðfræðileg næmni og tilvistarleg nákvæmni sem er forsmekkur síðari sálarspegla Dostojevskís og rússneskra skáldsagna.

 Í guðfræðilegum skilningi má lesa söguna sem leit að ást sem er óháð yfirráðum eða eignarhaldi. Draumadrengurinn speglar tengslaþorsta – en hann elskar án þess að krefjast. Ást hans er handan allrar kröfu. Þetta er ekki saga um brostnar vonir heldur sálarsaga um að gildi djúprar reynslu jafnvel þótt hún vari stutt. Elskuhugsun kristninnar er jú að gjöf hafi gildi þótt hún sé ekki endurgoldin. Þegar stúlkan, Nastenka, velur elskhugann í stað söguhetjunnar bregst hann hann ekki við með sjálfhverfri reiði heldur þakklæti: „Blessuð sért þú fyrir þessi fjögur kvöld hamingju.“ Afstaðan er jákvæð en ekki neikvæð krafa. Þakklæti í sorg líknar og læknar.

Bjartar nætur á norðurslóð eru ekki bara sjónarspil heldur tákn um andlega vídd sem Dostojevskí orðar og nýtir. Sumarnætur eru honum trúarlegar, sýna ljós í myrkri einsemdar. Ljós í trúarhefð Biblíunnar opinberar, afhjúpar og stingur jafnvel. Draumajói Dostojevskís lifir í ljósinu og verður meðvitaður um eigin einangrun. Sagan verður n.k. helgiganga ungs manns á leið lífsvisku og þroska. Hann sér sig, hlutverk sitt og líf í nýju ljósi. Hann lærir að bregðast við eigin innri manni, öðru fólki og samskiptum með nærfærni og mildi. Ástaráfallið verður honum til þroska. Lífið er vegferð opinberunar.

Guðfræðilega má lesa Bjartar nætur sem dæmisögu um blessun, þetta sem kallað er náð á máli kristninnar. Í þessari sögu er náðin tengd hinu fínlega og birtist í samtölum, viðkvæmum samverustundum, mildi elskunnar, snertingu og reynslu augnablikanna. Boðskapur Dostjojevskís er að hið guðlega birtist fólki sem þorir að reyna og sjá. Jafnvel stuttir samfundir fólks sem glímir við lífsmálin geta orðið helgistundir sem veita þroska. Eilífðin birtist líka í augnablikunum.

Í anda rómantískra forvera eins og í sögu Goethes um Werter unga lifir sögupersónan í tilfinningauppnámi. En þroskasaga Dostojevskís lýkur ekki með sjálfsvígi heldur þroskaglímu við sorg og áfall. Sögur Dostojevskís fara alltaf á dýptina, líka þessi æskusaga hans. Hún á því enn erindi til fólks sem lætur sér ekki nægja skorthugsun efnishyggju eða einhæfni sjálfhverfunnar.

Takk Ísak – mögnuð saga – Dostó er djúpur.

Ég las ensku Penguin-útgáfuna sem heitir White Nights í þýðingu Ronald Meyer. Íslensk þýðing Arnórs Hannibalssonar, þess mæta og góða kennara míns, heitir í hans útgáfu Vornætur: Úr endurminningum draumóramanns og kom út árið 1998.