Greinasafn fyrir merki: Kristján Tryggvi Sigurðsson

Brautarhólsfjölskyldan 1970

Þessi fjölskyldumynd frá Brautarhóli er líklega frá 1970. Gunnar Þór f. 1968 er í fangi himinsæls föður síns. Kristján Tryggvi f. 1962 hlær og tilefnið var barátta mín við að hemja hundinn í fangi mér til hægri á myndinni. Stefanía er einbeitt. Frændi, Sigurður M. Kristjánsson, sagði gjarnan að ég væri elsta barn þeirra Stefaníu og þau báru ábyrgð á sveitaveru minni fjórðung úr ári. Ég fór norður í Brautarhól í sauðburðinn strax í maí og fór ekki suður fyrr en í lok september í 16 eða 17 sumur. Stundum var ég kominn norður áður en þau Sigurður og Stefanía voru komin frá Laugum, þar sem frændi var stjóri í héraðsskólanum. Á þessum árum frá 1968-73 var ég ekki bara kaupamaður heldur ráðsmaður og þau frændi og Stefanía treystu mér fyrir búrekstri og fóru með börn sín á margra daga skólastjórafundi. Ég sá um mjaltir og annað sem þurfti að gera. Þá lærði ég að axla ábyrgð. Margt gat komið fyrir og einu sinni bar kýr og legið fylgdi með kálfinum. Hvað gerir aleinn unglingur í slíkum aðstæðum? Enginn dýralæknir var í dalnum þá en ég hringdi í Halldór á Jarðbrú sem kom strax. Við þvoðum legið úthvert sem best við gátum, tróðum því svo inn aftur og saumuðum fyrir. Síðan sprautuðum við pensillini í skepnuna. Henni varð ekki meint af og lifði og átti síðar marga kálfa þmt tvíbura og án úthverfs legs. En mér þótti betra þegar allir voru heima því þá stóðum við saman í stórræðum og glöddumst í tómstundum. Ég varð nyrðra ekki aðeins tvítyngdur, þ.e. mælandi á norðlensku og reykvísku, heldur líka sveitakall, náði tengslum við moldina, lífssamhengi og tímaþykkni íslenskrar bændamenningar. Ég varð líka ábyrgur og óháður móður og föður sem tryggði frelsi til ákvarðana, hugsunar og stefnu. Það lagði grunn að sjálfstæði mínu. Takk fyrir frænda og Stefaníu, Brautarhól, sveit og Svarfaðardal. Hamingjuár. Takk fyrir dásemdartíma bernsku og mótunarára.