Greinasafn fyrir merki: Mallorca

Palma er í plús

Íslendingar tala um Majorkaveður og flestir skilja að það er gott veður. Frá 1958 fóru Íslendingar í sólarlandaferðir til „Mallorca.“ Veðrið var lofað, ódýrt vín líka og líflegt strandlíf. En er það allt og sumt? Eru íbúar eyjarinnar ódýrt vinnuafl í þjónustu sólarþyrstra N-evrópubúa? Við, fjölskyldan, höfum farið í sólarferðir til Florída, Kanarí, meginlands Spánar, í Eyjahafið gríska og til Portúgal og Ítalíu en aldrei til Majorku. En svo opnaðist möguleiki. Elín Sigrún, kona mín, fann fallega íbúð í Palma sem eigandinn vildi gjarnan lána okkur. Svo við slógum til og fórum í viku.  

Við vorum heppin. Íbúðin var í hjarta gömlu Palma, rétt hjá Chopin-torginu og við Nikulásarkirkjuna við Mercat-torg. Í þessum borgarhluta er engin bílaumferð. Göturnar eru þröngar og skýla vel gegn brennandi sólarhitanum í ágúst. Borgin er svo miklu ríkulegri en mig óraði fyrir. Sagan er þykk og fjölbreytileg enda Palma siglingaborg frá því í fornöld og stjórnsýslumiðstöð stórrar eyjar með tengsl við nærliggjandi stórveldi. Márarnir byggðu glæsilegar byggingar á miðöldum og þegar þeir misstu völdin var byggt áfram í stórveldisstíl. Þessar byggingar eru áhugverðar og skemmtilegt og lærdómsríkt að skoða. Baðstrendur eru nálægar og fljótlegt að ganga eða hjóla frá bænum á ljómandi strendur með góðri þjónustu. Sigling með fallegri og klettóttri strönd flóans er meðmælanleg. Við fórum eins slíka ferð á katamaran og nutum veislu um borð og syntum í sjónum. 

Majorka tengist íslenskri sögu fyrri alda. Þegar leysingjar „Tyrkjaránsins“ komu úr barbaríinu í Norður-Afríku voru þeir sendir til Palma á leið til Kaupmannahafnar. Ég hugsaði því um Guðríði Símonardóttur, konu Hallgríms Péturssonar, þegar ég gekk um hafnarsvæðið (og ég mæli með hinni frábæru reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur). Glæsilegar byggingar hafa verið á Majorku um aldir og allt til þessara daga hefur verið bætt við. Nýja ráðstefnuhöllin er eins og Harpan í Reykjavík – mikið mannvirki. Kirkjurnar eru stórkostlegar og stutt á milli þeirra. Skoðunarferðatemun geta verið ólík og mörg. Palma verður seint fullkönnuð. 

Ég heillaðist af íbúðinni okkar. Hún er lokuð út mót götum og veröldinni en skipulögð í kringum ljóskjarna sem veitir birtu í öll herbergi. Húsagerðin þjónar því að halda hita úti á sumrin og hita inni á vetrum en tryggja ljósflæði um allt. Í hjarta Palma fara allir ferða sinna fótgangandi. Því er kyrrð í borgarhlutanum. Stutt er í allar verslanir og stórmarkaðir eru nærri. 

Palma var svo miklu ríkulegri en mig hafði órað fyrir. Þjónustan við okkur aðkomufólkið var slök og óáreitin, byggði á gömlum merg. Veitingahúsin eru mörg, alls konar, ekki aðeins í miðborginni heldur á Granda – hafnarsvæði – þeirra Palmabúa líka. Eldamennskan mjög góð og víða heillandi. Palma hefur flest sem ferðafólk við Miðjarðarhaf óskar eftir. Listalífið er fjölbreytilegt og hvergi í heiminum hef ég séð eins mikið af góðum listagalleríum á litlu svæði og í Palma – og hef ég farið víða. Áhugaverðar sérverslanir eru ótrúlega margar og staðfesta þykka og söguríka menningu. Palma er snyrtileg, vel skipulögð hafnar-, ferðamanna- og menningar-borg. Hún er litrík, glaðvær, slök, vellíðandi, glæsileg og elskuleg. Palma er ekki bara borg hins góða veðurs heldur borg gæða á svo mörgum sviðum. Alicante er fín, Valencia og Kanarí líka en Palma er betri. Við vorum öll sammála um að Palma var mun ríkulegri en við áttum von á. Okkur leið vel í hjarta Palma – gömlu borginni – og við viljum gjarnan koma aftur og dvelja þá í sama hjarta Palma – gönguhlutanum fremur en á hótelasvæðinu. Palma er í algerum plús. Takk Púma og takk Palma . 

Myndir okkar frá Palma eru á slóðinni að baki þessari smellu.