Greinasafn fyrir merki: lestur

Að læra að lesa – aftur

Í erli daganna, mikilli vinnu og hasar kunni ég ekki lengur að lesa. Stafirnir hurfu mér ekki og heilastöðvar mínar voru ekki hættar að virka, heldur að ég hafði ekki í nokkur ár haft stundir, næði, aðstöðu, tíma til að lesa reglulega, mikið, langdvölum, samfellt og ríkulega. En mér hefur alltaf þótt gaman að lesa, liðið vel þegar ég hef lesið mikið og þurft að lesa mikið. En þegar álag, áreiti og verkefni eru svo ágeng, að maður ræður ekki sjálfur ati daganna þá hætti ég að kunna að lesa. Og svo allt í einu fékk ég næði í námsleyfi. Ég sat við frá morgni og fram eftir degi við það eitt að lesa. Ég lærði á nýtt bókasafn, rölti um risastórar bókahvelfingar, lyktaði af bókum og fann til gamalkunnugrar tilfinningar í lífhvelfingum bókanna. Ég veiddi bækur úr stórum rekkum, bara þær bækur sem ég var búinn að ætla að skoða. Kíkti í þær til að meta hvort þær væru áhugaverðar, skráði þær bestu út, bar heim, settist síðan niður og las og las áfram. Og ég fann til djúprar gleði yfir að mega lesa, geta enn greint hugmyndir, finna til viðjóðs eða djúprar hrifningar, að puða í gegnum flóknar rökfærslur og komast svo að því að það sem ég áleit vera öfluga hugsun var kannski ekkert nema hjómið eða það sem ég hélt að væri hálmstrá væri bara snotur kenning, jafnvel fögur og eflandi. Svo þorði ég að halda á djúpið og hætti mér út á ókunnugt svæði, fann fyrir svima og furðu yfir að það skyldi þá vera svona en ekki hinsegin. Að lesa opnar heima, lönd, tíma og möguleika. Að lesa varð mér eins og draga djúpt andann eftir andnauð.