Greinasafn fyrir merki: morgunbæn

… og allar deilur hætta

Einu sinni sat lærimeistari með nemahóp hjá sér og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Það er þegar nógu bjart er til að greina milli ólífutrés og fíkjutrés.“

Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki þau réttu. Svarið er: Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Shimon Perez, einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum Ísraelsríkis frá upphafi sagði þessa sögu á leiðtogafundi í Davos. Sagan er úr gyðinglegri spekihefð og er reyndar til í ýmsum útgáfum, merkileg saga margsögð meðal fólks af þjóð sem hefur verið ofsótt og drepið fyrir það eitt að vera af gyðinglegum kynþætti. Viskusaga úr ófsóknarhefð, saga um líf gegn dauða, viska gegn heimsku. Hvernig á að bregðast við vonskunni og illsku?

Nótt lýkur og dagur hefst þegar við sjáum ókunnan mann verða að systur eða bróður og deilur hætta. Það er hægt að nota allar stundir sólarhringsins til að gera fólk að óvinum. Glæpamenn reyna að magna ófrið milli fólks, milli menningarhópa, milli vestrænna þjóða sem kristni hefur mótað og þjóða sem Islam hefur mótað og milli trúarhópa. Þegar tekst að gera komumenn að óvinum dimmir í heimi. En þá fyrst dagar þegar fólk sér hvert í öðru manneskjur en ekki hugsanlega óvini.

Aðventan er hafin og við undirbúum komu jólanna. Og þau eru friðarhátíð. Eðli trúarinnar varðar friðarræktun. Það er óhugsandi kristnum trúmönnum að réttlæta manndráp og stríð með skírskotun til kristinnar trúar, trúar á elskuríkan Guð.

Nýtum aðventu til að skoða fólk með jákvæðum hætti. Við erum kölluð til ljóss, til bjartsýnnar trúar og friðariðju gegn öllu myrkri. Við getum með afstöðu okkar, orðum og gerðum lagt til réttsýni í rökkri dagrenningar.

 

Hvernig sér Guð þig og fólk? Hvað viltu sjá, rökkur eða ljós, myrkaverur eða ljóssins börn? Ljósið kemur. Hvenær endar nóttin  – og hvenær dagar?