Greinasafn fyrir merki: Magnús Jónasson

+ Magnús Jónasson + minningarorð

Æfi Magnúsar Jónassonar var ævintýraleg. Ég hlustaði á dætur hans segja litríkar sögur um hann og svo hlustaði ég á Magnús sjálfan í tveimur Laufskálaviðtölum. Og ég var snortinn af mannkostum hans og getu.

Og við byrjum á minningum um stríð. Nú eru eitt hundrað ár frá lokum fyrri heimstyrjaldar. Og við hugsum um friðinn. Á minningarsamverum um allan heim hefur liðna daga verið rætt um mikilvægi þess að rækta frið í ótryggri veröld. Magnús ólst upp við ysta haf – og þar var friður æsku hans rofinn af heimsstyrjöld. Líkum skolaði upp í fjörur. Tundurduflin, sem ekki sprungu við kletta, rak upp í fjörur í Barðsvík, í Bolungarvík og flestar víkur og firði sýslunnar. Og svo gengu Magnús og unglingarnir fjörur. Líkum var bjargað og þau voru jarðsett. Dunkar og ílát með matvöru eða nýtanlegum efnum var bjargað og timbur og ýmis gæði voru flutt heim. Svo voru duflin skoðuð og stundum var jafnvel stutt milli lífs og dauða. Magnús sagði sögu af sprengingu tundurdufls og þótti kraftaverk að maður sem var nærri hefði lifað. Magnús var þá á bak við stóran stein ásamt félaga sínum. Þeir sluppu og varð ekki meint af, en þeir urðu að bregðast fljótt við til að koma hinum slasaða til hjálpar og í Djúpbátinn til flutnings á sjúkrahús. Og friðurinn var oft rofinn af reiðarslögum stríðstólanna. Magnús var einu sinni á Straumnesi, heyrði vel skothríð fallsbyssanna í sjóorustu. Hann sagðist hafa fundið vel hvernig loftið gekk í bylgjum. Til hvers stríð? Eyðilegging, mannslífum fórnað. Magnús var alla tíð maður friðarins, gekk erinda hins góða, vildi öllum vel og lagði sitt til að allir fengju notið sín. Hann var ábyrgur fjöskyldufaðir, eiginmaður, skipstjórnarmaður, samborgari og vinur. „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“ sagði Jesús. Magnús átti þann frið. Hann er farinn inn í frið frið himinsins.

Uppruni og fjölskylda

Magnús Jónasson fæddist 28. september árið 1929 í Bolungarvík á Ströndum. Foreldrar hans voru hjónin Hansína Anna Bæringsdóttir og Guðbjartur Jónas Finnbogason. Þau voru ábúendur í Bolungarvík. Systkinin voru samtals sex. Hin eru Bergmundur, Ingunn, Kristján, Finnbogi og Svanhildur. Af þeim lifa Svanhildur og Finnbogi en hann hafði samband við mig og bað fyrir kveðjur sínar og fjölskyldu sinnar til þessa safnaðar því hann getur ekki verið með okkur í dag. Þráinn Arthursson biður einnig fyrir sínar kveðjur og sinna. Það sama gildir um Sigríði Valdimarsdóttir sem biður fyrir kveðjur sínar og fjölskyldu hennar.

Magnús ólst upp hjá sínu fólki í Bolungarvík og naut skólagöngu í farskóla sýslunnar. Hann sótti skóla m.a. í Reykjarfirði, Furufirði og heima í Bolungarvík. Magnús talaði alla tíð vel um uppeldisstöðvar sínar, naut frelsis, glímunnar við krafta náttúrunnar, stæltist og lærði eigin mörk og annarra. Hann sagði, að hann hefði fengið gott uppeldi. Heimili Magnúsar var gjöfult og í víkinni voru yfirleitt yfir tíu manns og höfðu lifibrauð af landi og sjó. Auk búsmalans hafði fjölskyldan gagn af hlunnindum. Þau voru m.a. selveiði, æðarvarp, svartfugl og egg. Magnús lærði að fara í björgin og varð sigmaður, sprangaði í klettunum og lærði að tína svartfuglseggin og koma þeim fyrir í neti sínu án þess að þau brotnuðu. Og Bolungarvíkurbörnin lærðu að nýta sér sjávarfangið. Magnús lærði að sjósetja bát og lenda. Farið var á handfæri og jafnvel lögð lína. Þorskur var saltaður og ýsan hert.

