Greinasafn fyrir merki: Machiavelli

Rándýrin í heimi manna

Við Ísak, sonur minn, fórum í bókabúð í Manchester. Ég keypti bækur um stjórnmálaþróun nútíma og arabíska og gyðinglega matargerð. Annars vegar bækur um kryddsögu og kryddblöndur Mið-austurlanda og hins vegar eitraða kokteila nútíma stjórnunarslægðar. Ég gleymdi alveg að horfa á niðurhal af Netflix í fluginu heim því svo heillaðist ég af ruddabók Giuliano da Empoli The Hour of the Predator. Höfundurinn er ítalskur, var ráðgjafi ítalskra stjórnvalda og fór á milli höfuðborga heimsins og kynntist stjórum, aðferðum og kerfum. Í bókinni skýrir hann hvernig einræðisherrar, tæknirisar og ný tegund slægðarpólitíkur mynda mannætukerfi í heimi stjórnmálanna. Bókin er pólitísk greining en líka viðvörun.  

Ein af litríkum sögum sem Empoli segir er um slægð Mohammed bin Salman. MBS læsti þrjú hundruð voldugustu menn Sádi-Arabíu inni á Ritz-Carlton hótelinu í Riyad í nóvember árið 2017. Aðferðin var opinberlega kynnt sem hreinsunaraðgerð. En sögufróðir vita að slíkir gjörningar varðar síður siðferði en tilfærslu valda. Empoli minnir á slíkar voru aðferðir Borgiaættarinnar, að safna óvinunum saman, svipta þá vernd, einangra frá stuðningsnetum sínum og láta þá síðan velja á milli tveggja afarkosta undirgefni eða dauða.

Borgia notaði hallir en MBS notaði lúxushótel. Borgia notaði sverð en MBS notaði banka, skuldabréf og ríkissjóð. Borgia gerði óvini sína eignalausa en MBS gerði það með svokölluðum samningum. Í stað aftöku bauð MBS samninga sem ekki var hægt að hafna. Kostirnir voru að framselja auð og völd eða rotna á lúxushótelinu. Ofbeldið var orðið tæknilegt og bókhaldslegt. Þau sem ekki stjórna lengur eigin fjármunum hafa tapað stöðu og völdum. Tími rándýranna var var runninn upp í mannheimum.

Cesare Borgia vissi líkt og Machiavelli að dreifing valds væri verri en alræðisvald. Hinn brosandi MBS skildi þetta líka og með einni slægðaraðgerð eyddi hann öllum mögulegum keppinautum, náði valdi á gífurlegu fjármagni og kom á jafnvægi innan hirðarinnar. MBS stjórnaði ríkinu, peningunum og hélt í alla stjórnartauma. Borgia notaði aftökur til að skapa ótta en MBS lokaði bankareikningum. Á fyrri öldum sást í hnífa og axir en nú er ógnin fremur tæknileg. Dómum er fullnægt í gagnagrunnum, eignaskrám og rafrænum frystingum fjármuna. Aðferð MBS er aðferð Borgia en í stafrænum heimi. Blóð flýtur ekki um götur og torg heldur er fjármagn fært til. Valdhafinn fær ofurvald og regla rándýranna er einföld: Þú færð að lifa svo fremi sem þú hlýðir. Það er hægt að aflífa menn rafrænt. Ekki undarlegt að slefan slitnar ekki á milli MBS og DT. En auðvitað flýtur blóð líka í alræðiskerfi rándýranna. Khashoggi var aflífaður og skorinn í parta í sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl ári eftir innlokunina í hótelinu í Riyad.

