Greinasafn fyrir merki: Örn Jákup Dam Washington

Örn Jákup Dam Washington +++

Örn dró djúpt að sér andan, leyfði sjávarloftinu að leika um andlitið. Hann lygndi dreymandi augum aftur. Gekk svo mjúkum, fjaðurmögnuðum skrefum fram fjöruna, fann stein til ásetu. Varð að einni hlust, skyggndi sjóndeildarhringinn, leyfði smáöldunni að umlykja veru sína, flæða inn í líf sitt. Allt varð eitt, sjór og vitund, sál og sól, Örn í tíma en líka í eilífð.

Hlustaðu á hafið, opnaðu vitund þína, opnaðu fyrir hinu guðlega, opna fyrir öllu hinu góða. Hvar er Guð? Hvað er sandkornið á ströndinni þegar Guð er hafið? Hvað er aldan, þegar hún hún verður andleg og seitlar inn í sálina? Hvað er vitundin, þegar hún er umföðmuð af ómælisvíddum?

Lífstiklurnar

Örn Jákup Dam Washington fæddist í Reykjavík 13. maí 1980. Hann lést á heimili sínu aðfaranótt 19. júlí sl. Hann varð því aðeins 25 ára gamall. Foreldrar Arnars eru þau Birgitta Dam Lísudóttir og Ernest Washington. Systkini hans eru: Lísa Jensen, Hans Cristian Martinussen og Davíð Tryggvason. Móðurbróðir Arnar er Vestarr. Þessi hópur, makar og börn voru hans nærheimur. Þau voru umhyggjusöm, báru hann á höndum sér og voru honum skjól. Þau voru náin, strákarnir og frændi sem feður og Birgitta og Örn voru einn andi. Hún og þau öll hafa misst mikið.

Örn átti sér alla tíð frumstöð á Meistarvöllum. Þar bjó móðir hans frá því hún kom til baka úr Ameríkuferð þegar hann var nokkurra mánaða gamall. Síðan tók við hefðbundin Vesturbæjarsaga. Örn fór í Melaskóla og síðan í Hagaskóla. Hann sótti fræðslu hér í kirkjunni eins og önnur fermingarbörn og var síðan fermdur og tók sitt já alvarlega, í trúmálum og öðrum efnum líka, smáum málum og stórum.

Þegar Örn hafði lokið skólagöngu í Hagaskóla ákvað hann að skoða sig um í Verslunarskólanum, en hætti þar eftir nokkurn tíma og fór sína eigin menntaleið. Hann söng og puðaði, las og gerði tilraunir með líf og lífshætti, kynntist mörgu fólki, lærði af því og kynntist sjálfum sér æ betur. Örn vann hjá Sjófangi, var í símageiranum um tíma, og vann við vörukynningu í stórverslunum. Í tvö ár var hann við vinnu á Essó hér niður á Ægissíðu. Þar nutum við þúsundir Vesturbæinga lipurrar þjónustu hans. Stundum var Prins pólóið eða tímaritið komið í hendurnar á okkur áður en við gátum stunið upp, að við ætluðum að kaupa. Örn vissi alltaf meira en búast mátti við og var ekki að bíða, hann las hugsanir. Hann kom víða við, líka á Grund og líknaði hinum öldruðu. Hann var afskaplega umhyggjusamur og natinn og vildi gefa og þjóna.

Músíkmaðurinn

Maður, sem skynjar hrynjandi hafsins, hefur í sér músík. Allt frá frumbernsku hríslaðist tónlistin í Erni. Hann söng, lifði sig í ryþma, hafði breidd í músíkáhuga, hafði í sér sláttinn og fína rödd. En kannski skiptir ekki síst máli að vera innlifaður tónlist, hafa hana í blóðinu, hafa bæði skynjun og túlkun tengda við persónulífið til að tónlistin geti lifað. Harðræði er ekki eftirsóknarvert, en verður oft samhengi mikillar tónlistarinnlifunar. Örn átti um margt erfiða bernsku og var stöðugt í baráttu, en hann fann hlé og skjól í stórum faðmi tónlistar, í músíkinni en líka textunum. Hann fór snemma að syngja og margir gerðu sér grein fyrir talentum hans.

