Greinasafn fyrir merki: Magnús Heimir Gíslason

Magnús Heimir Gíslason

 Hann gerði sér grein fyrir takmörkunum mannsins og að allt er forgengilegt. En tónlist, frumform, litundur í náttúrunni og þrá í sálardjúpum er hvísl um lífið, sem er handan þessa. Minningarathöfn um Magnús H. Gíslason var gerð frá Neskirkju 15. mars 2006.

Bíldudalskrossinn

Lítill kútur vestur á Bíldudal sá kross á kirkjunni, spurði mömmu sína um tilgang krossa og líka hlutverk kirkju. Svo fór hann til pabba, sem gat allt og bað: „Pabbi viltu gera fyrir mig kross eins og á kirkjunni?” Smákarlinn hafði hugmynd um formið, pabbinn lét undan og krossinn var smíðaður. En stubbur var ekki ánægður með smíðisgripinn, hafði ýmislegt við krossinn að athuga og pabbinn tók sig til og bætti um betur. Svo fóru feðgarnir að kirkjunni, krosseigandinn smái brá upp smíðinni og bar saman við fyrirmyndina yfir skrautlegum turninum, með gluggafjöldina, upsir og kúlu. Þá var allt orðið eins og það átti að vera, hlutföllin voru komin í lag og allt var gott! Í þessari krossvinnslu komu ýmsar eigindir og hneigðir Magnúsar Heimis Gíslasonar fram – listfengi, formskynjun, húsaáhugi, leit í trúarvíddir og tákn og teiknigeta. Hann brá upp krossi og varð að bera sína krossa í lífinu. Svo er hann krossaður hér í þessu guðshúsi fyrir ferðina miklu inn í eilífð himinsins. Lífið byrjaði með Bíldudalskrossi og lýkur undir krossi Krists.

Æviágrip

Magnús Heimir Gíslason fæddist á Bíldudal 17. apríl 1941 en lést 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Súrsson Magnússon frá Bíldudal (1912-2001) og Laufey Sæbjörg Guðjónsdóttir fædd á Siglufirði (1917). Bróðir Magnúsar er Guðjón Már. Magnús eignaðist soninn Gísla Þór með þáverandi sambýliskonu sinni, Rósu Sigvaldadóttur. Kona Gísla er Guðrún Dóra Harðardóttir. Börn þeirra eru Urður Helga og Hákon Orri. Árið 1974 kvæntist Magnús Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur. Þau skildu eftir sautján ára samveru. Dóttir Magnúsar og Lilju er Sif Eir. Börn hennar og Snorra Otto Vidal eru Alexander Leonard og Mikael Máni. (Núverandi sambýlismaður Sifjar er Gylfi Már Logason – nb aðskilin síðar).

Nám og störf

Magnús flutti með foreldrum sínum frá Bíldudal til Reykjavíkur árið 1944 og sótti skóla hér í Vesturbænum, Melaskóla og Gaggó Vest. Eftir landspróf fór hann í MR og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Þar útskrifaðist hann sem húsasmíðameistari, 1963, og dúxaði. Magnús átti létt með nám og var öllum samnemendum sínum hærri við útskrift í Iðnskólanum. Hann hafði sett kúrsinn og fór til Kaupmannahafnar og nam byggingafræði og útskrifaðist árið 1967 sem byggingafræðingur og byggingameistari eftir fjögurra vetra nám ytra.

Heimkominn frá námi starfaði Magnús hjá Húsameistara ríkisins og á ýmsum kunnum teiknistofum, teiknaði íbúðarhús, kirkjur og jafnvel innréttingar í Seðlabanka. Síðan kenndi hann fag- og iðnteikningu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í níu ár en síðar tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík. Hann varð svo starfsmaður Olíufélagsins og síðustu árin starfaði Magnús hjá Olíudreifingu.

Teikningin og listfengi

Hvað hugsar meistari þegar hann skapar tilveru, umgjörð fyrir fólk, hús fyrir lífið? Autt blað getur kallað til verka. En það getur líka hrætt þann, sem gengur með ófullburða hugmynd, með hugdettu sem ekki er alveg tilbúin. Penninn getur rissað fram og til baka, en svo gengur verkið ekki. En ef hugmyndin er flott, er tilbúin að fæðast, gengur dæmið upp, allt fellur á sinn stað, myndin eða teikningin sprettur fram með samruna hugmyndar, tilfinningar, handverks, þjálfunar og andagiftar.

Hvað hugsaði Guð þegar tilveran var auð og tóm? Var það hönnunargleði, sem kviknaði, löngun til að móta, útbúa kerfi, skipa málum, hanna heita reiti hér og kalda þar, smella rauða litnum á þessa plánetu hér og bláum þar? Aðgreina ljós og myrkur, dag og nótt, hanna umhverfi, útbúa veruleika fyrir fólk. Síðan hefur ævintýrið haldið áfram í fjölbreytileika lífríkis, í mannkyni, menningu, birst í musterum, sem við getum gengið inn í og dáð og líka í stórvirkjum andans hvort sem er í tónlist, trúarbrögðum og öðrum rismiklum afurðum menningar. Magnús gekk inn í þessa miklu sköpunarverðandi, heillaðist af henni og speglaði í lífi sínu margt af þeim gæðum, sem höfða til tilfinninga, kitla fegurðarskynið og vekja fögnuð. Hann var næmur á sköpunarsnilld.