Svo þegar Magnús komst á legg fór hann að vinna í Ingólfsfirði og síðan á síldarbát, jafnvel þótt stríð geisaði í veröldinni. Hann stundaði síðan sjómennsku víða, fyrir norðan, vestan og sunnan. Og varð kunnáttusamur í flestum greinum útgerðar. Fjölskylda Magnúsar hætti svo búskap í Bolungarvík á Ströndum í lok fimmta áratugarins og fluttist yfir í Djúp – í hina Bolungarvíkina.

Magnús var 10 vetur togarasjóðmaður, á Karlsefninu og Narfa. Hann lenti í ýmsum stórmálum, m.a. í strandi nærri St. Johns í Nýfundalandi. Svo þekkti Magnús allar fisklöndunarhafnir sem Íslendingar sigldu á í Englandi og Þýskalandi. Magnús aflaði sér ekki aðeins þekkingar á öllum greinum útgerðar á Íslandi heldur líka stýrimanns- og skipstjórnarréttinda.

Svo var Magnús sjálfur útgerðarmaður, liðlega tvítugur. Hann keypti með tveimur bræðum sínum og frænda trébátinn Ölver gamla, sem var frægt skip, m.a. fyrir að hafa ekki farið niður í  Halaveðrinu alræmda. Það var heillandi að hlusta á Magnús segja frá hvernig þeir lentu bát og hvernig hægt var að draga stórt skip upp á kamb með spili og góðu verksviti. Svo þegar Sædísin var keypt hófu þeir rækjuveiðar yfir vetrartímann. Magnúsi þótti það góðurveiðiskapur og kunni að meta að hann gat verið verið heima hjá fjölskyldunni um nætursakir og um helgar. „Albesti veiðiskapur sem ég stundaði“ – sagði hann síðar.Síðar var Bryndís keypt, listasjóskip sem ekki átt sinn líka, áleit Magnús. Og útgerðin gekk vel.

Helga, börn og búseta

Svo var það ástin og hjúskapurinn. Magnús var þroskaður maður þegar þau Helga Sigurðardóttir urðu hjón 6. október 1969. Hún var hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Þau eignuðust fjögur börn. Sigurður Bjarni er elstur, fæddist í febrúar árið 1969. Hann býr í Noregi og sambýliskna hans er Geetha Sollie. Sigurður Bjarni eignaðist son árið 1995, Bjarna Magnús með Guðrúnu Hafdísi Hlöðversdóttur. Guðbjartur Jónas, annar sonur Magnúsar og Helgu, fæddist í júlí árið 1970. Gróa Guðrún fæddist svo í apríl árið 1972. Og Magnína er desemberkona og fæddist árið 1978.

Helga og Magnús byrjuðu hjúaskap sinn í Hafnarfirði og áttu svo heima í Reykjavík en fluttu í Bolungarvík við Djúp árið 1974. Magnús stundaði sjóinn og gekk vel. Og börnin þeirra uxu úr grasi og þegar Magnús seldi frá sér skip og hætti á sjó var sjálfgefið að verunni í Bolungarvík væri lokið. Hann var síðar spurður hvort hann langaði vestur. Mér þótti merkilegt að hlusta á svör hans. Honum líkaði veran við Djúp, en sagði að þegar afli og kvóti væru farnir og atvinnulífið væri höktandi væri ekki eftirsóknarvert að búa þar lengur. Það væri hægt að kaupa ódýrt húsnæði, en fólk yrði að hafa vinnu. Í þessu sem öðru var Magnús yfirvegaður og óhræddur.

Magnúsi leið vel í Grafarvoginum. Um tíma voru þau Helga í Laufrima en síðan í Dofraborgum 34. Magnús dittaði að húsinu sínu, gekk um í borginni, naut útsýnis og svo þegar hann var búinn að klára allt, sem gera þurfti, leitaði hugur út í sveit að nýju. Maðurinn, sem hafði alist upp við hið ysta haf, leitaði í dreifbýlið. Þau Helga keyptu stóran landskika í Melasveit og áttu m.a.s. land að sjó. Magnúsi þótti gott að gleðjast yfir öldubroti í fjöru og geta náð í fisk í soðið.