Empoli sýnir að vald í samtímanum er ekki lengur bundið við hefðbundin ríki, stofnanir eða lýðræðislegt umboð, heldur með samþættingu tækni, fjármagns, gagna og persónudýrkunar leiðtoga. Með því að tilfæra dæmi frá Rússlandi, Kína, Bandaríkjunum, Ítalíu og Mið-austurlöndum sýnir hann að þróunin er ekki staðbundin heldur fjölþjóðleg. Empoli segir litríkar sögur af valdaklíkum, ráðgjöfum, spunadoktorum og bakherbergjastjórnmálum. Hann lýsir hvernig valdi er beitt þvert á hugmyndir um lýðræðislega ferla. Og að trúarstökks sé krafist (og nefnir Kierkegård).

Bókin er læsileg og ætluð breiðum lesendahópi. Hún er stutt og beinskeytt. Empoli hvernig samfélagsmiðlar og einföld skilaboð eru farvegir fyrir stjórnarhætti rándýranna. Hann telur að lýðræðisríki séu varnaskert gegn nýju valdakerfi rándýranna. Hann greinir vandann af innsæi og íþrótt en veitir engar lausnir. Empoli lýsir einsleitni, að einræðisherrar, tæknirisar og popúlistar fylgi sömu lögmálum. Vegna áherslunnar á ruddavæðingu stjórnmálanna gerir hann lítið úr ólíkum stjórnarháttum, menningarlegum aðstæðum og pólitískum hefðum. Í bókinni er fólki lýst sem auðstýranlegum múg. En ég held að Empoli vanmeti mótstöðu, gagnrýna hugsun og siðferðilegt sjálfræði almennings. The Hour of the Predator er spark í rassinn en beinir ekki til vegar. Fljótlesin, heillandi og vekjandi bók en ráðalaus gagnvart rándýrum, ruddunum.

Við Ísak erum hugsi, ræðum stefnu og strauma meðan arabíska kryddið og kosher-listarnir eru skoðaðir og steik morgundagsins maríneruð. Blöndur okkar verða til að auka unað og halda ótta burtu. Og pabbinn miðlar til sonar síns að ef við lærum ekki af sögunni séum við dæmd til að endurtaka vitleysur hennar. Í dag les ég svo að beiðni Ísaks Vesalinga Viktors Hugo. Þar er flott persónugallerí og aðdáanlega skýr persónusköpun. Hugo þekkti jú rudda og siðblinda og sagði sögu um alvöru viðbrögð við þeim og slæmri pólitík. Vesalingarnir er m.a. rit um hvernig hægt er að bregðast við rándýrum í mannheimum.  Góðir saman Empoli og Hugo. 

  1. desember 2025.

Erasmus – upphefð og andstreymi

Vinur minn mælti með Erasmusi og ég varð hissa. „Meinarðu þennan sem kenndur var við Rotterdam?“ spurði ég. Og svarið var „já – í útgáfu Stefan Zweig.“ Ég vissi ekki af þýðingu þeirrar bókar en ábendingin fór á bak við betra eyrað. Svo brosti Zweig-Erasmus feimnislega við mér á bókmarmarkaðnum í Laugardalshöll. Og ég keypti kverið og fór að lesa um heimsmanninn, lærdómsjöfurinn, gunguna og friðflytjandann Erasmus. Hann átti vini í viskusetrum Evrópu og gat – þrátt fyrir munkaheftingarnar – flakkað á milli góðbúa spekinnar og valdasetra álfunnar, látið ljós sitt skína, heillað fróðleiksþyrsta og lagt gott til skilnings og tengsla. Svo opnaði hann mörg hlið fyrir Martein Lúther og aðra jöfra siðbótarinnar á sextándu öld og breytti þar með heiminum.

