Greinasafn fyrir merki: lífsóp

Neyðaróp sem frumóp

Hvað gerir fólkið í Mariupol í stríðshrjáðri Úkraínu þessa dagana þegar skothríðin er nánast samfelld? Hvað gerði Mariana Vishemirsky, slösuð, barnshafandi konan á fæðingardeild, þegar barnasjúkrahúsið var rústað og hún var komin að fæðingu? Hvað gera tugir milljóna Úkraínumanna sem búa við sprengjuregn? Hvað gera milljónir fólks á flótta? Fólkið hrópar á hjálp. Óp þeirra eru ekki bara til hjálparaðila, hjálparstofnana eða vinveittra ríkja. Vissulega hljóma þannig neyðaróp. En skerandi hjálparveinin eru meira en pöntun á plástrum og byssum. Köll fólks í algerum vanda eru frumóp. Jafnvel trúlausir æpa upp í himininn. Úkraínsk kona sagði fyrir nokkrum dögum að þetta væru trúarleg sálaróp. „Ég er trúlaus,“ sagði hún. „Ég trúi ekki á Guð. En núna er ég farin að biðja, eiginlega æpa til Guðs um að hjálpa okkur.“ Hið úkraínska frumóp er: Hjálp Guð. Hjálpaðu okkur með börnin, aldraða foreldra, með mat, eldivið og vatn. Okkur er kalt, við erum hrædd og svöng. Við erum reið og máttvana. Hjálp. Hvar ertu Guð? Vestrænu makræði hefur verið ógnað þessa daga Úkraínustríðs. Við erum vissulega ekki í ísköldum kjallara í Mariupol án vatns, hita, salernis og matar. Við getum ekki kafað í djúp tilfinninga fólks í þessum hræðilegu aðstæðum stríðs, en getum þó skilið að afkróað fólk kallar upp í himininn: „Guð minn góður bjargaðu fólkinu mínu.“ Þegar allt hrynur og lífi er ógnað æpir fólk. Það er viðbragð lífsins. Hjálpaðu er sama bænin og „Drottinn, miskunna þú mér.“ Frumóp lífsins.

Miskunna þú oss

Í guðspjalli dagsins segir frá Jesú á ferð utan Gyðingalands og eiginlega við endimörk heimsins. Hann heyrði að hrópað var til hans: „Hjálp Jesús.“ Kallarinn var kanversk kona, sem sé útlendingur. Hún var stefnuföst og vildi úrlausn mála. Erindið var brýnt. Dóttir konunnar var hættulega veik. Þessi móðir hefur vafalaust verið búin að reyna alla lækna og kraftaverkameðul. Þegar börn heimsins eru í lífshættu reyna foreldrar allt til að bjarga þeim. Ekkert hafði dugað og nú var Jesús einn eftir. Hún setti allt sitt traust á hann. Þar sem konan var útlensk vildu Gyðingar sem minst hafa með hana að gera og var illa séð, að Jesús væri að skipta sér af henni. Jesús minnti konuna á að hlutverk hans væri að þjóna Gyðingum. Konan var hins vegar ákveðin og sprengdi öll viðmið  og hlutverk. Hún bað um hjálp, að Jesús miskunnaði henni. Jesús herti vörn sína og sagði að það sem hann hefði fram að færa ætti að gefa börnum en ekki kasta fyrir hunda. En konan var glögg og hnyttið skopskynið var í góðu lagi. Hún þekkti atferli hunda og minnti á, að þeir næðu í molana sem féllu af borðum húsbændanna og ætu þá. Í konunni spratt fram frumóp lífsins. Hún var einbeitt og lausnamiðuð. Þá gaf Jesús eftir. Þegar eftir er leitað og æpt er upp í himininn er alltaf opnað. Guð heyrir. En heyrum við frumópin? Skiljum við þau?