Hann lærði innlifaðan og kraftmikinn sálmasöng á Ástjörn og Örn var ekki hár í loftinu þegar hann söng einsöng hér í kirkjunni, söng frá hjartanu með sinni fallegu rödd og söng inn í sálir þeirra sem heyrðu og sáu. Þá varð undur eins og alltaf þegar tónlistin er rétt og meira en bara gigg eða skyldu-performance. Það er þegar tárin spretta fram úr augum vegna þess að eitthvað töfrandi og himneskt verður. Þannig söng Örn, hann söng einhverja himnnesku.

Svo fór hann að syngja með öðrum. Hann naut þess að fá að syngja í Platters-showi, sem Harold Burr stýrði á Broadway, líka í Motown-sýningu þar sem hann var með vinum sínum og Páll Óskar kynnti. Hann fór víða, söng meira segja sem fulltrúi Íslands í Berlín einu sinni. Svo bættist við tjáningin og í tengslum við kynhneigð hans. Örn tók svo þátt í dragsýningum með vinum sínum úr Samtökunum 78. Eitt árið varð hann drag-drottning Íslands.

Hann söng þegar honum leið vel. Það er gömul saga og ný, að enginn syngur óhamingjusamur. Þegar Örn var dapur hljóðnaði söngurinn, jafnvel marga daga. En svo kviknaði hann á ný, hafið kallaði, orkan kom, öldur af lögum og textum brotnuðu í fjörunni hans. Hann leyfði lögunum svo að fljúga og skilur eftir sig perlur, sem einhver mun nýta síðar.

Hver var hann?

Hvaða tengsl hafðir þú við Örn? Hver svo sem þau voru munu öll vera sammála um, að Örn var góður, hlýr, umhyggjusamur, velviljaður, viðkvæmur og elskulegur. En hvað var að baki fallegu augunum hans? Hvað stýrði fíngerðu höndunum hans? Hvaða hræringar börðust í brjósti og huga hans? Hann starði út í sjóndeildarhringinn, þegar hann var við hafið. Hann horfði upp í himininn á stjörnubjartri nóttinni og spurði um hinstu rök, leitaði að Guði, talaði við Guð. Spurningin um Guð er alltaf líka spurning um manninn og hlutverk hans. Örn var ekki í smælkinu, heldur spurði hinna mestu spurninga, rétt eins og sálmaskáld svonefndra Davíðssálma. “Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar er þú hefur skapað, hvað er þá maðurinn að þú minnist hans, mannsins barn að þú vitjir þess?” Hvað er maðurinn, hvað er Guð? Skiptir Guð sér af þér – mér?

Þegar stórt er spurt er ekki altaf ljóst hvernig á að taka litlu skrefin. Örn gerði tilraunir hratt og af ákefð. Hann lennti í ýmsu, hann prufaði ýmis efni, reykti gras og tók töflur, en hrökk til baka. Þar var ekki Guð, heldur langur skuggi hins illa. Hann fór í meðferð. Hann leitaði dýptanna í bæn, íhugun, spekibókum mannkyns í ýmsum hefðum og þar aflaði hans sér innsæis og visku. Tónlistin var honum sem mál englanna. Örn kynnti sér flest þau fræði, sem gátu orðið honum til andlegrar dýpkunar, Tarrot- og engla-spil, symbolkerfi af ýmsum gerðum, englafræði, talnaspeki, sjálfsvarnarlistir og litafræði. Svo hélt hann því, sem honum þótti til bóta og hafði líka gaman af ýmsu sem tengdist honum sjálfum. Skjaldarmerkið með dreka- eða þó heldur arnarverunum var honum það kært að hann notaði það sem logo. Örn og Ísland deildu því merki saman!

Örn var tilfinninganæmur, listrænn og gefandi. Hann var flottur kokkur og ef hann efndi til sushi-veislu var hátíð. Hann var í góðum tengslum við barnið í sér og var því barnagæla. Börnin í fjölskyldunni hafa mikið misst.

Örn var iðinn Biblíulesari. Hann hreifst af litríkustu og hljómmestu bókum Ritningarinnar. Jóhannesaropinberunin talaði til hans með öllu sínu brassi og heimsslitadrama. Og Örn flaug líka yfir lendur og vanga spádómabóka Gamla testamenntisins. Hann leitaði, leitaði að dýpri merkingu. Hann leitaði alltaf að hinu helga, hásæti Guðs. Það síðasta sem hann las í þessu lífi var í sextugasta og sjötta kafla spádómsbókar Jesaja:

“Svo segir Drottinn: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn? Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið segir Drottinn. Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.”