Myndlistin

Magnús var þegar í bernsku hæglátur, naut sín vel við handverk og iðju og varð snemma afar drátthagur. Skólabækurnar í Melaskóla myndskreytti hann fallega og var ljóst hvert og hvernig krókurinn beygðist. Magnús hafði næmt sjónskyn, greip snögglega hvernig hluturinn var formaður. Það nýttist síðar vel í byggingafræðinni. Í foreldrahúsum var fyrir honum haft og líka innrætt mikilvægi vandvirkni í verkum. Það skal vanda sem lengi skal standa. Hann lærði, að hús skyldu haglega gerð, skip og mannvirki yrði að gera sem best til að þau þjónuðu ekki bara skammtímahlutverkum heldur dygðu lengi og væru til yndis að auki. Með þetta veganesti og góðar námsgáfur gekk Magnúsi námið vel og hann naut sín við teikniborðið. Þar hafði hann næði til að móta, fullvinna rými svo það bæði nýttist vel og væri fallegt. Og hann þurfti tíma fyrir verk sín, til að fullvinna, til að tryggja að húsin yrðu góð.

Teikni- og formskynjunin nýttist líka í tómstundum hans. Magnús hafði menntast í teikningu í bygginganámi sínu en í málverki var hann sjálfmenntaður og varð frábær vatnslitamálari. Þessar tómstundir urðu meira en prívatmál. Lilja aðstoðaði hann og kom á sýningum í Ásmundarsal og líka í Heilsuhælinu í Hveragerði. Magnús hafði um tíma talsverðar tekjur af myndlist sinni, sem fleyttu honum yfir tímabil þegar hann var ekki í fastri vinnu. Og Gallerí List seldi um tíma myndir hans. Magnús málaði landslagsmyndir, en gerði líka myndir af byggingum og tækjum. Tússmyndir hans af kirkjum voru birtar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann málaði vantslitamyndir af öllum skipum Eimskips, sem hengu uppi í aðalstöðvum félagsins. Og B&L keypti líka af honum myndaröð.

Magnús var ekki aðeins áhugamður um sköpunarverkið og húsasmíði manna og þar með nýjustu gerð þakglugga, heldur hafði víðtækan tækniáhuga. Hann hafði áhuga á gerð skipa og hlutföllum þeirra, smíðaði stóran sjómælingabát úr balsaviði og vitaskuld í réttum hlutföllum. Hann tók ástfóstri við katla og gufuvélar og vildi helst gerþekkja hönnun þeirra og notkun.

Músíkin

Listrænan í honum spannaði líka tónlist. Hann hélt upp á sígilda tónlist, var mikill Wagneraðdáandi og kunni vel að meta orgel-Bach og líka léttleikandi Mozart. Svo var hann áhugasamur um rússnesku tónskáldin, Borodin, Mussorsky og Rimskij-Korsakoff. Óperutónlist kunni hann vel að meta, hélt upp á Verdi, kunni Oþelló utan að og sat með nóturnar og fylgdist með. Svo las hann textana upphátt eða þýddi fyrir tilheyrendur og varð vinum sínum og kunningjum bæði tónlistarkennari og hvati til tónlistarupplifunar. Magnús lék á bæði orgel og píanó. Hann gekk ekki í tónlistarskóla, var sjálfmenntaður. Hann m.a.s. las tónfræðibækur sér til skemmtunar og samdi eigin tónverk, sem hann fór þó leynt með.

Maðurinn að baki

Hvernig maður var Magnús? Jú, þegar hefur verið nefnd listfengi. Hann var nákvæmur í verkum, vildi hafa umhverfi sitt í röð og reglu. Hann var bókelskur og hafði sértækan bókasmekk. Hann las líka stærðfræðibækur sér til skemmtunar og lagði sig eftir ritum um andleg fræði og hafði áhuga á trúmálum. Hann var meðlimur í Guðspekifélaginu, kynnti sér trúarbrögð og hafði áhuga á trúarheimspeki. Hann var stiltur, hógvær og hafði ríka næðisþörf. Smátt og smátt hjúpaði hann sig og hleypti ekki fólki að sér. Hvað hugsaði hann og hvað var hann? Við sjáum eigindirnar, en þekkjum ekki allt liftróf tilfinninga hans. En við getum verið viss um að maður með hans sálargerð þráir meira, leitar lengra, vill stærra en fengið er. Farðu yfir hugðarefnin og rifjaðu upp í huga þér hvað hann var. Var ekki alltaf ófullnægð þrá, einhver opnun, einhver glufa sem vísaði áfram til þess sem var stærra, meira, dýpra, sterkara en hann náði að tjá eða vera í lífinu? Við getum ekki lengur spurt hann eða grennslast eftir. Við getum aðeins ráðið í rúnir lífs hans og íhugað. Kannski getur vitaáhugi hans lokið upp leyndarmálum og lýst fram á veginn.

