Greinasafn fyrir merki: prestakragi

Pípukragi

Pípukragar voru tískufatnaður valdastétta og embættismanna í Evrópu frá 16. til 17. aldar. Konur sem karlar notuðu kragana. Frá 1620 urðu pípukragar hluti af embættis- og messuklæðnaði presta í danska konungsríkinu. Danskir prestar nota enn kragana en norska kirkjan hætti notkun pípukraga árið 1980. Vinsældir pípukraga héldust lengst í Hollandi og norður-Evrópu. Svört hempa og pípukragi eru enn embættisklæðnaður íslenskra presta. Í köldum kirkjum á norðuslóð voru hempurnar skjólgóður fatnaður en henta síður í heitum kirkjuhúsum nútímans. Sumir þjóðkirkjuprestar nota hempu og pípukraga við kistulagningu og útför. Í stað hempunnar nota flestir prestar í messunum hvítlitaða ölbu undir messuskrúða í stað svörtu hempunnar og kraga. Í Samþykktum um innri mál þjóðkirkjunnar segir: „Einkennisklæðnaður presta þjóðkirkjunnar er svört, skósíð hempa ásamt pípukraga.“ Þess vegna eru prestar í hempunum við upphaf prestastefnu og við sérstaka kirkjulega viðburði. Og svo spyrja gárungarnir af hverju prestar séu fastir í tísku 17. aldar!

Myndin hér að ofan er af Peter Skov-Jakobsen sem er jafnan spaugsamur og kátur. Við vorum saman á kirkjufundi í Tallinn í Eistlandi. Kaupmannahafnarbiskupinn bar fyrir sig kragann þegar ég mundaði myndavélina í Karlskirkjunni. Hin myndin er úr skrúðhúsi Mosfellskirkju í Mosfellsdal skömmu fyrir útför. Prestur hempuklæddur og með pípukraga.