Greinasafn fyrir merki: Kvenfélag Hallgrímskirkju

Konurnar sem bökuðu Hallgrímskirkju

Kvenfélag Hallgrímskirkju á afmæli og er 82 ára í dag. Félagið var stofnað 8. mars 1942 í þétt setnum bíósal Austurbæjarskóla. Fyrsta samvera félagsins hófst með guðsþjónustu. Sigurgeir Sigurðsson þáverandi biskup flutti ávarp á stofnfundinum. Fyrsti formaður Kvenfélags Hallgrímskirkju var Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti en núverandi formaður félagsins er Guðrún Gunnarsdóttir.

Kvenfélag Hallgrímskirkju hefur verið stórveldi í lífi og sögu Hallgrímskirkju. Félagið efnir til funda og samvera í kirkjunni og styður safnaðarstarfið með margvíslegum hætti. Kvenfélagskonur lögðu svo mikið fé til byggingar kirkjunnar að sagt hefur verið að þær hafi bakað kirkjuna upp. Félagið hefur keypt messuskrúða og einnig skírnarfont kirkjunnar og gefið kirkjunni margar aðrar gjafir.  

Til hamingju með afmælið kvenfélagskonur og sóknarfólk Hallgrímskirkju.