Viti og kross

Magnús hafði gaman af ferðalögum um landið og ekki síst að vitja þessara ljósvirkja á ströndum. Hann tók myndir af vitunum og dáðist að þeim. Vitabyggingarnar eru skýrar að forminu til, eiga sér líka samhengi í línum lands en eru tákn um hættur, áminning um sker og boða í sjó. Vitar hafa áhrif á hvernig umhverfi þeirra er upplifað og hafa verið mikilvægir við að vernda líf, að sæfarendur hafa komist heilir heim. Með sinni hljóðlátu og mikilvægu ljósgjöf hafa þeir vísað veg, varnað slysum og bent til vegar, gefið áttaviltum og áttlausum vitneskju, sem dugði til lífsbjargar. Þar er áleitið táknmál fyrir lífið. Vitar eru flottir, þeir eru til varnar lífi og benda til vegar. Þannig eru kirkjur, þannig er trúin, þannig er allt lífið þegar grannt er skoðað. En viljum við sjá form, liti og burðarkerfi lífsins? Magnús hafði séð þetta allt, gert sér grein fyrir takmörkunum mannsins, brestum og að allt er forgengilegt. En tónlistin, frumformin, litundrin í náttúrunni og þráin í sálardjúpum er hvísl um lífið, sem er handan þessa.

Litli drengurinn vestur á Bíldudal vildi ekki fyrsta krossinn og pabbi gerði nýjan. Sá var betri hinum fyrri og nógu góður. Lífið er til að læra af því, Magnús fékk sínar lexíur, bar sinn kross. En svo er til nýr og betri kross, sem er tákn um nýjan himin, nýtt hús í heimi eilífðarinnar. Sá kross er kenndur við Krist og er kross hinn meiri sem hæfir mönnum og líka Magnúsi. Þar er sköpunin alger, þar er allt gott því húsameistari þess ríkis getur og kann allt, þar eru allar teikningar frábærar og umbreyast í draumahús og hallir fyrir lífið.

Guð varpi yfir Magnús Heimi Gíslason ljóskrossi elskunnar og geymi hann alla eilífð.

Minningarorð flutt við útför í Neskirkju 15. mars 2006.

Æviágrip

Magnús Heimir Gíslason fæddist á Bíldudal 17. apríl 1941. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu Granaskjóli 80 í Reykjavík föstudaginn 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Súrsson Magnússon, f. 10. desember 1912 á Bíldudal, d. 25. mars 2001 og Laufey Sæbjörg Guðjónsdóttir, f. 3. september 1917 á Siglufirði. Bróðir Magnúsar er Guðjón Már Gíslason, f. 8. nóvember 1950. Sambýliskona Magnúsar var Rósa Sigvaldadóttir, f. 11. janúar 1947 í Hofsárkoti í Svarfaðardal. Þau slitu samvistum. Foreldrar hennar voru hjónin Sigvaldi Gunnlaugsson, f. 8. nóvember 1909, d. 6. júlí 1996 og Margrét Kristín Jóhannesdóttir, f. 30. október 1913, d. 21. september 1998. Sonur Magnúsar og Rósu er Gísli Þór Magnússon, f. 11. október 1969. Sambýliskona hans er Guðrún Dóra Harðardóttir f. 8. apríl 1970. Börn þeirra eru Urður Helga, f. 15. júní 1999 og Hákon Orri, f. 27. febrúar 2003. Hinn 9. ágúst 1974 kvæntist Magnús Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur, f. 24. mars 1945 í Halakoti á Vatnsleysuströnd. Þau skildu. Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Ágústsson, f. 7. mars 1910, d. 28. ágúst 1992 og Eyþóra Þórðardóttir, f. 5. apríl 1922, d. 25. febrúar 1987. Dóttir Magnúsar og Lilju er Sif Eir Magnúsdóttir, f. 5. nóvember 1971, var gift Snorra Otto Vidal, f. 3. júní 1973, þau skildu. Börn þeirra eru Alexander Leonard, f. 10. október 1997 og Mikael Máni, f. 26. júní 2000. Sambýlismaður Sifjar er Gylfi Már Logason, f. 11. maí 1972. Magnús flutti með foreldrum sínum frá Bíldudal til Reykjavíkur 1944. Eftir landspróf hóf hann nám við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem húsasmíðameistari árið 1963. Hann nam byggingafræði í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan sem byggingafræðingur og byggingameistari árið 1967. Að námi loknu starfaði Magnús hjá Húsameistara ríkisins, teiknistofum, kenndi fag- og iðnteikningu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík. Síðustu árin starfaði Magnús hjá Olíudreifingu ehf.