Minningarnar

Og nú eru skil. Hvernig manstu Magnús Jónasson? Manstu vinnusemi hans og dugnað? Manstu hve skemmtilegur sögumaður hann var? Sagnagleðin var óhvikul, getan til að segja góða sögu öguð. Og málgetan skýr og málfarið blæbrigðaríkt og fagurt. Það er merkilegt að hlusta á útvarpsviðtölin við hann og heyra hve umtalsfrómur hann var. Hann hafði auga og eyra fyrir hinu kúnstuga og kostulega en alltaf lagði hann vel til fólks. Engan vildi hann særa eða meiða.

Manstu snyrtimennið Magnús og að hann vandaði allt í umhverfi sínu? Manstu hve vel hann var heima? Já, hann las dagblöðin, heyrði vel það sem sagt var í fréttum, lagði sjálfstætt mat á og kunni að greina. Hann hafði góða eðlisgreind og nýtti hana í vinnu, í samskiptum, á heimili og lagði alls staðar hjartahlýju og umhyggju með. Hann gekk í öll verk, var dugmikill og stefnufastur. Hann var góður kokkur enda hafði hann stundað nám í húsmæðraskóla! Sunnudagslærið hans og helgarmaturinn var hreinasta afbragð – og brúnuðu kartöflurnar hans og sósan meðfylgjandi. Hann hafði notið góðra móturnar heima og rabbarbarahnaus í Bolungarvík á Ströndum var fluttur í Bolungarvík við Djúp og jafnvel suður. Magnús kunni ekki bara á ræktun heldur líka að sjóða sultu sem var notuð með helgarlærinu.

Manstu hve vel læs hann var á bækur, menn og málefni? Og vissir þú að hann var afar biblíufróður og las vegna áhuga á efninu? Hann var eins og margir sjómenn vel tengdur við sinn innri mann og Guð.

Og manstu ferðamanninn Magnús? Hann fór ekki aðeins á sjó við Íslandsstrendur eða sigldi á Cuxhaven. Hann og Helga fóru víða, sigldu um karabíska hafið, fóru td fjórum sinnum til Mexikó, líka til Kúbu, Bandaríkjanna og til Kanada. Svo óku þau um Ísland og voru sátt við sitt nýja líf fyrir sunnan og á ferðum um heiminn.

Manstu, að sjómaðurinn Magnús var aldrei laus við sjóveiki? Hann var ekkert að fegra sjálfan sig og talaði einlæglega og hispurslaust um kosti sína og stöðu. Manstu hve natinn Magnús var við sitt fólk þegar hann var í landi? Manstu vinsemd og gæsku í garð manna og dýra? Manstu hve veðurglöggur hann var og hve vel hann las í spár og blikur? Manstu að honum þóttu góðir selshreyfar?!

Inn í himininn

Og nú er hann farinn í sjóferð eilífðar. Hann hangir ekki lengur í línu, lítill eldhugi utan í stóru bjargi. Hann dregur aldrei fisk úr sjó framar, spáir ekki í blikur og öldu. Hann stingur aldrei góðmeti í ofn framar eða skýst til útlanda. Og enga matreiðsluþætti horfir hann framar á. Hann fer ekki norður í Bolungarvík á Ströndum til að ná í reka eða nýta hlunnindi landsins. Og hann horfir ekki framar með ástaraugum á fólkið sitt.

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“ sagði Jesús Kristur (Jh 14.27). Magnús býr í friði himinsins og Guð umvefji ykkur, fjölskyldu og ástvini, með þeim friði sem ekkert rýfur og engin stríð megna að spilla. Guð geymi Magnús í eilífð sinni og blessi þig.

Amen.

Minningarorð. Grafarvogskirkja 16. nóvember 2018 kl. 13. Kistulagt sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Grafarvogskirkju eftir útför. Schola cantorum og Björn Steinar Sólbergsson. Útfararstofa kirkjugarðanna.