Í upphafi þessarar athafnar og í upphafi allra messugerða segjum við eða syngjum: „Drottinn, miskunna þú oss. Kristur, miskunna þú oss. Drottinn, miskunna þú oss.“ Er þessi söngur bara eitthvað sem við raulum, setningar sem við meinum ekkert með, aðeins orðaleppar? Er þetta merkingarlaus og blóðlaus þula án svita og tára? Ef svo er þurfum við að endurskoða fordóma okkar. Messan er alvöru en ekki glans. Kirkjuorðin tengjast lífi fólks, vonum og þrá, áföllum og stríðum. Allt, sem er sagt og tjáð í messunni, varðar lífsviðburði, tengist atburðum í lífi fólks og því sem við erum og reynum. Orðin eru ekki himneska, utan við heiminn í dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar allt líf fólks, líka barnshafandi konur austur í Mariupol – já allt í margbreytileika sögu og samtíðar. „Drottinn, miskunna þú okkur.“ Orðin á grísku eru Kyrie eleison. Þau birtast eða hljóma okkur í tónverkatextunum, kirkjuversunum, bókmenntum og menningarefni kristninnar. Í þessari setningu er orðuð þrá lífs í landi dauðans. Miskunn er orð um hjálp, sem fólki veitist til að það geti lifað af og náð friði og heilsu. Miskunn er ekki eitthvað á himni, heldur á jörðu og varðar mat, hjálp í hamförum, þegar börnin deyja, maki ferst eða brjálaðir einvaldar æða. Að njóta miskunnar er að vera bjargað. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk nái heilsu, fái svalað svengd maga og sálar. Kanverska konan var ekki ein um þessa bæn. Hún er beðin í messum þessa dags, bæði í íslenskum kirkjum og í messum í Úkraínu, líka í Rússlandi og öðrum kirkjum heimsins. Allir kórar, sem syngja kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison. Þau orð tjá kjarnabæn kristninnar ásamt með Faðirvorinu. Þetta er ópið: Guð hjálpaðu! Það er frumtjáning sálarinnar. Kyrie eleison. Orðið Kyrie – það er orðið á bak við orðið “kirkja.” Orðið eleison vísar í heim olíunnar sem er notuð til að hreinsa sár, elda mat og njóta til heilsu. Orðið á við ólífuolíu. Það er ljómandi tenging fyrir okkur – heimili og kirkja tengjast. Lífsháski og lífslausn líka, líf mitt og þitt saman í einni samtengingu. Þegar þú eldar með ólífuolíunni má frumbænin stíga upp yfir pönnunni: „Guð hjálpaðu.“

Hvernig tengir þú?

Fjöldi Úkraínumanna var í Hallgrímskirkju fyrr í þessari viku til að taka þátt í friðargjörningi. Höfuðbúnaður þeirra var fallegur og þjóðbúningarnir líka. Frá þeim barst neyðaróp. Á eftir syngjum við syngjum í bænagerðinni Kyrie eleison með lagi frá Kiev. Um allan heim er sungið:Drottinn, miskunna þú okkur.“ Við höldum áfram að biðja með kanversku konunni, mæðrum, feðrum, fólki í Úkraínu og Rússlandi og fæðandi konum á fæðingardeildum sem skotið er á og fólki á flótta. Endir sögunnar í guðspjallinu, hver var hann? „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Jesús hlustaði, heyrði og svaraði. Hin blóðuga, særða og þungaða kona, Mariana í Mariupol, lifði af árás á fæðingardeildina. Myndirnar af henni þegar hún staulaðist milli hæða í húsarústunum fóru um allan hinn rafræna heim. En Mariana fæddi lifandi barn, þrátt fyrir að fæðingardeildin hefði verið eyðilögð. Það var dóttir sem lifði. Í gær var tilkynnt að hún hafi verið nefnd Veronika. Hvað þýðir það nafn: Boðberi sigurs. Stórkostlegt. Lífið heldur áfram. Framtíðin er opin af því Guð heyrir lífsóp, frumóp fólks. „ … mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“

Lexía: 1Mós 32.24-30, pistill: Jak 5.13-16, guðspjall: Matt 15.21-28

Prédikun í Hallgrímskirkju 13. mars, 2. sunnudag í föstu, 2022. Myndin er af bænatré Hallgrímskirkju. Mismunandi litir tákna mismunandi bænir og fánlitir Úkraínu eru áberandi en líka rauður litur umhyggju og kærleika. Tíminn er tími opnunar og frumópa! Myndina tók ég 11. mars. 

Rússnesk óróðursyfirvöld héldu fram að Maríana í Mariupol hefði tekið þátt í leikriti sem hefði verið fals og uppspuni. Um spunann allan fjallar BBC í grein að baki þessari smellu.