Greinasafn fyrir merki: nostos

Heimþrá sálar – og málningarveður

Heimkoma og heimþrá hafa blundað í mér liðna daga og merkingarsvið hugtakanna orðið til íhugunar. Ég ætlaði reyndar að drífa mig út í morgun til að mála húsveggina heima en morgunskúrirnar hindruðu þann ásetning. Í mér var óþreyja og mér til sefunar rifjaði ég upp dýptaróþreyju Ágústínusar í Játningum hans, þessa heimþrá hjartans, til þess sem var, er og verður.

„Þú skapaðir okkur til þín og hjarta okkar er órótt þar til það finnur hvíld í þér.“

Það er gaman að skoða merkingu orða og grískan er okkur guðfræðingum bæði heimahagar og almenningur. Orðið nostalgía er samsett úr nostos – heimkoma – og algos – sársauki. Það er sársaukafull löngun eftir heimkynnum, þrá eftir því að komast aftur til einhvers sem var. Nostalgía varðar það sem við misstum, eitthvað sem við skynjum í fjarska.

En trúarþrá er annað og meira en einföld heimþrá sálar. Hún er ekki nostalgía vegna fortíðar. Hún er líka framtíðartengd von. Hún er elpis – sú von sem væntir hins góða, t.d. lausnar, réttlætis, endurfunda og friðar. Hún býr í djúpum þess sem trúir að til sé sannleikur sem lýsir, kærleikur sem læknar og Guð sem kallar heim. Trú, von og kærleikur – πίστις, ἐλπίς, ἀγάπη – 1Kor 13:13.

Trúarþráin er líka tilvistarþrá – þörf fyrir samhengi, tilgang og tengsl við það sem er meira en sjálf og heimur. Hún er ekki aðeins hugsun heldur jafnvel fremur hungur eftir því sem sefar, nærir og mótar lífið. Hún birtist sem óþreyja í sálardjúpum og kemur fram í von og vilja að veröldin hafi merkingu. Hún væntir heilinda þrátt fyrir brotinn heim, bölvun ofbeldis og hryllings manna. Hún bregst við tómhyggju og uppgjöf, líka hlutasókn í neysluæði og skeytingarleysi manna. Hún leitar lausna, réttláts friðar og sáttar. Og gleðidansins líka!

Trúarþráin virðist bæði nostos – heimþrá en líka elpis – von. Trúin snýr bæði aftur og fram, hefur rætur til fortíðar en opnar þó til framtíðar. Á blautum degi er skemmtilegt að vitja grískra hugtaka en vænta þurrksins samt. Já, dagurinn er opinn og lífið líka – og ég trúi að það sé þrungið merkingu, fegurð og tilhlökkunarefnum. Ég dansa “vonandi” með pensla og rúllur við húsveggi í dag og gleðst svo með mínu fólki í kvöld – og ævi mig þar með í himnaríkisvistinni.

  1. júlí 2025.

 

Nostos og heimkoma – Odysseifskviða

„Hver vegur að heiman er vegur heim“ orkti Snorri Hjartarson og Magnús Eiríksson notaði síðar í söngtexta. Hvernig er ferðalag okkar manna og hvernig endar það? Er einhver tilgangur?

Heimleið og heimkoma er magnað stef í sagnasveig heimsins. Í forngrískum bókmenntum er hugtakið nostos – νόστος – eitt þeirra og fangar og varðar bæði líkamlega og andlega þrá heimkomunnar. Í Ódysseifskviðu Hómers er nostos meginþema. Ódysseifur, konungur Íþöku, barðist í tíu ár eftir fall Tróju við óvini, goðmögn, sjálfan sig og örlögin. En markmið hans var alltaf að komast heim. En nostos merkir meira en að snúa aftur í hús eða til staðar eða í hóp blóðskyldra ættmenna. Það tjáir djúpstæða löngun að verða heill – og verða að nýju persóna og þátttakandi í lífgefandi samhengi sem skilur mann. Þar er heima og þar á maður heima.

Á ferðalagi Ódysseifs er heimkoma tákn um endurheimt sjálfsins, skyldur við fjölskyldu og vilja mannsins gagnvart örlögum og yfirnáttúrulegum öflum. Nostos er samtvinnun þrautseigju hetjunnar og þroskasögu sjálfsins. En sá eða sú sem snýr heim er þó ekki sama mannveran og í upphafi. Heimkoma er ekki að falla í þekkt fang. Söguhetjur snúa heim frá lífsreynslu með nýjan skilning og nýja nálgun. Þroskareynsla stækkar þau sem vinna með reynslu sína og gefur nýja sýn á aðstæður, fólk, sjálf og heim. Lífið er því ekki hringferð heldur fremur í mynd þroskaspírals (eins og túlkunarfræðingarnir, s.s.Gadamer, hafa kennt).

Gömul grísk viska um nostos varðar líf okkar í nútíma. Viska er jú tímalaus og klassísk. Hvernig er hægt komast heim til sjálfs sín eftir kulnun, úr tölvufíkn netheima, úr depurð eða sjálfsskaða, eftir veikindi eða djúpa sorg og til líkama, fjölskyldu, trúar, náttúru og lífsfyllingar? Sterk náttúrulifun fólks opnar oft og vekur tilfinningu fyrir að vera kominn heim. Ganga á öræfaslóð getur orðið leið að dýptum sjálfsins.

Saga Ódysseifs og okkar flestra er nostos-ferð mæralifunar. Lífsreynsla, sem unnið er með, er mærareynsla okkar á innri hetjuferð lífsins. Setningu Snorra má túlka sem þroskaverkefni okkar allra, hetjureisu sálarinnar og dýptarkönnun lífsreisunnar. Innri og dýpri köllun okkar er að fara alla leiðina heim. Á mannamáli er það að ná sátt í lífinu – vera heima í málum hamingjunnar. Á máli trúarinnar er það að auki að lifa í guðstengslum.

Nostrum við sjálfið og lífsreynslu okkar.

Morguníhugun 30. júlí 2025 um nostos – ferðalagið í Ódysseifskviðu.