Greinasafn fyrir merki: mótmæli í Teheran

Vatnsskortur í Íran

Uppþot eru í Íran þessa dagana, mótmæli. Stjórnvöld hafa drepið mörg hundruð manns. Reiðin kraumar vegna alls konar kreppuvalda, verðbólgu, atvinnuleysis, harkalegs dómskerfis og gamaldags trúarreglna. Ein af mörgum ástæðum mótmæla er vatnskreppa í landinu. 

Vatnsskorturinn er meiri nú en verið hefur í marga áratugi. Í venjulegu árferði falla um 350 mm af vatni á ári á Teheransvæðinu en á liðnu ári féll 1 mm allt árið. Ástæður vatnsskorts eru langvarandi þurrkar, hitabylgjur og óhófleg notkun grunnvatns. Ráðum vísindamanna hefur ekki verið hlýtt og vatnstjórn hefur verið slæm. Í Teheran hefur vatnsþrýstingur verið lækkaður á kvöldin til að minnka vatnsnoktun og í sumum hverfum hefur verið langvarandi vatnsleysi. Nokkur miðlunarlón borgarinnar eru tóm og önnur við hættumörk. Forsetinn hefur varað við skömmtun og jafnvel hótað rýmingu borgarinnar. Aðrar borgir í Íran eru þó ekki færar um að taka á móti milljónum vatnsflóttamanna.

Vatn er lífsnauðsyn. Landbúnaður þarf mikið vatn. Raforka í Íran kemur að mestu frá vatnsaflsstöðvum. Vatnsskorturinn hefur magnað verðbólgu og atvinnuleysi hefur aukist sem og orkuskortur. Vantraust gagnvart stjórnvöldum hefur aukist og vatnskreppan er orðin hápólitísk. Vtnsskortur bætist ofan á rafmagnsskort, gastruflanir og efnahagsþrengingar.

Sumarið 2021 brutust út mótmæli í suðvesturhluta landsins vegna vatnsskorts og þurrka. Slík mótmæli eru oftast staðbundin í upphafi en hafa síðan leitt til víðtækari mótspyrnu þegar ríkið hefur svarað seint og af hörku.

Nú er vatnsskortur í Íran orðin birtingarmynd stjórnarvanda. Í vatnsleysinu hefur bál mótmæla kviknað og logar glatt. Brátt munu logarnir teygja sig í skikkjur klerkastjórnarinnar.

Myndina tók ég í hellirigningu í Róm í kyrruviku 2025.