Stefan Zweig skrifar fjörlegan, litríkan en einnig upptjakkaðan texta um persónuvíddir Erasmusar og líka gunguskap hans. Hann lýsir heilsufari meistarans, viðkvæmni, kvíða og hugleysi, fræðasókn hans, vinnusemi og löngun hans til að láta gott af sér leiða. Svo fáum við innsýn í lagskiptingar miðaldasamfélagsins, áhrifavalda, menningarstjóra og hvernig búblur Evrópu þess tíma voru. Zweig teiknar vel persónugerð Erasmusar og hvernig hann myndar andstæðu við persónu Marteins Lúthers sem heillaðist af ýmsu því sem Erasmus hafði skrifað og kynnt. Mér þóttu lýsingar Zweig á Erasmusi skemmtilegri, trúverðugri og merkilegri en það sem hann skrifaði um Lúther. Lúthersprófíllinn er eiginlega aðlagaður þörfum Erasmusarlýsingarinnar. Erasmusi er lýst fyrst og Lúther síðan sem andstæðu til að styrkja eða dýpka lýsingu á Erasmusi. Bókin er ekki sagnfræðirit heldur ætlað að vera fjörleg og litrík túlkun. Hún er bókmenntaverk og jafnvel áróðursrit. Það er styrkur verksins að lýsa tveimur mikilvægum áhrifavöldum í Evrópu á fyrri hluta sextándu aldar til að skýra gerjun og þróun evrópskra stjórnmála, átaka og þar með menningarsögu næstu alda.

Stefan Zweig var af gyðingaættum, vinur margra gáfu- og menningarljósa Evrópu á fyrri hluta 20. aldar og meðal þeirra var Sigmund Freud. Uppgangur nasismans eftir fyrri heimsstyrjöld magnaði bál gyðingahaturs í Evrópu. Stefan Zweig varð ekki vært í álfunni, fannst hann missa heimili sitt og var eiginlega flæmdur að heiman eins og fjöldi annarra. Hann varð landflótta og lífsflótta og framdi að lokum sjálfmorð árið 1942. Hvernig líður manni sem er sviptur æru, manngildi og heimili? Í harðnandi menningardeiglu Evrópu var eiginlega óhjákvæmilegt að hann íhugaði ofbeldissókn manna og átök, hatur, andúð, frið, menntun, menningu og ólíka gerð mannfólksins. Í Erasmusi sá Zweig húmanista, boðbera friðar, mann lausna og sátta og fyrirmynd um margt það besta sem heimur og mannkyn þarfnast. Erasmus var merkileg og þörf fyrirmynd fyrir sextándu öldina en jafnvel líka þá tuttugustu og samtíma okkar. Með vísan í þróun stjórnmála samtíðar sinnar furðaði Zweig sig yfir hrottalegum kenningum Machiavelli í stjórnhörkuritinu Prinsinum. Af hverju svona hryllingsboðskapur og köld stjórnargrimd en ekki mildi og friðarsókn Erasmusar? Morðæði Pútíns gagnvart rússneskum og úkraínsku borgurum, Hamasæðið og Netanyahu-hryllingurinn þessara daga kallar fram stóru spurningarnar um menntun, menningu, frið og réttlæti. Það eru spurningarnar sem lágu svo þungt á Stefan Zweig og kölluðu fram bókina um Erasmus. Því er hún ekki aðeins um sögupersónur heldur almennt um lífsbaráttu fólks, eigindir, viðbrögð og gildi. Stórmerkilegt rit, ekki gallalaust og vissulega skrumskæling á ýmsu í persónum og söguhetjum ritsins en ávirkt og lyftir upp miklu fleiru en málum siðbótartímans og 16. aldar. Erasmusbókin er um okkur líka, fólk á 21. öld sem glímir við rosalega mengun, vond stjórnmál, þegjandahátt menntafólks og getuleysi leiðtoga þjóða. 

Lof sé Sigurjóni Björnssyni sem þýðir Erasmus – upphefð og andstreymi svo vel og Skruddu fyrir útgáfuna. Takk Ómar fyrir að mæla með bókinni. Hún situr í mér. Erindið er blóðríkt og klassískt.

Meðfylgjandi kennimynd er málverk Holbein af Erasmus frá Rotterdam. Myndin er einnig notuð á framhlið íslensku útgáfunnar.

31. mars, 2024.