Fyrir liðlega tveimur árum varð Örn fyrir sterkri vitrun, sem opnaði fyrir honum annan heim og kannski dró hann með sér líka út úr þessum heimi. Hann hefur skriflega gert grein fyrir þessari reynslu og þeirri þróun sem fylgdi í kjölfarið. Það er merkileg lesning og allir, sem hafa kynnt sér dulræn fræði, þekkja íhugun, hafa lesið ljóðrænar lýsingar trúmanna um hina guðlegu nánd, guðlegu einingu og guðlegu leiðslu þekkja í orðum Arnar á hvaða ferð hann hefur verið og fyrir hverju hann hefur orðið. Fyrir tveimur árum hófst ferð hans út úr þessum heimi og inn í haf himins.

Þú ert hér í kirkjunni í dag til að kveðja Örn. Öll spyrjum við okkur þessarar sáru spurningar – af hverju? Af hverju fór hann svona ungur? Af hverju gat hann ekki lifað lengur? Af hverju tók hann af skarið og stytti sér aldur? Ákvörðunin var ekki tekin í skyndi, hann undirbjó brottför sína vendilega, gaf eigur sínar fátækum, kvaddi vini sína með elskusemi og bjó svo um að dauðinn kæmi sem kyrrlátast fyrir alla ástvini. Hann skildi eftir skilaboð og skýringar.

Það er högg þegar ungur og þroskaður maður fellur, sársaukinn er ógurlegur og sektarkenndin nagar. En virtu Örn þess að hann vildi ekki meira, hann hafði fengið nóg, hans leið í tíma var á enda, hann var á leið til Guðs.

Þegar hugurinn leitar og hvarflar fram og til baka sést næsta vel, að Örn var í lífi og veru tvenna. Hann var bæði hvítur og dökkur. Hann var bæði Ameríkani og Evrópubúi. Hann var af Afro-amerísku bergi brotinn en líka af Íslensk-færeysku-ensku. Hann var samkynhneigður í gagnkynstýrðu samfélagi. Hann var vel gefinn en átti í námsörðugleikum. Hann hafði átt marga mjög góða vini, en samt átti hann í sambúðarerfiðleikum. Hann var föðurlaus, en þó ávallt í leit að karlsjálfi og vildi verða faðir. Hann þráði festu, en bjó lengstum við talsverða óreiðu í hinu ytra. Hann þráði einfalda hamingju, en varð fyrir alls konar stórstjóum í lífinu. Hann var maður hinna andstæðu póla, náði að nýta sér þá vel í listrænni iðju en túlkaði æ skýrar, að köllunin væri trúarleg og handan átaka þessarar tímanlegu tilveru.

Þegar hann varð fyrir trúarvitruninni 1. maí 2003 slitnuðu sumar pólafestingar hans. Hann byrjaði að losna frá ýmsu því sem áður hafði hamið hann. Ekstatísk reynsla breytir persónum. Hann sá gullnar hendur af guðlegu tagi taka á móti sér. Maður í myrkri, sem sér fyrir sér munna að ljóssviði eilífðar gengur á ljósið. Við hörmum, syrgjum og grátum, en skýringarnar eru til og hliðstæðurnar eru þekktar.

Tíminnn var fullnaður, eilífin var að fæðast. Hendurnar fallegu tóku við, hugurinn hafði flogið á vængjum trúarinnar. Hann sá fram til hásætisins. Það, sem hann las, áður en hann dó. “Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. … Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið … Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.”

Hann skalf fyrir orðinu, skalf fyrir hinu guðlega, sá hásætið. Hann sá þig, okkur öll, fannst sárt að fara en hann hafði köllun. Erfðu það ekki við hann, leyfðu honum að fara. Þú ert hér, refsaðu þér ekki, þú gast ekkert gert. Álasaðu ekki, dæmdu ekki, og gerðu alls ekki það sem hann taldi sér nauðugt.

Máttur Guðs er stórum meiri en við skiljum, faðmur Guðs er stórum meiri en allir pólar mannlífs, skoðana, hugmynda og fordóma. Elska Guðs er meiri en gjafmildi manna skilur. Maðurinn er sandkornið á ströndinni, kærleikur Guðs hafið. Örn Jákúp Dam Washington er í því stórfangi, sem er alger friður, alger stilla, alger orka, fullkomin elska. Hann er ekki lengur á ströndinni heldur umlukinn öldum eilífðar.

Neskirkja, 29. júlí 2005.